10.4.2007 | 07:52
Kvíði pistill 1
Hvers vegna sumir verða kvíðnir (hræddir) í aðstæðum þar sem flestir aðrir sína engin slík viðbrögð? Hræðsla (ótti) og stress (streita) eru tvær hliðar á sömu mynt. Viss hormón spýtast út í blóðið þegar við verðum hrædd og gegna mikilvægu hlutverki. Þau undirbúa líkamann undir skyndileg átök þegar hætta steðjar að. Þessi hormón hjálpuðu forfeðrum og -mæðrum okkar þegar þau stóðu andspænis ýgu tígrisdýri eða ógnandi óvini.
Nútímasamfélagið er fullt af meira og minna ímynduðum tígrisdýrum og óvinum sem ræsa streituhormónin. Rauða ljósið sem tefur þig á leiðinni á mikilvægan fund sem þú ert að verða of seinn á, ógreiddu reikningarnir sem hrynja inn um bréfalúguna, yfirmaðurinn sem gerir óréttmætar kröfur, kjarnorkuvágin, erfiðleikar í fjölskyldunni, gróðurhúsaáhrifin, hálfvitinn sem kann ekki að keyra bíl, verkefnið sem þú áttir að skila af þér í gær og svo mætti lengi telja. Jafnvel kaffi og nikótín örva framleiðslu streituhormónanna. Á hverjum degi ræsa þessi nútíma tígrisdýr og óvinir streituhormónin sem spýtast út í blóðið með viðeigandi vöðvaspennu og hjartsláttaraukningu. Hvatir þínar segja þér að fljúgast á eða flýja en þú ert bundinn af samfélagsnormum og lögum sem segja þér að þú megir ekki ráðast á yfirmann þinn í vinnunni eða keyra á hálfvitann sem var næstum því búinn að þröngva þér af veginum með glannalegu aksturslagi. Sömu reglur banna þér að flýja frá ógreiddum reikningum. Þú ert fangi í veruleika sem líkami þinn er ekki byggður fyrir. Streituhormónin sem hjálpuðu forfeðrunum að lifa af halda þér í spennutreyju og geta skaðað þig ef ekkert er að gert. Með tímanum byrja spenntir vöðvar að bólgna og þú finnur fyrir verkjum í t.a.m. hnakka, kjálka eða öxlum. Önnur algeng einkenni streitu eru m.a. eirðarleysi, svefnörðugleikar, einbeitingarörðugleikar, höfuðverkur og ýgi (árásagirni). Langvinn streita leiðir oft til þunglyndis og bælir starfsemi ónæmiskerfisins sem ver okkur fyrir sjúkdómum. Einfaldasta og árangursríkasta aðferðin til að draga úr skaðlegum áhrifum streituhormónanna er að veita þeim eðlilega útrás. Hreyfing er lykillinn! Röskur göngutúr í 30-45 mínútur á dag getur verið allt sem þarf til að halda skaðlegum áhrifum streituhormónanna í skefjum en mikilvægast er að þú finnir það form hreyfingar sem þú þrífst með.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:09 | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir góða grein og gaman að heyra frá þér. Datt niður á bloggið þitt fyrir tilviljun. Ég á nefninlega son, 29 ára gamlan sem þjáist af ofsakvíða sem er ekkert grín. Því miður eru úrræði fyrir fólk með þennan sjúkdóm nánast engin. Hann hefur meira eða minna iðkað sjálfshjálp sem dugar takmarkað en miðar samt hægt áfram. Endilega skrifaðu fleiri svona pistla , ég bíð spennt. Hafðu þökk!
Sigurlaug B. Gröndal, 10.4.2007 kl. 09:55