12.7.2007 | 09:02
Þegar alheimurinn opnaðist fyrir mér!
Bloggvinur minn Jón Steinar benti mér á að lesa bókina The Power of Now eftir Ekhart Tolle. Í formálanum segir Tolle frá þeirri trúarlegu reynslu sem gerbreytti lífi hans og beindi honum inná nýa braut. Ég hef sjálfur upplifað það sem Ekhart skrifar um og vil gjarna deila því með ykkur um leið og ég mæli eindregið með bókinni:
Reynsla mín :
Alheimurinn opnaðist fyrir mér og afstaða mín til lífsins gerbreyttist, á einu andartaki. Ég var í tilvistarkreppu og fannst sá efnisheimur sem ég lifði í og trúði á, afskaplega merkingarsnauður. Ég lá í rúminu þetta kvöld og las trúarlega og heimspekilega texta í leit minni að samhengi í lífinu.
Það var þá sem ÞAÐ gerðist!
Það heltist skyndilega yfir mig og gagntók mig. Mér fannst ég vera í miðjum alheiminum og ég fann fyrir mikilli samkennd. Ég skildi á einhvern undarlegan hátt hver ég var í hinu stóra samhengi hlutanna. Þessu innsæi fylgdi djúp ró, sterk vellíðunar- og öryggistilfinning. Ég sat um stund með lokuð augun og naut tilfinningarinnar. Í hugskoti mínu sá ég hvítt lýsandi krossmark. Ég veit ekki hve lengi þetta varaði og ég man ekkert hvað ég hugsaði.
Þetta gerðist árið 1983 og ég var 26 ára. Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt hvorki fyrr né síðar. En eitt er víst að þessi upplifun umturnaði lífi mínu og það sem meira er tilfinningin hvarf ekki, heldur fylgdi mér í mörg ár.
Til að byrja með voru vissar neikvæðar aukaverkanir. Til dæmis hafði sýn mín á líf og dauða gerbreyst og um tíma hafði ég tilhneigingu til að gera lítið úr ótta annarra, varð sjálfhverfur í eigin fullvissu og vellíðan. Þessi sjálfhvera (egocetric) varaði þó ekki lengi, því samkenndin sem hafði gagntekið mig í augnabliki upplifunarinnar tók völdin. Samkenndin með vanlíðan fólks sem hræðist dauðann og lífið.
Vegna þeirrar innri vissu og ró sem ég nú upplifði dags daglega, hætti ég að streitast við að setja mér markmið og synda á móti straumnum. Ég steig útí vatnið og lét berast með straumnum þangað sem straumurinn vildi bera mig. Ég tók því sem að höndum bar og gerði það besta úr þeim aðstæðum sem ég var í hverju sinni. Í sannleika sagt þá trúi ég því að ef ég hefði ekki fengið þessa upplifun væri ég ennþá að vinna við forvarnastarf hjá Krabbameinsfélaginu, slíkur öryggisfíkill sem ég var. Í stað þess lét ég strauminn bera mig til Svíþjóðar þar sem ég ætlaði að vera í 1-2 ár og starfa við skúringar meðan fyrrverandi kona mín og barnsmóðir var að klára sitt framhaldsnám. Til gamans sendi ég þó upplýsingar um mig til prófessors á Karolinska sem ég sá í sjónvarpinu, með spurningum um hvort hann hefði eitthvað fyrir mig að gera. Hann sendi pappírana áfram til annars prófessors sem var að vinna við krabbameinsrannsóknir. Sá fékk áhuga á mér og bauð mér vinnu við rannsóknir á lífsgæðum sjúklinga með krabbamein í blöðruhálskirtli (prostata). Ég lét slag standa. Straumurinn bar mig síðan áfram inní doktorsnám og að loknu doktorsprófi áfram í dósentstöðu. Í rauninni hef ég afskaplega lítið þurft að hafa fyrir þessu en ég veit að ég hefði aldrei komist þangað sem ég er hefði það ekki verið fyrir upplifun sem ég fékk fyrir næstum því aldrafjórðungi, þó mér finnist eins og það hafi gerst í gær.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2007 kl. 11:24 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er stórmerkilegt. Mér finnst þú ríkur að hafa upplifað svona atvik og að þetta hafi haft svona frábær áhrif á líf þitt.
Ásdís Sigurðardóttir, 12.7.2007 kl. 13:46
Mér vöknaði um augu. Ég lýsi svipaðri reynslu, sem ég varð fyrir á barnsaldri á blogginu mínu (Berrassaður strákur á fjalli) Þá setti ég þetta ekkert í neitt vitrænt samhengi en fullvissan um eitthvað meira og betra fylgdi mér. Síðar varð þetta yfirskyggt í amstri lífsins og það var ekki fyrr en ég hafði endað í algerri blindgötu meðtilvistina að svipuð reynsla birtist mér, rödd sem sagði. Allt er gott...óttastu ekki...ég er hjá þér. Þetta var raunverulegt og mér er sama þótt fólk kími. Ég varð upp frá þessu þyrstur um frekari fróðleik um þetta og grautaði í kristninni, búddisma og yogafræðum, sem síðar leiddu að Eckhart Tolle, sem mér finnst skýra þetta svo kristaltært að ég væri hissa á að nookur misskildi það. Kannski er það þó forsenda skilningsins að öðlast þessa reynslu, glata öllu og sleppa stjórninni. Þá gerast undursamlegir hlutir.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.7.2007 kl. 15:32
Já Jón Steinar,
ég held nefnilega að það sé málið = að fólk verði að upplifa svona reynslu til að fatta um hvað maður er að tala.
Hlutverk okkar sem hafa upplifað þessa reynslu er e.t.v. bara að voga að segja frá því og vera til staðar ef einhver hefur þörf á að spyrja. Einnig að hjálpa þeim sem eru nýleg búin að ganga gegnum þetta að fóta sig aftur. Það er nefnilega ekki óalgengt að fólk (þó langt frá því allir) fari í einhvern "ég skal frelsa allan heiminn elsku mamma - ham" í byrjun. Þetta er jú svo frábært að það er ekkert skrítið þó fólk vilji reyna að deila þessu með öðrum. Svo eru sumir sem draga sig inní egócentríska skel til að byrja með eins og Eckhart Tolle lýsir að hafi gerst með sig þegar hann bara hékk á garðbekkjum um hríð.
En auðvita verða allir að finna sína eigin leið.
Ásgeir Rúnar Helgason, 12.7.2007 kl. 16:06
... það er gaman að lesa þetta Ásgeir... ég hef ekki orðið fyrir sömu reynslu og þið Jón Steinar lýsið, en það er samt ekki ýkja langt síðan að mér fannst ég fara á flot og líða með tímanum og lífinu... ekkert streð lengur... heldur allt að því óhugnaleg vellíðan...
Brattur, 12.7.2007 kl. 19:56
Frábr lesning...ég trúi því að heimurinn batnandi fari með því að við deilum reynslu okkar. Svo
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.7.2007 kl. 22:27
Ahh..sorry...já ég tel að það að deila reynslu sinni og upplifunum hjálpi öðrum. Svo margir fara með svona merkilegar reynslur sem leyndarmál og óttast að verða hæddir fyrir sinn eigin sannleika.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 12.7.2007 kl. 22:28
Frábær lesning. Nærandi, gott og gefandi að lesa lýsingar á svona yndislegri reynslu. Takk fyrir það.
Annars er erindi mitt öllu jarðbundnara: Klukka þig hér með, bimmsalabimm, þú átt að skrifa átta staðreyndir um sjálfan þig á bloggsíðuna þína og klukka svo átta aðra bloggara. Getur vitleysan orðið meiri?
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 12.7.2007 kl. 23:09
Aha! Erða það sem þetta "klukk" gengur úta.
Ég hef fengið nokkur svona klukk án þess að gera neitt í málinu, einfaldlega vegna þess að engin nema þú útskýrði reglurnar.
Sé til hvað ég geri í málinu:
Ásgeir Rúnar Helgason, 13.7.2007 kl. 08:35
Mögnuð lesning,,,þarf aðeins að melta þetta.
Um leið og maður þorir að sleppa tökunum og treysta því sem er okkur æðra,,þá gerast ótrúlegir hlutir,,,hef prófað það sjálf.
Takk fyrir að deila þessu með okkur hinum.
Ásgerður , 13.7.2007 kl. 08:49
Ferlega flott saga.
Steingerður Steinarsdóttir, 17.7.2007 kl. 22:05
Heilinn er stórkostlegt tól en það getur verið erfitt að ná stjórn á honum, fyrsta atriðið til þess að ná stjórn er að sleppa stjórn... hljómar weird en er það ekki, nenni ekki nánar út í þá sálma eins og er
DoctorE (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 23:30