Kostnaðarhagkvæmni?

Nú þarf að halda vel utanum þann kostnað sem við Íslendingar sem heild lendum í vegna andúðar og mótmæla heimsbyggðarinnar og náttúruverndarsamtaka. Ef við ætlum ekki að láta þessar hvalveiðar skaða ímynd okkar sem náttúruparadísar er þörf á að fara í öfluga mótsókn gegn áróðri samtaka á borð við Grænfriðunga og annarra ennþá herskárri öfgasamtaka. Auðvita hlýtur það að vera krafa að atvinnugreinin standi undir þeim kostnaði, annars er út í hött að fara út í þessar veiðar.

Í heilbrigðiskerfinu þar sem ég starfa er alltaf verið að hamra á kostnaðarhagkvæmni og þar er þó verið að bjarga lífi og lífsgæðum fólks. Hér er verið að gangsetja atvinnugrein sem gefur í mesta lagi 300 störf. Það er hið besta mál. En ef kostnaðurinn við að halda þessum störfum úti er margfalt meiri en sem nemur innkomunni við sölu á kjötinu er lítið vit í þessu.

Fjármálaráðuneytið og Sjávarútvegsráðuneytið halda vonandi utanum þessar tölur og sjá til þess að útgerðin fá sinn hluta af reikningnum.

Það er engin nýjung að fyrirtæki og félög sem stunda áhættusama starfsemi séu látin standa straum af kostnaði við öryggisgæslu og þann skaða sem af starfseminni hlýst. Fólk þarf sjálft að bera kostnaðinn af því að verja heimili sín fyrir innbrotum með samningum við öryggisfyrirtæki og gegnum dýrar tryggingar. Fótboltafélög og rokktónleikahaldarar eru víða krafin um greiðslur vegna auka kostnaðar samfélagsins við löggæslu og þannig mætti lengi telja.

Nú hafa örfáir einstaklingar þvingað fram hvalveiðar sem munu ögra almenningsáliti heimsbyggðarinnar og líklega skaða ímynd Ísland enn meira en orðið er ef ekkert er að hafst til að mæta náttúruverndarsamtökum í fjölmiðlum með rökum. Auk þess er ekki ólíklegt að náttúruverndarsamtök muni senda hingað skip til að trufla veiðarnar og það mun hafa ómældan kostnað í för með sér fyrir Landhelgisgæsluna. Það er bara sanngjarnt að hvalveiðifyrirtækin standi straum af þeim kostnaði sem af þessu hlýst.


mbl.is Hrefnuveiðar að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband