11.9.2014 | 18:06
Háskóli eða Bændaskóli ?
Eiga sveitastjórnamenn í einstökum sveitafélögum og samtök bænda að ráða þróun háskólamála á Íslandi? Háskólasamfélagið í samstarfi við ráðuneyti menntamála í landinu verður að taka af skarið í þessu máli, ef Bændaskólinn (eins og hann hét áður), á að vera háskóli (University). Hinsvegar er auðvita ekkert að því að stofna aftur Bændaskóla og þar eiga bændur auðvita að fá að ráða.
Fréttin hér að neðan sem birtist á heimasíðu RUV er ástæða færslunar:
Mynd: Áskell Þórisson
"Tíu störf við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri verða lögð niður um næstu mánaðmót. Björn Þorsteinsson rektor greindi starfsmönnum frá þessu nýlega. Sagt er frá þessu í Bændablaðinu og rætt við Björn sem segir að viðkomandi starfsmenn hætti um áramótin.
Ekki er búið að segja starfsfólki hverjir missa vinnuna. Landbúnaðarháskólinn þarf að greiða ríkinu tugi milljóna til baka í ár og næsta ár. Mikið hefur verið rætt um að sameina Landbúnaðarháskólann og Háskóla Íslands síðustu misseri og vilji rektors og menntamálaráðherra stendur til þess en sveitarstjórnarmenn í Borgarbyggð og Bændasamtök Íslands hafa verið mótfallin sameiningu.
Lektor við háskólann segir stóran hluta starfsmanna hafa áhyggjur af fyrirhuguðum uppsögnum. Andrúmslöftið sé erfitt og íþyngjandi. Þá hafi starfsfólkið miklar áhyggjur af framtíð þeirra fræðasviða sem skólinn hýsi og möguleika skólans til að fá fólk til að sinna rannsóknum og kennslu. Hugmyndir um að sameina skólann Háskóla Íslands hafa ekki orðið að veruleika.
Yfir þrír fjórðu hlutar akademískra starfsmanna Landbúnaðarháskóla Íslands skoruðu í apríl á ráðherra menntamála, rektor Landbúnaðarháskólans og allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis að klára sameiningarferli Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Þar sagði að með sameiningu megi styrkja stöðu landbúnaðar- og umhverfisrannsókna og kennslu með hag nemenda og fræðasviða Landbúnaðarháskólans að leiðarljósi. Mikill samdráttur hafi þegar átt sér stað í fjárveitingum til Landbúnaðarháskólans og akademískir starfsmenn uggandi yfir stöðu mála."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.9.2014 kl. 08:41 | Facebook