Lýðheilsulandið Shangri-La

Ásgeir á leið til Shangri-LaÍ dag keppast íslenskir háskólar við að bjóða uppá nám í “Lýðheilsufræði”. Þegar Íslendingar taka til hendinni eru það engin vettlingatök. Skútan allaf undir fullum seglum og stefnan tekin þangað sem vindurinn blæs og nú er góður byr til fyrirheitna lýðheilsulandsins. Landsins Shangri-Laeða Shambhala (Tjam-Bha-Lah) þar sem búddistar eru ungir um alla eilífð.

.....

 Lýðheilsa 

 

Þó ekki sé til nein altæk skilgreining á hugtakinu “lýðheilsa” eru flestir sammála um að hugtakið vísi til þeirra vísinda, fræða, stjórnsýsluaðgerða og samskipta sem stefnir að því að fyrirbyggja sjúkdóma, lengja líf og auka lífsgæði. Áhættuþættir vanheilsu og vanlíðunar eru rannsakaðir og skilgreindir. Leitað er leiða til að fá fólk til að sniðganga það sem stuðlar að vanheilsu og vanlíðan meðan settar eru reglur, byggð upp kerfi og áróður er rekinn til að upphefja þá þætti sem stuðla að heilsuhreysti, langlífi og vellíðan. Lýðheilsufræði sem ekki taka tillit til allra þessara þátta eru hálf fræði.

.....

Lífslengd eða lífsgæði 

 

Asg og hesturÞó flestir geti verið sammála um að þetta séu háleit og æskileg markmið rekast markmiðin stundum hvort á annað. Það er til að mynda ekki sjálfgefið að það sem lengir lífið auki lífsgæðin. Þannig eru aukaverkanir meðferða sumra sjúkdóma svo alvarlegar að fólk velur frekar að lifa með sjúkdóminn og deyja eitthvað fyrr en að lifa slæmu lífi. Dæmi um hið gagnstæða eru efni sem veita magnaða vellíðan í stuttan tíma en tæra lífslengd, heilsu og síðan lífsgæði neytandans í lengdina. Auðvitað leita flestir eftir einhverri millileið þar sem lífslengd og lífsgæði eru í jafnvægi, en reynslan sýnir að oft er slík millileið ekki til í raunveruleikanum. Þú neyðist til að velja. Lýðheilsufræði sem ekki taka jafnt tillit til lífsgæða og lífslengdar eru hrokafull fræði.

.....

Forsjárhyggja 

 

pekpinnarAnnað vandamál í lýðheilsulandinu góða er sá árekstur sem oft verður milli óska og þarfa einstaklingsins á ákveðnum tíma og sjálfskipaðs foreldrahlutverks ríkisvaldsins. Nýlegt dæmi um þetta er ákvörðun stjórnvalda um að öll verkjalyf með kódíni (sem getur verið ávanabindandi) skuli vera lyfseðilsskyld til að draga úr neyslu slíkra lyfja með það að markmiði að draga úr fíkn. Spurningin er hvort fíkn sé hættuleg í sjálfri sér eða hvort það séu þeir sjúkdómar sem langvarandi fíkn (neysla) veldur sem séu vandamálið? Margir þurfa á þessum lyfjum að halda til að líða vel (eða minna illa). Skiptir þá máli þó einhverjir verði háðir þessum lyfjum ef jákvæðu áhrifin vega upp hugsanleg neikvæð áhrif langvarandi kódínneyslu? Ekki veit ég. Sannleikurinn er sá að enginn veit hvaða áhrif þessi ákvörðun hefur haft á lífsgæði þessa fólks. Né hvaða önnur úrræði (ef nokkur) fólkið fór að nota þegar aðgangur var takmarkaður að lyfjunum. Margar nýjar spurningar vakna: Er mögulegt að einhverjir hafi leitað inná markað ólöglegra fíkniefna? Juku einhverjir sykurneyslu, áfengisdrykkju eða tóbaksneyslu til að bæta upp kódínmissinn?

Ef það eru sjúkdómarnir en ekki fíknin sem slík sem eru vandamálið, er þá kódínfíkn hættulegri en tóbaksfíkn, sykurfíkn eða áfengisfíkn? Ef fólk sem er háð kódíni leitar fróunar í tóbaki, sætindum eða áfengi, þegar kódínlindin þornar, er þá farið úr öskunni í eldinn? Ég tek enga afstöðu í þessu dæmi en bendi á að allt eru þetta spurningar sem lýðheilsufræðin verða að fást við ef þau eiga að standa undir nafni. Lýðheilsufræði eru því líka fræðin um “býti” (trade-off) þ.e. að vega og meta eitt á móti öðru. Lýðheilsufræði sem ekki spyrja slíkra spurninga eru slæm fræði.

....

 Lýðræði í lýðheilsulandinu 

 

forsjáhyggjaOft er forsjárhyggja í nafni lýðheilsu vel grunduð í lýðræðislegum gildum t.d. bann við sölu áfengis til unglinga þar sem samfélag fullorðinna tekur ákvörðun fyrir hönd unglings og ákveður hvað sé honum fyrir bestu.  Samfélag án einhverrar forsjárhyggju er tæplega mögulegt. Stjórnvaldsákvarðanir í anda forsjárhyggju eru hvorki neikvæðar né jákvæðar í sjálfu sér. Hinsvegar má færa að því sterk rök að forsjárhyggja sem bara er grunduð í vísindum, en ekki í siðfræði og lýðræði, beri í sér fræ illgresis. Það er því af og frá að veita vísindamönnum og lýðheilsufræðingum einræðisvald í að kveða á um boð og bönn í nafni lýðheilsu. Slíkar ákvarðanir eru ekki síður siðfræðilegar og pólitískar. Vísindablind lýðheilsufræði úr tengslum við siðfræði og lýðræði eru hættuleg fræði.

.....

 Klínísk lýðheilsufræði 

 

fallbyssaKlínísk lýðheilsufræði er það starf sem unnið er á akrinum við að aðstoða fólk til lífsstílsbreytinga, t.d. að hætta að reykja, draga úr ofneyslu áfengis, hreyfa sig reglulega, minnka streitu og borða hollan mat. “Hvetjandi samtal” (motivational interviewing) er samtalstækni sem er í örum vexti víða um heim á sviði klínískrar lýðheilsufræði. Hvetjandi samtal er andstaða forsjárhyggju. Stuðningsaðilinn (t.d. læknir, sálfræðingur eða hjúkrunarfræðingur) er ekki sá sem veit hvað þér er fyrir bestu. Það ert þú sem tekur ákvörðun um hvort og hvenær þú vilt breyta um stefnu í lífinu. Stuðningsaðilinn veitir þér þann stuðning sem þú vilt hafa þegar þú ert tilbúin (-n) til að taka við stuðningnum. Líf þitt og heilsa eru í þínum höndum og stuðningsaðilinn virðir þær ákvarðanir sem þú tekur á fordómalausan hátt en er til staðar þegar á reynir.

Fjöldi rannsókna sýna að hefðbundnar aðferðir lýðheilsufræðanna í formi upplýsingaherferða, hópkennslu og áróðurs af ýmsum toga nái aðeins til viss hóps samfélagsins. Því sé nauðsynlegt að þróa aðferðir sem beinast að einstaklingnum í klínísku samtali. Þrátt fyrir það gleymist þessi mikilvægi klíníski þáttur lýðheilsufræðanna oft í lýðheilsunámi. Markvisst nám í samtalstækni þar sem tvinnað er saman t.d. hvetjandi samtalstækni og aðferðum úr smiðju hugrænnar atferlismeðferðar og íþróttasálfræði er einn af máttarstólpunum í hagnýtu lýðheilsunámi. Lýðheilsufræði án úrræða eru slöpp fræði.

....

 Lygin er dóttir sannleikans 

 

lyginMaður kemur til læknis og segir: “Ég þarf á svefnlyfjum að halda vegna þess að ég sef svo illa þegar ég hef drukkið áfengi. Ég drekk 3-4 sinnum í viku og ef ég fæ ekki svefn er ég algerlega ónýtur daginn eftir. Þetta gengur ekki lengur. Ég verð að sofa”. Hann segir lækninum sannleikann. Fyrsta viðbragð margra lækna í slíkum aðstæðum er að messa yfir manninum um skaðleg áhrif áfengis á svefn. “Ég skrifa ekki út svefnlyf núna til að þú getir haldið áfram að drekka. Hættu að drekka og þú munt sofa”. Maðurinn fer út sneyptur og er fljótur að skipta um lækni. Næsti læknir fær allt aðra sögu. Hann nefnir ekki áfengi á nafn eftir þetta. Hann hefur lært að sannleikurinn er slæmur félagi. Einu áhrifin sem læknirinn hafði á sjúklinginn voru að gera hann að lúmskum lygara. Hvað hefði gerst ef hann hefði sagt: “Ég skil að þú þurfir að sofa. Ég skrifa út handa þér 2 vikna skammt af svefnlyfjum og bóka handa þér tíma hjá mér eftir tvær vikur. Segðu mér aðeins frá áfengisneyslu þinni”. Ef læknirinn hefði valið þessa leið hefði þarna mögulega skapast umræðugrundvöllur um áfengisneyslu og áhrif hennar á svefn og taugakerfi sem hefði með tímanum geta þróast útí umræður um breyttan lífsstíl. ­

Það er mikil þörf fyrir hagnýtt lýðheilsunám á Íslandi eins og annarsstaðar en ekki nóg að draga seglin að húni og sigla þangað sem vindurinn blæs. Stýrið þarf að vera í lagi og stefnan á hreinu í leitin að Shangri-La.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mikil og góð grein hjá þér.  Ég hef nú ekki efni á því að taka afstöðu til fíknar því ég er ein af þeim manneskjum sem geti bæði byrjað og hætt á hinu og þessu án þess að finna fyrir því.  T.d. reykti ég geðveikt frá 18-21 var þá beðin um að hætta af kærasta mínum, steinhætti byrjaði svo aftur 6 árum seinna og er núna búin að vera hætt í 17 ár.Með áfengið þá fæ ég mér kannski 2 bjóra ef þannig stendur á og svo kannski ekkert í 2-3 mán. nú þá detta inn veislur og maður skálar í hinu og þessu og svo búið.  Með verkjalyf þá þurfti ég að taka mikið af þeim fyrir mörgum árum, og tók þá með tímanum of mikið, en hætti alveg á sama tíma og ég hætti síðast að reykja, og það var bara ekkert mál. Nú svo þegar ég fór í aðgerðina núna var dælt í mig verkjalyfjum og á 6 degi fór aumingja hjartað á flökt, þolir ekki verkjalyf svo eg bara hætti á þeim, verkir þó helv. vondir séu eru skárri kostur en hjartaflökt. En eitt langar mig að spurja um, sefur fólk illa eftir víndrykkju, ég fékk mér bjór í gærkvöldi og svaf eins og grjót frá 12-10 var þá vakin af símanum. Reyndar sef ég alltaf eins og grjót eftir neyslu víns.  Kær kveðja til þín og þinna.   Belly Laugh 

Ásdís Sigurðardóttir, 6.10.2007 kl. 13:32

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Sæl!

Já, langvarandi mikil áfengisneysla hefur verulega slæm áhrif á svefn, sérstaklega með aldrinum. Fólk á yfirleitt auðvelt með að sofna en vaknar upp um miðja nótt og á erfitt með að sofna aftur. En svona smásull eins og þú ert að dunda þér við á ekki að þurfa að hafa nein slæm áhrif.

Ásgeir Rúnar Helgason, 6.10.2007 kl. 13:38

3 Smámynd: Þröstur Unnar

Takk fyrir pistil. Mjög athyglisvert.

Þröstur Unnar, 6.10.2007 kl. 23:06

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Takk fyrir góðan pistil. Las hann tvisvar.

Benedikt Halldórsson, 7.10.2007 kl. 09:05

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Góður pistill hjá þér Ásgeir! Það er of lítið um gagnrýna hugsun og umræðu um velferðarmál og lýðheilsu. Ef heilbrigðisyfirvöld ættu að vera sjálfum sér samkvæm þá ætti snarlega að draga úr neyslu áfengis. Hér er um að ræða ávanabindandi vímugjafa, sem veldur líklega mun meiri skaða en mörg lyf, sem nú eru lyfseðilskyld. Þannig hafa skapast fordómar gegn ýmsum lyfjum á þeim forsendum einum, að þau geti verið vananbindandi. Lyfjum, sem gætu í mörgum tilvikum aukið á lífegæði einstaklingsins. Það er ekki spurning, að áfengi og tóbak getur aukið lífsgæði einstaklinga a.m.k. þegar til skamms tíma er litið. Hins vegar eru engin læknisfræðileg rök fyrir því, að banna kódein í litlum skömmtum og leyfa hins vegar ómælt áfengisþamb. Ég er sammála þér að þessi ákvörðun var á sínum tíma heimskuleg og eykur einungis álagið á heilbrigðiskerfið, sem er nóg fyrir. Allt er gott í hófi segir máltækið. 

Júlíus Valsson, 7.10.2007 kl. 09:16

6 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Takk fyrir þið bloggvinir!

Vona að okkur takist að koma þessu á laggirnar með sameiginlegu átaki ÓHÁÐ flokkspólitík, sem er það sorglegasta við pólitík = FLOKKSPÓLITÍK!

Ásgeir Rúnar Helgason, 8.10.2007 kl. 20:23

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Takk fyrir þessar góðu, gildu og gagnrýnu hugleiðingar. Það vantar einmitt svona umræðu um ýmis hugtök, aðgerðaáætlanir ( - eða vanáætlanir ), markmiðasetningu oþh varðandi heilsupólitík á Íslandi. Hér er lenzka að búa til nýyrði sem ná til víðtækustu hugsana og markmiða, þegar framþróunin nær ákveðnu stigi og til verður ný (hvað er ný?) greining á þörf.  Menn velta vöngum yfir nýyrðinu, yfirleitt út frá málfræðilegum forsendum, en hugsunin á bak við er lítt eða ekki til umræðu. Og svo segja allir: "... mikið eru nú nýju fötin keisarans betri en þau gömlu..."

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 19.10.2007 kl. 23:14

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður pistill. Takk fyrir að deila.

Marta B Helgadóttir, 2.11.2007 kl. 21:53

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband