Ásatrú gegn rasisma

Blot[1]Illu heilli hafa rasistar og annað pakk reynt að eigna sér okkar gömlu norrænu menningararfleifð hér í Svíþjóð. Þórshamarinn og Ásatrúin eru hér nátengd kynþáttafordómum og heimsku (í skilningi Hávamála). Því fékk ég þá hugmynd fyrir nokkru að snúa vörn í sókn og efna til Ásatrúar-blóts gegn rasisma á Skansinum í Stokkhólmi 17. júní næstkomandi, sem þátt í árlegum hátíðahöldum Íslendingafélagsins. Merki blótsins átti að vera uppréttur Þórshamar (rasistar nota lafandi Þórshamar) með textanum “krossa rasismen” (sláum sundur kynþáttahatur). Stjórn Íslendingafélagsins tók þessu vel í upphafi. Haft var samband við Ásatrúarfélagið heima og  Hilmar Örn Hilmarsson Alsherjargoði tók afar vel í málið og lofaði að mæta til leiks. Íslenskir myndlistanemar í Stokkhólmi tóku að sér að hanna “altaristöfluna” með uppréttan Þórshamar og viðeigandi texta. Stjórn skemmtigarðsins Skansinn í Stokkhólmi var búin að gefa sitt leyfi fyrir að halda blótið þar og allt virtist klappað og klárt. Þá fóru allt í einu að renna tvær grímur á fólk: “Var þetta ekki alltof hættulegt? Er rétt að tengja 17. júní við baráttu gegn kynþáttafordómum? Erum við ekki að ögra íslensku kirkjunni? Hvað ef rasistar mæta og reyna að hleypa upp blótinu? Er þetta ekki alveg á mörkunum?” - Allt í einu fóru svona spurningar að skjóta upp kollinum úr öllum áttum. Að lokum vorum við bara tveir eftir ég og Stefán Vilbergsson úr stjórn Íslendingafélagsins sem vildum halda ótrauðir áfram. Okkur Stefáni varð því ljóst að við yrðum að blása þetta af enda taldi Hilmar Örn það ekki við hæfi að blóta nema um það ríkti einhugur. Mér er spurn: Hvaða sjónarmið svifu þarna yfir vötnunum? Við hvað voru menn hræddir? Það er ekki nema von að rasistar vaði uppi ef fólk þorir ekki einu sinni að fremja gjörning gegn pakkinu og ef ekki má tengja þjóðhátíðardaginn við baráttu gegn kynþáttafordómum og tilraunum til að taka aftur völdin yfir okkar gömlu menningararfleyfð, þá er Bleik brugðið.  p.s. fer nú í páskafrí upp til sænsku Dalarna þar sem ég ætla að sitja við grillið næstu daga fjarri öllum internettengingum

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband