Siðfræði samtala í lífslokameðferð

Áhugavekjandi samtal (Motivational Interviewing) er samtalsaðferð sem upphaflega var þróuð til að hjálpa fólki með fíknivanda til að átta sig á og virkja eigin vilja til breytinga. Seinni tíma rannsóknir hafa sýnt að aðferðin hentar vel á mörgum öðrum sviðum, m.a. til að auðvelda sjúklingum í líknarmeðferð að ræða um dauðann við heilbrigðisstarfsfólk, sem er oft forsenda þess að geta undirbúið aðstandendur undir dauða sjúklings. Virðing fyrir mörkum fólks er grundvallaratriði í slíku samtali.

Siðfræðin

Undanfarin ár hefur athyglin beinst að siðfræðilegum álitaefnum varðandi samtöl í vinnu með sjúklinga í líknar- og lífslokameðferð, þar sem markmiðið er að fá leyfi sjúklings til að upplýsa aðstandendur um yfirvofandi dauða viðkomandi. Forsenda fyrir því að eiga opið samtal um yfirvofandi dauða sjúklings er að taka tillit til eftirfarandi aðstæðna: Hafi aðstandendur of skamman tíma til að aðlagast og meðtaka þá staðreynd að að ástvinur þeirra sé að deyja, hefur það oft í för með sér langtímavanlíðan eins og þunglyndi og kvíða. Treg tjáskipti milli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklings varðandi yfirvofandi dauða sjúklings tengjast skömmum aðlögunartíma aðstandenda, vegna þess að heilbrigðisstarfsfólk þarf leyfi sjúklings til að upplýsa aðstandendur, nema sjúklingur sé ófær um að tjá sig.

 

Íhlutun

Raunprófaðar og siðfræðilega réttlætanlegar aðferðir til að opna umræðu milli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklings varðandi yfirvofandi dauða, eru aftur á móti líklegar til að auka líkur á því að sjúklingur opni augun fyrir þeim veruleika sem hann stendur frammi fyrir, opni fyrir þessa umræðu við ástvini sína og veiti heilbrigðisstarfsfólki leyfi til að undirbúa ástvini sína tímanlega. Íhlutun sem miðar að því að auðvelda samtal um dauðann í líknarmeðferð, byggð á aðferðum áhugavekjandi samtals, hefur gefið góða raun, sérstaklega fyrir karlmenn, en gagnast bæði körlum og konum. Aftur á móti er alltaf hætta á að meðferðaraðili gangi yfir mörk sjúklings og leiði sjúkling inn í umræðu sem hann vill í raun ekki taka þátt í, því þarf að fara varlega.

Niðurstöður

Niðurstöður siðfræðirýninnar voru þó að það sé þrátt fyrir allt réttlætanlegt að nota markvissa samtalstækni, þar sem markmiðið er að opna fyrir umræður um yfirvofandi dauða, í stað ómarkvissrar. Þó er það að því gefnu að aldrei sé farið lengra en sjúklingurinn sjálfur vill. Þó meginþorri rannsókna á sviðinu séu tengdar krabbameinsmeðferð, er engin ástæða til að ætla annað en niðurstöðurnar eigi líka við um aðra sjúkdóma.  Færni í að ræða um viðkvæm tilfinningaleg mál eins og dauðann, krefst mikillar þjálfunar og því ekki á færi nema þeirra sem hafa þjálfun, handleiðslu og viðamikla klíníska reynslu. Það er því mikilvægt að fræðsla og handleiðsla fyrir fagfólk sé aðgengileg hvar sem er á landinu. Þar getur Krabbameinsfélagið aðstoðað.

 ---------------------------------------------------------

HEIMILDASKRÁ 

 

Black, I. og Helgason, A. R. (2018). Using motivational interviewing to facilitate death talk in end-of-life care: An ethical analysis. BMC Palliat Care, 17(1), 51.

Forsberg, L., Kallmen, H., Hermansson, U., Berman, A.H. og Helgason, A.R. (2007). Coding counsellor behaviour in motivational interviewing sessions: Inter-rater reliability for the Swedish Motivational Interviewing Treatment Integrity Code (MITI). Cogn Behav Ther, 36(3), 162–169.

Forsberg, L., Forsberg. L. G., Lindqvist, H. og Helgason, A. R. (2010). Clinician acquisition and retention of motivational interviewing skills: A two-and-a-half-year exploratory study. Subst Abuse Treat Prev Policy, 13(5), bls. 8.

Hauksdottir, A., Steineck, G., Furst, C. J. og Valdimarsdottir, U. (2010). Long-term harm of low preparedness for a wife’s death from cancer – a population-based study of widowers 4–5 years after the loss. Am J Epidemio, 172(4), 389–396.

Hauksdottir, A., Valdimarsdottir, U., Furst, C. J., Onelov, E. og Steineck, G. (2010). Health care-related predictors of husbands’ preparedness for the death of a wife to cancer – a population-based follow-up. Ann Oncol, 21(2), 354–361.

Miller, W. R. og Rollnick, S. (2013). Motivational interviewing: Helping people change (3. útgáfa). New York: Guilford Press.

Pollak, K. I., Childers, J. W. og Arnold, R. M. (2011). Applying motivational interviewing techniques to palliative care communication. J Palliat Med, 14(5), 587–592.

Skulason, B., Hauksdottir, A., Ahcic, K. og Helgason, A. R. (2014). Death talk: Gender differences in talking about one’s own impending death. BMC Palliat Care, 13(1), 8.

Valdimarsdottir, U., Helgason, A. R., Furst, C.-J., Adolfsson, J. og Steineck, G. (2004). Awareness of husband’s impending death from cancer and long-term anxiety in widowhood: A nationwide follow-up. Palliat Med, 18(5), 432–443.

 

Fyrst birt í Morgunblaðinu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband