5.4.2007 | 07:37
Að setja lög um hámarkslaun
Ég varð vitni að eftirfarandi samræðum íslenskra unglinga hér í Stokkhólmi um daginn. Kanski fróðlegt fyrir ykkur heima að fá smá innsýn inní samræðuheim íslenskra 16-18 ára unglinga hér í Svíaríki (nöfnum er breytt vegna friðhelgis einkalífsinns):
Ási fleigði bókinni The Crystal Dragon eftir Richard A Knaak á borðið fyrir framan bróður sinn. - Þú verður að lesa þessa. Geir fussaði og fetti upp á trýnið.- Hvenær ætlarðu að vaxa uppúr þessu ævintýra ruggli drengur? Lestu frekar Hallgrím Helgason. Það er alvöru rithöfundur. - Iss, ég nenni ekki að lesa bækur eftir menn sem skrifa um sjálfan sig í þriðju persónu.Ási hryllti sig. - En hann er helvíti góður stílisti. Hélt Geir áfram.- Hann er hrokagikkur. Ási lagði vísifingur hægri handar undir nefið og lyfti nefbroddinum.- Hann er snillingur. Geir benti með vísifingri upp í loft og skók hann til að leggja áherslu á orðið.- Mér er alveg sama. Ég nenni ekki að lesa sögur sem ekki hefur álfa og dreka, ekki einu sinni dverg. - Menn sem ekki lesa Hallgrím Helgason eru fífl. Geir leit á Arndísi kærustuna sína í von um stuðning. Arndís stundi.- Þið Hallgrímur eruð báðir með Kiljankomplex. Ási skaut fram andlitinu og setti stút á varirnar.Geir andvarpaði.- Þú ert þá loksins búinn að lesa Íslandsklukkuna sem ég gaf þér í jólagjöf í fyrra?- Íslandsklukkuna já, en ekki bókina sem ég fékk frá þér. - Ási kom sér í stellingar. Setti aftur stút á varirnar og skaut fram neðri hluta andlitisins.- Hef ég lesið bók eða hef ég ekki lesið bók? Hver hefur lesið bók og hver hefur ekki lesið bók? Hvenær les maður bók og hvenær les maður ekki bók? Fari í helvíti sem ég las bók. Og þó.Andlitið varð aftur eðlilegt. Arndís hló.- Ég las hana á ensku. Það er ekki nokkur leið að skilja hvað kall ugglan er að segja. Þetta er ekki íslenska sem kall helvítið skrifar. Geir signdi sig og andvarpaði.- Jaja, Arndís. Ási hagræddi sér í stólnum. Arndís vissi strax á hverju hún átti von og seildist í pappír og penna á borðinu.- OK, láttu hann þá koma. Ási lét ekki segja sér það tvisvar.
Teymdi hún folann fimlega
fóru þau greitt um völlinn
- Það er bara ein regla. Bætti hann við og glotti. - Þú mátt ekki nota böllinn. Hann hló svo við lá að hann dytti af stólnum.
- Það er slæmt með Stebba frænda heima á Íslandi. Bætti Geir við til að skipta um umræðuefni.
- Hann hefur verið á sjó alla ævi og kann ekkert annað. Það er hábölvað að tækniþróunin skuli gera það að verkum að það þarf sífellt færra fólk til að framleiða stærri og stærri köku. Það væri svo sem í lagi ef framleiðslutækin væru sameign og arðurinn væri notaður til að byggja upp þjóðfélagið. En eins og þetta lítur út núna er hagkerfið að þróast í átt að gamla lénsveldisskipulaginu þar sem örfáir stórbændur áttu allt.
- Nei heyrðu mig nú Geisi, það er þá aldrei að menn séu orðnir kommar á gamals aldri. Sagði Ási ögrandi, stóð á fætur og kreppti hnefann upp í loft.
- Þú lýtur út eins og nostalgiskur veðurbarinn afturbatamarksisti á Lækjartorgi, eftir hrakningargöngu niður Laugarveginn í slagviðri og rigningu á 1. maí. Sagði Arndís og hló að tilburðum Ása.
- Já, ég hélt líka að það væri ég sem hefði einkarétt á að vera anarkisti og Marxisti í þessari fjölskyldu. En nú er Geisi kominn í liðið líka. Ási og leit ögrandi á bróður sinn.
- Þú getur kallað það hvað þú vilt litli bróðir. Greip Geir frammí og lagði þunga áherslu á orðið litli.
- En ég trúi hvorki á blóðugar byltingar eða alræði öreiganna og því miður sýnir sagan að kerfi þar sem framleiðslutækin eru í eigu ríkisins drukkna í skrifræði. Ég held bara að við verðum að aðlaga okkur að nýjum veruleika. Finna nýjar leiðir áður en allt fer til fjandans. Það er fáránlegt að halda að kröfur um réttvísi sem drífa fram byltingar séu úr sögunni bara af því að Sovétfasisminn keyrði fyrir ætternisstapann. Þessi kraftur er og verður alltaf til staðar meðan óréttlát skipting auðæfanna fær að viðgangast.
Arndís horfði til skiptis á bræðurna og brosti.
- Af hverju ferðu ekki í pólitík Geir? Þú virðist hafa óþrjótandi áhuga á stjórnmálum og ef ég þekki þig rétt þá ertu líklega þegar búinn að hugsa upp leið til að skapa réttlæti og jöfnuð í samfélaginu. Arndís kímdi og gaut augunum til Ása.
Ási hló.
- Hann yrði þá að stofna sinn eigin flokk. Eða heldurðu kannski að þínir menn myndu vilja taka við honum og læsa hann inní í kjallarageymslu í Valhöll? Ási glotti og horfði stríðnislega á Arndísi.
- Þú lofar að kalla stefnuna Ásisma eftir litla bróður þínum. Bætti hann við og sperrti sig í stólnum.
- Hvernig ætlarðu að fjármagna alla þessa opinberu starfsmenn þína ef þú vilt ekki þjóðnýta framleiðslutækin bróðir?
- Hvernig? Ertu viss um að þú viljir heyra það? Geir horfði á bróður sinn eins og hann væri að skora hann á hólm.
- Hjálp! Nei! En ég hef það á tilfinningunni að þú ætlir að segja mér það hvort sem mér líkar betur eða verr.
- Það geturðu hengt þig uppá dýrið þitt. Þetta er í raun afar einfalt. Við látum einfaldlega setja lög um hámarkslaun. Engin fær að ráðstafa meiru en þreföldum lágmarkslaunum á mánuði.
Á þann hátt drögum við upp lágmarklaunin í leiðinni. Forstjórarnir vilja áræðanlega ekki hafa of lág laun.
- Yes! Hrópaði Ási með uppgerðar áhuga.
- Og hvernig ætlarðu að leysa það að sumir, til dæmis listamenn a. la. undirritaður, fá stórar fúlgur fjár á einu bretti en ekkert þess á milli? Eða fólk sem erfir fé? Ætlarðu að gera það upptækt? Ég meinaða, þetta er hugmynd sem er dæmd að mislukkast. Bullshitt per exelence!
- Ekkert mál. Allt fé sem menn erfa eða vinna sér inn umfram þreföld lágmarkslaun á mánuði verður lagt inná verðtryggðan reikning með bestu leyfilegum vöxtum. Einskonar ríkisskuldabréf eins og í gamladaga þegar hringvegurinn var fjármagnaður. Fé sem þú átt og getur tekið út þegar þú nærð ekki upp í tekjuþakið. Þannig myndast sjóður í samfélaginu sem hægt er að nota til að fjármagna uppbyggingu. Ný hugsun, ný hugsjón, nýtt afl! Félagshyggja innan ramma kapitalismans. Sem sagt litli bróðir, brilliance per exelence! Einstein stjórnmálanna.
- Einstein var auli. Svaraði Ási með uppgerðar fyrirlitningu í röddinni.
- Ég meina þú þarft að vera alvarlega bilaður til að ímynda þér að hægt sé að útskýra aðdráttaraflið með holu í ósýnilegum vef. Hann fattaði ekki heldur að alheimurinn er grasker og tíminn er gormur.
- Hmmmm! Geir ræskti sig og horfði glottandi á Arndísi sem hafði ákveðið að blanda sér ekki í kítur þeirra bræðra frekar en fyrri daginn.
- Hummaðu bara. Svaraði Ási í spekingslegum veit-allt-best-ista fyrirlitningartón.- Ég meina, hvernig ætlarðu annars að skýra það að alheimurinn heldur ekki bara áfram að þenjast út. Það gerist með síauknum hraða. Ef allt byrjaði með Big Bang sem þeytti öllu í allar áttir segir heilbrigð skynsemi að útþenslan ætti að hægja á sér með tímanum, en ekki öfugt. Það eru bara tvær skýringar á þessu. Eitthvað fyrir utan hinn þekkta alheim er búið að ná tökum á ystu vetrarbrautunum og dregur þær til sín. Eða, eins og ég held, að alheimurinn sé að falla saman aftur. Ef það er rétt þá hlýtur alheimurinn að vera í laginu eins og grasker.
- OK!?
Geir brosti.
- OK, dýrið þitt. En hvernig í ósköpunum hefurðu komist að þeirri niðurstöðu að tíminn sé gormur eins og þú. Bætti hann við og hló.
- Það er allavega betra að vera gormur en lína eins og sumir. Svaraði Ási ögrandi.
- Línuhausar eins og þú fatta auðvitað ekki líkingar. Tíminn er gormur í þeirri merkingu að sagan endurtekur sig ekki, en fólk endurtekur sig stöðugt. Allir glíma alltaf endalaust og stöðugt við sömu vandamálin. Aftur og aftur. Bara á ólíkum plönum. Vegna þess að þróunin heldur áfram. Reyndu svo að koma þessari nýju hagfræðikenningu þinni inn í gorminn bróðir.
Geir stundi.
- Friður sé með yður! Arndís tónaði eins og prestur til að ná athyglinni.
- Jaja gormur, hér færðu þá fyrripartinn og botninn. Það er tvíbyttna:
Teymdi hún folan fimlega
fóru þau greitt um völlinn
reyðskjótann klemmdi klofvega
keyrði hann áfram haglega
hleypt´onum feikna faglega
féll hann við markið laglega .
Þau hlóu öll.
- Og hvar er svo botninn við fyrripartinn um Skjóna sem ég sendi þér í tölvupósti í morgun.
Arndís horfði ögrandi á Ása.
Ási ræskti sig.
- Ég hef valið að kalla vísuna Geisi situr nakinn á sængurkantinum, horfir tómum augum niður á vin sinn og kveður með trega:
Þreyttur lúinn gamli garpur
gleymt er skeiðið klárinn Skjóni,
eitt sinn varstu afar snarpur
aldrei framar held ég prjóni.
Arndís og Ási veltust um af hlátri, en Geir hleypti í brýrnar og gretti sig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:42 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er bráð skemmtileg saga!
Fær maður ekki framhald?
Sigga Jóns (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 10:50