Færsluflokkur: Menning og listir
18.5.2007 | 21:37
Bardaginn – jólasaga úr Reykjavík
Fæðingahríðar jólanna voru hafnar. Í kirkjum landsins sitja hvítir kollar og syngja sálma með skærum titrandi röddum. Berir hvirflar með gráum krögum stara þögulir og samanbitnir á miðaldra mann í kjól sem getur ekki gert upp við sig hvenær hann hættir að tóna og byrjar að tala. Fyrsta aðventukertið flöktir á altarinu. Jóhann nemur staðar á gangstétt og horfir inn um skítugan glugga á fábrotnum þrifalegum matsölustað í útjaðri miðborgar Reykjavíkur. Hann rennir augunum yfir salinn sem er hálf fullur af gömlum miðaldra karlmönnum, sem sitja einir við fjögurra manna borð og sötra kaffi eða maula jólaköku. Hér hafði hann staðið, í sömu sporum fyrir rétt tæpu ári. Á jóladag:
Þann dag voru gluggarnir gljáfægðir og hreinir. Á borðunum voru snyrtilegir dúkar og lítið kerti í skál á hverju borði. Um það bil helmingur borðanna var upptekinn og við flest þeirra sat einn eldri karlmaður í snyrtilegum fötum með bindi eða þverslaufu. Hann fann óvenju sterkt fyrir einmannakenndinni þetta kvöld.
Honum varð starsýnt á einn mann öðrum fremur. Ef til vill vegna þess að hann var dálítið líkur móðurafa hans. Annars var ekkert sérstakt við hann þar sem hann sat einn og sötraði kaffið sitt. Það var eins og hann hefði gleymt heiminum. Eða ef til vill var honum hætt að finnast nokkuð til hans koma. Hann sat hreyfingarlaus og horfði á flöktandi kertið sem ósaði í dauðateygjunum meðan bílarnir þutu framhjá glugganum og hurfu út í tómið eins og jörðin. Þegar kertið dó stóð gamli maðurinn upp. Hann tók frakkann sinn úr fatahenginu, setti upp höfuðfatið, smeygði sér í skóhlífar með mannbroddum og rölti einn út í jólamyrkrið. Jóhann gekk í humátt á eftir honum. Þeir gengu um stund framhjá lokuðum verslunum og blikkandi ljósum. Að lokum beygði gamli maðurinn út af verslunargötunni. Hann gekk hægum skrefum, upp brattan mannlausan stíg, framhjá uppljómuðum húsum sem ilmuðu af jólaboðum.Það setti að Jóhanni hroll. Var þetta hann sjálfur eftir þrjá áratugi? Er þetta hann sem nemur staðar við gamalt þríbýlishús, sem gengur hægum skrefum upp hálar tröppurnar, seilist ofan í vasann og dregur upp slitinn lykil. Er þetta hans hönd sem titrar aðeins þegar hann stingur lyklinum í skráargatið. Það marrar í hurðinni þegar hann lýkur upp. Hann hverfur inn um gættina og lokar jólin úti í nóttinni. Þarna inni getur hann falið vonir sínar og þrár. Grátið ef honum sýnist svo án þess að eiga það á hættu að heimurinn spotti hann.
Á morgun gengur hann sömu leið til baka þar til hann kemur að matsölustaðnum þar sem borðið hans bíður enn. Fjögurra manna borð, fyrir einn.
Jóhann rankar við sér fyrir framan skítugan gluggann og lítur á klukkuna. Einmannakendin sem minningarnar helltu yfir hann gufar upp þegar hann hugsar um Stínu. Hann er að verða of seinn á stefnumótið. Hann snýst á hæl og gengur eins hratt og fæturnir geta borið hann. Burt frá þessum stað þar sem einsemdin býr.
Jóhann gengur inn í kaffihúsið í verslunarhöllinni þar sem hann hefur mælt sér mót við Stínu og sest við borð sem er laust lengst inní horni. Þennan fyrsta sunnudag í aðventu er musteri verslunarinnarinnar yfirfullt af fólki á öllum aldri sem þýtur fram og aftur, út og inn með sprengfulla innkaupapoka í báðum höndum. Jóhann lítur á klukkuna. Hún er á slaginu korter yfir fimm en ekkert bólar á Stínu. Hún kemur rúmlega hálf sex.
- Það var erfitt að losna úr vinnunni. Það er eins og þeir haldi að hjúkrunarfræðingar eigi ekkert einkalíf.
Alltaf nýjar afsakanir.
- Það er svo mikið að gera á deildinni að ég er alveg að krebera og svo hef ég verið svo irriteruð útí mömmu uppá síðkastið.
Hún hlammar sér niður á stólinn og stynur. Jóhanni finnst hún fráhrindandi og ósexí þegar þessi gállinn er á henni.
- Mamma keyrir algerlega yfir mig. Gengur meira að segja svo langt að svara spurningum sem aðrir beina til mín og talar framhjá mér eins og ég sé bæði mállaus og heyrnarlaus.
Stína lætur dæluna ganga og gefur sér varla tíma til að anda á milli setninganna. Hann veit varla lengur útá hvað samband þeirra gengur. Stundum finnst honum hún nota sig eins og skriftaföður eða sálfræðing. Hann hafði hrifist af ákafa hennar og eggjandi líkama. En nú finnst honum eins og þessi sami ákafi sé að eyðileggja sambandið.
Hún er rúmlega þrítug, lágvaxin og grannholda með sítt kastaníubrúnt hár, dökkbrún augu og fallegt andlit. Einstæð móðir með tveggja ára gamla dóttur og í stöðugum fjárhagskröggum. Sjálfur er hann nokkur ár um fertugt, viðskiptafræðingur, meðalmaður á hæð, smáfríður og húðin slétt. Ljósblá augun eru vökul og tær og skollitað hárið þykkt og lifandi. Hann er örlítið framsettur en annars frekar grannholda, miðað við aldur. Flestir vinir hans úr menntó eru komnir með vömb, og margir meira eða minna grásprengdir og sköllóttir. Hann var ánægður með eigið útlit. Eiginlega finnst honum hann líta betur út núna miðað við hina strákana en hann hafði gert á menntaskólaárunum. Jóhann gat borist á ef hann vildi, en var kirfilega fastur undir hælnum á kröfuhörðum lánadrottni. Átti í raun ekki bót fyrir rassgatið ef hann yrði gerður upp í dag. Stína vissi ekkert um það. Enginn hafði innsýn í stöðu fyrirtækisins nema hann og hans lánadrottinn. Ekki einu sinni eiginkonan. Hún lét sig slíkt heldur engu varða meðan peningarnir héldu áfram að rúlla inn í daglegan rekstur.
Hjónabandið hafði verið slæmt undanfarin ár. Ekki bætti það úr skák að konan var fyrir löngu hætt að hafa áhuga á kynlífi. Hann var ófullnægður í hjónabandinu og þurfti líkamlega nálægð. Stína þurfti félaga og fjárhagslegan stuðning til að njóta lífsins. Honum hafði fundist þau eins og sköpuð hvort fyrir annað. Allt hafði byrjað sem einnar nætur gaman eftir veislu hjá sameiginlegum kunningja. Hún átti frumkvæðið þá nótt en það var hann sem hafði haft samband seinna. Hún kom inn í líf hans eins og ferskur andblær. Hann jós í hana gjöfum og gullhömrum. Hún vissi að hann var giftur en henni stóð á sama. Hún vildi bara njóta lífsins með honum. Sagði frá upphafi að það þyrfti ekki að verða neitt meira. Hann væri hvort eð er of gamall fyrir sig.
Kynlíf var mikilvægt fyrir Stínu. Hann hafði aldrei verið með konu sem var jafn áköf og óheft í kynlífi. Það kitlaði karlmennsku hans. Honum fannst að þau hefðu komist að samkomulagi án þess að segja það beint út. Að samband þeirra væri byggt á gagnkvæmum nautnum og hefði ekkert með ást að gera. Það var fullkomin lausn fyrir hann, þá. En í dag? Hann vissi ekki hvort hann vildi halda henni eða sleppa. Hann varð alvarlega smeykur um daginn þegar hún kom því til skila að hún elskaði hann. Skrifað það á blað sem lá á borðinu fyrir framan hann. Hann lét sem hann sæi ekki hvað stóð á blaðinu en hann vissi, að hún vissi, að hann vissi. En hann hafði hreinan skjöld. Hafði aldrei sagt að samband þeirra gæti orðið meira en nautnasamband. Hann vildi ekki sundra fjölskyldunni þrátt fyrir allt. Hann þjáðist af stöðugu samviskubiti vegna konunnar, en lét sig reka með straumnum. Þau höfðu verið saman lengi og konan í mörg ár verið eina mannveran sem hann gat trúað fyrir erfiðum tilfinningum. Hann gæti aldrei lifað með konu eins og Stínu. Aldrei treyst henni á erfiðum stundum. Aldrei viðurkennt fyrir henni að hann væri lítill og hræddur. Honum fannst kynlífssamband þeirra byggjast á því að hann væri ósigranlegur alfa api. Að ef hann sýndi veikleika yrði hún fráhverf honum og fynndi sér nýjan drottnara.
- Veistu, ég hef ekki ennþá sagt mömmu frá okkur þó við séum búin að vera saman í hálft ár. Áður sagði ég henni allt, það var einhvern veginn svo sjálfsagt. En ekki núna. Ef hún vissi um okkur væri hún vís með að vilja bjóða þér í mat og áður en þú vissir af væri hún farin að skipuleggja brúðkaup. Asnalegt orð, brúðkaup. Ég meinaða, að kaupa sér brúðu. Eins og að kaupa sér mellu.
Stína hló. Jóhann hló ekki. Honum leið ekki vel. Þetta samband við Stínu var komið í óefni. En hann gat ekki hugsað sér að lifa án kynlífs og Stína gaf honum það sem konan hans gat ekki, eða vildi ekki gefa honum. Hann var fastur í öngstræti þar sem hvatirnar ýttu honum lengra og lengra inn í ógöngur og hann fann enga leið út hvernig sem hann reyndi.
- Komum heim til mín, stelpan er hjá mömmu. Ég sagði henni að ég þyrfti að taka aukavakt í kvöld, svo hún sefur þar í nótt.Jóhann fann að hann vildi sjá sjálfan sig standa upp og segja nei Stína, þetta er búið. En það var vika síðan þau höfðu átt kvöld saman og hann þráði ekkert jafn heitt einmitt núna og að taka Stínu á eldhúsborðinu.
Hálftíma síðar situr hann við eldhúsborðið og maular kex. Hann reynir að láta á engu bera. Hún hefði vel geta sagt honum að hún væri á túr þegar hann hringdi í hana í vinnuna fyrr um daginn. Hún stoppaði hann þegar hann reyndi að leggja hana á borðið. Hann sagði að það skipti engu máli þó hún væri á túr, en hún vildi ekki. Sagði að hún vildi bara hafa hann hjá sér í kvöld og tala um ÞAU.
Hann vill síst af öllu tala um ÞAU. En hvað getur hann gert? Hann getur ekki bara staðið á fætur og sagt því miður ef ég fæ ekki drátt er ég farinn. Hann langar að segja það en það er ekki taktiskt rétt.
Hann gerir örvæntingafulla tilraun til að beina kvöldinu í annan farveg. Stingur uppá að leigja mynd. En það er ekki við það komandi. Hún vill bara tala um ÞAU. Hún talar um ÞAU í fjóra klukkutíma. Hann þykist hlusta, en hugurinn er á allt öðrum stað.
Þegar hann kemur heim um kvöldið reynir hann í fyrsta skipti í langan tíma að fá konuna til við sig. Það er eins og að ganga á vegg. Hún hefði að minnsta kosti geta logið því til að hún væri með hausverk eða að jólastressið hefði gert hana náttúrulausa. Hann þolir illa að fá þvert nei eins og hann sé holdsveikur. Það er þessi stöðuga höfnun sem hann á erfiðast með að sætta sig við.
_______________
Jóhann situr í litlu kytrunni sinni og rýnir inn í tölvuna. Hann hefur hólfað af innsta hlutann af geymsluloftinu með spónaplötum og sett í einfalda hurð sem hann læsir með hengilás að utan og hespu að innanverðunni. Hingað upp kemur aldrei nokkur sála en honum finnst tryggara að geta lokað að sér. Hér geymir hann handrit að ýmsu sem hann er að dunda sér við að skrifa þegar tóm gefst. Hér fær hann að vera í friði. Herbergið er lítið, varla meira en sex fermetrar og að mestu undir súð. Lítill opnanlegur gluggi er á gaflinum og undir honum stendur gamla ljósbrúna tekk skrifborðið sem amma hans og afi gáfu honum þegar hann byrjaði í gagnfræðaskóla. Á skrifborðinu stendur nýleg tölva og prentari. Gamall hvítur skrifborðslampi situr fastskrúfaður á borðplötuna. Við skrifborðið stendur skrifborðsstóll með dökkbláu áklæði. Á gólfinu er rjómagulur gólfdúkur úr plasti. Undir annarri súðinni á gamla slitna græna svefnbeddanum hans liggja tveir rauðir koddar og brúnt ullarteppi. Í rúmfatageymslunni geymir hann gömlu Andrésblöðin sem hann hafði safnað þegar hann var barn. Í horninu þar sem höfuðgafl beddans og skrifborðið mættast stendur gamla ljósbrúna tekk náttborðið hans og á því grár leslampi. Spónaplöturnar eru ómálaðar. Hér er allt sem hann þarf. Engir óþarfa skrautmunir eru í herberginu ef frá er talin upplituð mynd sem hangir á veggnum hægra megin við dyrnar. Myndin er af gömlum manni í slitnum vinnufötum með gráa ullarhúfu. Hann situr hokinn á fornfálegri rauðri dráttavél. Landslagið í kring er eyðilegt og hrjóstrugt. Það lítur út fyrir að vera sumar en það er snjór í fjöllum. Engin mannvirki eru sjáanleg. Ef vandlega er rýnt í myndina má greina það sem stendur handskrifað neðst í hægra horni myndarinnar:
- Jói minn, hér er mynd af dráttavélinni sem ég keypti í sumar. Gleðileg jól: Pabbi.-
_______________
Jóhann Gunnarsson er að glíma við að berja saman æviminningabrot. Eftir að mamma þeirra dó, þegar hann var tæplega fimm ára, höfðu hann og Halldór bróðir hans að mestu búið hjá móðurforeldrum þeirra í litla-Skerjafirði norðan við gamla flugvöllinn í Reykjavík.
Pabbi þeirra var farandverkamaður og flutti milli staða þar sem vinnu var að fá. Það var ekkert líf fyrir börn svo móðurforeldrar hans höfðu farið fram á það við pabba þeirra að þeir flyttu til þeirra. Það var auðsótt mál. Minningarnar úr Skerjafirðinum voru því bæði ljúfar og leiðar og hann fann hugarró í að setja þær á blað:
_______________
Maggi taldi prumpana. Fjórir, fimm, sex. Hann gretti sig ógurlega til að fá út einn til. Allt í einu spratt hann upp og augun stóðu á stilkum.
- Djöfull, það kom skítur!
Jói horfði hugfanginn á hetjuna leika listir sínar á skúrþakinu í njólamóanum vestanvið litla-Skerjó, milli húsaþyrpingarinnar og fjörunnar.
- Kúkaðirðu í buxurnar? Spurði Jói og gapti.
- Þegiðu asninn þinn. Ég lem þig ef þú kjaftar frá. Hann hoppaði fimlega niður af þakinu, lenti á fótunum og hljóp heim eins og eldibrandur.
Jói sat einn eftir á þakinu. Ryðgað bárujárnið var heitt í ágústsólinni. Innan um riðið mátti sjá skellur af rauðum lit sem einu sinni hafði þakið bárujárnið á þessari stoltu byggingu. Kastalanum hans Magga.
Eiginlega hafði þetta verið kastalinn hans Runka, sem verið hafði besti vinur Magga. En þegar Runki valdi nýja strákinn fram yfir hann varð Maggi reiður og niðurlægður. Hann ákvað að hefna sín. Maggi hafði komið til Jóa snemma um morguninn og spurt eftir honum.
Þegar strákur eins og Maggi spyr viltu vera memm, er ekki hægt að segja nei. Jafnvel þó það þýði að sleppa því að fara í bíó með Dóra stóra bróður og sjá nýjustu Tarzan myndina.
Maggi var þjóðsagnapersóna í hverfinu. Einn af þeim sem gat allt. Pabbi hans var flugmaður og flaug til útlanda. Í hverri ferð kom hann heim með útlenskt dót. Maggi átti svo mikið af flottu dóti að það var eins og að koma til Himnaríkis að vera heima hjá Magga. Það var heiður sem Jóa hafði bara einu sinni hlotnast. Þau voru líka með ameríska hersjónvarpið. Maggi var eins og alfræðiorðabók um amerískar ofurhetjur sem þeystu um slétturnar á hestum og björguðu fallegum stelpum frá vondum indjánum, eða urðu fyrir geislun og breyttust í græna risa í rifnum stuttbuxum. Maggi var líka tveim árum eldri en Jói og átti að byrja í sjöárabekk um haustið. Að Maggi skyldi banka uppá og spyrja Jóa hvort hann vildi vera memm var mesta upphefð sem Jóa hafði hlotnast á hans fimm ára stuttu ævi.
Það var sunnudagsmorgun og enginn kominn út. Maggi sagði Jóa að þeir yrðu að vera snemma á ferðinni til að hertaka kastalann áður en Runki vaknaði. Að dómi Magga var Runki svikari sem gengið hafði í lið með helvítis holtara. Það var algerlega óþolandi. Það hafði aldrei gerst fyrr í sögunni að holtarafjölskylda hafði flutt í litla-Skerjó. Holtarar voru pakk og stór hættulegir. Krakkarnir í Skerjó höfðu svo lengi sem elstu börn mundu háð grimmar orrustur við holtarana. Oftast börðust liðin um gamalt steinhús, Möngó, sem var komið í eyði og stóð á eyðilegri klettahæð sem skildi að litla-Skerjó og Holtin.
Þegar Stebbi flutti í litla-Skerjó um vorið hafði hann ekki þorað að segja neinum að þau hefðu búið í Holtunum. Holtarar voru skíthræddir við skerfirðinga. Voru vissir um að þeir væru allir sadistar sem hengdu fólk upp á fótunum og píndi það á kvalarfullan hátt. Stebbi hafði bara búið nokkrar vikur í Holtunum. Samt nógu lengi til þess vita að hinumegin við Möngó bjó hættulegasti kynþáttur á jörðinni. Hann hafði aldrei tekið þátt í neinum bardaga. Þess vegna þekkti enginn í litla-Skerjó Stebba þegar hann flutti í Garð, gamla stóra steinhúsið við Reykjavíkurveg. Hann kom frá Bíldudal sem var einhversstaðar útá landi. Stebbi var snillingur í fótbolta. Betri en Maggi. Þó enginn þyrði að segja það upphátt svo Maggi heyrði. Stebbi hafði spilað með yngsta flokk í fótboltaliðinu á Bíldudal og kallaði sig Bílddæling. Hvers konar nafn var það? Maggi hafði verið fljótur að snúa útúr nafninu.
- Hvað segir bílaælupestin? Pabbi drepur þig ef þú ælir á nýja bílinn hans.Ha, ha, ha...! Maggi hló alltaf að eigin fyndni. En hann var sá eini sem hló þegar hann gerði grín að Stebba. Líka þegar Magga tókst að grafa upp að pabbi Stebba hét Ljótur.
- Þetta er nú ljóta ælupestin. Hvein í Magga þegar hann var búinn að tilkynna öllum í hverfinu uppgötvun sína. Einhver hló lágt af hlýðni við Magga en brandarinn féll að mestu flatur. Það óhugsandi hafði gerst. Maggi hafði fallið í skuggann af Stebba. Meira að segja Runki spurði oftar eftir Stebba en Magga. Þó Maggi væri bæði reiður og sár var hann algerlega ráðalaus. Hann hafði alltaf verið númer eitt í hverfinu í sínum aldurshóp, en nú var hann allt í einu númer tvö. Fyrir tæpri viku kom lausnin á silfurfati. Maggi hafði heyrt pabba sinn spyrja pabba Stebba hvar þau hefðu búið áður. Hann trúði varla sínum eigin eyrum. Þau höfðu flutt til Reykjavíkur frá Bíldudal en meðan þau voru að leita sér að húsnæði bjuggu þau hjá frænku hans á Fálkagötunni.
- Djöfull maður! Maggi náð varla andanum. Stebbi var þá helvítis holtari. Nú var hann viss um að allir myndu snúa við Stebba bakinu. Vonbrigðin voru því gífurleg þegar Runki bara hristi hausinn. Honum var alveg sama þó Stebbi hefði búið hjá frænku sinni í holtunum. Hann var frá Bíldudal og það reiknaðist ekki sem holtari þó maður ætti gamla frænku sem bjó þar. Hann var ekki einu sinni viss um að þeir sem byggju á Fálkagötu væru alvöru holtarar. Í sannleika sagt hafði Runki ekki hugmynd um hvar Fálkagata var, eða hvar holtin enduðu og byrjuðu. Maggi fylltist heilögu hatri. Hann skyldi hefna sín á Runka og Stebba. Allir sem voru vinir þeirra voru óvinir hans. Það var bara verst að nánast allir í hverfinu voru vinir Runka og Stebba. Hann mundi ekki eftir neinum strák sem ekki var í þessu djöfuls fótboltaliði sem Stebbi stofnaði um sumarið. Eftir að fótboltaliðið var stofnað hafði enginn lengur áhuga á Möngó. Holtararnir fengu að vaða þar uppi og halda þar til eins mikið og þeir vildu. Þetta voru verstu ættjarðarsvik í sögu litla-Skerjó. Ef Atli, stóri bróðir Magga hefði ekki verið í sveitinni hefði hann drepið Stebba. Atli hafði alltaf verið foringi í bardagaliði skerfirðinga. En núna var hann og allir hinir stóru strákarnir í sveit og þá hafði Maggi tekið yfir leiðtogahlutverkið. Að minnsta kosti í byrjun. Hann hafði haft stórar hugmyndir um að hertaka Möngó og skora á holtarana að reyna að taka það aftur. Maggi ætlaði að sanna það að hann gæfi Atla ekkert eftir sem hershöfðingi skerfirðinga. Þá þurfti þessi djöfuls Stebbi að flytja hingað og eyðileggja allt. Hann og þessi hallærislegi pabbi hans sem þóttist vera þjálfari fyrir fótboltaliðið. Hann var bara aumur leigubílstjóri sem fékk borguð skíta laun fyrir að keyra skitinn bíl meðan pabbi Magga fékk helling af pening fyrir að fljúga með fólk til útlanda. Það var ábyrgðamikið starf. Maggi var stoltur í hvert sinn sem hann sá pabba sinn í bláa einkennisbúningnum með gyltu hnöppunum. Auðvitað hafði hann ekki tíma til hanga með strákaliði í fótboltaleikjum allar helgar. Nei, Maggi var ekki í neinum vafa um að pabbi hans væri miklu merkilegri maður en pabbi Stebba. En samt var eins og strákarnir héldu að pabbi Stebba væri einhverskonar guð.
- OK, þjálfari! Já, þjálfari!
Djöfuls leigubílstjóra bíl-ælingur! Hann hataði þá báða, Stebba og pabba hans. Helvítis holtarar og ælupúkar.
- Ég get kannski fengið með mér strákana sem búa hjá ömmu sinni og afa? Allavega þennan litla? Maggi fylltist aftur eldmóði við þessa hugmynd. Þeir höfðu að vísu ekki búið nógu lengi í hverfinu til að geta kallað sig alvöru skerfirðinga en þeir voru allavega ekki holtarar og þeir voru ekki með í fótboltaliðinu. Hann hafði einu sinni boðið þeim heim til að horfa á GunSmoke í kanasjónvarpinu. Jói, þessi litli, hafði komið með. Dóri bróðir hans hafði bara verið með stæla. Sagt að hann hefði engan áhuga á kanasjónvarpi. Afi hans væri á móti hernum. Magga hafði langað til að berja hann en Dóri var rúmum þrem árum eldri en hann og miklu stærri. Atli hefði ábyggilega ráðið við hann, hugsaði hann. Maggi var of lífsreyndur í slagsmálum til að skora einhvern á hólm sem hann var ekki búinn að prófa áður í gamni slag. Jói var bara fimm ára og algjör auli. En Maggi varð að hafa einhvern með sér. Það var of niður lægjandi að vera einn. Jói varð að duga.Þeir vörðu kastalann með trésverðum, skjöldum, njólum og reyksprengjum. Maggi hafði þurrkað heilan haug af mold í bakaraofninum heima hjá sér. Mold sem þeir köstuðu í óvinina til að svæla þá burt. Það voru fjórir í óvinaliðinu en Jói og Maggi höfðu betur. Það var auðvita Magga að þakka. Hann þaut eins og píla milli þakbrúnanna og sló á skildi og hausa óvinana þegar þeir reyndu að komast uppá þakið. Eiginlega voru reglur um að ekki mætti slá í hausinn með trésverði. Bara með njóla. Þessar reglur giltu í innbyrðis slagsmálum. Ekki þegar barist var við holtara. Þá var allt leyfilegt. Stebbi var holtari að mati Magga og þeir sem voru með honum voru svikarar. Því giltu engar venjulegar siðareglur í þessum bardaga. Stebbi var fyrstur til að falla í valinn. Hann hafði náð í stóran trékassa til að standa á og var kominn hálfur uppá þakið á skúrnum. Maggi hljóp til og sló til hans með trésverðinu. Stebbi bar af sér höggið. Jói kom hlaupandi með reitt sverðið og sló af öllu afli beint í höfuðið á Stebba. Blóðið fossaði úr sári fyrir ofan vinstri augabrúnina svo Stebbi blindaðist og datt aftur fyrir sig. Hann var heppinn að það var mjúkt gras undir svo hann meiddi sig ekki mikið þegar hann lenti á bakinu. Það blæddi svo mikið úr sárinu að Stebbi neyddist til að fara heim til að fá plástur. Á meðan reyndi Runki að byggja stiga úr trékassanum og gamalli tunnu. Binni og Jenni héldu uppi linnulausri skothríð á Magga og Jóa með torfbitum og njólum sem þeir rifu lausa. Runki reyndi að komast uppá þakið en Maggi tók út tippið og meig yfir hann. Runki hljóp organdi heim. Þá brast flótti í óvinaliðið og Binni og Jenni hlupu á eftir Runka.
Jói sat nú einn eftir á þaki kastalanns. Hann varð allt í einu hræddur. Hvað myndi gerast ef Stebbi og Runki kæmu aftur og fyndu hann hér einan og varnarlausan. Það var jú hann sem hafði slegið Stebba blóðugan. Hann sá að Maggi hafði gleymt eldspýtunum sem hann hafði verið með í vasanum. Þeir höfðu reykt þurran njóla um morguninn. Maggi kallaði það stríðspípu. Jóa fannst ógeðslegt að fá reykinn uppí sig en þorði ekki annað en að gera eins og Maggi sagði.
Jói stakk eldspýtunum í vasann. Hann flýtti sér að klifra niður af skúrþakinu og hljóp heim til ömmu. Dóri var ekki kominn heim úr bíó. Jóa fannst hann hafa upplifað stærsta ævintýri ævinnar og sá ekkert eftir að hafa ekki farið í bíó. Hann var glaður yfir að hafa tekið þátt í þessum bardaga. Stoltur yfir að hafa sigrað. En hann þorði ekki út. Var viss um að óvinirnir myndu taka hann og lemja. Kannski yrði hann drepinn? Hann var skíthræddur! Þegar Dóri kom heim sagði Jói honum alla söguna. Hann hélt að Dóri yrði hrifinn og stoltur af að eiga svona hugaðan lítinn bróður. En Dóri bara horfði á hann og kallaði hann hálfvita sem léti nota sig eins og hirðfífl. Jói vissi vel hvað hirðfífl var. Hann var reiður og sár útí Dóra en um leið þakklátur fyrir að eiga svona stóran bróður. Nokkrum vikum síðar flutti fjölskylda Stebba úr hverfinu en valdajafnvægið varð aldrei það sama og áður. Maggi varð aldrei aftur konungur í litla-Skerjó. Það er ég sem er Jói. Það síðasta sem ég veit um Magga var að hann flutti út á land og opnaði vélaverkstæði. Af Stebba hef ég ekkert frétt síðan þennan örlagaríka dag þegar ég missti sakleysið.
Jóhann hallaði sér afturábak í stólnum og renndi augunum yfir það sem hann hafði skrifað. Var bara nokkuð ánægður með það. Hann horfði útum gluggaboruna á kytrunni og virti fyrir sér nýfallinn snjóinn á grenitrénu með litlu bláu ljósunum sem litu út eins og stjörnuhiminn í jólamyrkrinu. Kyrrðin var rofin af háværum hrópum og barsmíðum.
- Jói! Jói!! Jói!!! Bank, bank, bank.
Hann hataði þegar hún barði með kústskaftinu í loftið til að ná athygli hans. Hann langaði til að trampa með fótunum í gólfið en lét það vera. Af tvennu illu var betra að lúffa og sleppa við orgið og grátinn sem vanalega fylgdu í kjölfarið þegar hann lét hart mæta hörðu. Það var ekki þess virði. Hann vistaði skjalið, stóð upp frá tölvunni, tróð gulum eyrnatöppum í eyrun og gekk niður í ormagryfjuna.
- Jói, Reyndu nú að hjálpa eitthvað til. Geturðu ekki farið og náð í gosið út í bílskúr, jólin byrja eftir tæpan klukkutíma. Mamma fer alveg að koma. Af hverju þarftu alltaf að skera helminginn af kartöflunum þegar þú flysjar, það er aldrei hægt að biðja þig um neitt í eldhúsinu. Ertu búinn að setja pakkana undir jólatréð?
Jóhann heyrði ekki mikið af þessari ræðu, hann var þegar kominn út í bílskúr. Hann tók eyrnatappana úr eyrunum, setti þá í öskju og stakk þeim í vasann. Hann langaði mest til að setjast upp í bílinn og keyra af stað. Til Stínu, eða bara eitthvað út í buskann.
Þetta gat bara farið á einn veg. Þau yrðu að skilja. Hann hafði þó ákveðið að bíða fram yfir hátíðirnar með að taka málið upp. En einmitt núna langaði hann mest af öllu að ljúka þessu af nú þegar. Hann hefði átt að vera búinn að taka þetta skref fyrir löngu. Hann óttaðist einsemdina.
Hann fann reiðina sjóða í sér en á sama tíma þjáðist hann ennþá af þessu lamandi samviskubiti. Konan hafði þrátt fyrir allt verið hans eini trúnaðarvinur í mörg ár og borið bæði börnin hans. En það var ekki eins og hún hefði ekki fengið neitt fyrir sinn snúð. Þetta voru fjandakornið hennar börnin líka. Hann hafði verið aðal fyrirvinna heimilisins bæði áður og eftir að börnin fæddust. En hann gat ekki horft framhjá því að hún hafði gengið með börnin, haft þau á brjósti og séð að mestu um þau meðan þau voru kornabörn. Hann tók stöðugt meiri þátt í umönnun barnanna því eldri sem þau urðu og það var hún sem heimtaði að þau flyttu í einbýlishús. Hann hafði verið ágætlega ánægður í raðhúsinu. Einhverstaðar frá urðu peningarnir að koma svo hann neyddist til að vinna meira. Miklu meira en hann hafði haft þrek til. Hann gerði sér grein fyrir því núna þegar það var orðið of seint. Nei, hann þurfti sko ekki að þjást af neinu fjandans samviskubiti. Þetta voru bara eðlileg vöruskipti. Ef kynlífið hefði verið í lagi hefði hann kannski haldið þetta út. Hann sparkaði í dekkjahauginn á gólfinu og bölvaði þegar hann meiddi sig í fætinum. Hann lét sig falla niður á gamlan hægindastól sem stóð við gamalt garðborð í einu horninu á bílskúrnum og andvarpaði. Hér ætlaði hann að sitja til morguns.
- Jói! Jói!!! Hvað er þetta með þig maður, ertu sofnaður þarna inni?! Hann stóð upp af gömlum vana, stundi, greip kippu af maltöli og appelsíni og gekk út úr bílskúrnum. Hann gekk inn í upplýsta stofuna í þann mund er kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringdu inn jólin og kyssti konuna gleðileg jól.
_______________
- Er einhver önnur í spilinu? Jói! Svaraðu mér, er einhver önnur í spilinu!? Hvernig geturðu gert mér þetta? Jói! Skellt því í andlitið á mér að þú viljir skilja þegar mamma er hér í heimsókn, á sjálfum jólunum. Djöfuls kvikindið þitt!
Fyrst hafði hún bara orgað og skellt hurðum, en nú var hún orðin ísköld. Hún leit ekki einu sinni á hann þegar hún talaði.
- Við hverju býst þú kona, þú ert fyrir löngu hætt að hafa frumkvæði í kynlífi og frystir mig algerlega úti ef ég reyni að koma nálægt þér. Hvernig heldurðu að mér hafi liðið undanfarin ár. Ég skal segja þér hvernig mér hefur liðið. Eins og getulaus geldingur eða í besta falli eins og ég væri holdsveikur. Jóhann fann hvernig honum létti þegar hann lét nú orðin endanlega flæða.
- En af hverju hefurðu aldrei talað um að þú værir óánægður í hjónabandinu. Þú skellir þessu bara framan í mig eins og blautri tusku. Ég get ekki til þess hugsað að þú hafir trúað einhverri annarri konu fyrir þessu öllu en ekki sagt eitt orð við mig. Ég á þetta ekki skilið. Nú var hún með grátstafina í kverkunum. Hann vissi að hún var að reyna að kalla á meðaumkvun en hann fann bara fyrir reiði.
- Þú hlýtur að geta sagt þér það sjálf að karlmaður á mínum aldri getur ekki lifað eins og munkur í hjónabandi. En ef þér líður betur að vita það, þá hef ég ekki trúað annarri konu fyrir einu eða neinu um okkar samband. Laug hann blákaldur.
- Ég hef bara trúað einum vini mínum fyrir þessu.
- Ha! Hefurðu verið að bera mig út við vini þína? Hvernig geturðu gert þetta Jói!? Hún hækkaði röddina.
- Heyrðu mig nú, ég veit ekki betur en að þú eigir ótal vinkonur sem vita allt um okkar samband, Bidda, Gunna, Veiga og hvað þær nú heita allar þessar kellingar. Hvernig heldurðu að mér hafi liðið öll þessi ára að vita að okkar einkamál væru umræðuefni í kjaftaklúbbunum hjá ykkur! Hann hækkaði röddina á móti.
- En þetta eru bestu vinkonur mínar og allt sem okkur fer á milli er í trúnaði. Hún og lækkaði röddina örlítið eins og hún efaðist sjálf um sannleiksgildi þess sem hún sagði.
- Nú, heldurðu ekki að ég geti átt trúnaðarvin alveg eins og þú? Jóhann hreytti þessu út úr sér og fann að reiðin var að ná yfirhöndinni.
- Það er allt öðruvísi! Vældi konan og hækkaði röddina aftur.- Þú hefur aldrei sagt mér að þú ættir trúnaðarvin, þú sagðir alltaf að ég væri eini trúnaðarvinur þinn. Var það alltsaman bara lygi líka!? Nú, hækkaði hún röddina verulega og Jóhann vissi að annað hvort var að láta hér staðar numið og ganga út eða svara í sömu mynt. Hann sneri við og gekk í áttina að útidyrunum.
- Jói, getum við ekki talað við ráðgjafa? Hún talaði í biðjandi tón og barðist við að ná aftur valdi yfir röddinni.
Hann vissi að þetta myndi koma upp og var viðbúinn.
- Nei, það er ekkert að tala um, ég veit hvað ég vil og það getur enginn ráðgjafi bætt neinu við. Það er of seint. Ég er búinn að taka saman draslið mitt og pakka því inn í bílinn. Ég flyt út í dag. Búið mál. Við fáum okkur lögfræðinga og göngum frá eignaskiptunum eins fljótt og hægt er. Ég sef á skrifstofunni þar til ég hef fengið mér íbúð. Hann talaði hratt og ákveðið en í eðlilegri raddæð.
- Jói !?
- Nei, skilurðu ekki, ég vil ekki tala um þetta.
Hann gekk út án þess að líta aftur og lokaði hurðinni á eftir sér án þess að skella. Hann bara fór. Það var ekki meira mál en svo. Honum leið eins og unglingi sem var að flytja að heiman í fyrsta skipti þegar hann settist undir stýri og bakkaði hratt út úr innkeyrslunni. Það var blanda af frelsistilfinningu og kvíða. Hann hafði líka samviskubiti yfir að hafa misst þetta út úr sér á sjálfum jólunum þrátt fyrir að hafa verið ákveðinn í að bíða fram yfir hátíðir. En þetta bara braust fram eins og vatnselgur úr uppistöðulóni brostinnar stýflu.
_______________
Það voru nú liðnir nokkrir mánuðir frá því að hann flutti að heiman. Hann hafði ekki snefil af samviskubiti lengur. Þeir Axel vinur hans höfðu talað mikið saman fyrst á eftir en einhverra hluta vegna hafði samband þeirra dofnað smá saman. Það var eins og þeir væru búnir að tala sig þurra. Þá fann hann hvernig einmannakenndin náði aftur tökum á honum. Krakkarnir voru bæði í samböndum og lifðu sínu eigin lífi, svo hann var mikið einn þegar hann var ekki með Stínu.
Hann reyndi að vinna bug á einsemdinni með því að sökkva sér niður í vinnu, og treysta böndin við Stínu. Hann gekk jafnvel svo langt að spyrja hana hvort hún væri tilbúin til að selja litlu íbúðina sína og kaupa stærri íbúð með sér. Hann var svo viss um að hún myndi segja já að það kom eins og högg í andlitið á honum þegar hún sagðist ekki vera tilbúin til að taka þetta skref, að minnsta kosti ekki enn. Hún hélt langa ræðu yfir honum um að hann væri svo tilfinningalega fjarverandi í sambandinu. Hún þyrfti meiri nærveru og dýpt. Hann vissi að hún hafði ýmislegt til síns máls, en hann var ekki viss um að hann treysti henni fyrir sínum dýpstu tilfinningum. Hann sökkti sér niður í ennþá meiri vinnu.
Eftir þessa höfnun hætti hann að trúa því að sambandið við Stínu ætti sér nokkra framtíð. Þegar hann hafði gert þetta upp við sig dró hann sig ennþá lengra inn í skel. Þau fjarlægðust hvort annað meira og meira.
_______________
Jólin voru á næsta leiti. Þetta voru fyrstu jólin eftir að hann flutti að heiman. Það angraði hann óstjórnlega að hann skyldi ennþá hugsa um skilnaðinn á þennan hátt, að flytja að heiman. Konan hafði búið áfram í húsinu og það var ef til vill þess vegna sem þessi hugsun var svona þrálát. Nú var húsið loksins komið á sölu og hann gat varla beðið eftir að losna við það. Þá myndi konan flytja út og hann myndi losna úr þessum átthagafjötrum sem honum fannst húsið vera.
Hann hafði hætt snemma að vinna þennan dag og gekk sér til hressingar, að honum fannst stefnulaust, eitthvað út í bláinn. Allt í einu staðnæmdist hann fyrir framan matsölustað í útjaðri miðborgarinnar. Þetta var gamall og slitinn, en þrifalegur matsölustaður. Hann var orðinn svangur enda að koma kvöldmatur, svo hann ákvað að ganga inn og fá sér eitthvað að borða. Hann tók hnífapör og bakka, gekk að afgreiðsluborðinu og pantaði sér vínarsnitsel með brúnuðum kartöflum, rauðkáli og grænum baunum. Hann tók bakkann og leit í kringum sig eftir borði, valdi borð við gluggann nálægt dyrunum, settist niður og byrjaði að borða.
Hann leit upp þegar einhver opnaði dyrnar og gekk inn. Þetta var aldraður maður í hreinlegum vinnufötum með sixpensara á höfðinu. Jóhann þekkti hann strax aftur og áttaði sig nú á því hvar hann var. Hann leit yfir matsalinn. Allt í kringum hann sátu eldri menn einir við fjögurra mann borð. Hann horfði á spegilmynd sína í glugganum. Við borðið hans voru þrír auðir stólar.
Menning og listir | Breytt 17.11.2007 kl. 12:22 | Slóð | Facebook