14.10.2016 | 11:09
Innanmein og taugaveiklun
Það er ekki svo ýkja langt síðan fólk dó umvörpum úr innanmeinum og öðrum dularfullum líkamskvillum. Þegar læknavísindum óx ásmegin fækkaði innanmeinum og sjúkdómsgreiningar urðu markvissari.
Skilningur á eðli og starfsemi líkamans gerði það kleift að greina og síðan meðhöndla sjúkdóma eins og krabbamein. Lækna sum mein og halda öðrum í skefjum. Þetta krafðist mikillar vinnu og fjárútláta. Meðhöndlun líkamlegra sjúkdóma tók jafnt og þétt stærri hluta þjóðarframleiðslunnar. Flestir voru sammála um að heilbrigði væri kjarninn í mannlegri tilvist, jafnvel tilgangur hennar. Það var því sjálfsagt að samfélagsarðurinn væri notaður til að byggja upp öfluga heilbrigðisþjónustu.
Sálfræðin á tímamótum
Þekking á eðli og starfsemi hugans er að mörgu leiti á álíka tímamótum í dag og skilningur okkar á eðli líkamlegra sjúkdóma var fyrir mörgum áratugum. Á svipaðan hátt og margir lífshættulegir líkamlegir sjúkdómar voru áður skilgreindir sem innanmein, var gjarna talað um taugaveiklun, móðursýki og æði þegar lýsa átti hugarástandi fólks. Í dag skiljum við betur hvernig heilinn og hugurinn virka og áttum okkur líka betur á því hvernig samspili þessara þátta við umhverfið er háttað.
Raunvísindaleg vinnubrögð verða sífellt algengari í sálfræðirannsóknum og raunprófuð meðferðaúrræði eru í mikilli þróun innan sálfræðinnar. En allt kostar þetta peninga.
Iðnaðurinn hefur um margt verið driffjöður í þróun læknisfræðilegra meðferða. Meðferðaform sem ekki er hægt að koma í verð t.a.m. með sölu nýrra lyfja og einkaleifa eða nýrrar tækni, hafa setið á hakanum. Þróun þeirra hefur því verið hægfara.
Það er ekki hægt að byggja upp raunvísindalega grundaða sálfræðimeðferð eða skilvirka sálfræðiþjónustu án þess að gert sé ráð fyrir því í fjárlögum, bæði til menntamála og félags- og heilbrigðismála.
Ásgeir R. Helgason
Höfundur er dósent í sálfræði
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Facebook