28.1.2009 | 09:43
Neikvæðar alhæfingar um Ísland
Ég ætla bara rétt að vona að ný ríkisstjórn dragi þetta hvalveiðileyfi til baka. Það er helst að maður trúi því að Einar K. hafi gert þetta til að hefna sín á Samfylkingunni? Það er ekki eins og við íslendingar erlendis höfum ekki nóg á okkar könnu við að reyna að verja heiður Íslands gagnvart fólki sem farið er að lýta íslendinga svipuðum augum og Sikileyjarbúa sem þurfa að lifa með þau ósköp að vera sífellt tengdir við Mafíuna. Raddir eins og að helvítis íslendingarnir settu þetta eða hitt stórfyrirtækið á hausinn eru að verða alltof algengar hér í Svíþjóð. Ég var síðast í gær að reyna að tala um fyrir manni sem vinnur með mér og var reiður vegna þess að dóttir hans hafði misst vinnuna hjá Sterling og það var auðvita "helvítis íslendingunum að kenna". Svona alhæfingar gagnvart íslendingum eru nýjar af nálinni hér í Svíþjóð. Það segir mér að ímynd landsins sé komin í botn hér þegar fólk gengur svona langt í alhæfingum. Svíar eru yfirleitt mjög seinir til slíkra alhæfinga.
Hægt að draga hvalveiðileyfi til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2009 kl. 14:26 | Facebook