Nikótín - leið til að hætta

Nikó­tín er öfl­ugt eit­ur- og fíkni­efni sem ger­ir þig lík­am­lega háðan neysl­unni. Ný­leg­ar rann­sókn­ir sýna að nikó­tín örv­ar vöxt krabba­meins. Nikó­tín dreg­ur úr blóðflæði til háræða og stuðlar þannig að tann­losi og hrukku­mynd­un í húð og hækk­ar blóðþrýst­ing. Nikó­tín er eitt sterk­asta tauga­eit­ur sem þekk­ist, get­ur fram­kallað kvíða og hef­ur nei­kvæð áhrif á hjarta- og æðasjúk­dóma. 

Viltu hætta?

Flest­ir sem nota nikó­tín dag­lega vilja hætta því, en marg­ir gef­ast upp vegna frá­hvarf­s­ein­kenna. Áður en þú ferð að nota leiðbein­ing­ar til að hætta að nota nikó­tín ætt­irðu að láta reyna á það fyrst, ef þú hef­ur ekki þegar gert það, hvort þú þurf­ir yf­ir­leitt á nokkr­um leiðbein­ing­um að halda. Marg­ir ákveða ein­fald­lega að hætta og standa við það án telj­andi erfiðleika.

Sért þú hins veg­ar í þeim hópi sem geng­ur illa að hætta þá er gott að vita að hægt er að kenna fólki aðferðir til að búa sig und­ir það. Ef þú und­ir­býrð þig eft­ir því kerfi sem hér verður kynnt máttu vera viss um að átök­in og erfiðleik­arn­ir sem þú ótt­ast að fylgi því að sleppa nikó­tíni verða ekki   nánd­ar nærri eins mik­il og þú held­ur.

Byrjaðu strax í dag að mynda nikó­tín­laus svæði. Hættu al­farið að nota nikó­tín á þeim stöðum sem þú dvel­ur sem mest á.

Þegar þú hef­ur einu sinni ákveðið að til­tek­inn staður skuli vera nikó­tín­laus máttu ekki hvika frá því hvað sem á dyn­ur.

Ef þú ert á nikó­tín­lausu svæði og löng­un­in al­veg að sliga þig verðurðu annaðhvort að stand­ast löng­un­ina eða bregða þér út fyr­ir svæðið til að svala fíkn­inni.

Ef þú ger­ir sem flest svæði nikó­tín­laus sem fyrst máttu vera al­veg viss um að bar­átt­an við löng­un­ina verður mun auðveld­ari eft­ir að þú hætt­ir al­veg. Reynsl­an hef­ur sýnt að tveggja til þriggja vikna und­ir­bún­ings­tími er æski­leg­ur. Lengri und­ir­bún­ings­tími, þar sem nikó­tín­laus svæði eru mynduð með nokk­urra vikna eða jafn­vel mánaða fyr­ir­vara, gefst í mörg­um til­vik­um vel. Vara­samt get­ur þó verið að hafa und­ir­bún­ings­tím­ann of lang­an því botn­inn vill stund­um detta úr ef menn fresta því um of að hætta al­veg.

Þótt mark­miðið með mynd­un nikó­tín­lausra svæða sé fyrst og fremst það að rjúfa tengsl­in milli reyk­inga og um­hverf­is hef­ur þessi aðferð annað og ekki síður mik­il­vægt gildi fyr­ir þá sem eru mjög sólgn­ir í nikó­tín. Þeir sem mynda nikó­tín­laus svæði á þann hátt sem að fram­an er lýst draga að jafnaði tals­vert úr nikó­tínn­eyslu á und­ir­bún­ings­tím­an­um. Þetta ger­ist nokkuð sjálf­krafa, því fæst­ir nenna að leggja mikið á sig til að svala fíkn­inni nema þegar þörf­in verður mjög aðkallandi.

Mikl­ir nikó­tín­ist­ar sem draga veru­lega úr neyslu í nokkr­ar vik­ur áður en þeir hætta al­veg eru í mun minni hættu á að fá ýmis lík­am­leg frá­hvarf­s­ein­kenni.

H-dag­ur­inn

Áður en dag­ur­inn sem þú hef­ur valið til að hætta al­veg að nota nikó­tín renn­ur upp get­ur verið ráð að vera bú­inn að birgja sig vel upp af hjálp­ar­tækj­um:

Fáðu þér eitt­hvað sem þú get­ur sett upp í þig. Hægt er að kaupa mentólmunnúða í flest­um apó­tek­um. Sprautaðu upp í þig þegar þú finn­ur hjá þér löng­un í nikó­tín.

Syk­ur­laust bragðsterkt tyggjó sem hægt er að geyma und­ir vör­inni og hent­ar vel sem staðgeng­ill fyr­ir nikó­tín­púða og snus.

Lakk­rísrót sem fá má í sum­um heilsu­búðum. Lakk­rís­rót­in bragðast eins og dauf­ur apó­tek­aralakk­rís. Skolið rykið af rót­inni áður en þið farið að naga hana. Bæði lakk­rísrót og mentólmunnúði hafa þann kost að hægt er að nota þau að vild án þess að eiga á hættu að fitna.

Annað sem hægt er að styðjast við eru mentól­nefstifti og syk­ur­laus­ar bragðsterk­ar töfl­ur.

Ef þú drekk­ur mikið af vatni og hrein­um ávaxta- og græn­met­issafa flýt­ir það fyr­ir út­hreins­un nikó­tíns. Heitt vatn með cayenn­ep­ip­ar, engi­fer og sítr­ónu hef­ur líka góð áhrif.

Sam­an­tekt

* Búðu þig und­ir að hætta með því að mynda nikó­tín­laus svæði sem fyrst.

* Veldu þér H-dag. Þann dag ætl­ar þú að hætta.

* Ef þér finnst þú ekki vera til­bú­inn þegar dag­ur­inn  renn­ur upp skaltu bara hætta við fyrsta tæki­færi

   þegar þú finn­ur að þú ert til­bú­inn.

* Náðu í „hjálp­ar­tæki“ til að hafa í staðinn fyr­ir nikó­tínið eft­ir að þú hætt­ir að nota það.

* Hjá Heilsu­veru, s. 1700, vinna sér­fræðing­ar sem geta aðstoðað þig við að hætta að nota nikó­tín.

Höf­und­ur er doktor í lækna­vís­ind­um, dós­ent í sál­fræði við Há­skól­ann í Reykja­vík og sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu þar sem hann þróaði og stýrði námskeiðum í reykbindindi á árunum 1984-90 

 

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu mánudaginn, 23. september 2024


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband