Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nokkrar kenningar um eðli drauma og innihald

Sumar lífeðlislegar kenningar um eðli drauma gera ráð fyrir að í REM-svefni eigi sér stað genatísk endurröðun (genetic programing) á nýjum taugafrumutengslum (synaps) á svipaðan hátt og gerist á fyrstu stigum heilamyndunar. REM-svefn þjónar samkvæmt þessum kenningum þeim tilgangi að viðhalda endurskipulagningu próteina, nýmyndun taugafrumutengsla og/eða styrkingu annarra tengsla meðan á svefntíma stendur. Há rafvirkni í heila er forsenda slíkrar ummyndunar og nýsköpunar í heila, en REM-svefn einkennist einmitt af mikilli aukningu á rafvirkni í heilanum. Draumar eru því samkvæmt þessum kenningum afurð minnisúrvinnslu, festingar og flokkunar í heilanum.

 

Aðrar lífeðlislegar kenningar sem gera einnig ráð fyrir að draumar séu afsprengi minnisúrvinnslu, vilja meina að draumar séu ekki afsprengi minnisfestingar, heldur virkrar gleymsku. Samkvæmt þessum hugmyndum taka milljónir taugafruma þátt í minnisfestingunni og minnið felst í flóknu mynstri taugaboða í heilanum. Þó þessar frumur skipti milljónum, er ljóst að um endanlega fjölda mögulegra tengsla er að ræða. Það er því eðlileg ályktun að þeirra mati, að í heila manna og dýra hafi þróast virkur hæfileiki til þess að flokka úr og gleyma, til að forðast ofhleðslu og glundroða í kerfinu. Það er einmitt REM-svefn sem sér um þessa virku gleymsku. Samkvæmt þessari kenningu getur það hreinlega reynst varasamt að leggja drauma sína á minnið. Bæði er það vegna þess, að slíkt gengur þvert á það hlutverk sem draumar hafa og festir i minni það sem kerfið vildi losna við. Eins hitt, sem er bein afleiðing af því fyrra, að slík samblöndun draums og veruleika, firrir menn raunveruleikanum og getur þegar til lengdar lætur leitt til ranghugmynda og ofskynjana. Þessi niðurstaða kenningarinnar er um leið stærsti gallinn við hana, því menn sem sviptir eru REM-svefni um lengri tíma, sýna fremur sjaldan nokkur merki ofskynjana og ranghugmynda, a.m.k. ekki í þeim mæli sem eðlilegt væri að gera ráð fyrir á grundvelli kenningarinnar. En slík geðræn einkenni koma þó fram hjá nokkrum hópi fólks.

 

Kynjamismunur og draumainnihald

 

Niðurstöður rannsókna frá 1966 bentu til þess að talsverður munur væri á draumainnihaldi karla og kvenna. Þegar slíkar niðurstöður liggja fyrir, hlýtur sú spurning að vakna hvort hér sé um erfðalega ákvarðaðan kynjamun að ræða, eða hvort félagslegir mótunarþættir ráði hér einhverju um. Nokkrum árum síðar (1973) voru draumar kvenna og karla bornir saman, en auk þess greindu rannsakendur hvorn hópinn fyrir sig niður í kvenlega (feminin) og karllega (maskulin). Kynhlutverk gerði betur grein fyrir draumainnihaldi en sjálft kynið. Þannig líktust maskulin konur fremur maskulin körlum en kynsystrum sínum sem flokkaðar voru feminin. Eins líktust feminin karlar fremur feminin konum en maskulin aðilum af báðum kynjum.

Þó þessar rannsóknir virtust benda til þess að félagslegir mótunarþættir ráði mestu hið kynbundna draumainnihald, er eftir sem áður áhugavert að maskulin karlar hafa tiltölulega langhæst hlutfall ýgra (agressive) drauma. Freistandi er að tengja þetta mikilli testosteron hormónaframleiðslu í eistum, enda alkunn sú staðreynd að gelding ýgra karldýra breytir mjög skaphöfn þeirra í átt til ljúflyndis. 

 

Áhrif tíðahrings á draumainnihald

 

Niðurstöður þessarar rannsóknar voru í stuttu máli þær, að konur dreymdi marktækt öðruvísi drauma meðan á tíðum stóð og estrogen hormónamagn i blóði var sem mest, en það er við upphaf tíðahrings. Konur með blæðingar dreymdi t.a.m. marktækt oftar fullorðna karlmenn, hatur, samspil einstaklinga, hrifningu (attraction). Það er og athyglisvert að blæðingahópurinn var yfirleitt hærri í flestum innihaldsflokkum draumagreiningarinnar. Þetta má e.t.v. skýra með alhliða aukinni virkni samhliða aukningu á estrogen í blóði.

 

Eldri draumakenningar

 

Kenningar Freuds gerðu ráð fyrir flóknum dulvituðum hugarferlum (mental processes), sem liggja að baki draumum. Aflið sem vekur upp drauminn á sér rætur í grundvallarhvötum, driftum (drives) og innri árekstrum (conflicts) sem liggja djúpt í persónuleika mannsins. Freud birti þessa kenningu sína við upphaf 20. aldarinnar og taldi hana eina merkustu uppgötvun sína. Draumar eru að hans mati góður vegur að hinum dulvituðu eiginleikum mannshugans. I drauminum rættust hvatrænar óskir á augljósari hátt en í vöku. Að vísu er ailtaf um göfgun að ræða, því ella reynist draumurinn manninum ofviða og hann vaknar. Þannig birtast hinar hvatrænu óskir á táknrænan hátt í draumi jafnt sem í vöku. Munurinn var sá, að „ritskoðarinn" (sensor) sem hefur eftirlit með því hvað fer úr dulvitund upp í vitund, er mun óvirkari í draumi og því auðveldara að ráða dulvitund manna af draumaferli þeirra en vökuatferli. Hins vegar er alltaf um túlkun að ræða, því það er eðli göfgunar að „þýða“ hvatrænar langanir yfir á „mál“ sem er boðlegt meðvitund og siðgæðisvitund mannsins. Við þessa „þýðingu" brenglast tíðum merking skilaboðanna og fer það eftjr styrkleika siðgæðisvitundarinnar hve bjöguð þau verða. Á grundvelli þessa, skiptir Freud hverjum draumi í tvo þætti: í fyrsta lagi er um að ræða hinn munaða draum, sem er meira og minna afbakaður. Þennan draum kallaði Freud „Manifester Traum". í öðru lagi er það svo hinn eiginlegi hvatræni draumur, en hann kallar Freud „Latenter Traum". Þær breytingar sem verða á hinum „Latenter Traum“ á leiðinni upp í vitundina, kallar Freud „Traumarbeit", eða draumavinnslu. Auk hvatrænna hugsana, geta ytri skynjanir, líkamlegar þarfir og hugsanir sem og ímyndanir úr daglegu lífi (leifar dagsins) komið af stað draumum, en hinn hvatræni þáttur er samt lang mikilvægastur og draumar fyrst og fremst ímyndanir sem veita fróun og eru þannig uppbót fyrir raunverulega fróun.

 

Hjá Jung er Libido eða lífskrafturinn meira almenns eðlis en hjá Freud, sem leggur höfuðáherslu á kynferðislegar hvatir. Þá greindi og á um dulvitundina. Jung samþykkti að vísu að til væri hvatræn dulvitund svipuð þeirri er Freud talar um. Þessa dulvitund kallar hann persónulega dulvitund. Hinsvegar er hin sameiginlega (collective) dulvitund, sem einnig er hvatræn (dynamisk) en á annan hátt en hin persónulega dulvitund. Sameiginlega dulvitundin einkennist af „minnum" (arkitypes) sem eru öllum mönnum sameiginleg, óháð kyni og þjóðfélagslegum mótunarþáttum. Þeir voru sammála um táknræna hvatadrauma, en Jung taldi þá fremur fágæta. Jung taldi flesta drauma upprunna úr reynslu liðinna daga, en að hin sameiginlegu minni væru einnig mikilvægur mótunarþáttur í draumainnihaldi. Þroski mannsins hjá Jung byggist á því, að horfast í augu við og sætta (integration) hin fjölmörgu minni. í gegnum drauma kemur dulvitundin til skila boðum til meðvitundarinnar um það, hvaða þættir hins áskapaða persónuleika eru vanræktir í daglegu lífi og geta því reynst mikilvægt hjálpartæki í þroskun mannsins. Þannig hefur t.d. hver maður bæði kven- og karlminni (Anima og Animus). Vanræki karlmaður hina kvenlegu eiginleika sína þ.e. þrjóskast við að sætta og horfast í augu við hið kvenlega minni dreymir hann kvenlega drauma og öfugt. Hjá Jung er því draumurinn tæki til þroskunar.

 

Þó að þær kenningar um eðli og innihald drauma sem minnst er á í þessari grein séu oft næsta ólíkar hvor annarri, virðast flestar hafa nokkuð til síns máls. Það getur vel verið að þær séu allar réttar svo langt sem þær ná, en þó er vafamál hvort þær skýri að fullu það viðfangsefni sem þeim er ætlað að skýra. Hver og einn nálgast viðfangsefnið frá sínum sjónarhóli.

 

 

 


LAUFBLAÐ EFTIR NOSTRA Leaf by Niggl eftir J.R.R. Tolkien ; þýðing Ásgeir Rúnar Helgason

Það var einu sinni maður að nafni Nostri sem átti langa ferð fyrir höndum. Hann langaði alls ekkert til að fara og fannst tilhugsunin afar óþægileg, en hjá þessu varð ekki komist. Hann vissi að fyrr eða síðar yrði hann að leggja upp, en flýtti sér ekkert við undirbúning ferðarinnar. 

Nostri var málari, en hafði ekki náð sérlega langt í þeirri grein, sumpart vegna þess að hann hafði um margt annað að hugsa. Flest var það að honum fannst óþægilegt og óþarft en hann innti það sæmilega af hendi þegar það varð ekki umflúið, sem (að hans áliti) var alltof oft.  Landslögin skáru íbúum landsins fremur þröngan stakk. Það voru líka önnur ljón í veginum. Í fyrsta lagi var hann stundum einfaldlega sinnulaus og gerði þá alls ekkert. Í öðru lagi var hann frekar góðhjartaður. Þið kannist ef til vill þessa tegund af hjartagæsku. Hún olli honum oftar óþægindum en að hvetja hann til dáða og jafnvel þegar hann hafðist eitthvað að kom hún ekki í veg fyrir muldur og skapvonskuköst.  En hún varð hinsvegar oft til þess að hann tók að sér "tilgangslaus" störf fyrir nágranna sinn hr. Búa, sem var lamaður á öðrum fæti. Stöku sinnum hjálpaði hann jafnvel fólki sem bjó lengra í burtu, ef það leitaði til hans.  En af og til mundi hann eftir ferðinni og fór þá að setja niður nauðsynlegustu hluti á fljótfærnislegan hátt. Þegar þannig lá á honum málaði hann mikið.

Nostri átti fjölmargar myndir, flestar of stórar og viðamiklar til að hann réði við þær. Hann var nefnilega einn af þeim sem mála laufblöð betur en tré. Hann var vanur að eyða löngum tíma á hvert einstakt lauf, í von um að ná lögun þess og litbrigðum og glitrandi daggardropunum sem slúttu fram af brúnunum. Samt langaði hann að mála heilt tré í fullum skrúða, þar sem hvert  laufblað væri einstakt. Það var ein mynd öllum fremur sem olli honum áhyggjum. Hún hafði í upphafi aðeins verið laufblað í greipum vindsins en varð síðan að tré. Tréð óx og breiddi úr ótölulegum fjölda greina og viðamiklum rótum. Einkennilegir fuglar komu og tóku sér bólfestu í greinunum og þeim varð jú að sinna. Allt í kringum tréð, bakvið það og gegnum op sem mynduðust milli laufblaðanna og greinanna, tók landslag að breiða úr sér. Það sást glitta í snævi krýnd fjöll og skóga sem teygðu úr sér út yfir landið.  

Nostri missti áhuga á hinum myndunum, eða hann tók þær og skeytti þeim á útjaðra meistaraverksins. Að lokum var léreftsflöturinn orðinn svo umfangsmikill, að hann varð að nota stiga. Hann hljóp upp og niður, bætti örlitu við hér og jafnaði ójöfnu þar. Þegar fólk kom í heimsókn reyndi hann að vera kurteis,  þó að hann fitlaði örlítið við penslana á borðinu. Hann hlustaði á hvað það hafði til málanna að leggja en undir niðri hugsaði hann alltaf um myndina í háa skýlinu, sem hann hafði byggt fyrir hana út í garði (á blettinum þar sem hann hafði áður ræktað kartöflurnar).  

Honum tókst ekki að losna úr viðjum hjartagæskunnar. "Ég vildi að ég væri viljasterkari", sagði hann stundum við sjálfan sig og meinti að hann óskaði þess að vandamál annarra illu honum ekki hugarangri. Í langan tíma kom ekkert fyrir sem olli honum sérlegum áhyggjum. "Hvað sem öllu líður ætla ég að ljúka við þessa mynd, hina einu sönnu, áður en ég verð að fara í þessa leiðinda ferð", var hann vanur að segja við sjálfan sig.  Þó var honum farið að verða það ljóst að ferðinni var ekki hægt að fresta endalaust. Hann varð að hemja myndina og ljúka henni.   

Dag einn stóð Nostri í nokkurri fjarlægð frá myndinni og virti hana fyrir sér með óvanalega einbeittri athygli.  Hann gat ekki gert það upp við sig hvað honum fannst um hana. Hann óskaði þess að hann ætti einhvern vin sem gæti gert honum upp skoðun. Í rauninni fannst honum hún fullkomlega ófullnægjandi en samt mjög falleg,  eina virkilega fallega myndin í heiminum.  Það sem hann hefði viljað á þessari stundu var að sjá sjálfan sig ganga inn, klappa sér á bakið,  og segja (af mikilli einlægni) "hreint stórkostlegt", ég skil nákvæmlega hvað þú ert að fara. Haltu endilega áfram og hugsaðu ekki um neitt annað. Við munum sjá þér fyrir opinberum styrk.  Eitt var víst,  hann þurfti að einbeita sér og vinna nokkuð vel án truflana ef hann átti að ljúka myndinni, jafnvel þó hún yrði bara í núverandi stærð. Hann bretti upp ermarnar og hóf verkið.

Hann reyndi að einangra sig í nokkra daga. En hann varð fyrir alls kyns óþægindum. Hlutir fóru úr skorðum heima fyrir, hann var kallaður til að sitja í kviðdómi í borginni, fjarskyldur ættingi veiktist, fékk bakverk, og fjölda gesta bar að garði. Það var vor og þeir vildu fá sér ókeypis tesopa upp í sveit. Nostri bjó nefnilega í litlu fallegu húsi í þó nokkurri fjarlægð frá bænum. Hann bölvaði þeim undir niðri en framhjá því varð ekki horft að hann hafði sjálfur boðið þeim fyrr um veturinn, þegar hann leit ekki á það sem óþægilega truflun að fara í búðir og drekka te hjá kunningjum sínum í bænum.  Hann reyndi að herða sig upp, en það gekk ekki sem skildi. Það var margt sem ekki varð með góðu móti umflúið, hvort heldur hann hélt það skildu sína eða ekki, og það var ýmislegt sem hann einfaldlega varð að gera. Sumir gestanna létu að því liggja að garðurinn væri vanhirtur og að hann gæti átt von á eftirlitsmanni.

Það voru auðvitað mjög fáir sem vissu um myndina, en þó þeir hefðu vitað um hana hefði það varla skipt svo miklu máli. Þetta var líklega ekkert sérlega góð mynd, þó hún hefði sína ljósu punkta. Tréð var í það minnsta mjög einkennilegt. Mjög sérstætt á sinn hátt. Eins og Nostri sjálfur, þó hann væri að mörgu leyti mjög venjulegur og frekar kjánalegur lítill náungi.  Að lokum fór hver mínúta að verða Nostra mjög dýrmæt.

Fjarlægir kunningjar minntust þess að litli maðurinn átti fyrir höndum erfiða ferð, og sumir fóru að velta því fyrir sér hversu lengi hann gæti dregið hana á langinn. Þeir veltu því fyrir sér, hver myndi fá húsið og ef garðinum yrði haldið betur við. 

Haustið hélt innreið sína með rigningu og roki. Litli málarinn var inni í skýlinu. Hann var uppi í stiganum og reyndi að ná sólseturs glampa á snæviþöktum fjallstindi sem hann hafði komið auga á vinstra megin við enda laufskrýddrar greinar. Hann vissi að hann yrði fljótlega að leggja upp, kannski snemma á næsta ári. Hann myndi rétt ná að ljúka myndinni og tæplega það. Það voru fletir sem hann hefði ekki tíma til að vinna nema mjög lauslega.  Það var barið að dyrum. "Kom inn", sagði hann hranalega og klifraði niður stigann. Hann stóð á gólfinu og fitlaði við pensilinn. Það var Búi, eini raunverulegi nágranninn, allir aðrir bjuggu langt í burtu. Þrátt fyrir það fannst honum lítið til mannsins koma, að sumu leyti vegna þess að hann var svo oft hjálpar þurfi og einnig vegna þess að hann hafði engan áhuga á málverkum, en var mjög gagnrýninn á garðrækt. Þegar Búi horfði á garðinn hans Nostra (sem var mjög oft) sá hann aðalleg arfa og þegar hann horfði á myndirnar hans (sem var mjög sjaldan) sá hann aðeins gráan dúk og svartar línur.  

Búi talaði gjarnan um arfann (skylda hans sem nágranna) en hann kom sér undan því að láta í ljós álit sitt á myndunum. Hann stóð í þeirri trú að þetta væri mjög vinsamleg afstaða. Hann skildi ekki að aðstoð við garðyrkjuna (og kannski örlítið hól fyrir myndirnar) hefði verið betra.  "Jæja Búi, hvað get ég gert fyrir þig?" sagði Nostri. "Ég veit að ég ætti ekki að vera að trufla þig", sagði Búi (án þess að líta á myndina). "Ég þykist vita að þú sért önnum kafinn". Nostri hafði haft í huga að segja eitthvað þessu líkt en tækifærið hafði runnið úr greipum hans. Hann sagði aðeins "Já". "En ég get ekki snúið mér til neins annars", sagði Búi, "alveg rétt" sagði Nostri og andvarpaði. Eitt af þessum andvörpum sem hafa ekki sjálfstæða merkingu en eru notuð til að undirstrika. "Hvað get ég gert fyrir þig?" "Konan mín hefur verið veik í nokkra daga og ég er farinn að veraða áhyggjufullur", sagði Búi. Og vindurinn hefur feykt helmingnum af leirhellunum af þakinu hjá mér og vatnið er farið að leka inn í svefnherbergið. Ég held að það væri ráðlegt að ná í lækninn og byggingameistaranna, það er bara verst hvað hann er alltaf seinn í svifum. Ég var að velta því fyrir mér hvort þú hefðir einhverjar spýtur og léreft aflögu sem hægt væri að nota sem bætur í nokkra daga. Núna leit hann á myndina.   "Hamingjan sanna" sagði Nostri. “Þú ert seinheppinn. Ég vona að konan sé bara með kvef. Ég kem yfir fljótlega og hjálpa þér að koma sjúklingnum niður”. "Ég þakka" sagði Búi, fremur kuldalega. "Þetta er ekki kvef, hún hefur hita. Ég hefði ekki truflað þig, ef það væri bara kvef. Og hún hefur þegar búið um sig niðri. Ég kemst ekki upp og niður stigann eins og fóturinn er á sig kominn. Ég sé að þú ert upptekinn. Fyrirgefðu að ég skyldi hafa truflað þig. Ég hafði gert mér vonir um að þú gætir séð af tíma til að sækja lækninn, vitandi um ástand mitt, og byggingameistarann líka, ef þú getur ekki séð af neinu lérefti."  "Alveg sjálfsagt" sagði Nostri, þvert ofan í vilja sinn, sem á þessu augnabliki var frekar veikgeðja en góður. "Ég skal fara ef þú er mjög áhyggjufullur", bætti hann við. 

"Ég er áhyggjufullur, mjög áhyggjufullur. Ég vildi að ég væri ekki lamaður", sagði Búi. Og Nostri fór. Það var ekki hjá því komist. Búi var jú nágranni hans og allir aðrir langt í burtu. Nostri átti hjól en Búi ekki, hann gat ekki hjólað. Búi var jú lamaður á öðrum fæti og það olli honum miklum þjáningum, svo var það þessi armæðulega rödd og aumkvunarverða látbragð.  Að vísu átti Nostri ókláraða mynd og knappan tíma til að ljúka henni og þetta var að vísu mál Búa en ekki Nostra. En Búi tók myndir ekki með í reikninginn og því gat Nostri ekki breytt. "Fari það norður og niður" sagði hann við sjálfan sig um leið og hann tók út hjólið.

Það var rok og rigning og farið að halla að degi. "Ég geri víst ekki meira í dag", hugsaði Nostri og á leiðinni var hann annað hvort bölvandi, eða að hugur hans dvaldi við pensilförin á fjöllunum og laufi skrýddar greinar sem hann var þegar búinn að móta í huga sér þá um vorið.  Hann kreppti fingurna um handföngin. Nú, þegar hann hafði yfirgefið skýlið, sá hann glöggt hvernig hann átti að vinna glitrandi laufþyrpinguna sem innrammaði útsýnið til fjallsins. En honum leið hálf illa og undir niðri fannst honum að hann myndi aldrei fá tækifæri til að prófa þessa hugmynd.  

Nostri kom við hjá lækninum, og skildi eftir skilaboð hjá byggingameistaranum. Skrifstofan var lokuð og meistarinn heima við arininn. Nostri var blautur inn að beini og kaldur. Læknirinn var ekki eins snar í snúningum og Nostri. Hann kom daginn eftir þegar það hentaði honum og hafði þá ekki einn heldur tvo sjúklinga til að sinna. Nostri lá í rúminu með háan hita og dró upp myndir af ótal laufblöðum og greinum í huga sér og á loftið fyrir ofan rúmið. Honum var lítil huggun í að frétta að konan hans Búa hefði aðeins haft kvef og væri að ná sér. Hann sneri sér út í horn og gróf sig inni í haug af laufblöðum.  Hann lá í rúminu nokkurn tíma. Vindurinn blés stöðugt úti fyrir og losaði Búa við enn fleiri þakhellur.

Nostri fór heldur ekki varhluta af veðrinu og hjá honum fór að leka. Byggingameistarinn kom ekki. Nostri lét þetta sig engu skipta í nokkra daga. Að lokum skreiddist hann þó á fætur og fór að leita sér að einhverju ætilegu. Búi lét ekki sjá sig, regnið hafði hlaupið í fótinn á honum og valdið vanlíðan og konan var upptekin við að ausa vatni og velta því fyrir sér hvort Nostri hefði gleymt að láta byggingameistarann vita. Hefði hún þurft að fá eitthvað lánað hefði hún sent Búa yfir þrátt fyrir fótinn, en svo var ekki,  þannig að Nostri var látinn í friði.   

Eftir um það bil viku rölti Nostri aftur út í skýlið. Hann reyndi að klifra upp stigann en sortnaði fyrir augum. Hann sat og horfði á myndina, en það voru engar myndir af laufblöðum, engin fjallasýn, í huga hans þann dag. Hann hafði getað málað sendna eyðimörk í fjarska en hafði ekki þrek til þess. Daginn eftir leið honum öllu betur. Hann klifraði upp stigann og byrjaði að mála. Hann var rétt að komast af stað, þegar barið var að dyrum.  "Fjandinn hafi það", sagði Nostri. En hann hefði alveg eins getað sagt, "kom inn", á kurteislegan hátt, því hurðinni var engu að síður hrundið upp. Að þessu sinni var gesturinn  ókunnugur maður. "Þetta er einkavinnustofa", sagði Nostri. "Ég á annríktvilduð þér gjöra svo vel að fara?” "Ég er húsaeftirlitsmaður", sagði sá ókunnugi, um leið og hann lyfti upp skilríkjum sínum svo að Nostri gæti séð þau þar sem hann stóð upp í stiganum. "Ó" sagði hann. "Hús nágranna yðar er í mjög slæmu ástandi", sagði eftirlitsmaðurinn. "Það veit ég vel", sagði Nostri. "Ég skildi eftir skilaboð hjá byggingameistaranum fyrir þó nokkru en hann hefur ekki látið sjá sig. Síðan hef ég legið rúmfastur". "Ég skil", sagði eftirlitsmaðurinn. "En þér eruð komnir á fætur núna". "En ég er ekki byggingarmeistari. Búi ætti að kvarta við bæjarráðið, og fá hjálp frá neyðarþjónustunni". "Þeir eru uppteknir annars staðar þar sem ástandið er langtum verra", sagði eftirlitsmaðurinn. "Það varð flóð niðri í dalnum og margar fjölskyldur eru heimilislausar. Þér hefðuð átt að aðstoða nágranna yðar við að lappa upp á skemmdirnar og koma í veg fyrir að þær yrðu meiri en efni stóðu til. Þannig eru lögin. það er nóg af efnivið hér, léreft, timbur og vatnsheld málning". "Hvar" spurði Nostri argur. "Þarna" sagði eftirlitsmaðurinn og benti á myndina. "Myndin mín!" hrópaði Nostri upp yfir sig. "Já, þetta er að vísu mynd", sagði eftirlitsmaðurinn. "En hús hafa forgangsrétt, þannig eru lögin".  "En ég get ekki ........"

Nostri þagnaði, því í þessu augnabliki gekk annar maður inn í vinnuskýlið. Hann var mjög líkur eftirlitsmanninum, næstum tvífari hans, hávaxinn, allur svarklæddur. "Komdu" sagði hann. "Ég er ekillinn". Nostri hálf datt niður úr stiganum. Honum fannst eins og hitinn væri aftur að ná tökum á sér, og hann fann fyrir svima, kaldan hroll lagði um hann allan. "Ekill?, ekill?" sagði hann í fáti. "Hverju akið þér?" "Yður og vagninum yðar", sagði sá nýkomni. "Vagninn var pantaður fyrir löngu. En nú er hann loksins kominn. Hann býður, þér leggið af stað í dag, í ferðina, þér vitið".  "Sjáið þér nú", sagði eftirlitsmaðurinn. "Þér verðið að fara, það er ljótan að þér verðið að yfirgefa skyldur yðar. En við getum þó alltént nýtt okkur léreftið núna". "Æ, nei" sagði aumingja Nostri og fór að gráta. "Henni er ekki einu sinni lokið!" "Ekki lokið", sagði ekillinn. "Henni er allavega lokið hvað þér viðkemur, komdu nú".  Nostri gekk út, þögull í bragði. Ekillinn leyfði honum ekki að taka saman neinn farangur, það hefði hann átt að vera búinn að gera og þeir myndu líka missa af lestinni. Allt sem Nostri gat gert var að grípa með sér litla handtösku í forstofunni. Hann komst að því að hún innihélt aðeins litla öskju og litla bók með eigin uppdráttum, hvorki mat né klæðnað. 

Þeir komu tímanlega á brautarstöðina. Nostri var þreyttur og syfjaður, hann tók varla eftir því þegar honum var pakkað niður í einn lestarklefann. Honum stóð alveg á sama. Hann hafði gleymt því hvert hann var að fara og hver tilgangur ferðarinnar var. Lestin hvarf á augabragði inn í myrkvuð göng.  

-------

Nostri vaknaði á mjög stórri illa upplýstri járnbrautarstöð. Lestarþjónn gekk hrópandi um brautarpallinn en hann var ekki að kalla upp nafn stöðvarinnar. Hann hrópaði: "Nostri"! Nostri flýtti sér út og komst að því að hann hafði skilið litlu töskuna eftir. Hann ætlaði að snúa til baka en sá að lestin var farin.  "Jæja, þarna ertu" sagði lestarþjónninn. "Þessa leið, hvað er að sjá, enginn farangur? Þú verður að fara í vinnubúðirnar". Nostra leið mjög illa og féll í yfirlið á brautarpallinum. Hann var fluttur með sjúkrabíl til sjúkrahússins sem tengt var vinnubúðunum.  

Honum líkaði ekki meðferðin. Meðalið sem þeir gáfu honum var bragðvont. Starfsliðið var óvingjarnlegt, þögult og formfast og það var eina fólkið sem hann sá, að undanskildum valdsmannslegum lækni sem heimsótti hann af og til. Þetta var öllu líkara fangelsi en sjúkrahúsi. Hann varð að leggja mjög hart að sér við vinnu á vissum tímum, við mokstur, smíðar og við að mála planka í tilbreytingarlausum litum. Hann fékk aldrei að fara út og gluggarnir snéru allir inn í bakgarðinn. Þeir skildu hann eftir í myrkvuðu herbergi tímunum saman, til þess að hugsa, eins og þeir orðuðu það. Hann missti allt tímaskyn. Honum leið á engan hátt betur, a.m.k. ekki ef lífsgæði eru mælikvarði á bata. Hann var aldrei ánægður, ekki einu sinni þegar hann fór í rúmið.  Í fyrstu, fyrstu hundrað árin eða svo (að minnsta kosti leið honum þannig), hugsaði hann stöðugt um fortíðina. "Ég hefði átt að líta til Búa strax þegar rokið byrjaði. Ég ætlaði alltaf að gera það. Það hefði verið auðvelt að lappa upp á fyrstu lausu þakhellurnar. Þá hefði konan hans líklega aldrei kvefast. Þá hefði ég sloppið líka. Þá hefði ég fengið viku í viðbót".  En með tímanum gleymdi hann til hvers hann hafði þurft þessa viku. Ef einhverjar áhyggjur sóttu að honum eftir það, snérust þær allar um störf hans við sjúkraskýlið. Hann velti þeim vandlega fyrir sér, hversu fljótur hann var að komast fyrir lekann, lappa upp á hurðina, eða laga borðfótinn. Sennilega var hann mjög notadrjúgur. Þó enginn segði honum það. En það gat varla verið ástæðan fyrir því að þeir héldu aumingja litla manninum svona lengi. Ef til vill voru þeir að bíða eftir því að honum "batnaði" og mældu batann á einhvern dularfullan læknisfræðilegan hátt.  Hvað sem öllu leið fékk aumingja Nostri enga gleði út úr lífinu, að minnsta kosti ekki þá gleði sem honum var töm. Hann skemmti sér allavega aldrei. En því varð ekki neitað að hann var farinn að sætta sig við hlutskipti sitt. Hann byrjaði á verkefni um leið og bjallan hringdi og lagði það frá sér þegar hún hringdi aftur. Hann  hélt líka öllu í horfinu til að hann 

gæti hafist handa á slaginu. Hann skilaði ágætu dagsverki núna og smávægilegar lagfæringar fórust honum sérlega vel úr hendi.  Hann  hafði engan tíma aflögu fyrir sjálfan sig (nema þegar hann lá einn í svefnklefanum), en samt hafði hann náð að skipuleggja tímann svo vel að hann vissi nákvæmlega hvernig hann átti að eyða honum. Hann hætti að finna fyrir streitu. Hann var rólegri innra með sér og á hvíldartímum tókst honum raunverulega að hvílast. Þá breyttu þeir skyndilega öllum háttum hans, leyfðu honum varla að fara í rúmið, létu hann hætta smíðum og héldu honum uppteknum við skurðgröft, dag eftir dag. Hann lét sér þetta vel lynda. Það leið jafnvel á löngu áður en hann fór að velta aftur fyrir sér hinni óþægilegu aðstöðu sinni. Hann hélt sig að greftrinum þar til hendurnar voru orðnar sárar, þangað til honum leið eins og bakið væri að brotna og honum fannst hann ekki getað valdið skóflunni lengur. Enginn þakkaði honum. En læknirinn kom og leit á hann. "Hættu" sagði hann. "Algjör hvíld í myrkrinu".  Nostri lá í myrkrinu, í algerri hvíld. Þar sem hann hvorki skynjaði neitt né hugsaði, hefði hann getað verið búinn að liggja þarna tímum eða jafnvel árum saman. En í þessu augnabliki heyrði hann raddir, ókunnar raddir. Þær virtust helst koma frá læknaráðstefnu eða yfirheyrslunefnd í samliggjandi herbergi og ef til vill komu þær gegnum opnar dyr þó hann sæi hvergi ljós.  

"Þá er það Nostri", sagði rödd, valdsmannslegri en jafnvel sjálfs læknisins. "Hvað amar að honum?" sagði önnur rödd, rödd sem kalla mætti góðlega, þó hún væri hrjúf. Þetta var rödd sem vön var að taka ákvarðanir og hljómaði í senn af von og vonbrigðum. "Hvað amar að Nostra? Hann hafði hjartað á réttum stað". "Já, en það starfaði ekki rétt", sagði fyrsta röddin". "Og höfuðið var ekki skrúfað nógu fast á búkinn, hann hugsaði varla nokkurn tímann. Líttu bara á allan tímann sem hann sóaði. Hann bjó sig aldrei undir ferðina. Hann var sæmilega stæður en kom samt hingað allslaus, þannig að við urðum að koma honum fyrir í vinnubúðunum. Slæmt tilfelli er ég hræddur um. Ég held að hann ætti að vera hér enn um sinn".  "Það myndi líklega ekki skaða", sagði síðari röddin. "En hann er jú bara lítill maður. Það lá aldrei fyrir honum, að verða neitt stórfenglegt og hann var aldrei mjög sterkur. Lítum á skýrslurnar.  Já, hér er margt sem kemur honum til góða". "Ef til vill", sagði fyrri röddin, "en mjög fátt sem tekur því að um það sé rætt". "Nú, jæja," sagði síðari röddin, "það er þó alltént þetta. Hann var fæddur málari. Að vísu minniháttar. Þó hafði laufblað eftir Nostra sína sérstöku töfra. Hann lagði heilmikla vinnu í laufblöðin, aðeins þeirra vegna. En hann bjóst aldrei við því að það gerði hann eitthvað sérstakan. Það er ekkert í skýrslunum sem sýnir fram á að hann hafi notað það sem afsökun til að réttlæta vanrækslu sína gagnvart landslögunum".  "En hann hefði ekki átt að sýna svona mikla vanrækslu", sagði fyrri röddin. "Þrátt fyrir það brást hann þó nokkuð oft réttilega við" sagði síðari röddin. "Hlutfallslega sjaldan og þá var yfirleitt um auðvelt verk að ræða. Hann kallað þau óþægilega truflun. Skýrslurnar eru yfirfullar af þessum orðum auk fjölmargra kvartana og kjánalegra blótsyrða", mótmælti fyrri röddin. "Það er að vísu satt, en þau komu honum auðvitað fyrir sjónir eins og óþægilegar truflanir. Og þar að auki bjóst hann aldrei við endurgjaldi. Það er til að mynda Búa tilfellið, sá sem kom inn síðar. Hann var nágranni Nostra en gerði aldrei handtak fyrir hann og sýndi sjaldan nokkuð þakklæti. En það er ekkert um það í skýrslunum að Nostri hafi búist við neinu þakklæti, hann virðist jafnvel ekki hafa hugsað út í það", sagði síðari röddin.  "Já, þetta er punktur," sagði fyrri röddin, "en frekar léttvægur. Ég býst við að frekar hafi verið um gleymsku að ræða. Verk sem hann þurfti að vinna fyrir Búa voru honum eins og hver önnur óumflýjanleg óþægindi sem hann reyndi að gleyma sem fyrst eftir að þeim var lokið".  "En það er þó alltaf lokaatriði", sagði síðari röddin, "blauti hjólreiðatúrinn. Það vegur nokkuð þungt á metunum. Það virðist augljóst að það var ósvikin fórn. Nostra renndi í grun að hann væri að varpa frá sér síðasta tækifærinu til að ljúka myndinni og það hvarflaði líka að honum að Búi væri með óþarfa áhyggjur". "Ég held að þú ofmetir þetta," sagði fyrri röddin. "En þú hefur lokaorðið. Það er auðvitað í þínum verkahring að vega og meta staðreyndir. Þeir eru stundum traustsins verðir. Hvað leggur þú til?"  "Ég mæli með vægri meðferð hér eftir", sagði síðari röddin.

Nostra fannst að hann hefði aldrei heyrt neitt jafn rausnarlegt og þessa rödd. Hún lét "væga meðferð" hljóma eins og náðargjöf og boðskort í konunglega veislu. En skyndilega fann Nostri til blygðunar. Að heyra að hann væri tilfelli fyrir "væga meðferð" kom svo einkennilega við hann að hann roðnaði í myrkrinu. Það var eins og að vera hylltur opinberlega þegar þú og allir viðstaddir vissu að hólið var ekki verðskuldað.  Nostri byrgði andlitið í teppinu. Það var algjör þögn. Þá sagði fyrri röddin og var nú komin mjög nálægt. "Þú hefur heyrt það sem fram fór". "Já", sagði Nostri. "Jæja, og hvað vilt þú leggja til málanna?" "Gætuð þið sagt mér eitthvað um Búa?" spurði Nostri. "Ég vildi gjarnan sjá hann aftur. Ég vona að hann sé ekki mikið veikur? Getið þið gert eitthvað fyrir fótinn á honum. Hann var vanur að valda honum mikilli vanlíðan og fyrir alla muni hafið ekki áhyggjur af sambandi okkar. Hann var mjög góður nágranni og útvegaði mér fyrirtaks kartöflur á mjög góðum kjörum sem sparaði mér mikinn tíma".  "Er það satt?" sagði fyrri röddin. "Það gleður mig að heyra". Aftur varð þögn. Nostri heyrði raddirnar fjarlægjast. "Jæja, ég samþykki", heyrði hann fyrri röddina segja úr fjarlægð. "Hann fer þá yfir á næsta þrep. Á morgun ef þú villt".  Þegar Nostri vaknaði sá hann að dregið hafði verið frá glugganum og sólargeislar fylltu litla herbergið. Hann fór á fætur og sá að í stað sjúkrahúsbúningsins höfðu þægileg föt verið lögð við rúmið.  Eftir morgunverðinn bar læknirinn smyrsl á sárar hendur hans og þær gréru samstundis. Hann gaf Nostra nokkur góð ráð og flösku af einhverju styrkjandi (ef hann þyrfti á því að halda). Síðar um morguninn gáfu þeir honum kexköku og vínglas og réttu honum farmiða. "Þú getur farið á brautarstöðina núna," sagði læknirinn. "Lestarþjónninn mun annast um þig. Vertu sæll". 

Nostri gekk út um aðaldyrnar og deplaði augunum örlítið. Sólskinið var mjög bjart. Hann hafði auk þess búist við að gagna út í stóra borg, ef miðað er við stærð járnbrautarstöðvarinnar en það var ekki raunin. Hann var staddur efst uppi á grænni skóglausri hæð sem styrkjandi vindurinn lék um. Við rætur hæðarinnar sá hann glampa á þak járnbrautastöðvarinnar. Hann gekk léttilega niður hlíðina án þess að flýta sér.  Lestarþjónninn kom þegar auga á hann. "Þessa leið" sagði hann og fylgdi Nostra þangað sem lítil vinaleg lest stóð, einn farþegavagn og lítill eimvagn, báðir glampandi hreinir og ný málaðir. Það leit út fyrir að þetta væri þeirra fyrsta ferð. Jafnvel teinarnir sem lestin stóð á glömpuðu og virtust nýir. Sætin voru grænmáluð og út úr klefanum lagði sæta angan af nýrri tjöru í hlýju skini sólarinnar. Vagninn var tómur.  "Hvert er ferðinni heitið?" spurði Nostri. "Ég held að þeir hafi ekki gefið staðnum neitt nafn ennþá", sagði lestarstjórinn. "En þér mun líka vel". Hann lokaði hurðinni. Lestin fór af stað. Nostri sat rólegur í sætinu. Lestin lullaði áfram eftir djúpum skorning með háum grasivöxnum bökkum og fyrir ofan gat að líta bláa himinhvelfingu.

Eftir að því er virtist skamma stund blés eimpípan, lestin hægði á sér og nam staðar. Engin stöð var sjáanleg, engin kennileyti, aðeins þrep sem lágu upp grasivaxinn bakkann.  Þegar upp var komið, kom hann auga á grænmálað rimlahlið á vel klipptu limgerði. Við hliðið stóð reiðhjólið hans, að minnsta kosti var það mjög svipað. Á lítinn gulan miða sem festur var á þverslána stóð skrifað með stórum svörtum stöfum, Nostri.  Hann opnaði hliðið greip reiðhjólið og þeysti niður hlíðina baðaður geislum vorsólarinnar. Brátt tók hann eftir því að stígurinn sem hann hafði hjólað eftir var horfinn og hjólið rann yfir fagurgrænan grasvöll. Svörðurinn var þéttur, en samt gat hann séð hvert einstakt strá. Honum fannst eins og hann hefði séð eða dreymt um þennan grasvöll einhvern tíma áður. Landslagið kom á einhvern hátt kunnuglega fyrir sjónir. Já, nú varð völlurinn sléttur, eins og hann átti að vera, og nú hallaði hann auðvitað upp í móti.  

Stór grænn skuggi byrgði skyndilega fyrir sólina. Nostri leit upp og féll af hjólin. Fyrir framan hann stóð Tréð, Tréð hans, fullmótað. Ef hægt er að nota það orð um lifandi tré sem breiddi úr gróskumiklum laufþöktum greinum sem svignuðu í golunni, eins og Nostri hafði svo oft ímyndað sér, og svo oft mistekist að ná fram.

Hann starði á Tréð, síðan lyfti hann höndunum hægt og breiddi úr faðminn.  "Þetta er gjöf" sagði hann að lokum. Hann átti við sköpunargáfu sína og árangurinn, en hann notaði orðið í bókstaflegri merkingu. Hann hélt áfram að horfa á Tréð. Öll laufblöðin sem hann hafði stritað við voru á sínum stað, líkari því sem hann hafði ímyndað sér fremur en því sem hann hafði gert. Það voru mörg sem höfðu aðeins verið til í hugskoti hans og önnur sem hefðu orðið, ef tími hefði unnist til. Ekkert stóð skrifað á þau. Þetta voru aðeins fullkomin laufblöð, samt var hægt að dagsetja þau fegurstu og auðkennilegustu. Bestu dæmin um vinnubrögð Nostra, voru auðsjáanlega unnin í samvinnu við Búa. Það var ekki nokkur leið að orða það örðu vísi.  Fuglar gerðu sér hreiður í Trénu. Undarlegir fuglar. Hvílíkur söngur. Þeir pöruðu sig, skriðu úr eggjunum, náðu fullum þroska og flugu syngjandi á braut, inn í skóginn. Því nú sá hann að skógurinn var þarna líka og breiddi úr sér til beggja hliða og hvarf út í fjarskann.  Langt í burtu sást glampa á fjallatinda. Að stundu liðinni gekk Nostri í átt til skógarins. Ekki vegna þess að hann væri orðin leiður á trénu, heldur var mynd þess nú svo skýr í huga hans að hann sá það fyrir sér, jafnvel þó hann horfði ekki á það.

Þegar hann gekk í brutu rann upp fyrir honum einkennileg staðreynd. Skógurinn var auðvitað fjarlægur og vafinn fjarlægðar ljóma, samt gat hann nálgast hann og jafnvel gengið inn á milli trjánna án þess að ljóminn hyrfi. Hann hafði aldrei áður getað gengið inn í fjarlægðina án þess að hún breyttist í venjulegt hversdagslegt umhverfi. Þetta jók vissuleg á þá ánægju er fylgir gönguferðum, því að um leið og hann gekk opnaðist ný fjarlægð, þannig að nú upplifði hann tvöfaldar, þrefaldar, fjórfaldar fjarlægðir. Tvöfalt, þrefalt og fjórfalt meira heillandi. Hann get haldið endalaust áfram og haft heilt landslag í garðinum, eða á mynd (ef það á betur við).  Hann gat haldið endalaust áfram, og þó. Það voru fjöllin í bakgrunninum. Þau nálguðust mjög hægt. Þau virtust ekki eiga heima í myndinni heldur tengja hana við eitthvað annað, nýtt þrep, aðra mynd.  Nostri rölti um en hann var ekki að slæpast. Hann skoðaði umhverfið af mikilli natni.

Tréð var fullmótað þó það ætti eftir að vaxa. "Alveg öfugt við það sem áður var", hugsaði hann, en inn í skóginum var margt sem þurfti að huga að og laga. Ekkert þurfti raunverulegra breytinga við, en að mörgu þurfti að hlynna til að ná settu marki.  Nostri vissi nákvæmlega hvað gera þurfti á hverju stað. Hann settist niður undir fallegu tré, eftirlíkingu af Stóra Trénu, þó var það alveg sjálfstætt, eða yrði það með örlítilli umhirðu. Og hann velti því fyrir sér hvar hann ætti að byrja, hvenær hann yrði búinn og hversu mikinn tíma hann þyrfti. En það var eitthvað sem vantaði.  "Já, en auðvitað" sagði hann. "Ég þarf á Búa að halda. Það er heilmargt varðandi jarðveg, plöntur og tré, sem hann veit en ég ekki. Þessi staður má ekki bara verða minn eigin skemmtigarður, ég þarf á aðstoð og ráðlegginum að halda."  Hann stóð upp og gekk þangað sem hann hafði ákveðið að hefja verkið. Hann tók af sér yfirhöfnina. Það var þá sem hann kom auga á mann, sem stóð í miðju skógarrjóðri og horfði furðu lostinn í kringum sig. Hann hallaði sér fram á reku, en vissi auðsjáanlega ekki hvað hann átti af sér að gera. 

Nostri kallaði til hans fagnandi "Búi!". Búi axlaði rekuna og gekk í áttina til hans. Hann stakk ennþá örlítið við. Þeir töluðust ekki við, kinkuðu aðeins kolli eins og þeir voru vanir að gera þegar þeir mættust á gangstígnum en nú gengu þeir hlið við hlið og leiddust.  Þegjandi komu þeir sér saman um hvar hentugast væri að reisa lítið hús með garði sem þeim fannst að hlyti að vera nauðsynlegt. Þegar tímar liðu kom það vel í ljós að nú var það Nostri sem var driffjöðrin í allri skipulagningu og framkvæmd. Þó undarlegt megi virðast var það Nostri sem var áfjáðari í að byggja og rækta , á meðan Búi ráfaði um og virti fyrir sér trén og sérstaklega Tréð.  

Dag einn var Nostri önnum kafinn við að gróðursetja gerði.  Búi lá í grasinu skammt frá og virti með athygli fyrir sér lítið fallegt gult blóm sem óx upp úr grænum sverðinum. Nostri hafði sett mörg slík við rætur Trésins endur fyrir löngu. Skyndilega leit Búi upp. Andlit hans geislaði í sólskininu og hann brosti. "Þetta er stórkostlegt" sagði hann. "Ég ætti í rauninni ekki að vera hér, þakka þér fyrir að tala í mína þágu". "Vitleysa", sagði Nostri. "Ég man ekki einu sinni hvað ég sagði, en það hefur örugglega ekki verið nóg". "Ó jú," sagði Búi. "Ég komst út mun fyrr fyrir bragðið. Síðari röddin, þú veist, lét senda mig hingað, sagði að þú vildir hitta mig. Þetta á ég þér að þakka". "Nei, þú átt þetta síðari röddin að þakka”, sagði Nostri. ”Eins og ég".  Þeir héldu áfram að lifa og starfa saman. Ég veit ekki hve lengi. Því er ekki að neita að í fyrstu voru þeir ekki alltaf á eitt sáttir, sérstaklega þegar þreytan náði yfirtökunum. Því að til að byrja með kom það fyrir að þeir þreyttust.  Þeir komust að því að þeir höfðu báðir fengið flösku af einhverju styrkjandi. Á báðum flöskunum stóð " Fáeinir dropar, blandaðir vatni frá lindinni, fyrir hvíld". Þeir fundu lindina í hjarta skógarins. Fyrir löngu hafði Nostri ímyndað sér hana en aldrei sett hana á blað. Nú var honum ljóst að hún var uppspretta árinnar sem glampaði á í fjarska og var lífgjafi alls sem lifði og gréri á svæðinu. Þessir fáu dropar gerðu vatnið hlaupkennt, frekar rammt en hressandi og það hreinsaði til í kollinum.  

Eftir að hafa drukkið hvíldust þeir í einrúmi og að lokinni hvíld gekk allt eins og í sögu. Þegar þannig var ástatt upphugsaði Nostri mörg ný og falleg blóm eða jurtir og Búi vissi alltaf upp á hár hvar og hvernig þau færu best. Þeir hættu að þurf á innihaldi flaskanna að halda löngu áður en það var þorrið. Búi var líka alveg hættur að stinga við.  Þegar þeir fóru að sjá fram úr verkefnum gáfu þeir sér betri tíma til að rölta um og virða fyrir sér trén, blómin og hina sérkennilegu blæbrigðaríku lögun landsins. Stundum sungu þeir saman. En Nostri fann að hugur hans leitaði nú æ oftar í átt til fjallanna. Að lokum kom að því að litla húsið í rjóðrinu, garðurinn, engjarnar, skógurinn, vatnið, og allt umhverfið hafði nærri náð þeirri fullkomnum sem efni stóðu til.  

Tréð var í fullum skrúða. "Við ljúkum við þetta í kvöld," sagði Búi dag nokkurn. "Eftir það förum við í langa gönguferð." Þeir lögðu upp næsta dag og gengu þar til þeir komu alveg að skilunum. Þau voru að sjálfsögðu ekki sýnileg. Það var ekkert strik, girðing eða veggur, en þeir vissu að þeir voru komnir að endimörkum landsins. Þeir komu auga á mann sem leit út fyrir að vera fjárhirðir, hann gekk í áttina til þeirra niður grasivaxna tunguna sem lá eins og gata upp í fjöllin. "Vantar ykkur fylgd?" spurði hann. "Viljið þið halda áfram?"  Eitt augnablik féll skuggi á milli Nostra og Búa því Nostri vildi halda áfram og vissi innra með sér að honum bæri að gera svo. Búi á hinn bóginn vildi ekki halda áfram og var heldur ekki tilbúinn. "Ég verð að bíða eftir konunni," sagði hann. "Hún yrði einmana. Ég bjóst alltaf við því að þeir myndu senda hana eftir mér einhvern tímann þegar hún yrði tilbúin og ég hefði komið hlutunum í lag. Húsið er tilbúið hvað okkur snertir en ég vildi gjarnan sýna henni það. Hún getur betrumbætt það býst ég við, gert það heimilislegra. Ég vona að henni líki dvölin hérna eins vel og mér".  

Búi snéri sér að fjárhirðinum. "Ert þú leiðsögumaður?", spurði hann. "Getur þú sagt mér hvað þessi staður heitir". "Veistu það ekki?" sagði maðurinn. "Þetta er Nostraland. Þetta er að stærstum hluta myndin hans Nostra, en hluti af því er núna garðurinn hans Búa. "Myndin hans Nostra" sagði Búi forviða. "Upphugsaðir þú þetta allt, Nostri? Ég vissi aldrei að þú værir svona sniðugur. Hvers vegna sagðir þú mér það aldrei?"  "Hann reyndi það fyrir löngu síðan," sagði maðurinn, "en þú vildir ekki hlusta. Þá hafði hann aðeins léreft og málningu sem þú vildir bæta þakið þitt með. Þetta er það sem þú og konan þín voru vön að kalla vitleysuna hans Nostra eða klúðrið". "En það leit ekki svona út þá, ekki svona raunverulegt," sagði Búi. "Nei, það var aðeins sýnishorn þá," sagði maðurinn, "en þú hefðir getað skynjað það, hefðirðu haft áhuga".  "Ég gaf þér ekki mörg tækifæri", sagði Nostri. "Ég reyndi aldrei að útskýra. Ég var vanur að kalla þig gömlu moldvörpuna. En hvaða máli skiptir það? Við höfum búið og starfað saman núna. Það hefði getað farið öðruvísi, en ekki betur. Hvað sem öllu líður er ég nú hræddur um að ég verði að halda áfram. Við hittumst aftur, býst ég við. Það er örugglega heilmargt eftir sem við getum unnið að í sameiningu. Vertu sæll". Hann tók hlýlega í höndina á Búa, styrk og heiðarleg hönd, fannst honum.  Hann leit um öxl stundarkorn.  

Laufskrúð Trésins geislaði líkt og það stæði í björtu báli. Fuglarnir flugu um loftið og sungu. Þá brosti hann, kinkaði kolli til Búa og gekk af stað í fylgd með fjárhirðinum. Hann ætlaði að fræðast um kindur, heiðlönd, líta víðari sjóndeildarhring, og ganga lengra og lengra í átt til fjallanna, alltaf upp í móti. Hvað varð af honum eftir það, get ég ekki gert mér í hugarlund. Jafnvel Nostri litli gat á gamla heimilinu sínu séð Fjöllin fyrir sér í fjarska. Þau voru í útjaðri myndar hans, en hverju þau eru í rauninni lík og hvað býður handan þeirra, vita þeir einir sem hafa klifið þau.                              

********************* 

"Mér fannst hann kjánalegur lítill náungi", sagði Tómas bæjarráðsmaður, "þjónaði engum tilgangi og var  algerlega gagnslaus í samfélaginu". "Ég veit nú ekki," sagði Albert, sem var enginn áhrifamaður, aðeins kennari. "Ég er ekki svo viss, það fer eftir því hvað þú átt við með tilgangi". "Hann var ekki virkur í framleiðslunni," sagði Tómas. "Það hefði ef til vill mátt gera eitthvað úr honum, ef þið kennararnir kynnuð til verka. En því er ekki þannig varið og þess vegna verða til menn á borð við hann. Ef ég héldi um stjórnartaumana myndi ég fá honum og hans líkum starf við hæfi, við diskaþvott í almenningseldhúsi eða eitthvað því um líkt og sjá til þess að þeir ynnu vel. Eða þá að koma þeim fyrir. Ég hefði átt að koma honum fyrir, fyrir löngu.

"Koma honum fyrir? Þú átt við, að flýta fyrir því að hann legði af stað í ferðina". "Já, ef þú villt endilega orða það þannig, ýta honum gegnum eilífðargöngin, það er það sem ég á við".  "Eru þá málverk einskis virði, ekki þess virði að geyma, bæta, eða nota á neinn hátt?" "Auðvitað hafa málverk sitt gildi", sagði Tómas. "En hans málverk höfðu ekkert gildi. Það er nóg til af verkefnum fyrir djarfa unga menn, sem ekki eru hræddir við nýjar hugmyndir og leiðir. En ekkert rúm fyrir gamaldags þrugl. Eigin dagdrauma. Hann hefði ekki getað útfært vegvísi þó líf hans hefði legið við. Alltaf að dútla við laufblöð og blóm. Hann sagði að þau væru falleg. Fattarðu?! Hann sagði falleg. Hvað?! Meltingar og ljóstillífunarlíffæri plantna, sagði ég og hann átti ekkert svar. Aumingja dútlarinn".  "Dútlari", stundi Albert. "Já aumingja litli maðurinn, hann lauk aldrei við neitt. Hvað um það, léreftin hans gera þó meira gagn eftir að hann fór. Þó er ég ekki alveg viss, Tómas. Manstu eftir þessari stóru, þessari sem notuð var til að bæta þakið á húsi nágranna hans eftir óveðrið og flóðin? Ég fann horn af henni sem hafði rifnað af og lá úti á blettinum. Það var skemmt, en þó vel skýrt, fjallstindur og laufskúrð. Það situr  fast í huga mér". "Situr fast í hverju?" sagði Tómas.  "Um hvern eruð þið að ræða?" sagði Pétur, sem greip inn í samtalið, til að stilla til friðar. Albert var orðinn rauður í andlitinu. "Það er ekki þess virði, að endurtaka það nafn", sagði Tómas. "Ég veit ekki einu sinni hvers vega við vorum yfir höfuð að tala um hann. Hann bjó ekki hér í bænum". "Nei," sagði Albert, "en þú hafðir að minnsta kosti augastað á húsinu hans. Þess vegna varstu vanur að heimsækja hann og ræða málin á meðan þú þáðir hjá honum te. Jæja, þú átt húsið hans núna og líka þitt gamla hér í bænum svo þú hefur varla ástæðu til að tala illa um hann. Við erum að tala um Nostra, ef þú hefur áhuga. "Ó, aumingja litla Nostra" sagði Pétur. "Ég vissi aldrei að hann málaði". Þetta var líklega í síðast sinn sem Nostri var nefndur á nafn í samræðum. En Albert varðveitti sérkennilega hornið. Það var mjög illa farið en eitt fallegt laufblað var þó heilt. Albert lét ramma það inn. Síðar gaf hann það listasafni bæjarins, og um langa hríð hékk "Laufblað eftir Nostra" þar undir súð og vakti athygli sumar. En um síðir brann safnið til grunna, og laufblaðið og Nostri, gleymdust endanlega í gamla landinu hans. 

 

--------------------------                                                                      

"Það hefur reynst mjög vel," sagði síðari röddin. "Til hvíldar og upplyftingar. Það er mjög gott til endurhæfingar og fyrir suma er það besta aðlögunin að fjöllunum. Það gerir kraftaverk í vissum tilvikum. Ég sendi þangað fleiri og fleiri. Þeir þurfa mjög sjaldan að snúa aftur". "Er það satt?" sagði fyrri röddin. "Ég held að við ættum þá að gefa því nafn. Hverju stingur þú uppá?" "Lestarþjónninn hefur gengið frá því", sagði síðari röddin. Í nokkurn tíma hefur hann hrópað; "lestin til Nostur-Búa hérna fyrir handan”.  Ég sendi skilaboð til þeirra beggja til að láta þá vita". "Hvað sögðu þeir?" "Þeir hlógu. Fjöllin ómuðu af hlátri".     

 


Munaðarlíffærið blöðruhálskirtill

Screenshot 2025-01-27 143915


Ynglingaätten i Sverige / Stofnfundur Íslandsdeildar

Stofnfundur Íslandsdeildar haldinn í Skógargerði 2. janúar 2025 samþykkti að vinna að þýðingu og leggja hana fyrir á næsta aðalfundi.

 

Sällskapet ”Ynglingaätten i Sverige” - Stadgar : 

  1. Sällskapets namn är ”Ynglingaätten i Sverige”.
  2. Sällskapets mål:a)Att vara forum för Ynglingaättens avkommor i Sverige och andra intresserade av ättens historia och framtid.b) Att göra ättens historia känd i Sverige. 

III.  Styrelseskick:

  1. a)Alla som kan framvisa en släkttavla med obruten blodlinje i direkt nerstigande led till UppsalakonungenYngvar den höge Eysteinsson (år 570 AD), kan bli medlemmar i sällskapet.  
  2. b)Medlem räknas den som lämnar in en skriftlig begäran om medlemskap samt släkttavla till sällskapetshögråd.  -- Sällskapets högråd granskar och godkänner eller underkänner släkttavlan/medlemskapet. Medlemsregistret bevaras av presidenten och är hemligt. Ingen medlemsavgift krävs. 
  3. c)Sällskapets förstapresident blir utropad på sällskapets första årsmöte den 17 juni 2006 vid Uppsala högar. Presidenten utnämner sällskapets första generalsekreterare och kassör. Tillsammans med presidenten bildar de sällskapets högråd. --- Sällskapets första högråd sitter i ämbete livet ut eller tills vederbörande abdikerar. Inga beslut eller uttalande i sällskapets namn räknas giltiga utan signatur från sällskapets president.  
  4. d)Vid behov röstar medlemmar fram ny president, generalsekreterare och kassör på sällskapets årsmöte den 17 juni varje år. Samtliga medlemmar har rätt till at kandidera till dessa ämbeten. Svenskt medborgarskap är dock nödvändigt för att kunna kanditera till president.  
  5. e)När en medlem av sällskapets först högråd dör eller abdikerar gäller följande regler: Samtliga röstberättigade medlemmar kan föreslå en ny kandidat till ämbetet. En kandidat måste vara över18 år. För kandidatur till president krävs svenskt medborgarskap. För att kandidera krävs att minst 10% av röstberättigade medlemmar stödjer kandidaturen. Om flera kandiderar blir det sluten omröstning på nästa årsmöte. Om ingen kandidat får mer än 50% av rösterna sker en slutgiltig omröstning mellan de två som har flest röster. Under tiden innan en ny president utses agerar generalsekreterare (i andra hand kassör) i presidentens namn. Dock får inga beslut om ändringar i sällskapets stadgar eller uttalande i sällskapets namn göras förrän en ny president röstats fram. 
  6. f) Sällskapets första president har rätt att revidera och ändra stagarna medan han/hon är i ämbete, dock krävs att hela högrådet samtycker för att ändringar ska träda i kraft.
  7. g) Efter första presidentens ämbetstid får inga ändringar göras i stadgarna om ej 75% röstberättigade medlemmar så kräver. Alla ändringar i stadgar efter första presidentens ämbetstid ska ha minst 75% av medlemmarnas stöd. Om ej 75% av röstberättigade medlemmar finns med på sällskapets årsmöte kan inga ändringar i stadgarna äga rum.

Flugumenn Evrópusambandsins

Innganga í Evrópusambandið er ávísun á útþurrkun Íslands sem sjálfstæðrar menningareiningar. Sumum finnst það í lagi. Finnst það í góðu lagi að Ísland verði bara verstöð fyrir vinnuafl alþjóðlegra auðhringa. Ég er ekki einn af þeim. Ég teysti ekki Samfylkingunni í þessu máli.

 

 


Alþjóðavæðing íslenskrar náttúru

Virkjanir til að reka heimili og atvinnulíf með sem minnstu kolefnisspori eru mér hjartans mál. Ég er þó á móti ónauðsynlegum virkjunum, sem skilja eftir ljót ör í náttúru landsins, bara til að virkja.  

Við þurfum ekki fleiri virkjanir sem hafa það eitt að markmiði að opna landið og hagkerfið enn frekar fyrir alþjóðlegum auðhringjum sem þurfa að flytja inn bæði hráefni og vinnuafl. Það eykur spennuna í hagkerfinu sem er næg fyrir. Við þurfum ekki fólksfjölgun sem er langt umfram eðlilega sjálfbæra fjölgun. 

Ef lífeyrissjóðakerfi framtíðar á að byggja þá því að stöðugt þurfi að flytja inn vinnuafl til að standa undir því, þá er það á villigötum. 

 

 

 


Nikótín - leið til að hætta

Nikó­tín er öfl­ugt eit­ur- og fíkni­efni sem ger­ir þig lík­am­lega háðan neysl­unni. Ný­leg­ar rann­sókn­ir sýna að nikó­tín örv­ar vöxt krabba­meins. Nikó­tín dreg­ur úr blóðflæði til háræða og stuðlar þannig að tann­losi og hrukku­mynd­un í húð og hækk­ar blóðþrýst­ing. Nikó­tín er eitt sterk­asta tauga­eit­ur sem þekk­ist, get­ur fram­kallað kvíða og hef­ur nei­kvæð áhrif á hjarta- og æðasjúk­dóma. 

Viltu hætta?

Flest­ir sem nota nikó­tín dag­lega vilja hætta því, en marg­ir gef­ast upp vegna frá­hvarf­s­ein­kenna. Áður en þú ferð að nota leiðbein­ing­ar til að hætta að nota nikó­tín ætt­irðu að láta reyna á það fyrst, ef þú hef­ur ekki þegar gert það, hvort þú þurf­ir yf­ir­leitt á nokkr­um leiðbein­ing­um að halda. Marg­ir ákveða ein­fald­lega að hætta og standa við það án telj­andi erfiðleika.

Sért þú hins veg­ar í þeim hópi sem geng­ur illa að hætta þá er gott að vita að hægt er að kenna fólki aðferðir til að búa sig und­ir það. Ef þú und­ir­býrð þig eft­ir því kerfi sem hér verður kynnt máttu vera viss um að átök­in og erfiðleik­arn­ir sem þú ótt­ast að fylgi því að sleppa nikó­tíni verða ekki   nánd­ar nærri eins mik­il og þú held­ur.

Byrjaðu strax í dag að mynda nikó­tín­laus svæði. Hættu al­farið að nota nikó­tín á þeim stöðum sem þú dvel­ur sem mest á.

Þegar þú hef­ur einu sinni ákveðið að til­tek­inn staður skuli vera nikó­tín­laus máttu ekki hvika frá því hvað sem á dyn­ur.

Ef þú ert á nikó­tín­lausu svæði og löng­un­in al­veg að sliga þig verðurðu annaðhvort að stand­ast löng­un­ina eða bregða þér út fyr­ir svæðið til að svala fíkn­inni.

Ef þú ger­ir sem flest svæði nikó­tín­laus sem fyrst máttu vera al­veg viss um að bar­átt­an við löng­un­ina verður mun auðveld­ari eft­ir að þú hætt­ir al­veg. Reynsl­an hef­ur sýnt að tveggja til þriggja vikna und­ir­bún­ings­tími er æski­leg­ur. Lengri und­ir­bún­ings­tími, þar sem nikó­tín­laus svæði eru mynduð með nokk­urra vikna eða jafn­vel mánaða fyr­ir­vara, gefst í mörg­um til­vik­um vel. Vara­samt get­ur þó verið að hafa und­ir­bún­ings­tím­ann of lang­an því botn­inn vill stund­um detta úr ef menn fresta því um of að hætta al­veg.

Þótt mark­miðið með mynd­un nikó­tín­lausra svæða sé fyrst og fremst það að rjúfa tengsl­in milli reyk­inga og um­hverf­is hef­ur þessi aðferð annað og ekki síður mik­il­vægt gildi fyr­ir þá sem eru mjög sólgn­ir í nikó­tín. Þeir sem mynda nikó­tín­laus svæði á þann hátt sem að fram­an er lýst draga að jafnaði tals­vert úr nikó­tínn­eyslu á und­ir­bún­ings­tím­an­um. Þetta ger­ist nokkuð sjálf­krafa, því fæst­ir nenna að leggja mikið á sig til að svala fíkn­inni nema þegar þörf­in verður mjög aðkallandi.

Mikl­ir nikó­tín­ist­ar sem draga veru­lega úr neyslu í nokkr­ar vik­ur áður en þeir hætta al­veg eru í mun minni hættu á að fá ýmis lík­am­leg frá­hvarf­s­ein­kenni.

H-dag­ur­inn

Áður en dag­ur­inn sem þú hef­ur valið til að hætta al­veg að nota nikó­tín renn­ur upp get­ur verið ráð að vera bú­inn að birgja sig vel upp af hjálp­ar­tækj­um:

Fáðu þér eitt­hvað sem þú get­ur sett upp í þig. Hægt er að kaupa mentólmunnúða í flest­um apó­tek­um. Sprautaðu upp í þig þegar þú finn­ur hjá þér löng­un í nikó­tín.

Syk­ur­laust bragðsterkt tyggjó sem hægt er að geyma und­ir vör­inni og hent­ar vel sem staðgeng­ill fyr­ir nikó­tín­púða og snus.

Lakk­rísrót sem fá má í sum­um heilsu­búðum. Lakk­rís­rót­in bragðast eins og dauf­ur apó­tek­aralakk­rís. Skolið rykið af rót­inni áður en þið farið að naga hana. Bæði lakk­rísrót og mentólmunnúði hafa þann kost að hægt er að nota þau að vild án þess að eiga á hættu að fitna.

Annað sem hægt er að styðjast við eru mentól­nefstifti og syk­ur­laus­ar bragðsterk­ar töfl­ur.

Ef þú drekk­ur mikið af vatni og hrein­um ávaxta- og græn­met­issafa flýt­ir það fyr­ir út­hreins­un nikó­tíns. Heitt vatn með cayenn­ep­ip­ar, engi­fer og sítr­ónu hef­ur líka góð áhrif.

Sam­an­tekt

* Búðu þig und­ir að hætta með því að mynda nikó­tín­laus svæði sem fyrst.

* Veldu þér H-dag. Þann dag ætl­ar þú að hætta.

* Ef þér finnst þú ekki vera til­bú­inn þegar dag­ur­inn  renn­ur upp skaltu bara hætta við fyrsta tæki­færi

   þegar þú finn­ur að þú ert til­bú­inn.

* Náðu í „hjálp­ar­tæki“ til að hafa í staðinn fyr­ir nikó­tínið eft­ir að þú hætt­ir að nota það.

* Hjá Heilsu­veru, s. 1700, vinna sér­fræðing­ar sem geta aðstoðað þig við að hætta að nota nikó­tín.

Höf­und­ur er doktor í lækna­vís­ind­um, dós­ent í sál­fræði við Há­skól­ann í Reykja­vík og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu þar sem hann þróaði og stýrði námskeiðum í reykbindindi á árunum 1984-90 

 

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu mánudaginn, 23. september 2024


Ég þrífst best á opnum engjum

 

https://www.facebook.com/watch/?ref=search&v=422799788401637&external_log_id=dad44ee0-245b-4933-baa3-bcb301b1fe9b&q=gle%C3%B0isveitin%20pl%C3%BAs

 

Það var gaman að þýða þennan texta eftir Ulf Lundell, sem samdi líka lagið.

Jag trivs bäst i öppna landskap

Gleðisveitin Plús.

Fluttningurinn er góður hjá þeim.

Frábært lag.

Leggið við hlustir:


Sorg barna - ábirgð heilsugæslu og dánarvottorð

Nýjar lagagreinar tóku gildi nýlega þar sem réttindi barna sem missa foreldri og ábirgð samfélagsins gagnvart þessum börnum, eru betur skilgreind. Í nýju lagagreinunum er heilsugæslan skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna sem missa foreldri. Læknir sem skrifar dánarvottorð einstaklings, sem er foreldri barns undir 18. ára, er samkvæmt lögunum skyldugur til að tilkynna þeirri heilsugæslu þar sem barnið er skráð, að foreldri barns á þjónustusvæði hennar hafi nýlega látist. Heilsugæslustöðin er þar með skyldug til að athuga hagi barnsins og veita þann stuðning sem þörf er á. 

Því miður eru þessi lög ekki að virka. Það sem vantar er að læknir sem skrifar út dánarvottorð hafi aðgang að upplýsingum um börn viðkomandi og hvar þau eru skráð. Þetta er mikilvægur þröskuldur sem þarf að komast yfir til þess að lögin nái markmiðum sínum. 


Þegar foreldri deyr

 

Þegar foreldri deyr þurfa börn langvarandi stuðning.
 
Miðlægt ráðgjafar og stuðningsteymi er til staðar innan vébanda Krabbameinsfélagsins þar sem starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar. Ráðgjöfin fer aðallega fram í gegnum síma 8004040 og fjarviðtöl.
 
mynd-bergrun-iris
 
Með faglegu stuðningsneti barna er átt við kennara, skólahjúkrunarfræðinga, æskulýðsfulltrúa, presta, félagsráðgjafa, sálfræðinga og aðra fagaðila sem mæta börnunum og aðstandendum þeirra í samfélagslegu samhengi. Leiðbeiningar varðandi stuðning við börn í sorg eru á vefsíðunni https://www.krabb.is/born   
 
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir asgeir@krabb.is

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband