Draumveruleiki á dánarbeði

Þau sem hafa setið á dánarbeði náins vinar eða aðstandenda, kunna að hafa upplifað að sá deyjandi flakki fram og tilbaka í tíma og rúmi. Vakni upp og segist hafa verið í sveitinni. Talar um sveitina sína þar sem hún lék sér við hundinn, eins og hún væri nýkomin þaðan. Þó bærinn sé löngu kominn í eyði.  Það er ekki óalgengt að aðstandendum finnist þetta óþægilegt og túlki þetta sem rugl. Að það sé “aðeins farið að slá útí fyrir” mömmu, eða jafnvel að hún sé orðin “snar rugluð”. En þetta á sér eðlilegar skýringar. Fólk á lokametrum lífsins sefur mikið og mókir. Draumarnir verða samtvinnaðir raunveruleikanum. Draumar eru jafn verulegir og raunveruleikinn þegar okkur dreymir. Þegar þessir tveir veruleikar renna saman verður til nýr veruleiki, draumveruleikinn.  

Það hefur ekkert uppá sig að vera sífellt að reyna að leiðrétta fólk við slíkar aðstæður. Betra að slá á léttari strengi og spyrja frétta úr sveitinni. Það getur þó gerst að draumarnir verði óþægilegir, jafnvel slæmir. Þá er gott að strjúka viðkomandi hlýlega og segja, ”þetta var bara draumur, þú ert hér á spítalanum og ég er hér hjá þér”. Oft áttar sá deyjandi sig og draumurinn hverfur. 

Flest okkar muna ekki drauma, við munum að við dreymdum, en það er oft býsna erfitt að muna hvað það var. Þeir sem liggja fyrir dauðanum sofa og móka stóran hluta sólarhringsins. Þegar þú situr við dánarbeð verður þú hluti af draumveruleika þess sem er að deyja. Það getur verið erfitt, en einnig gefandi. Þetta er fullkomlega eðlilegt ástand.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband