2.12.2007 | 10:28
Tvær hliðar málsins
Allar rannsóknir benda til þess að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu og að aukin neysla leiðir til aukningar á fjölda ofneytenda. Það verður því að sjá til þess að byggja upp fleiri meðferðarúrræði og/eða auka afkastagetu þeirra sem fyrir eru, ef víninu verður sleppt inn í matvöruverslanir. Ein leið er að eyrnamerkja með lögum fasta prósentu af söluhagnaði sem færi í að þróa meðferðarúrræði og forvarnir.
Önnur hlið málsins sem stundum gleymist er að fólk sem á í erfiðleikum með að hemja áfengisneyslu og er að reyna að minka neysluna (eða hætta alveg), þarf oft að sniðganga áfengi til að byrja með. Það mun ekki auðvelda þessum stóra hóp að taka fyrstu skrefin ef áfengi verður selt í matvöruverslunum.
Auðvita er það þó þannig að til að ná varanlegum bata verður sá sem hættir að geta umgengist áfengi og því má e.t.v. færa að því rök að það sé æskilegt að áfengi sé sýnilegt svo menn venjist því sem fyrst að umgangast það án þess að drekka.
En til þess að komast á leiðarenda verður maður að taka fyrstu skrefin í rétta átt og það eru þessi fyrstu skref sem verða erfiðari ef þú getur ekki farið út í búð til að kaupa mjólk án þess að rekast á áfengi.
Ofneytendur alkóhóls sem þurfa aðstoð til að breyta neysluvenjum sínum og þeir ofneytendur sem verða að hætta að nota áfengi til að lifa af, eru samanlagt líklega um 20% fullorðinna áfengisneytenda á aldursbilinu 30-70 ára (sænskar tölur). Þessi stóri hópur teygir anga sína inn í svo til allar fjölskyldur á Íslandi.
Mín niðurstaða er því að það sé ekki til góðs að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum.
Þjóðin klofin í afstöðu til sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Facebook
Athugasemdir
... ég held að við íslendingar höfum þegar farið í gegnum þessa umræðu í kjölfarið á því að bjórinn var leyfður... sem var náttúrulega tímaskekkja og fáránlegt að mega kaupa Brennivín og Vodka en ekki bjór...mín skoðun er sú að þeir sem ekki geta drukkið sér til ánægju eigi ekki að ráða því hvar hinir sem kunna með vín að fara kaupi sitt vín... þetta er spurning um frelsi og val... íslendingar hafa að mínu mati þroskast hvað varðar umgengni við vín og eðlileg þróun að leggja niður ÁTVR... léttvín og bjór á að vera hægt að kaupa í matvöruverslunum í dag...
Brattur, 2.12.2007 kl. 23:08
Þar sem ég er dálitið upptekin af bókinni WISDOM OF THE CROWDS þessa dagana og það er jafntefli samkvæmt skoðanakönnun hvort leyfa eigi sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Þar af leiðandi er ég á báðum áttum eins og sönnum múgsinna sæmir.
Benedikt Halldórsson, 3.12.2007 kl. 05:31
Takk fyrir kveðjuna, Geiri minn, ég bið að heilsa Kobba næst þegar þú sérð hann.
Steingerður Steinarsdóttir, 3.12.2007 kl. 09:22
Ég er á því að nota megi svipuð rök hér og notuð voru þegar sett voru lög til að vernda fólk fyrir óbeinum reykingum.
Um 20% fullorðinna eiga við áfengisvanda (á mismunandi stigum) að glíma þ.e. drekka meira en heilsusamt getur talist. Fyrir hvern ofnotenda eru oftast nokkrir í umhverfinu sem líða vegna drykkju viðkomandi. Allt sem gerir þessum hópi erfiðara um vik til að breyta sínum venjum er af hinu illa og viðheldur andlegri vanlíðan í samfélaginu.
Auðvita vil ég, eins og Brattur, geta farið útí búð og keypt eina rauðvín.
En ég fórna gjarna því frelsi í þessu tilviki.
Ásgeir Rúnar Helgason, 3.12.2007 kl. 14:55
Ég er að sjálfsögðu sammála þér Jóna, um að tóbak og áfengi eru ekki sambærileg. Ég meina ca. 90% þeirra sem nota tóbak verða nikótínfíklar en það eru þrátt fyrir allt ekki nema 10-20% sem verða áfengisfíklar (eftir því hvernig við skilgreinum fíkil).
Það sem ég á við er að þetta mál (að selja eða ekki selja áfengi í matvöruverslunum) á sér samt vissa hliðstæðu nauðsyn þess að vernda fólk fyrir óbeinum reykingum. Hvoru tveggja er spurning um að exponera (hvað sem það nú er á íslensku?)
Eitt af rökunum fyrir banni gegn óbeinum tóbaksreyk var m.a. að fólk sem er að reyna að hætta að reykja fellur oftar ef það er exponerað fyrir tóbaksreyk frá öðrum.
Hin rökin voru skaðlegu áhrifin sem óbeinn tóbaksreykur hefur á þann sem andar honum að sér.
Ég sé hliðstæðu í báðum röksemdafærslunum við mótrök gegn sölu áfengis í matvöruverslunum.
En eins og þú bendir réttilega á eru málin annars ólík. Það er t.d. almennt viðurkennt markmið í lýðheilsumálum að útrýma tóbaksreykingum en engum kemur til hugar að útrýma áfengi.
Það þarf hinsvegar að sjá til þess að það valdi sem minnstum skaða.
Ásgeir Rúnar Helgason, 3.12.2007 kl. 17:42
Geiri minn: Ég er að sjálfsögðu algerlega á báðum áttum í þessu máli (eins og fleiri) en hallast þó frekar að því að sleppa víninu lausu. Ég skil samt hvað þú ert að fara. Móðir mín var "alki" samkvæmt þessum AUDIT skala og ég efast um að hún hefði náð að hætta ef hún hefði haft vínið í matvörubúðinni.
Mamma drakk sig í svefn = dó, annað hvert kvöld í mörg ár (hin kvöldin var hún rúmliggjandi í þynnku). Hún hætti bara sí svona einn góðan veðurdag án AA og án þess að fara í meðferð. Hún fór á einn eða tvo AA fundi og fannst þetta ekki vera fyrir sig.
Þrátt fyrir þetta er ég á því að sleppa víninu inn í matvöruverslanir. Held ég? Og þó?
Ææi, ég veit ekki.
Fæ mér í glas og hugsa málið!
Vilhelmina af Ugglas, 4.12.2007 kl. 20:03
"Útsettur" skal það vera Jóna! Takk fyrir það!
Villa mín: Fáðu þér í glas heillin og hugsaðu málið.
Ásgeir Rúnar Helgason, 4.12.2007 kl. 20:12