11.4.2007 | 17:59
KVÍÐI & óvinir í umferðinni
Á svipaðan hátt og heili barnsins lærði fyrir misskilning að óttast grís (sjá fyrri pistla um kvíða) geta fullkomlega meinlausir einstaklingar orðið hættulegir í hugum okkar. Dæmi um slíkt er eftirfarandi. Hæglætis eldri maður sem aldrei gerir flugu mein svínar óvart fyrir þig í umferðinni. Stresshormónin spýtast út í blóðið og þú verður hræddur. Þú veist að bílar eru ekki hættulegir í sjálfu sér og þú veist líka af fyrri reynslu að flest fólk er ekki hættulegt. Heilinn getur því auðveldlega túlkað aðstæðurnar á þann hátt að þú hafir staðið augliti til auglitis gegnt lífshættulegum óvini. Hann var nærri búinn að drepa mig = hann er óvinur = allir óþekktir bílstjórar eru líklegir óvinir. Ljúflingurinn sem óvart beygði fyrir þig breytist þannig skyndilega í morðóðan fjanda og heilinn velur að túlka aðstæðurnar þannig að allir óþekktir bílstjórar séu mögulegir óvinir, svona til vonar og vara til að vera betur undirbúinn næst. Þetta sjálfvirka ferli virkaði ágætlega í frumskóginum hér áður fyrr en getur verið beinlínis hættulegt heilsu þinni og annarra í nútímasamfélagi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:02 | Facebook
Athugasemdir
Upplifði þetta í morgun
Ásgeir Rúnar Helgason, 11.4.2007 kl. 18:16