Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Svíar bestir í Covid, Íslendingar í 5. sæti

Smellið á myndina. Þá verður hún skýrari. 

331967702_595537042443993_1985611522451557058_n


Sorg barna - ábirgð heilsugæslu og dánarvottorð

Nýjar lagagreinar tóku gildi nýlega þar sem réttindi barna sem missa foreldri og ábirgð samfélagsins gagnvart þessum börnum, eru betur skilgreind. Í nýju lagagreinunum er heilsugæslan skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna sem missa foreldri. Læknir sem skrifar dánarvottorð einstaklings, sem er foreldri barns undir 18. ára, er samkvæmt lögunum skyldugur til að tilkynna þeirri heilsugæslu þar sem barnið er skráð, að foreldri barns á þjónustusvæði hennar hafi nýlega látist. Heilsugæslustöðin er þar með skyldug til að athuga hagi barnsins og veita þann stuðning sem þörf er á. 

Því miður eru þessi lög ekki að virka. Það sem vantar er að læknir sem skrifar út dánarvottorð hafi aðgang að upplýsingum um börn viðkomandi og hvar þau eru skráð. Þetta er mikilvægur þröskuldur sem þarf að komast yfir til þess að lögin nái markmiðum sínum. 


Þegar foreldri deyr

 

Þegar foreldri deyr þurfa börn langvarandi stuðning.
 
Miðlægt ráðgjafar og stuðningsteymi er til staðar innan vébanda Krabbameinsfélagsins þar sem starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar. Ráðgjöfin fer aðallega fram í gegnum síma 8004040 og fjarviðtöl.
 
mynd-bergrun-iris
 
Með faglegu stuðningsneti barna er átt við kennara, skólahjúkrunarfræðinga, æskulýðsfulltrúa, presta, félagsráðgjafa, sálfræðinga og aðra fagaðila sem mæta börnunum og aðstandendum þeirra í samfélagslegu samhengi. Leiðbeiningar varðandi stuðning við börn í sorg eru á vefsíðunni https://www.krabb.is/born   
 
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir asgeir@krabb.is

Ísland í Evrópu

Ég trúi því statt og stöðugt að besta leiðin fyrir Ísland sem sjálfstætt menningarsamfélag sé að vera mitt á milli Evrópu og norður Ameríku. Að ganga í ESB/EU eða NAFTA er ávísun á útþurrkun Íslands sem sjálfstæðrar menningareiningar. Þetta er bara mín persónulega trú.

Ég er þeirrar skoðunar að okkur sé best borgið milli þessara risa. Tvíhliða samningar við EU/ESB, NAFTA, Kína etc... Við höfum alla burði til þess.


Ómar Ragnarsson

Einu sinni var sagt um Ómar Ragnarsson að hann væri margfaldur dollaramiljarðamæringur ef hann hefði haldið út sem landsfrægur snillingur í stærra samfélagi, jafn lengi og hann hefur gert hér heima.

Það held ég sé alveg rétt. 

Þrjú hjól undir bílnum.

Þó þau hafi reyndar alltaf verið fjögur.

Sæl að sinni. 


Furðuleg hegðun Icelandair

Ég er enn í alvarlegri fýlu útí Icelandair.

Ég lenti nefnilega í því fyrir nokkrum árum að félagið gerði upptæka miða sem ég var búinn að kaupa, seldi þá líklega öðrum (?) og þvingaði mig svo til að borga auka miða til Stokkhólms. Þetta er alveg satt!

Forsaga málsins er sú að ég þurfti að fara heim til Íslands til að vinna í viku og ætlaði svo að vera í Stokkhólmi aðra viku og svo aftur á Íslandi eina viku eftir það.

Ég var því búinn að kaupa 2 miða báðar leiðir :

Miði 1: Stokkhólmur -Ísland - Stokkhólmur

&

Miði 2: Stokkhólmur - Ísland - Stokkhólmur

Nú vildi svo til að vegna anna heima á Íslandi þá komst ég ekki út til Stokkhólms í lok fyrri ferðarinnar. Ég hugsaði ekkert meira um það og leit svo á að þetta væri tapaður miði. Enda bara sjálfsagt að svo væri. Ég átti alltaf miða nr. 2 og vissi því (að ég hélt) að ég kæmist aftur til Stokkhólms að tveim vikum liðnum. Ég var jú búinn að borga miðann.

Það kom því verulega flatt uppá mig þegar ég kom útá völl og fékk að vita að ég ætti ekkert sæti bókað og miði 2 væri ónýtur vegna þess að ég hefði ekki nýtt mér ferðina frá Stokkhólmi til Íslands.

Hvernig átti ég að geta það? Ég var jú á Íslandi!

Jæja, eina leiðin til að komast aftur til Svíþjóðar var að kaupa einfaldan miða (miða 3) á rúmar 40.000 kr.

Ég var þá búinn að borga ca. 100.000 samanlagt fyrir eina ferð fram og til baka milli Stokkhólms og Íslands á almennu farrými.

Mér er algerlega ómögulegt að skilja viðskiptasiðferðið í þessu dæmi. Ég var búinn að borga fyrir sætin í miða 2 og það var engin skaði fyrir Icelandair þó ég hafi ekki notað nema annað sætið þ.e. sætið frá Íslandi til Stokkhólms. Enda gat ég eins og áður segir ekki notað hitt sætið þar sem ég var á Íslandi allan tímann.

Sem sagt óleysanlegt og óskiljanlegt.

Icelandair endurgreiddi mér skattinn af miða 3 eftir nokkuð þóf og segist hvorki vilja eða geta gert betur. Það eru mörg ár síðan og málið sjálfsagt löngu fyrnt, en ég er ennþá draugfúll.


Íslenskir ekklar

Fyrir nokkrum árum hafði Dr. Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur og fjölskylduráðgjafi, persónulegt samband við alla ekkla á Íslandi á ákveðnum tímapunkti. Rúmlega 350 menn sem fæddir voru á árunum 1924-1969. Það var mikið afrek. Eiginlega einstakt.

 Bragi

Það kom margt athyglisvert út úr þessum viðtölum. Yfirgnæfandi meirihluti ekkla bjuggu einir og í flestum tilvikum höfðu þeir ekki gert neinar breytingar á heimilinu. Það var eins og konan væri ennþá nálæg.

 

Bragi vann síðar Masters-og Doktorsritgerð sem byggði að hluta til á þessu athyglisverða efni.


Efnahagssögusafn

Við Íslendingar mættum vel fara að dæmi Svía og byggja safn yfir mistök okkar t.d. efnahagssögusafn.

Gott dæmi um þá eiginleika Svía að læra af mistökum sínum er safnið sem þeir byggðu yfir Vasaskipið, einn af stærstu bömmerum sænskrar verkfræðisögu. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að sænskir eru afar stoltir af sinni verkfræðisögu enda miklir frömuðir á því sviði.

VASAÞegar skipið var í byggingu fékk sænski kóngurinn njósnir af því að óvinirnir væru að byggja sitt flaggskip og að það væri aðeins stærra en hans flaggsskip Vasa. Það þótti kóngi slæm tíðindi og skipaði sínum smiðum að stækka skipið.

En eina leiðin til þess var að hækka það.

Það kemur fram í gögnum að skipasmiðirnir sáu það í hendi sér að hlutföllin í skipinu myndu riðlast og að það gæti aldrei haldist á réttum kili. En enginn þorði að fara gegn kóngi svo skipið var hækkað um nokkra metra.

Þetta glæsilega skip ranna svo af stokkunum með fullri áhöfn en valt á hliðina og sökk með manni og mús einhverjum hundruð metrum frá landi í augsýn allra Stokkhólmsbúa. Svo lá það á sjávarbotni þar til tæknin leyfði að því yrði bjargað í land.

Skipið var endurbyggt að miklu leiti og yfir það reyst mikil bygging. Safnið er eitt af glæsilegri söfnum norðurlanda sem engin sem kemur til Stokkhólms ætti að láta fram hjá sér fara. 


Glíðandi kynjaskali

Það er fyrir löngu vitað að kyn og kynameðvitund þróast að hluta til á fósturstigi. Á vissu þroskastigi verður fóstrið karlkyns eða kvenkyns. Hér er t.d. ein grein um það:

https://en.wikipedia.org/wiki/Paramesonephric_duct

Sumir fæðast hinsvegar líffræðileg tvítóla.

Fleiri fæðast með ytri einkenni eins kyns en upplifa sig sem annað kyn. 

Þetta er fyrirbæri sem við erum bara nýlega farin að taka á við.

Það er ekki auðvelt.


Þegar besti vinur sviptir sig lífi

Karlmaður um fimmtugt hringdi einhverju sinni í mig eftir að hafa séð umfjöllun um rannsókn sem ég var ábirgur fyrir. Hann hringdi vegna þess að hann þurfti að ná í einhvern til að tala við um erfitt mál, hann hafði engan annan. Besti vinur hans hafði svipt sig lífi fyrr í sömu viku.

Það hafði komið eins og reiðarslag bæði fyrir hann og alla aðra. Þeir höfðu verið bestu vinir frá því í menntaskóla og hittust reglulega, síðast tveim dögum áður en vinurinn svipti sig lífi.

Nú sat hann einn eftir með svíðandi sektartilfinningu og höfuðið fullt af spurningum. Um hvað hafði þessi vinátta eiginlega snúist? Hafði hann kannski ekki hlustað, ekki heyrt, þegar vinur hans var að hrópa á hjálp? Hefði hann ekki getað gert eitthvað? Ég sat bara og þagði, svaraði beinum spurningum en sagði annars sem minnst. Leyfði honum að tala eins og hann hafði líklega aldrei áður gert, við mann sem hann þekkti ekki neitt.

Það var kannski einmitt þess vegna sem hann þorði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband