14.6.2022 | 11:47
Sólvit
Loksins er veturinn liðinn og flest hlökkum við til sólarinnar. Hún er uppspretta alls lífs og 15-20 mínútna sólbað hefur góð áhrif á sálarlífið og hleður okkur upp af lífsnauðsynlegu D-vítamíni. En flest er best í hófi.
Sólin bítur
Flestir vita að það ber að varast sólina milli 11:00 - 15:00, sérstaklega á suðlægum slóðum. Þá er best að sitja í skugga.
Verið aldrei í sólinni án þess að nota sólvarnaráburð með sólvarnarstuðli 30 (SPF30), eða hærri ef húðin er mjög hvít. Notið sólgleraugu sem verja augun fyrir svokölluðum UVR geislum.
Notið sólvarnaráburð og sólgleraugu, jafnvel þó þið sitjið í skugga. Skugginn ver okkur ekki fyrir endurvarpi geisla frá vatni eða ljósum sandi.
Berið á ykkur sólvarnaráburð með 2-3 tíma millibili. Notið léttan klæðnað og höfuðföt og sterkari sólvörn á viðkvæm svæði eins og varir, eyru og nef.
Verjið börnin ykkar fyrir skaðlegum bruna með því að bera vel og reglulega á þau sterkan sólvarnaráburð. Börn sem eru 6 mánaða og yngri eiga alltaf að vera í skugga.
Áhættuhegðun
Það hefur þó komið í ljós í sænskum rannsóknum að karlmenn sækjast gjarna í sólböð einmitt þegar sólin er sem sterkust. Þeir hugsa líklega sem svo að það sé hægt að steikja sig árangursríkt í stuttan tíma og sleppa sólinni frekar á morgnana og síðdegis. Þetta er beinlínis hættuleg hegðun.
Notið aldrei sólvarnaráburð sem aðal vörn til að geta verið sem lengst í sólinni. Sólvarnaráburðurinn ver okkur ekki fyrir vissum hættulegum geislum sólarinnar þó hann komi í veg fyrir sólbruna.
Sumir halda að þeir geti undirbúið húðina fyrir sólböðin með því að fara nokkrum sinnum í ljósbekki áður en farið er í sólina. Þetta er rangt. Það ver ekki húðina fyrir skaðlegum sólargeislum þó hún sé brún vegna sólarbekkja. Um er að ræða allt aðra geisla. Það er beinlínis varað við sólbekkjum nema í einstökum tilvikum og þá í læknisfræðilegum tilgangi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Facebook