Svíar bestir í Covid, Íslendingar í 5. sæti

Smellið á myndina. Þá verður hún skýrari. 

331967702_595537042443993_1985611522451557058_n


Sorg barna - ábirgð heilsugæslu og dánarvottorð

Nýjar lagagreinar tóku gildi nýlega þar sem réttindi barna sem missa foreldri og ábirgð samfélagsins gagnvart þessum börnum, eru betur skilgreind. Í nýju lagagreinunum er heilsugæslan skilgreind sem lykilaðili í eftirfylgni barna sem missa foreldri. Læknir sem skrifar dánarvottorð einstaklings, sem er foreldri barns undir 18. ára, er samkvæmt lögunum skyldugur til að tilkynna þeirri heilsugæslu þar sem barnið er skráð, að foreldri barns á þjónustusvæði hennar hafi nýlega látist. Heilsugæslustöðin er þar með skyldug til að athuga hagi barnsins og veita þann stuðning sem þörf er á. 

Því miður eru þessi lög ekki að virka. Það sem vantar er að læknir sem skrifar út dánarvottorð hafi aðgang að upplýsingum um börn viðkomandi og hvar þau eru skráð. Þetta er mikilvægur þröskuldur sem þarf að komast yfir til þess að lögin nái markmiðum sínum. 


Þegar foreldri deyr

 

Þegar foreldri deyr þurfa börn langvarandi stuðning.
 
Miðlægt ráðgjafar og stuðningsteymi er til staðar innan vébanda Krabbameinsfélagsins þar sem starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar. Ráðgjöfin fer aðallega fram í gegnum síma 8004040 og fjarviðtöl.
 
mynd-bergrun-iris
 
Með faglegu stuðningsneti barna er átt við kennara, skólahjúkrunarfræðinga, æskulýðsfulltrúa, presta, félagsráðgjafa, sálfræðinga og aðra fagaðila sem mæta börnunum og aðstandendum þeirra í samfélagslegu samhengi. Leiðbeiningar varðandi stuðning við börn í sorg eru á vefsíðunni https://www.krabb.is/born   
 
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir asgeir@krabb.is

Ísland í Evrópu

Ég trúi því statt og stöðugt að besta leiðin fyrir Ísland sem sjálfstætt menningarsamfélag sé að vera mitt á milli Evrópu og norður Ameríku. Að ganga í ESB/EU eða NAFTA er ávísun á útþurrkun Íslands sem sjálfstæðrar menningareiningar. Þetta er bara mín persónulega trú.

Ég er þeirrar skoðunar að okkur sé best borgið milli þessara risa. Tvíhliða samningar við EU/ESB, NAFTA, Kína etc... Við höfum alla burði til þess.


Ómar Ragnarsson

Einu sinni var sagt um Ómar Ragnarsson að hann væri margfaldur dollaramiljarðamæringur ef hann hefði haldið út sem landsfrægur snillingur í stærra samfélagi, jafn lengi og hann hefur gert hér heima.

Það held ég sé alveg rétt. 

Þrjú hjól undir bílnum.

Þó þau hafi reyndar alltaf verið fjögur.

Sæl að sinni. 


Furðuleg hegðun Icelandair

Ég er enn í alvarlegri fýlu útí Icelandair.

Ég lenti nefnilega í því fyrir nokkrum árum að félagið gerði upptæka miða sem ég var búinn að kaupa, seldi þá líklega öðrum (?) og þvingaði mig svo til að borga auka miða til Stokkhólms. Þetta er alveg satt!

Forsaga málsins er sú að ég þurfti að fara heim til Íslands til að vinna í viku og ætlaði svo að vera í Stokkhólmi aðra viku og svo aftur á Íslandi eina viku eftir það.

Ég var því búinn að kaupa 2 miða báðar leiðir :

Miði 1: Stokkhólmur -Ísland - Stokkhólmur

&

Miði 2: Stokkhólmur - Ísland - Stokkhólmur

Nú vildi svo til að vegna anna heima á Íslandi þá komst ég ekki út til Stokkhólms í lok fyrri ferðarinnar. Ég hugsaði ekkert meira um það og leit svo á að þetta væri tapaður miði. Enda bara sjálfsagt að svo væri. Ég átti alltaf miða nr. 2 og vissi því (að ég hélt) að ég kæmist aftur til Stokkhólms að tveim vikum liðnum. Ég var jú búinn að borga miðann.

Það kom því verulega flatt uppá mig þegar ég kom útá völl og fékk að vita að ég ætti ekkert sæti bókað og miði 2 væri ónýtur vegna þess að ég hefði ekki nýtt mér ferðina frá Stokkhólmi til Íslands.

Hvernig átti ég að geta það? Ég var jú á Íslandi!

Jæja, eina leiðin til að komast aftur til Svíþjóðar var að kaupa einfaldan miða (miða 3) á rúmar 40.000 kr.

Ég var þá búinn að borga ca. 100.000 samanlagt fyrir eina ferð fram og til baka milli Stokkhólms og Íslands á almennu farrými.

Mér er algerlega ómögulegt að skilja viðskiptasiðferðið í þessu dæmi. Ég var búinn að borga fyrir sætin í miða 2 og það var engin skaði fyrir Icelandair þó ég hafi ekki notað nema annað sætið þ.e. sætið frá Íslandi til Stokkhólms. Enda gat ég eins og áður segir ekki notað hitt sætið þar sem ég var á Íslandi allan tímann.

Sem sagt óleysanlegt og óskiljanlegt.

Icelandair endurgreiddi mér skattinn af miða 3 eftir nokkuð þóf og segist hvorki vilja eða geta gert betur. Það eru mörg ár síðan og málið sjálfsagt löngu fyrnt, en ég er ennþá draugfúll.


Íslenskir ekklar

Fyrir nokkrum árum hafði Dr. Bragi Skúlason sjúkrahúsprestur og fjölskylduráðgjafi, persónulegt samband við alla ekkla á Íslandi á ákveðnum tímapunkti. Rúmlega 350 menn sem fæddir voru á árunum 1924-1969. Það var mikið afrek. Eiginlega einstakt.

 Bragi

Það kom margt athyglisvert út úr þessum viðtölum. Yfirgnæfandi meirihluti ekkla bjuggu einir og í flestum tilvikum höfðu þeir ekki gert neinar breytingar á heimilinu. Það var eins og konan væri ennþá nálæg.

 

Bragi vann síðar Masters-og Doktorsritgerð sem byggði að hluta til á þessu athyglisverða efni.


Efnahagssögusafn

Við Íslendingar mættum vel fara að dæmi Svía og byggja safn yfir mistök okkar t.d. efnahagssögusafn.

Gott dæmi um þá eiginleika Svía að læra af mistökum sínum er safnið sem þeir byggðu yfir Vasaskipið, einn af stærstu bömmerum sænskrar verkfræðisögu. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að sænskir eru afar stoltir af sinni verkfræðisögu enda miklir frömuðir á því sviði.

VASAÞegar skipið var í byggingu fékk sænski kóngurinn njósnir af því að óvinirnir væru að byggja sitt flaggskip og að það væri aðeins stærra en hans flaggsskip Vasa. Það þótti kóngi slæm tíðindi og skipaði sínum smiðum að stækka skipið.

En eina leiðin til þess var að hækka það.

Það kemur fram í gögnum að skipasmiðirnir sáu það í hendi sér að hlutföllin í skipinu myndu riðlast og að það gæti aldrei haldist á réttum kili. En enginn þorði að fara gegn kóngi svo skipið var hækkað um nokkra metra.

Þetta glæsilega skip ranna svo af stokkunum með fullri áhöfn en valt á hliðina og sökk með manni og mús einhverjum hundruð metrum frá landi í augsýn allra Stokkhólmsbúa. Svo lá það á sjávarbotni þar til tæknin leyfði að því yrði bjargað í land.

Skipið var endurbyggt að miklu leiti og yfir það reyst mikil bygging. Safnið er eitt af glæsilegri söfnum norðurlanda sem engin sem kemur til Stokkhólms ætti að láta fram hjá sér fara. 


Glíðandi kynjaskali

Það er fyrir löngu vitað að kyn og kynameðvitund þróast að hluta til á fósturstigi. Á vissu þroskastigi verður fóstrið karlkyns eða kvenkyns. Hér er t.d. ein grein um það:

https://en.wikipedia.org/wiki/Paramesonephric_duct

Sumir fæðast hinsvegar líffræðileg tvítóla.

Fleiri fæðast með ytri einkenni eins kyns en upplifa sig sem annað kyn. 

Þetta er fyrirbæri sem við erum bara nýlega farin að taka á við.

Það er ekki auðvelt.


Þegar besti vinur sviptir sig lífi

Karlmaður um fimmtugt hringdi einhverju sinni í mig eftir að hafa séð umfjöllun um rannsókn sem ég var ábirgur fyrir. Hann hringdi vegna þess að hann þurfti að ná í einhvern til að tala við um erfitt mál, hann hafði engan annan. Besti vinur hans hafði svipt sig lífi fyrr í sömu viku.

Það hafði komið eins og reiðarslag bæði fyrir hann og alla aðra. Þeir höfðu verið bestu vinir frá því í menntaskóla og hittust reglulega, síðast tveim dögum áður en vinurinn svipti sig lífi.

Nú sat hann einn eftir með svíðandi sektartilfinningu og höfuðið fullt af spurningum. Um hvað hafði þessi vinátta eiginlega snúist? Hafði hann kannski ekki hlustað, ekki heyrt, þegar vinur hans var að hrópa á hjálp? Hefði hann ekki getað gert eitthvað? Ég sat bara og þagði, svaraði beinum spurningum en sagði annars sem minnst. Leyfði honum að tala eins og hann hafði líklega aldrei áður gert, við mann sem hann þekkti ekki neitt.

Það var kannski einmitt þess vegna sem hann þorði.


Fleiri gáttir?

Getur verið að það þurfi að létta á bráðamóttöku með því að opna fleiri gáttir inn á spítalann?

pathways

 

 

Hjarta-og krabbameinsgátt þar sem fólk með greinda sjúkdóma á þessum sviðum getur leitað. 


mbl.is Segir stöðuna óviðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sértæk vandamál karla

Líkamleg og sálfélagsleg heilsa karlmanna, kynlífshegðun, frjósemi og tilfinningar eru samanfléttuð. Hegðun og tilfinningatjáning karla er um margt ólík hegðun kvenna. Þó fjöldi rannsókna hafi verið birtur á undanförnum áratugum á þessu sviði [1-17] vantar enn vettvang í heilbrigðiskerfinu þar sem tekið er á þessum málum á heildrænan hátt. [1]

Víða hafa vaxið fram sérstakar móttökur fyrir karlmenn, en þar snýst starfsemin oftar en ekki um afbrigðilega hegðun takmarkaðs hóps karlmanna. Karlmaðurinn er þar skilgreindur sem vandamál, einkum fyrir konur og börn. [18]

Charlie_Brown_-_AAUGH%21Það vantar móttökur þar sem vandamál karlmannanna sjálfra eru í brennidepli. Sértæk vandamál karla eru af mörgum toga.

Karlmenn lifa skemur en konur, eru áhættusæknari og margvíslegir sjúkdómar leggjast frekar á karlmenn. Karlmenn taka oftar eigið líf og eykst tíðni sjálfsvíga með hækkandi aldri. [19] Karlmenn glíma oft við ófrjósemi og hormónatengd vandamál. Margir karlmenn líða vegna risvandamála sem geta átt sér sálrænar, félagslegar og líkamlegar skýringar. [20,21] Risvandamál eru algengasta aukaverkun meðferðar við krabbameini í blöðruhálsi, sem er algengasta krabbamein karla. Lífsgæði karla með risvandamál eru verulega skert og skiptir þá litlu hver orsökin er. [20-27] Ég hef áður fjallað um fullnægingu:  fullnæging karla og sæðisvökvinn.

Einnig er tilfinningaleg einangrun mun algengari meðal karla en kvenna. [2,18]

 

Heimildir

  1. Andrologi. Ed. Arver S, Damber JE, Ciwercman A. Studentlitteratur, Stokkhólmi 2017.
  2. Helgason ÁR, Dickman PW, Adolfsson J, Steineck G. Emotional isolation: Prevalence and the effect on wellbeing among 50–80 year old prostate cancer patients. Scand J Urol Nephrol 2001; 35: 97-101.
  3. Skúlason B, Hauksdóttir A, Ahcic K, Helgason ÁR. Death talk: Gender differences in talking about one’s own impending death. BMC Palliative Care 2014; 13: 8.
  4. Doka KJ, Martin TL. Grieving Beyond Gender: Understanding the Ways Men and Women Mourn. Routledge, New York 2010.
  5. Good GE, Brooks GR. Introduction. In The New Handbook of Psychotherapy and Counseling with Men: A Comprehensive Guide to Settings, Problems, and Treatment Approaches. Edited by Good GE, Brooks GR. San Fransisco 2005: 1-13.
  6. Levant RF. The male code and parenting: a psychoeducational approach. In Men in Groups: Insights, Interventions, and Psychoeducational Work. Edited by Andronico MP. Am Psychol Ass, Washington DC 1996: 229241.
  7. Richard DJ. The therapeutic status of the Mythopoetic approach: A psychological perspective. In Mythopoetic perspectives of men’s healing work: An anthology for therapists and others. Bergin & Garvey, Westport CT 2000 157-79.
  8. O’Neal JM. Gender role conflict and strain in men’s lives: Implications for psychotherapists, psychologists and other human service providers. In Men in transition: Theory and therapy. Edited by Solomon K, Levy NB. Plenum, New York 1982: 5-44.
  9. Nahon D, Lander NR. A clinic for men: challenging individual and social myths. J Mens Health Couns 1992;14: 405-16.
  10. Baum M. The male way of mourning divorce: when, what, and how. Clin Soc Work J 2003; 31: 37-50.
  11. Cavehill PA. Bereaved men: How therapists can help. Psychother Priv Pract 1997; 16: 1-15.
  12. Robertson JM, Freeman R. Men and emotions: developing masculinecongruent views of affective expressiveness. J Coll Stud Dev 1995; 36: 606-7.
  13. Heesacker M, Prichard S. In a different voice, revisited: men, women and emotion. J Ment Health Couns 1992; 14: 274-90.
  14. Lander NR, Nahon D. An Integrity model perspective on working with occupational stress in men. J Men’s Health 2008; 5: 141-7.
  15. Möller-Leimkühler AM. Barriers to help-seeking by men: a review of sociocultural and clinical literature with particular reference to depression. J Affect Disord 2002; 71: 1-9.
  16. Corney RH. Sex differences in general practice attendance and help seeking for minor illness. J Psychosom Res 1990; 34: 525-34.
  17. Verhaak PFM. Determinants of the help-seeking process: Goldberg and Huxley’s first level and first filter. Psychol Med 1995; 25: 95-104.
  18. Nordic Conference on Men’s Health. Stockholm, 2008. Program and conference proceedings available online. nordicmenshealth.wordpress.com/
  19. White A, et al. The State of Mens Health in Europe. European Union 2011.
  20. Helgason ÁR. Prostate Cancer Treatment and Quality of Life - a Three Level Epidemiological Approach (PhD thesis) Stockholm: Karolinska Institute, University Press, Stokkhólmi 1997.
  21. Helgason ÁR, Arver S, Adolfsson J, Dickman P, Granath F, Steineck G. “Potency” - validation of self-administered questionnaire information with an objective measure of night-time erections and test-retest reliability. Br J Urol 1997: 81: 135-41.
  22. Helgason ÁR, Adolfsson J, Dickman P, Fredrikson M, Steineck G. Distress due to unwanted side-effects of prostate cancer treatment is related to impaired well-being (quality of life). Prost Cancer Prost Dis 1998: 1: 128-33.
  23. Helgason ÁR, Adolfsson J, Steineck G. Disease specific quality of life in men with prostate cancer - A three level epidemiological approach. J Epidemiol Biostat 1997: 4: 213-8.
  24. Helgason ÁR, Adolfsson J, Dickman P, Arver S , Fredrikson M, Steineck G. Factors associated with waning sexual function among elderly men and prostate cancer patients. J Urol 1997; 158: 155-9.
  25. Helgason ÁR, Adolfsson J, Dickman P, Arver S, Fredrikson M, Göthberg M, Steineck G. Sexual desire, erection, orgasm and ejaculatory functions and their importance to elderly Swedish men: A population-based study. Age Ageing 1996; 25: 285-91.
  26. Helgason ÁR, Adolfsson J, Dickman P, Fredrikson M, Arver S, Steineck G. Waning sexual function - the most important disease-specific distress for patients with prostate cancer. Br J Cancer 1996; 73: 1417-21.
  27. Helgason ÁR, Fredrikson M, Adolfsson J, Steineck G. Decreased sexual capacity after external radiation therapy for prostate cancer impairs quality of life. Int J Radiat Oncol Biol Phys 1995; 32: 33-9.

Reynsla mín af ristilspeglun

Borubrattur brá ég mér í mína fyrstu ristilspeglun hér um daginn, eftir tveggja sólahringa úthreinsun. Afþakkaði vinsamlegt tilboð um róandi i æð. Bý í Njarðvík og ætlaði að keyra heim.

Kominn í sérsniðnar buxur með gati á afturendanum og lagstur á hliðina. Horfði fast á skjáinn og fannst ristillinn í mér bráðmyndalegur. Það var þá sem það gerðist.

Skyndilega leið mér eins og ég væri með krampakennda magakveisu. Þið vitið, svona eins og maður fær stundum í útlöndum. Engdist sundur og saman eins og gerist gjarna áður en niðurgangurinn nær að ryðja sér leið út. En hér var enginn niðurgangur að hreinsa út. Ég var viss um að þetta myndi aldrei taka enda. Dauðsá eftir að hafa ekki tekið róandi í æð.

Þá heyrði ég þessa róandi rödd hjúkrunarfræðingsins. - Hann er bara að fara fyrir hornið vinur. Þetta lagast þegar hann er kominn fyrir hornið. Anda og slaka, anda og slaka...Svona nú komst hann fyrir hornið. Það slaknaði á mér og líðanin varð strax betri.

– Eru nokkuð fleiri svona helv. horn? Stundi ég.

– Þú veist hvernig ristillinn lýtur út, er það ekki? ristill-mynd

 

Auðvita vissi ég það, gat séð hann fyrir mér vitrænt, en ekki með garna-taugunum.

Þá heyrðist aftur hin ómþýða huggandi rödd hjúkrunarfræðingsins. – Nú fer að koma ný beygja, en hún er ekki eins körpp. Nú er bara að slaka á og reyndu að prumpa, það er í góðu lagi, ristilspegillinn dælir í þig lofti og það þrýstir á ristilveggina. Slaka á og reyna að prumpa.

Þetta horn var ekki nándar nærri eins óþægilegt og það fyrsta. Svo kom ómþýða röddin aftur. – Nú er bara eitt horn eftir. Þetta hljómaði eins og himnasending. – Slaka á og prumpa. Nú er hann kominn út í enda. Ég hefði geta kysst þessa ómþýðu rödd.

 

Hefði ég bara fengið þessar leiðbeiningar þegar í upphafi, þá er ég viss um að allt ferlið hefði verið mun betra.


Fyrirtækjavæðing hins opinbera

Innleiðing fyrirtækjahugsunar í opinberu starfi átti að gera allt starf hins opinbera skilviknara og ódýrara. Allt átti að setja í dálka hins heilaga excel-eyðublaðs. 

Flestir hafa fyrir löngu áttað sig á því að dálkahugsun er ekki vænleg til árangurs í heilbrigðis- og skólakerfi. Ég var virkur í háskólasamfélaginu og heilbrigðiskerfinu í Stokkhólmi í þrjá áratugi. Í báðum þessum störfum þurfti ég sem yfirmaður að gera skýrslur fyrir árleg uppgjör, stundum tvisvar á ári.

Þá var eins gott að dálkurinn væri ekki mikið í mínus. Á hverju ári var þó hvatt til þess að allir ættu að vinna saman, þannig fengist bestur árangur. ”Vinnið þverfaglega” eins og það var orðað. Allir virtust vera sammála um að það væri æskilegt að ná sem mestum samlegðaráhrifum. Hugsa og vinna þvers og kruss, jafnvel í hring, til að árangur og nýsköpun yrði sem mest og best. Ekki festast í dálkahugsun, sem sænskir kalla ”stuprör”. Hver dálkur hafði þó áfram sinn yfirmann sem var meðal annars ábyrgur fyrir því að skila hallalausu uppgjöri sínum dálk í excelskjalinu. 

Þetta gerði síður en svo gagn. Bara vesen og aukin skriffinnska. Allt þverfaglegt samstarf varð torveldara, flóknara og dýrara. 


Sólvit

SolLoksins er veturinn liðinn og flest hlökkum við til sólarinnar. Hún er uppspretta alls lífs og 15-20 mínútna sólbað hefur góð áhrif á sálarlífið og hleður okkur upp af lífsnauðsynlegu D-vítamíni. En flest er best í hófi.

 

Sólin bítur

 

Flestir vita að það ber að varast sólina milli 11:00 - 15:00, sérstaklega á suðlægum slóðum. Þá er best að sitja í skugga.

Verið aldrei í sólinni án þess að nota sólvarnaráburð með sólvarnarstuðli 30 (SPF30), eða hærri ef húðin er mjög hvít. Notið sólgleraugu sem verja augun fyrir svokölluðum UVR geislum.

 

Notið sólvarnaráburð og sólgleraugu, jafnvel þó þið sitjið í skugga. Skugginn ver okkur ekki fyrir endurvarpi geisla frá vatni eða ljósum sandi.

Berið á ykkur sólvarnaráburð með 2-3 tíma millibili. Notið léttan klæðnað og höfuðföt og sterkari sólvörn á viðkvæm svæði eins og varir, eyru og nef.

Verjið börnin ykkar fyrir skaðlegum bruna með því að bera vel og reglulega á þau sterkan sólvarnaráburð. Börn sem eru 6 mánaða og yngri eiga alltaf að vera í skugga.

 

Áhættuhegðun

 

SunMan2Það hefur þó komið í ljós í sænskum rannsóknum að karlmenn sækjast gjarna í sólböð einmitt þegar sólin er sem sterkust. Þeir hugsa líklega sem svo að það sé hægt að steikja sig árangursríkt í stuttan tíma og sleppa sólinni frekar á morgnana og síðdegis. Þetta er beinlínis hættuleg hegðun.

 

Notið aldrei sólvarnaráburð sem aðal vörn til að geta verið sem lengst í sólinni. Sólvarnaráburðurinn ver okkur ekki fyrir vissum hættulegum geislum sólarinnar þó hann komi í veg fyrir sólbruna.

 

Sumir halda að þeir geti undirbúið húðina fyrir sólböðin með því að fara nokkrum sinnum í ljósbekki áður en farið er í sólina. Þetta er rangt. Það ver ekki húðina fyrir skaðlegum sólargeislum þó hún sé brún vegna sólarbekkja. Um er að ræða allt aðra geisla. Það er beinlínis varað við sólbekkjum nema í einstökum tilvikum og þá í læknisfræðilegum tilgangi.


Fullnægingin og sæðisvökvinn

Hjá körlum sem hafa farið í aðgerð þar sem blöðruhálskirtillinn er fjarlægður er enginn sæðisvökvi lengur til staðar, því framleiðsla sæðisvökva er eina hlutverk blöðruhálskirtilsins. Fullnægingin verður því þurr, en það dregur verulega úr nautninni. Þurr fullnæging hefur svipuð neikvæð áhrif á lífsgæði karla og þverrandi limstífni.

Kynlífsathafnir

Þegar valið er af handahófi segjast átta af tíu körlum á aldrinum 60-69 ára fá kynferðislega fullnægingu einu sinni í mánuði (meðaltal) og hafa af því nokkra ánægju.

Kynlífsathafnir dragast saman þegar aldurinn færist yfir. Á aldursbilinu 70-80 ára hafa aðeins þrír af tíu samfarir einu sinni í mánuði. Fleiri stunda sjálfsfróun.   

Stífnin

Meirihluti þeirra sem láta fjarlægja blöðruhálskirtilinn verða fyrir því að limurinn stífnar ekki sem skyldi, ef þá nokkuð. Þegar ristruflanir eru það miklar að ekki er lengur hægt að hafa samfarir án hjálpartækja, hefur það mikil áhrif á lífsgæði þeirra sem í því lenda. 

RigiScan

Hér til hægri er mynd af tölvu sem metur tíðni og styrkleika limstífni í svefni. Stuðst er við þesskonar mælingar til að meta hvort skert limstífni sé af líffræðilegum toga.

Margvísleg bjargráð eru þó til staðar eins og lyf og pumpur, en einnig er hægt að framkvæma aðgerðir þar sem íhlutir (protesur) eru settir inní tippið. Best er að ráðfæra sig við þvagfæraskurðlækni varðandi þessi mál. 

Kynlíf skiptir máli fyrir suma eldri karla, en alls ekki alla. 


Heilsuhegðun barna

 

Áhrif jafningja á heilsuhegðun barna og unglinga er afgerandi og sterkasti einstaki áhrifaþátturinn á hegðun þeirra. Upplifi unglingurinn að hann vaxi í áliti í vina- og kunningjahópnum við það að byrja að reykja eða drekka, eikur það verulega áhættuna á neikvæðri heilsuhegðun. Það er því mikilvægt fyrir allt lýðheilsustarf með börnum og unglingum að vinna með hópinn sem heild. Jafnt aðgengi að tómstunda- og íþrótta starfi er þar mikilvægur þáttur.

 


Siðfræði samtala í lífslokameðferð

Áhugavekjandi samtal (Motivational Interviewing) er samtalsaðferð sem upphaflega var þróuð til að hjálpa fólki með fíknivanda til að átta sig á og virkja eigin vilja til breytinga. Seinni tíma rannsóknir hafa sýnt að aðferðin hentar vel á mörgum öðrum sviðum, m.a. til að auðvelda sjúklingum í líknarmeðferð að ræða um dauðann við heilbrigðisstarfsfólk, sem er oft forsenda þess að geta undirbúið aðstandendur undir dauða sjúklings. Virðing fyrir mörkum fólks er grundvallaratriði í slíku samtali.

Siðfræðin

Undanfarin ár hefur athyglin beinst að siðfræðilegum álitaefnum varðandi samtöl í vinnu með sjúklinga í líknar- og lífslokameðferð, þar sem markmiðið er að fá leyfi sjúklings til að upplýsa aðstandendur um yfirvofandi dauða viðkomandi. Forsenda fyrir því að eiga opið samtal um yfirvofandi dauða sjúklings er að taka tillit til eftirfarandi aðstæðna: Hafi aðstandendur of skamman tíma til að aðlagast og meðtaka þá staðreynd að að ástvinur þeirra sé að deyja, hefur það oft í för með sér langtímavanlíðan eins og þunglyndi og kvíða. Treg tjáskipti milli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklings varðandi yfirvofandi dauða sjúklings tengjast skömmum aðlögunartíma aðstandenda, vegna þess að heilbrigðisstarfsfólk þarf leyfi sjúklings til að upplýsa aðstandendur, nema sjúklingur sé ófær um að tjá sig.

 

Íhlutun

Raunprófaðar og siðfræðilega réttlætanlegar aðferðir til að opna umræðu milli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklings varðandi yfirvofandi dauða, eru aftur á móti líklegar til að auka líkur á því að sjúklingur opni augun fyrir þeim veruleika sem hann stendur frammi fyrir, opni fyrir þessa umræðu við ástvini sína og veiti heilbrigðisstarfsfólki leyfi til að undirbúa ástvini sína tímanlega. Íhlutun sem miðar að því að auðvelda samtal um dauðann í líknarmeðferð, byggð á aðferðum áhugavekjandi samtals, hefur gefið góða raun, sérstaklega fyrir karlmenn, en gagnast bæði körlum og konum. Aftur á móti er alltaf hætta á að meðferðaraðili gangi yfir mörk sjúklings og leiði sjúkling inn í umræðu sem hann vill í raun ekki taka þátt í, því þarf að fara varlega.

Niðurstöður

Niðurstöður siðfræðirýninnar voru þó að það sé þrátt fyrir allt réttlætanlegt að nota markvissa samtalstækni, þar sem markmiðið er að opna fyrir umræður um yfirvofandi dauða, í stað ómarkvissrar. Þó er það að því gefnu að aldrei sé farið lengra en sjúklingurinn sjálfur vill. Þó meginþorri rannsókna á sviðinu séu tengdar krabbameinsmeðferð, er engin ástæða til að ætla annað en niðurstöðurnar eigi líka við um aðra sjúkdóma.  Færni í að ræða um viðkvæm tilfinningaleg mál eins og dauðann, krefst mikillar þjálfunar og því ekki á færi nema þeirra sem hafa þjálfun, handleiðslu og viðamikla klíníska reynslu. Það er því mikilvægt að fræðsla og handleiðsla fyrir fagfólk sé aðgengileg hvar sem er á landinu. Þar getur Krabbameinsfélagið aðstoðað.

 ---------------------------------------------------------

HEIMILDASKRÁ 

 

Black, I. og Helgason, A. R. (2018). Using motivational interviewing to facilitate death talk in end-of-life care: An ethical analysis. BMC Palliat Care, 17(1), 51.

Forsberg, L., Kallmen, H., Hermansson, U., Berman, A.H. og Helgason, A.R. (2007). Coding counsellor behaviour in motivational interviewing sessions: Inter-rater reliability for the Swedish Motivational Interviewing Treatment Integrity Code (MITI). Cogn Behav Ther, 36(3), 162–169.

Forsberg, L., Forsberg. L. G., Lindqvist, H. og Helgason, A. R. (2010). Clinician acquisition and retention of motivational interviewing skills: A two-and-a-half-year exploratory study. Subst Abuse Treat Prev Policy, 13(5), bls. 8.

Hauksdottir, A., Steineck, G., Furst, C. J. og Valdimarsdottir, U. (2010). Long-term harm of low preparedness for a wife’s death from cancer – a population-based study of widowers 4–5 years after the loss. Am J Epidemio, 172(4), 389–396.

Hauksdottir, A., Valdimarsdottir, U., Furst, C. J., Onelov, E. og Steineck, G. (2010). Health care-related predictors of husbands’ preparedness for the death of a wife to cancer – a population-based follow-up. Ann Oncol, 21(2), 354–361.

Miller, W. R. og Rollnick, S. (2013). Motivational interviewing: Helping people change (3. útgáfa). New York: Guilford Press.

Pollak, K. I., Childers, J. W. og Arnold, R. M. (2011). Applying motivational interviewing techniques to palliative care communication. J Palliat Med, 14(5), 587–592.

Skulason, B., Hauksdottir, A., Ahcic, K. og Helgason, A. R. (2014). Death talk: Gender differences in talking about one’s own impending death. BMC Palliat Care, 13(1), 8.

Valdimarsdottir, U., Helgason, A. R., Furst, C.-J., Adolfsson, J. og Steineck, G. (2004). Awareness of husband’s impending death from cancer and long-term anxiety in widowhood: A nationwide follow-up. Palliat Med, 18(5), 432–443.

 

Fyrst birt í Morgunblaðinu


Ættleiðingar og tengslanet barna

Það er stórt og óafturkræft áfall fyrir barn þegar foreldri þess fellur frá. Barnið þarfnast sorgarvinnslu, reglubundins stuðnings og öryggis frá sínum nánustu, stórfjölskyldunni og velferðarþjónustunni allt til fullorðinsára.

Þegar annað foreldri barns deyr kemur gjarna upp sú staða að eftirlifandi foreldri fer í nýtt samband. Stundum vill nýi makinn ættleiða barnið.

Sé það gert er mikilvægt að halda traustum tengslum við blóðfjölskyldu barnsins, nema í undantekningartilfellum.

Grundvallarreglan á að vera ræktun tengsla. Ættleiðing á ekki að þýða að barnið tapi tengslum, heldur fái líka nýtt tengslanet.

 

 


Þegar foreldri deyr

 

Miðlægt ráðgjafar og stuðningsteymi hefur verið stofnað innan vébanda Krabbameinsfélagsins þar sem starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafi. Ráðgjöfin fer aðallega fram í gegnum síma og net. Þó er gert ráð fyrir að unnt verði að bregðast við óskum um að fá aðila frá teyminu til að heimsækja vettvang faglegs stuðningsnets barns, sé þess óskað.

Með faglegu stuðningsneti barna er átt við kennara, skólahjúkrunarfræðinga, æskulýðsfulltrúa, presta, félagsráðgjafa, sálfræðinga og aðra fagaðila sem mæta börnunum og aðstandendum þeirra í samfélagslegu samhengi. 

 

Sjá nánar á:

https://www.krabb.is/born/ 

https://www.krabb.is/foreldramissir/log-og-reglur/login-i-hnotskurn

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband