22.4.2025 | 20:17
Kristni kommúnistinn
Jorge Mario Bergoglio var athyglisverður maður, prestur alþýðunnar. Páfi var hann nokkuð góður virðist mér. Regla Jesúíta, sem hann aðhylltist er þekkt fyrir að vera bæði andleg og pólitísk. Sumir halda því fram að Jesúítar hafi stofnað fyrsta og eina alvöru kommúnistasamfélag jarðar eftir Krist.
Sem páfi kenndi hann sig við heilagan Frans, en um hann segir:
HEILAGUR FRANS FRÁ ASSISI
Tveir viðburðir breyttu lífi Frans Bernardone. Fyrst tóku óvinahermenn hann höndum og settu í fangelsi. Síðan hitti hann holdsveikan mann.
--------------
Frans var barn auðugra foreldra og fæddist í Assisi á Ítalíu árið 1181. Sem unglingur hafði Frans aðeins áhuga á peningum og skemmtunum. En árið 1202, þegar hann var 21 árs, fór Frans í stríð og eyddi ári í fangelsi. Þar hafði hann tíma til að hugsa og biðja. Í fangelsinu áttaði Frans sig á því að peningarnir höfðu ekki keypt honum hamingju.
Seinna tók Frans þó aftur upp sína gömlu lifnaðarhætti. En þá hitti hann holdsveikan mann. Gröfturinn vall úr sárum holdsveika mannsins og fólk sneri sér undan þegar það sá hann. En Frans gekk til hans og huggaði hann. Hann hafði séð fegurð Guðs í annarri manneskju. Líf Frans breyttist við þetta þegar í stað.
Á næstu árum gaf Frans alla peningana sína. Hann prédikaði og betlaði berfættur á götum úti. Hópur fylgjenda safnaðist í kringum hann og hann skrifaði upp lífsreglur fyrir þá. Þeir urðu fyrstu Fransiskanarnir.
Hann stofnaði síðan Reglu hinna fátæku Klörusystra fyrir konur.
Hann ferðaðist til Spánar og Egyptalands til að reyna að umbreyta fólki þar. Frans bað fylgjendur sína að lofa Guð fyrir fegurð gervallrar sköpunarinnar. Hvert sem hann leit sá Frans kærleika Guðs. Þess vegna kallaði hann jörðina móður sína, sólina bróður sinn og tunglið systur sína. Þau sýndu honum fegurð Guðs ásamt með öllum skepnum jarðarinnar.
Þegar hann dó 44 ára að aldri árið 1226, lofaði fólk Guð fyrir fegurð Frans frá Assisi.
Árið 1228 var hann útnefndur dýrlingur.
Þegar við sjáum jötuna á jólum er sagt að við ættum að þakka Frans fyrir hana. Um árið 1220 setti hann fátæklega fæðingu Jesú á svið með raunverulegum dýrum svo að heimamenn gætu minnst hennar á raunsærri hátt.
Horfið endilega á myndina: The 2 popes (Ásgeir)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Facebook