6.2.2016 | 08:54
Tölvuvæðing aldraðra - áskorun til háskóla og stjórnmálamanna
Ég hef oft bent á þann lýðræðisvanda sem dræm tölvunotkun aldraðra er. Reynt að fá háskólana á Íslandi og ráðamenn til að koma á laggirnar námskeiði í tölvufræði t.d. innan uppeldisfræði, sálfræði eða tölvufræða, þar sem allar þessar greinar ynnu saman.
Námskeiði þar sem nemendur fá þjálfun í að leiðbeina öldruðum í tölvunotkun og geri rannsóknir á tölvu- og netþörf aldraðra, þar sem hindranir og möguleikar eru rannsakaðir og leitað lausna.
Þetta er í raun spurning um lýðræði og er mikið hagsmunamál fyrir marga aldraða. Á þann hátt mætti tengja háskólastarfið við samfélagið. Námskeiðið gæti t.a.m. verið 15 eininga sjálfstætt námskeð.
Stór hluti námskeiðsins væri fólgin í því að fara heim til aldraðra og bjóða þeim uppá aðstoð við að setja upp tölvu, tengja hana við netið og aðlaga uppsetninguna að þeim þörfum sem viðkomandi hefur áhuga á að nýta sér tölvuna og netið.
Auk þess að aðstoða aldraða við að komast í gang með tölvu- og netnotkun, myndu allir græða á þessu. Aldraðir fengju þjónustu, vísindasamfélagið þekkingu og nemendur einingar og mikilvæga reynslu.
Ásgeir R. Helgason
asgeir.helgason@ki.se
--------------------------------------------------------------------------------
Umfjöllun um tölvunotkun aldraðra er á síðu 4 í Morgunblaðinu í dag laugardaginn 6. febrúar 2016. Þar er rætt við Friðbert Traustason. Sjá hér að neðan:
"Sjálfsafgreiðsla í netbönkum og hraðbönkum á stóran þátt í fækkun bankaútibúa og afgreiðslustaða en Friðbert Traustason segir að það breyti engu um að allir þurfi á beinni þjónustu í bankaútibúum að halda, s.s. vegna lánafyrirgreiðslu, gjaldeyrisviðskipta o.fl. svo megi ekki gleyma því að fjöldi ferðamanna þurfi á þjónustu bankaútibúa að halda. ,,Mín reynsla er sú að það er ótrúlega stór hópur fólks sem er ekki nettengt, segir hann og tekur dæmi af ónefndu fjölbýlishúsi í Reykjavík með um 100 íbúðum fyrir aldraða. Þegar athuga átti hvort íbúarnir vildu nota heimabanka kom í ljós að 85% þeirra voru ekki með nettengingu. Friðbert segir kannanir á fjölda heimila með nettengingu nái yfirleitt ekki til eldra fólks."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:55 | Facebook