15.6.2022 | 15:00
Reynsla mín af ristilspeglun
Borubrattur brá ég mér í mína fyrstu ristilspeglun hér um daginn, eftir tveggja sólahringa úthreinsun. Afþakkaði vinsamlegt tilboð um róandi i æð. Bý í Njarðvík og ætlaði að keyra heim.
Kominn í sérsniðnar buxur með gati á afturendanum og lagstur á hliðina. Horfði fast á skjáinn og fannst ristillinn í mér bráðmyndalegur. Það var þá sem það gerðist.
Skyndilega leið mér eins og ég væri með krampakennda magakveisu. Þið vitið, svona eins og maður fær stundum í útlöndum. Engdist sundur og saman eins og gerist gjarna áður en niðurgangurinn nær að ryðja sér leið út. En hér var enginn niðurgangur að hreinsa út. Ég var viss um að þetta myndi aldrei taka enda. Dauðsá eftir að hafa ekki tekið róandi í æð.
Þá heyrði ég þessa róandi rödd hjúkrunarfræðingsins. - Hann er bara að fara fyrir hornið vinur. Þetta lagast þegar hann er kominn fyrir hornið. Anda og slaka, anda og slaka...Svona nú komst hann fyrir hornið. Það slaknaði á mér og líðanin varð strax betri.
Eru nokkuð fleiri svona helv. horn? Stundi ég.
Þú veist hvernig ristillinn lýtur út, er það ekki?
Auðvita vissi ég það, gat séð hann fyrir mér vitrænt, en ekki með garna-taugunum.
Þá heyrðist aftur hin ómþýða huggandi rödd hjúkrunarfræðingsins. Nú fer að koma ný beygja, en hún er ekki eins körpp. Nú er bara að slaka á og reyndu að prumpa, það er í góðu lagi, ristilspegillinn dælir í þig lofti og það þrýstir á ristilveggina. Slaka á og reyna að prumpa.
Þetta horn var ekki nándar nærri eins óþægilegt og það fyrsta. Svo kom ómþýða röddin aftur. Nú er bara eitt horn eftir. Þetta hljómaði eins og himnasending. Slaka á og prumpa. Nú er hann kominn út í enda. Ég hefði geta kysst þessa ómþýðu rödd.
Hefði ég bara fengið þessar leiðbeiningar þegar í upphafi, þá er ég viss um að allt ferlið hefði verið mun betra.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:31 | Facebook