Samtal um fíkn

afneitun 1Kenningin um að allir sem eru að missa stjórn á drykkju séu í “afneitun” stenst ekki nánari skoðun. Þvert á móti þá eru flestir sem drekka í óhófi meðvitaðir um að drykkjan sé að fara úr böndunum, en vilja ekki viðurkenna það útávið vegna þess að þeir eru hræddir við “alkóhólista” stimpilinn. Allir vita jú að alkar verða að hætta að drekka en ég vil ekki hætta, bara ná aftur tökum á drykkjunni. Viðkomandi er sem sagt meðvitaður um að það er vandamál til staðar en neitar á þessu stigi að láta stimpla sig sem ólæknandi sjúkling? Hann neitar því drykkjuvandamálinu út á við þó hann viðurkenni það fyrir sjálfum sér og fer þar með á mis við hjálp sem hann hefði e.t.v. geta fengið.   

--------------------------------------------------------------------------

no change 2- Að tala sig frá breytingu - Það er þessi meðvitund um vandan sem er svo vandmeðfarin. Hægt er að virkja hana til jákvæðra breytinga en oftar en ekki bera aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk sig rangt að. Ef þú vilt fá einhvern til að tala af einlægni um áfengisneyslu sína er hlutdrægni gildra sem ber að forðast. Hvernig virkar þessi gildra? Þú tekur eftir einhverju sem bendir til áfengisvandamáls (jafnvel alkóhólisma), hjá vini þínum og byrjar á að segja að hann (eða hún) eigi við vandamál að etja. Vinurinn dregur þetta í efa. Hér kemur dæmi: ÞÚ: Jæja, mér sýnist það vera alveg ljóst að þú átt við alvarlegt drykkjuvandamál að stríða. Þú sýnir mörg einkenni alkóhólisma.VINSI: Hvað meinar þú? ÞÚ: Ja, þú hefur fengið minnisleysi í kjölfar drykkju, þér líður illa þegar þú getur ekki fengið þér drykk í veislum. Þú ert að missa stjórn á drykkjunni.VINSI: En fullt af fólki sem ég þekki drekkur alveg eins og ég. Þetta er ekki svona alvarlegt.ÞÚ: Ekki alvarlegt! Það er einskær heppni að þú hefur ekki verið handtekinn eða drepið einhvern akandi drukkinn.VINSI: Ég sagði þér að ég á ekki í neinum vandræðum með að keyra. Það hefur aldrei neitt komið fyrir. ÞÚ: Og hvað með fjölskylduna þína? Henni finnst að þú drekkir of mikið og finnst að þú ættir að hætta.VINSI: Stína er nú úr algjörri bindindisfjölskyldu. Það er ekkert að hjá mér. Þau halda nú að allir sem drekka þrjá drykki séu alkahólistar.  --------  

Með því að taka afstöðu með „hér er vandamál sem þarf að breyta” hlið baráttunnar kallar þú á „þetta er ekkert vandamál” andstöðu frá vininum. Því meir sem þú rökstyður þína hlið málsins þeim mun meir ver vinurinn hina hliðina. Þetta er kunnuglegt handrit og að öllum líkindum hefur vinurinn þegar farið í gegnum það með öðrum. Fólk í þessari stöðu geta bókstaflega talað sig frá því að breytast. Það að hlusta á sjálfa sig mótmæla því kröftuglega að það eigi við vandamál að stríða og þurfi að breytast, styrkir það í þeirri trú að engra breytinga sé þörf. Fáum líkar að hafa rangt fyrir sér. Þú hefur sem sagt ýtt vini þínum lengra útí fenið þó ætlunin hafi verið að draga hann í land.    

-----------------------------------------------------------------

stimpill- Stimpilgildran -  Sumir trúa því að það sé mjög mikilvægt fyrir neytandann að viðurkenna og sætta sig við greiningu ráðgjafans („þú ert alkóhólisti,” „þú ert í afneitun,”  „þú ert fíkill,”  o.s.frv.).  Af því að svona stimplar hafa oft neikvæða merkingu í samfélagi kemur það ekki á óvart að fólk með sæmilegt sjálfsmat streitist á móti.  Jafnvel í alkóhólbransanum, þar sem mikil áhersla hefur sumstaðar verið lögð á svona merkimiða, er skortur á rannsóknum sem sanna að það geri nokkurt gagn fyrir fólk að sætta sig við stimpil eins og „alkóhólisti”. Það er oft undirliggjandi “valdabarátta” í svona stimpla deilum þar sem ráðgjafi leitast við að sýna vald sitt og sérfræðilegu þekkingu.   Hjá fjölskyldumeðlimum, getur stimpill leitt til fordómafullra samskipta. Fyrir suma, gæti jafnvel bara lítil tilvísun í  „vandamál þitt með .......” leitt til óþægilegra tilfinningar um það að vera kominn í gildru. Stimpill er hlutdrægni, sem kemur í veg fyrir jákvæða samræðu. Það er vel hægt að skoða vandamál í kjölinn án þess að  fólk fái á sig stimpla sem geta kallað fram óþarfa átök.  Ef stimpill kemur aldrei upp í samræðunum þá er óþarfi að tala um hann.   Ef sá sem á við áfengisvanda að etja, byrjar sjálfur að ræða um stimpla, skiptir máli hvernig þú bregst við. Ein leið er umorðun. Hér að neðan er dæmi um samtal þar sem vinurinn tekur sjálfur upp stimpilinn “alkóhólisti” en þú umorðar það sem hann segir:  VINSI:  Þú ert að gefa í skyn að ég sé alki?  ÞÚ: Nei, ég velti mér nú ekki mikið upp úr svona stimplum, en mér heyrist það vera áhyggjuefni fyrir þig.  VINSI: Mér líkar ekki að vera kallaður alki.  ÞÚ: Þér finnst ekki þín drykkja vera á því stigi.  VINSI: Einmitt!   ÞÚ: Þú hefur fulla stjórn á þinni drykkju.  VINSI: Nei, ég  veit vel að ég þarf kannski að taka á málinu...  ÞÚ: En þér líkar það ekki að vera stimplaður sem einhver sem „eigi við vandamál að stríða”, þér finnst það fordæmandi.  VINSI:  Já, mér finnst það.  ÞÚ: Það eru ekki margir sem vilja fá á sig stimpil.   VINSI: Mér líður eins og það sé verið að sitja mig í kassa.  ÞÚ: Einmitt, má ég segja þér hvernig ég lít á þetta mál?   VINSI: OK!  ÞÚ: Fyrir mér þá skiptir það ekki máli hvað við köllum þetta. Mér er sama hvort við köllum það „fíkn” eða „vandamál” eða „dúbbelí-dú”. Við þurfum ekki að kalla það neitt. Það sem raunverulega skiptir máli eru þau skaðlegu áhrif sem alkóhól notkun getur haft og hvað, ef eitthvað, þú vilt gera í því. Það er það sem mér finnst skipta máli.  ---------------

Auðvita má fólk stimpla sig ef það vill. Til dæmis segja “ég er AA-maður” og “ég er alkóhólisti” og reynslan hefur sýnt að slíkir stimplar hjálpa mörgum séu þeir notaðir í réttu samhengi á réttu augnabliki. Það sem er mikilvægt er að stimpillinn komi frá því sjálfu en honum sé ekki troðið uppá fólk.

  ---------------------------------------------------------------------

 ásökun- Forðist ásakanir - Jafnvel þótt þú forðist stimplun og hlutdrægni gagnvart tvístígandi vini, getur það leitt til mótstöðu ef þú og vinur þinn vilja leggja áheyrslu á ólík atriði.   Byrjaðu á að ræða áhyggjur þess sem í hlut á, frekar en það sem ÞÚ heldur að sé mikilvægt að ræða. Fyrr en síðar skarast þessi áhyggjuefni við áfengisneysluna. Til dæmis, ef vinur þinn hefur áhyggjur af börnum sínum, er óhjákvæmilegt að áhrif neyslu hans á börnin komi fyrr eða síðar inn í umræðuna á eðlilegan hátt. Í langflestum tilvikum er fólk meðvitað um hvaða áhrif neyslan hefur á umhverfi þess enda koma slíkar áhyggjur mjög fljótlega fram í opnum og fordómalausum viðræðum við ofneytendur alkóhóls og þá er hægt að nýta þær sem jákvætt afl til breytinga. Hinsvegar er afar eðlilegt að fólk fari í vörn ef það er “lamið í hausinn” með ásökunum eins og: “Þú gerir þér væntanlega grein fyrir því að þessi drykkja þín er á góðri leið með að eyðileggja börnin þín”. Í þeim tilvikum fer fólk í vörn og fer að telja sjálfu sér og andmælandanum trú um að þetta sé nú alger vitleysa. Í stað þess að vera afl til jákvæðra breytinga verður þetta hemill á breytingar og í versta falli afl sem ýtir viðkomandi í öfuga átt.  

-------------------------------------------------------------

  mótstada

 

- Mótstaða - Mótstöðuviðbrögð eru eðlileg þegar ráðgjöf á sér stað og ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þeim. Innan læknisfræðinnar er mótstaða hugtak sem tengist heilbrigðu ónæmiskerfi. Mótstaða og breytingatal eru einsog umferðarmerki sem segja þér að halda áfram, sýna varúð, hægja á þér eða stöðva það sem þú ert að gera. Hvert framhaldið er,  veltur að miklu leyti á þér. Það eru þín viðbrögð við mótstöðu þess sem þú talar við sem allt veltur á. Ef mótstaða minnkar eftir því sem líður á samtalið, er mjög líklegt að það tengist einhverju sem þú ert að gera. Af þessu má draga þá ályktun að mótstaða sé ekki vandamál þess sem þú talar við (t.d. alkahólneytandans) heldur spurning um samtalshæfileika þína. Sumir, oftast fólk með langa “þjálfun” í að glíma við gagnrýnendur, sýna þó mikla mótstöðu sama hvaða aðferðum er beitt. Þetta fólk er yfirleitt reitt og í varnarstöðu. En rannsóknir sýna að umfang mótstöðu ræðst að miklu leyti af stíl viðmælandans. Enn og aftur,  hvernig þú bregst við mótstöðu skiptir máli.  Góð meginregla er að bregðast við mótstöðu án mótstöðu. Einföld viðurkenning  á ágreiningi, eða skilningur getur auðveldað framhaldið frekar en varnarstaða og jafnframt varnað því að fallið sé í þá gildru að taka afstöðu. Hér kemur dæmi: VINSI:  Hvað ert þú að ráðleggja mér?  Þú hefur örugglega aldrei reykt eina jónu! ÞÚ: Nei, það er erfitt að ímynda sér hvernig ég geti mögulega skilið þetta. 

------------- Einnig er hægt að endurkasta því sem vinur þinn segir með því að gera meira úr því. Ef þetta tekst þá hvetur það vininn til að bakka og finna ástæður sem hvetja til breytinga. Þetta þarf að gera með skilningi, öll kaldhæðni eða yfirdrifnar ýkjur geta kallað á fjandsamleg viðbrögð eða aukna mótstöðu. Dæmi: VINSI: Konan mín ýkir sífellt, ég hef aldrei verið svona slæmur. ÞÚ: Þér finnst hún ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur ? VINSI: Það getur svo sem vel verið að ég þurfi að taka mig eitthvað á, en hún blæs þetta upp. ÞÚ: Þú hefur verið að velta fyrir þér að minka drykkjuna. VINSI: Já, ég kannski drekk of mikið en það er ekki eins og ég sé háður því. ÞÚ: Þú sérð að drykkjan veldur þér og fjölskyldu þinni vandræðum en það er jafnframt mikilvægt fyrir þig að fólk hugsi ekki um þig sem einhvern alka. 

-----------------------------------------------------------------

     open questions

- Að nálgast vandann - Einfaldasta og beinasta nálgunin til að opna umræður um fíkn er hreinlega að spyrja. Opnar spurningar er hægt að nota til að kanna skilning og áhyggjur þess sem við höfum áhyggjur af. Ekki samt spyrja hvort vinur þinn hafi slíkar áhyggjur t.d: ”Heldur þú að þú eigir við vandamál að stríða?” Gerðu í stað þess ráð fyrir að hann/hún séu tvístígandi og hafi slíkar áhyggjur. Hér að neðan eru nokkur dæmi um opnar spurningar sem eru vel til þess fallnar að framkalla jákvætt breytingatal:  Spurningar um ókosti óbreytts ástands: Er eitthvað sem veldur þér áhyggjum um stöðu þína í dag? Er eitthvað sem fær þig til að halda að þú þurfir að gera einhverjar breytingar á lífi þínu? Er eitthvað varðandi þinn lífsstíl, sem aðrir gætu haft áhyggjur af? Að hvaða leyti veldur þetta þér áhyggjum? Hvað heldur þú að muni gerast ef þú breytir engu? Spurningar um kosti breytinga: Hvernig mundir þú vilja að hlutirnir breyttust? Hverjir væru kostir þess að gera þessa breytingu? Hversu fullviss ert þú um að geta gert þessar breytingar? Hvað (ef eitthvað) væri gott við það að breyta venjum þínum? Ef þú gætir breytt þessu strax með göldrum, hvernig yrði lífið betra hjá þér? Spurningar um áform um breytingar: Hvaða skoðun hefur þú á þinni eigin alkahólneyslu á þessu stigi? Hvað heldur þú að þú munir gera? Hversu mikilvægt er það fyrir þig? Hversu mikið viltu gera þetta? Hvað mundir þú vera tilbúin að reyna? Hvað ætlast þú fyrir? Þegar vinur þinn hefur sjálfur komist að þeirri niðurstöðu að einhverju verði að breyta verður þú að varast þá tilhneigingu að halda áfram og finna fleiri rök fyrir því að hann þurfi að breytast. Staldraðu heldur við og veltu upp spurningum sem tengjast því sem hann sjálfur er að pæla í.  Spurðu um nánari útskýringu: Hvernig? Hve mikið? Hvenær?      VINSI: Ætli ég verði ekki að draga eitthvað úr drykkjunni a.m.k. í miðri viku. ÞÚ: Á hvaða hátt er það áhyggjuefni? VINSI: Ég er þunnur í vinnunni og er farinn að vakna upp um miðja nótt og á erfitt með að sofna aftur ef ég tek ekki svefnlyf. Svo fer þetta illa í Stínu. ÞÚ: Segðu mér hvernig venjuleg vika lýtur út hjá þér. VINSI: Ég sötra þetta 4-6 bjóra á kvöldin um það bil annan hvern dag og tek stundum 2-3 tvöfalda af sterku líka, þó alls ekki alltaf. Það er svo meira um helgar, en ég er mjög sjaldan fullur. ÞÚ: Svo þér finnst þetta dálítið mikið svona samanlagt. VINSI: Já, eiginlega þyrfti ég að takmarka drykkjuna við frídaga, en þetta hjálpar mér að slaka á þegar ég kem heim á kvöldin eftir stressaðan dag. ÞÚ: Þú hefur áhyggjur af því að þetta sé að verða aðeins of mikið. VINSI: Já, ég finn að ég verða að draga úr þessu. ÞÚ: Getur þú lýst því nánar fyrir mér hvernig þetta hefur áhrif á líf þitt í dag og hvað þú hefur áhyggjur af að geti gerst í framtíðinni.    

Að spyrja um verstu og bestu afleiðingarnar (öfgarnar): Þegar ekki virðist mikill áhugi/löngun fyrir lífstílsbreytingu er hægt að leiða viðtalið áfram með spurningum um “verstu hugsanlegu afleiðingarnar” með því að biðja viðkomandi að lýsa því hverjar verstu afleiðingarnar gætu orðið ef engar breytingar verða: “Hvað er það versta sem getur gerst ef þú breytir ekki venjum þínum til lengri tíma litið?”  “Hvað veist þú um afleiðingar langvarandi áfengisneyslu áfengisdrykkju ?” Hin hliðin er að biðja viðkomandi að ímynda sér mesta og besta ávinninginn af því að breyta um lífsstíl: “Hver getur þú ímyndað þér að yrði mesti ávinningur þinn með því að breyta um lífsstíl?”  “Ef þér tækist fullkomlega að breyta um lífsstíl, hvernig væri líf þitt þá?”  

 

---------------------------------------------------------------------------

 Lífsgildi- Lífsgildi -  Ein aðferð til að koma af stað jákvæðu tali um lífsstílsbreytingar hjá vini þínum er að ræða um lífsgildi. Hvað sé mikilvægast í lífi hans. Forgangsröðun vinar þíns getur verið gjörólík þinni eigin, en allir eiga sér einhver markmið, væntingar og lífsgildi. Greining á því hver þau eru gefa tækifæri til skírskotunar og samanburðar þeirra við “óbreytt ástand”.  Hvaða markmið og lífsgildi eru þessum einstaklingi kærust?   Til eru einfaldar og skemmtilegar aðferðir til að greina lífsgildi t.d. lífsgildakortin (sem líta út eins og spil). Á hverju “spili” er eitt lífsgildi t.d. “fjölskyldan” eða “trú á Guð” eða “ríkidæmi” o.s.f. Þú byrjar á því að flokka spilin í tvo bunka, þau sem eru mikilvæg fyrir þig og svo þau sem ekki eru mikilvæg fyrir þig. Síðan tekurðu bunkann með mikilvægu lífsgildunum og velur út þau 15 mikilvægustu. Að því búnu þarftu að velja út 5. Af þessum 5 velurðu burt 2 og heldur eftir þeim 3 sem eru allra mikilvægust. Flestum finnst þetta spennandi og skemmtilegur “samkvæmisleikur” en einnig er hægt er að nota þetta sem “tæki” í samtali um lífsstíl.  Tilgangurinn er að finna ósamræmi milli hegðunar/lífsstíls og mikilvægra lífsgilda og viðhorfa.  Þegar þýðingarmestu gildi viðkomandi hafa verið greind, er hægt að spyrja hvernig þessi forgangsröðun samræmist  lífsstíl viðkomandi (t.d. áfengisdrykkju).   Dæmi:VINSI: “Af 30 lífsgildum sem eru mér kær hef ég valið út 3 atriði sem þrátt fyrir allt eru mér kærust, en það eru: Fjölskyldan, hamingja barnanna minna og góð heilsa.”  ÞÚ: Hvernig hefur lífsstíll þinn áhrif á fjölskyldu þína eða hamingju barnanna þinna eða þína eigin heilsu?  

---------------  Megintilgangur þessa er s.s að greina og varpa ljósi á mótsögnina sem felst í núverandi lífsstíl/hegðun og þeim lífsgildum sem eru viðkomandi mikilvægust.    

 

------------------------------------------------------------------------------

 

MI bokin- Hvetjandi samtal -  Sú samtalstækni sem lýst hefur verið í þessari grein er að mestu byggð á nýrri aðferð í vinnu með lífsstílsbreytingar sem hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og kallast á ensku “Motivational Interviewing” sem ef til vill má þýða sem “hvetjandi samtal”.   Höfundar “hvetjandi samtalstækni” hafa unnið í áratugi með fíkla af ýmsum toga og hvetjandi samtalstækni er því vel grundvölluð í kínísku starfi. Í Svíþjóð og víða annarstaðar er hvetjandi samtalstækni kennd undir hatti hugrænnar atferlismeðferðar (Cognitive Behavior Therapy) og telst til vísindalegrar sálfræði, þ.e. sálfræðimeðferðar sem hefur sannanleg áhrif í vísindalegu mati (rannsóknum). Þeir sem vinna í anda hvetjandi samtalstækni ganga ekki útfrá því sem staðreynd að alkóhólneytandinn þurfi að “finna sinn botn” áður en bati geti hafist: Alkóhól -> afneitun -> botn -> bati.  Heldur er unnið útfrá þeirri hugmynd að samspil alkóhólneytandans við fólk í umhverfi hans “þvingi” viðkomandi inn í “mótþróa/mótstöðu” sem getur staðið í veginum fyrir því að ná valdi á neyslunni áður en allt er komið í óefni, einfaldlega vegna þess að mótstaðan gerir það að verkum að viðkomandi leitar sér ekki hjálpar í tíma. Kenningin: Alkóhól -> afneitun -> botn -> bati, er því samkvæmt hvetjandi samtalstækni meira lærð hegðun en meðfædd. Hvetjandi samtalstækni tekur enga afstöðu til þess hvort “alkóhólismi” sé sjúkdómur (meðfæddur eða áunninn) eða ekki. Hvetjandi samtalstækni er einfaldlega aðferð til að skapa grundvöll til jákvæðra samræðna um neikvæðan lífsstíl með það að markmiði að bjóða fólki hjálp til að ná tökum á lífinu áður en allt er komið í óefni - áður en botninum er náð.  Hvetjandi samtalstækni er því í grunninn afstaða, byggð á fordómalausu viðmóti og virðingu fyrir sjálfræði þess sem á við vandamál að glíma. En hvetjandi samtalstækni er líka aðferð (meðferðarform) til að aðstoða við lífsstílsbreytingar. Í “verkfærakassa” hvetjandi samtalstækni eru flest “verkfærin” sótt í smiðju hugrænnar atferlismeðferðar en hvetjandi samtalstækni hefur líka þróað sín eigin verkfæri. En það er of flókið mál til að gera grein fyrir því í blaðagrein.
mbl.is Áfengisneysla framhaldskólanema áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir frábæran pistil Ásgeir.  Viðurkenni að ég hef mikinn áhuga á pælingunum sem fram koma í pistlinum þínum. Það er ekki laust við að ýmislegt í þessari nálgun minni mig á fræðin hans Thomas Gordon, sérstaklega það sem hann kallar virka hlustun. Ég held að þessi samtalsnálgun sem þú lýsir geti líka hjálpað foreldrum heilmikið í samskiptum við börnin sín, ekki hvað síst á unglingsárunum, t.d. það sem þú bendir á í mótstöðukaflanum. Aftur:Takk

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.11.2007 kl. 23:18

2 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Frábær pistill. Skil ekki hvers vegna lesbókinn hafnaði honun en hef mínar grunsemdir....meira um það seinna.

Benedikt Halldórsson, 23.11.2007 kl. 07:51

3 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Góð grein hjá þér og ein af þeim fáu sem maður les aftur.

Soffía Sigurðardóttir, 23.11.2007 kl. 10:24

4 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Takk fyrir góð orð um greinina og Benedikt, ég hlakka til að heyra þínar kenningar um höfnunina þó seinna verði!

Ásgeir Rúnar Helgason, 23.11.2007 kl. 16:39

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ætla að lesa þetta betur en verð þó að segja að mér finnst töluvert um fullyrðingar um hluti, sem eru soldið afstæðir.  Afneitun er eðlilegt viðbragð hjá öllum, ekki bara ölkum. Fólk sem fær alvarlegar fréttir af heilsufari sínu fer oft að einblína á óskylda og smávægilega hluti.  Fólk, sem hefur gert gloríur í fjármálum eða misst sig í framkomu við aðra réttlætir framkomu sína etc.

Afneitun er að mínu mati einskonar hugbundinn gálgafrestur til að meðtaka og vinna úr erfiðum sannindum, einhverju sem ekki  er hægt að gútera svona einn tveir og þrír.

Vinasamtalið þarna er einmitt týpískt samtal við alka, sem er konfronteraður, hann dregur úr, réttlætir, fer í samanburð eða jafnver beinir samtalinu annað.

Afneitun er ekki bara bein neitun. Alkinn trúir því sem sagt er, en þarf tima til að meðtaka það. Alki, sem sjálfur áttar sig á að drykkjan tekur of mikið pláss í tilverunni, veldur árekstrum í samskiptum og spilli heilsu og líðan,  reynir til að byrja með að benda á orsakir og finna blóraböggla fyrir hegðan sinni, því það er of sárt að horfast í augu við sjálfan sig á þessu viðkvæma stigi.  Réttlætingarnar eru margskonar, frægust er: Konan mín skilur mig ekki. Það eru fíflin í vinnunni, lélegt kaup, okursammfélagið, sjúkdómar og dauðsföll í fjölskyldu, Davíð Oddson etc. Semsagt almenn gremja, sem eflt er af slæmu taugakerfi m.a.  Alkinn er oft svo svæsinn í þessari ómeðvituðu áráttu að hann snýr rökum tilverunnar algerlega við: Dæmi: Ég drekk af því ég er svo óhamingjusamur í stað Ég er óhamingjusamur af því að ég drekk;  Ég drekk af því að ég er einmanna.  Í stað: Ég er einmanna af því að ég drekk. etc.

Afneitun er ekki meðvitað ástand heldur tilfinningaviðbrögð, sem allir beita í einhverju mæli í erfiðum aðstæðum í samskiptum við fólk og stofnananir.  Við beitum þessum úrtölum jafnvel í vægari myndum á hverjum degi. Nánast allar haldlitlar réttlætingar eru afneitun. Þú kaupir eitthvað, sem þú hefur raunar ekkert efni á en afneitar bágri fjarhagsstöðu með fortölum og úrdrætti í eigin höfði eða við aðra: Ég er búinn að vera duglegur og á skilið verðlaun. Það er ekki eins og maður sé að spreða svona á hverjum degi.  Ég spara við mig í öðru, etc.

Ég held að afneitunarmúrinn verði ekki rofinn nema yfir tíma. Að leyfa subjectinu að melta vandann og það hjálpar að heyra aðra viðurkenna sinn vanda og benda á sína afneitun í hópvinnu.  Þetta er gert í meðferðum og ráðgjafinn sjálfur er oftast fyrrverandi sjúklingur, sem segir frá sinni afneitun  og hvernig unnið var á henni.

Að nota orðið afneitun við sjúkling gæti verið varasamt, því fólki finnst það neikvætt og jafnvel væning um að það sé að ljúga og hlaiupið í baklás.  Fólk veit að það er að segja ósatt eða drga úr, en það verður að fá tíma til að átta sig á því sjálft. Alkohólismi er fyrst og fremst líkamleg fíkn að mínu mati, þar sem meðalið er orsök sjúkleikans.  Maður brýtur ekkiaðeins gagnvart öðrum og svíkur heitstrengingar heldur lýgur maður fyrst og fremst að sjálfum sér og trúir því jafnvel að vandinn sé Davíð Oddson.  Virkir alkar kóa þetta upp i hver öðrum og heimur drykkjumannsins er stundum algerlega úr tengslum við mannleg rök og smafélagið sjálft.  Menn lifa i samráði réttlætinga og afneitunar á eigin vanda og ekki síst á afleiðingar vandans á aðra nákomna. Það eru stjórnsamar frekjur og geðveikt pakk.

'Eg held í tilfellum ungmenna og jafnvel flestra annara er að koma fólkinu út úr þessum samráðsheimi skrumskælds veruleikaskyns og leifa fólkinu að hafa samneyti við annað fólk með heilbrigð viðhorf.  Ég veit þó að langt gengnir alkar taka út kvalir fyrir að vera innan um heilbrigt fólk, því þeirra ska´ldaði heimur er varnarlaus þar.

Afneitun að mínu mati er alvöru faktor og margslunginn og á sér ótal birtingamyndir.  Án afneitunar fengjum við sennilega taugaáfall einu sinni í mánuði.  Hún er eðlilegur varnarmekanismi og umhugsunarfrestur.

Þetta eru mínir þankar. Maður, sem á 11 meðferðir að baki í misjafnri teoríu og hef náð árangri, sem fyrst og fremst liggur í lifsviðhorfum.  Of lítið er tekið inn af heimspekifaktorum í slika meðferð, þótt vissulega megi segja að 12 spora kerfið flokkist undir slíkt. Of algengt er að brotnar manneskjur grípi það sem hendi er næst í þessum efnum og helli sér í sértrúarhópa, upplifun sinni eða vakningu til fulltyngis.  Þð er miður í allflestum tilfellum segi ég. Nokkrurra mánaða vist mín með trúarnötturum endaði í alvarlegri sj´ðalfsvígstilraun og geðdeildarvist. Svo ég tala sem insider hér, þótt ekki sé ég alvitur eða geti alhæft um nokkurn hlut.

Það sem hefur reynst mér mesti "eye opener" bæði hvað varðar viðhorf og terapíu er Eckhart Tolle og þreytist ég aldrei á að básúna mikilvægi hans framsetningar.  Vona að þú kíkir á hann ef þú getur, hugsandi um umbætur í þessum efnum.  Það er líklega þó enginn alfa-omega sannleikur í þessum fræðum né aðferðafræði meðferðar og ég held að leitin sé rétt að byrja. Opinn hugur og analysa að innan gætu reynst verðmætust.   

Jón Steinar Ragnarsson, 23.11.2007 kl. 19:49

6 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Flott færsla, þarf reyndar að lesa hana aftur og hægar. Kom aðallega hingað til að tékka á "fagurfræðivandamálum" þínum. Eða þannig. Þegar ég blogga í vinnunni þarf ég að skrifa allt beint inn á síðuna en textinn rennur saman í algjöra vitleysu ef ég skrifa á word-skjal og peista inn. Aftur á móti get ég gert slíkt í tölvunni heima. Dettur helst í hug að þetta geti verið að ... textinn renni saman nema þú skrifir beint inn á bloggsíðuna þína.

Kær kveðja frá Akranesi! 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 23.11.2007 kl. 19:55

7 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jón Steinar: Ég held utanum þróun símaþjónustu á vegum heilbrigðisyfirvalda hér í Stokkhólmi (Alkolollinjen) fyrir fólk sem er að missa tök á drykkju. Þar notum við meðferðarnálgun sem heitir Motivational Interviewing (sjá síðasta hlutann í greininni með mynd af kennslubók í þeirri aðferðafræði).

Okkar reynsla í Alkóhóllínunni er mjög svipuð klínískri reynslu höfunda bókarinnar sem hafa að baki áratuga reynslu af meðferð í fíknbransanum þ.e. að langflestir eru fullkomlega meðvitaðir um að neyslan sé að fara úr böndunum löngu áður en eiginleg fíkn hefur þróast. Á þessu stigi geta margir lært að ná tökum á neyslunni áður en hún fer alveg úr böndunum. Það er þessi hópur (sem er talsvert stór a.m.k. hér í Svíþjóð) sem ég er að skrifa um. Maður gerir þessu fólki mikinn óleik með að gefa í skyn að það sé "alkar". Þá fer fólk strax í vörn og í stað þess að ræða opinskátt um áhyggjurnar sem það vissulega hefur af eigin neyslu fer fólkið að verja eigin neyslu.

Ég er ekki að segja að þeir sem eru þegar orðnir "alkóhólistar" geti ekki haft gagn af meðferðatækni (eins og þeirri sem SÁÁ stendur fyrir) þar sem fólk er konfronterað þangað til það "viðurkennir sjúkdóminn". Að vísu eru engar vísindalegar sannanir fyrir því að sú leið sé árangursríkari en aðrar meðferðarleiðir en persónuleg reynsla margar er að þessi leið hefur hjálpað og mér kemur ekki til hugar að draga það í efa.

Ég er hinsvegar að benda á að það sem getur hjálpað einum hópi er líklegt til að virka algerlega þveröfugt á annan (líklega talsvert stærri) hóp. Með því að einblína á SÁÁ leiðina og sjúkdómsmódelið erum við líklega að gera hlutina verri fyrir stóran hóp þó við séum e.t.v. að hjálpa öðrum hópi.

Það verður því að varast að alhæfa í þessu máli eins og svo mörgum öðrum.

Guðríður: Jú þetta er rétt hjá þér. Ég var lengi að koma þessum pistli í þokkalegt form. En ég vann hann upphaflega í word.

Ásgeir Rúnar Helgason, 23.11.2007 kl. 23:32

8 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jón Steinar: Gleymdi að segja að ég er búinn að lesa Tolle (þökk sé þér) og hafði af bæði gagn og gaman enda orðið fyrir svipaðri reynslu sjálfur og hann lýsir.

Ásgeir Rúnar Helgason, 23.11.2007 kl. 23:38

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég er nú ekkert að alhæfa, en tala út frá eigin reynslu tek því skýrt fram þarna. Bara innlegg í skoðanaskipti. Ég held að það sé ekki hægt að kenna fólki að drekka, sem hefur þegar misst stjórn á því og er komið til að leita sér hjálpar.  Slíkt hefur verið margreynt. SÁÁ er ekki að pína neinn til að gútera sjúkdómshugtakið, heldur fer greiningin fram eftir ákveðnum spurningalista, sem styður líkindin á því að fólk, sé komið í ferli, sem getur orðið því að fjörtjóni.  Hvernig þú getur fyrirfram greint stóran hóp út úr hópi þeirra sem leita sér ráðgjafar, sem gæti orðið verra við meðferðarúrræðið, er mér illskiljanlegt, en eins og ég segi, þá er ég ekki alvitur.

Afneitun á afneitunarfaktorin finnst mér þó í hrópandi andstöðu við mína reynslu.  Mér finnst nokkuð vit í mörgu þarna um samtalstæknina, en það slær ekki margsönnuðum faktorum út af borðinu. Ég vona bara að þið náið árangri með þetta, en hef á tilfinningunni að reynslan á þetta sé ekki orðin nægileg til að ég sannfærist. Með fullri virðingu.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.11.2007 kl. 00:18

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tek því náttúrlega fram að ég er frekar þekktari af efasemdum mínum um ýmis málefni en trúboð um heilagan sannleika.  Ekki að ég hafi rétt fyrir mér í öllu, en mér finnst að opin umræða og skoðanaskipti þurfi að vera um allt, sem reynist orka tvímælis.  Hugsa meira að segja að þú sért sammála mér um það.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.11.2007 kl. 00:22

11 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jón Steinar: Ég var að beina spjótum mínum að sjálfum mér með þessari feitletruðu setningu um að það forðast bæri að alhæfa. Þegar ég las aftur yfir pistilinn/greinina eftir þína fyrstu athugasemd fannst mér nefnilega að ég væri ekki nógu hæverskur gagnvart því að "afneitunarhugmyndafræðin" og SÁÁ hefur vissulega hjálpað mörgum. Og, jú, ég er svo innilega sammála þér um það!

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.11.2007 kl. 08:45

12 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jón Steinar:Veistu hvaða spurningalista SÁÁ notar í sinni greiningu? Getur verið að það sé AUDIT?

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.11.2007 kl. 08:51

13 Smámynd: Hörður Svavarsson

"Ég er ekki að segja að þeir sem eru þegar orðnir "alkóhólistar" geti ekki haft gagn af meðferðatækni (eins og þeirri sem SÁÁ stendur fyrir) þar sem fólk er konfronterað þangað til það "viðurkennir sjúkdóminn"."

Mér þætti vænt um Ásgeir, að fá upplýsingar um heimildar þínar um meðferðartækni hjá SÁÁ. Konfrontasjón var í einhverri tísku fyrir 20 árum eða meira og byggði á óljósum meðferðarhugmyndum og er ekki beitt hjá SÁÁ. Í meira en tíu ár hefur Motivational Interviewing hefur verið notað hjá SÁÁ og starfsfólk fær þjálfun í þeirri tækni.

Byggir þú afstöðu þína á sögusögnum? 

Hörður Svavarsson, 24.11.2007 kl. 11:11

14 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Hörður: Það fer nú svolítið eftir því hvað þú átt við með orðinu "sögusagnir". Ég hef mína fordóma frá kollegum sem hafa starfað í tengslum við SÁÁ og "gefist upp" þar vegna þess að ekki var hlustað á þau (að eigin sögn). Þetta er því auðvitað fólk sem er litað af sinni reynslu og EKKi hlutlægt í sínum palladómum.

Það er gaman að heyra frá þér að SÁÁ noti MI í dag, eitthvað sem kollegunum hefur yfirsést að segja mér. Ég hef verið að leita að Íslenskum samstarfaðilum í stórri rannsókn á Motivational Interviewing. Það væri gaman ef SÁÁ væri með. Meðferðarstöðvar eins og SÁÁ eru yfirleitt með mjög vel þróað rannsóknarstarf til að fylgjast með árangri meðferðarinnar svo það myndi auðvelda málin að vinna með SÁÁ.

Veistu nokkuð hver það er sem er yfir rannsóknarsviði SÁÁ þ.e. sér um árangursmat og rannsóknir?

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.11.2007 kl. 11:50

15 Smámynd: Hörður Svavarsson

Já ég skal senda þér email.

Hörður Svavarsson, 24.11.2007 kl. 12:08

16 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já það er Audit spurningalisti, sem þróaður er af langri reynslu.  Miðað við ásókn í þessa sjúkraþjónustu og áfengisvandann hér á landi og mílnalanga biðlista, þá held ég að ekki sé veriða að keppast að því að sannfæra alla um að um áfengissýki sé að ræða.  Ég veit persónulega um dæmi, þar sem skaðvænleg drykkja þróast skyndilega og án fordæma eftir þung áföll og sorg. Slíkt fólk er ekki metið áfengissjúklingar og er vísað til annarra sérfræðinga eftir afvötnun.

Vogur er bara afvötnunarstöð, sem hjálpar fólki að ná áttum og rjúfa ákveðinn vítahring. Það dugir í mörgum tilfellum. Þeir sem þurfa ítrekað að leggjast inn vegna drykkju eru sendir í eftirmeðferð þar sem tekið er ítarlegar á lífstíl og viðhorfum. Fólk er yfirleitt ekki meðtækilegt eða í standi til uppfræðslu á Vogi. Þar er þó lágmarksfræðslu sinnt um það sem varast ber og hugsanleg einkenni, sem leiða að falli. Grúppuvinna er meira matsferli en nokkuð annað.  Þetta er mjög agað og nákvæmt prógram og merkilega persónusniðið miðað við fjölda sjúklinga. Meira en maður verður var við á öðrum sjúkrahúsum.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.11.2007 kl. 12:17

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég held að það sú að nálgast 20 ár síðan aðferðum með beinni konfrontasjón og niðurrifstækni hfi verið hætt hjá SÁÁ.  Ég reyndar flosnaði út úr slíkri meðferð, af því að ég meikaði hana ekki og var hugsanlega verri eftir en áður um tíma. Þetta voru bernskubrek hjá leitandi stofnun, sem hafði uppburði í sér að viðurkenna það sem mistök og leita hófsamari leiða við að svipta hulunni af afneitun sjúklinga og sjá hana sem ómeðvitaðann varnarmekanisma í stað þvergyrðingsháttar.  Tíminn og sjúklingurinn sjálfur vinnur á henni.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.11.2007 kl. 12:31

18 identicon

Áhugaverð skoðanaskipti hér. Þegar ég las pistilinn fannst mér hann á engan hátt vera sett fram sem rök gegn nálgun SÁÁ, ég upplifði hann frekar sem viðbótarvinkil inn í umræðuna um það hvernig hægt er að nálgast fólk sem klárlega á við vanda að etja en er á flótta frá honum og til að nálgast ólíka einstaklinga getur þurft mismunandi nálgun til að ná árangri. 

Sjálfri finnst mér hugtakið afneitun dálítið erfitt viðfangs. Er fólk annað hvort í afneitun eða ekki? Hefur það með að gera hvernig það sér sig sjálft eða snýst afneitunin um að halda í einhverja mynd sem fólkið vill að aðrir hafi af því? Einhvers staðar var ég að lesa um sjálfsmynd og hvernig hún mótast. Mér finnst það einhverra hluta vegna eiga heima í þessari umræðu. Við höfum hugmyndir um það hvernig við erum (self-image), við höfum hugmyndir um það hvernig við viljum helst vera (ideal self), sjálfsmyndin okkar ræðst mest af því hversu mikið bil okkur finnst vera þarna á milli. Getur þá verið að það sem við köllum afneitun snúist mest um ströggl við eigin hugsanir, að halda þeim sem næst þessu ideal-self þó að við vitum innst inni að það er langt frá raunverulegum hugmyndum okkar um eigin stöðu? (sorrý- kannski er þetta óskiljanlegt með öllu). Vildi samt leyfa því að fljóta með hér inn í umræðuna.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 24.11.2007 kl. 12:35

19 Smámynd: Hörður Svavarsson

Audit er skimunarpróf sem hver sem er getur notað, ekki hið eiginlega greiningartæki. Greining hjá SÁÁ er framkvæmd af læknum og byggist á að skoða hvort einstaklingurinn mæti skilmerkjum DSM IV. Og n.b. niðurstöður þeirrar greiningar eru á engann hátt notaðar til að konfronta skjólstæðinginn eins og komið hefur fram.

Hörður Svavarsson, 24.11.2007 kl. 13:08

20 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hér er margt mjög skynsamlegt til umræðu.  Ja, men fru Stella??  ég er ekki alki, ég er ekki alki, ég er ekki alki fyrir 5 aura, manstu þessa sönglínu frá Bjartmari??  Virkilega góð grein.  Kær kveðja í Svía land.

Ásdís Sigurðardóttir, 24.11.2007 kl. 13:28

21 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

ANNA ÓL: Það er alveg rétt skilið hjá þér að upphaflega greinin var algerlega laus við gagnrýni á SÁÁ. Ég vitnaði hinsvegar í athugasemdum til palladóma fyrrum starfsfólks um verklag SÁÁ sem virðist hafa verið byggt á gömlum syndum og á ekkert skylt við meðferðina í dag (sjá svör Harðar og Jóns Steinars.  

En jafnvel þó það væri satt að rekin væri konfrontatív meðferð hjá SÁÁ þá er ég ekki viss um að það þurfi að vera svo slæmt = það er alls ekki útilokað að slík meðferð henti sumum EN alls ekki öllum eins og Jón Steinar bendir á.

Ég hef sem sagt ekkert slæmt um SÁÁ að segja, sérstaklega eftir að hafa fengið að vita að þeir vinni með Motivational Interviewing og séu með skilvirkt árangursmat.

Öll meðferð sem tengd er skilvirku árangursmati er í eðli sínu góð þar til annað sannara reynist, en eina leiðin til að ganga úr skugga um það hvort eitthvað sé satt er að stunda rannsóknir og árangursmat.

Það er einmitt það sem við erum að dunda okkur við hér í Svíþjóð = að rannsaka hvort ná megi sama árangri með ódýrari meðferð (kostnaðarhagkvæmi) og hvort mismunandi aðferðir henti mismunandi persónum með mismunandi próblem.

Ég dreg sterklega í efa að módelið = 

Afneitun-Botn-Bati eigi við alla og tel líklegra að það eigi við minnihluta þeirra sem eiga við áfengisvanda að etja. En til að geta haldið því fram með einhverjum rétti verð ég að gera rannsókn. Þangað til niðurstöður þeirra rannsókna liggja fyrir leyfi ég mér að halda þessu fram sem kenningu byggðri á klínískri reynslu.

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.11.2007 kl. 15:39

22 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jón Steinar: Takk fyrir hlekkinn inná AUDIT. Ég var einmitt að leita að íslenskri þýðingu á spurningunum.

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.11.2007 kl. 15:49

23 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Spurningin "Hversu marga drykki færð þú þér á venjulegum degi þegar þú drekkur?" í íslensku  Audit þýðingunni er slæm. Það þarf að skilgreina betur hvað átt sé við með "drykki".  Í þeirri úgáfu sem við vinnum með hér er talað um "standardgös" og magnið vandlega skilgreint.

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.11.2007 kl. 16:05

24 Smámynd: Benedikt Halldórsson

"Næstum þriðji hver karlmaður og rúmlega tíunda hver kona á Íslandi leitar sér meðferðar vegna alkóhólisma einhvern tíma á ævinni. Þetta fólk skiptir þúsundum. En þó að fjöldinn sé ógnvænlegur, er það samt gleðiefni hversu margir takast á við vandann með því að fara í meðferð.

Alkóhólismi er ólæknandi að því leyti að alkóhólistinn getur aldrei notað áfengi á eðlilegan hátt. Hann getur aldrei lært að stjórna neyslu sinni. Með góðri hjálp getur hann hins vegar hætt henni, náð góðum bata og öðlast hamingju.....Þrátt fyrir að alkóhólistinn geri sér vandamál sín að einhverju leyti ljós, þá heldur hann áfram að drekka með sama hætti. Eina lausnin á vandanum er að hætta neyslu og að alkóhólistinn eignist ný viðhorf, fari að haga sér öðruvísi og hugsa öðruvísi. Þessi breyting fæst ekki nema að viðkomandi fari í meðferð vegna áfengis -sýkinnar.....

Gerðar hafa verið athuganir á árangri eftir meðferð og sá háttur hafður á að telja að um varanlegan bata sé að ræða ef sjúklingur notar ekki áfengi í tvö ár. Varanlegar batalíkur einstaklings sem kemur til meðferðar í fyrsta sinn og lýkur fullri meðferð er um 60 %, samkvæmt könnun á árangri þeirra er verið hafa í meðferð hjá SÁÁ. Hafi sjúklingur verið í fullri meðferð áður, eru sömu líkur um 30 %. " http://www.saa.is/Files/Skra_0005530.pdf

"Með vaxandi þekkingu er áfengis- og vímuefnafíkn smám saman að birtast mönnum sem líffræðilegur heilasjúkdómur sem myndast við endurtekna notkun vímuefna." saa.is

Takið eftir að ALLIR sen fara í meðferð eru sagðir vera mep sjúkdóminn alkóhólisma sem er sagður vera ólæknandi sjúkdómur.

Allir sem á annað borð eru fótafærir eru skyuldaðir til að fara á AA fundi.

Þessi "stimplar" er það sem margir forðast eins og heitan eldinn. Þeir eru í fullu gildi.

Benedikt Halldórsson, 24.11.2007 kl. 19:35

25 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Amen, Kúmen, Tyrfingsson:

Margur heldur mig sig!

Vilhelmina af Ugglas, 24.11.2007 kl. 22:54

26 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér er líf í tuskunum bróðir.  Það gleður mig mikið að slík umræða sé í gangi.  Hörður er sannur þungaviktarmaður og ljúfmenni mikið og get ég engu frekar við bætt hér, sem hann er ekki fróðari um.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.11.2007 kl. 23:50

27 Smámynd: Sigga Hjólína

Eftir að hafa lesið og sumt "skimað" af öllu ofangreindu þá verð ég nú bara að segja að ég er fegin að við hin, aðstandendurnir höfum bara eina einfalda leið; Al-Anon. Einfalt en svínvirkar.

Sigga Hjólína, 25.11.2007 kl. 00:29

28 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég er ekki tilbúin að úttala mig núna  um hvers vegna ég tel að lesbókin hafnar svo góðri grein. En það er alveg ljóst að greinin var góð og innihaldið brýnt.  

Ég tek fram að ég veit ekki nóg og er engin sérfræðingur. Þessi færsla eða aðrar sem ég færi til stafs, snúast ekki um persónur enda veit ég að téður Hörður er fínn maður. Jón Steinar er einskonar postuli meðal bloggara en það sem Ásgeir hefur að segja á svo sannarlega erindi við þjóðina eins og skrif Jón Steinars.

Sumt sem aðrir reyna að telja manni trú um er bara svo á skjön við skynsemi að það þarf ekki snilling til að sjá sprungurnar.

 Í góðu samfélagi eins og Íslandi erum við að mestu hætt að hrósa því sem vel er gert en bendum kannski aðeins á það sem betur mætti fara. Það er flest vel gert hjá SÁÁ en ég læt ekki dómgreind mína þó í skiptum fyrir "árangur" og frasa sem standast ekki. Það er augljóst að skyldumæting á AA fundi fyrir ALLA sem fara í meðferð er ekkert annað en valdaafsal sjúklings til meðferðaraðila sem er fráleitt meðferð fyrir ALLA. 

Trúarmeðferð eins og hún er rekinn á Íslandi í dag á varla rétt sér. Fyrir utan innrætinguna sem ég get ekki ímyndað mér að henti öllum, jafnvel þótt sjúklingar sæki sjálfir um og fari á biðlista, getur hún beinlínis verið hættuleg.  Á ónefndum stað er rekin  "afvötnun" með sofandi næturvörðum á nóttinni og fárveikum sjúklingum. Læknir kemur einu sinni til tvisvar í viku, einn til tvo tíma í senn. Næturverðir eru illa launaðir og stoppa stutt við. Öryggi sjúklinga er í ólestri. Síðast þegar ég vissi voru hvorki reykskynjarar né hnappar tengdir öryggisþjónustu. Þegar spurt er hvers vegna ekki sé sólarhringsvakt hjúkrunarfólks er svarið, "við höfum ekki efni á því". 

 

Vogur er að mörgu leiti eins og himnaríki í samanburði en kenningar SÁÁ eru ekki ræddar í samfélaginu, þeim er einfaldlega hampað sem stórasannleik, af öllum ráðamönnum og fjölmiðlum með örfoka undantekningum (á ekki við örfáum). Kannski vegna þess að Vogur ber höfuð og herðar yfir ýmsa aðra sem eru eins og amatörar í samanburði.

Kenningarnar eru bara alls ekki ræddar. Það þarf ekki að lesa lengi til að sjá að “kenningarnar” um heilasjúkdóminn alkóhólisma eru álitnar jafn áþreifanlegar og asmi eða aðrir líkamlegir sjúkdómar. Gallinn er bara sá að svo til ALLIR sem fara í meðferð eru álitnir vera með sjúkdóminn. Það þarf ekki lengur að sannfæra sjúklinganna augliti til auglitis, þeir VITA það. Það er einfallega gengið út frá því!                                Það ætti fyrir löngu að vera búið að leggja af skyldu AA fundi! AA leiðin þarf vissulega ekki að byggjast á Guðstrú en hún er þó LEIÐ sem fólk er í raun þvingað til að ganga sem er mjög alvarlegt mál. Það byggir á valdi yfir sjúklingum. Sá sem ekki hlýðir, þótt hann væri að öðru leiti til fyrirmyndar er einfaldlega vísað á dyr. Margir bregðast illa við ÖLLU valdi og reyna að verjast því. Afneitun er raunveruleg en einn hluti hennar sem hefur verið flokkaður sem afneitun er eðlilegur mótþrói sem allir beita þegar þeir mæta ofríki. Það má vel vera að sumir þurfi á slíku valdi að halda en EKKI ALLIR Til þess að komast að þessari niðurstöðu þarf aðeins eitt: löngun til að lesa heimasíðu SÁÁ.  Allar leiðir og öll skref sem við tökum í þessu blessaða lífi eru OKKAR skref þegar öllu er á botninn hvolft og því ætti aldrei að þvinga venjulegt fólk sem á vanda með áfengi eða annað dóp að fara á AA fundi eða bænasamkomur þó slíkt fyrirkomulaga geti hreinlega bjargað lífi sumra en aðrir fara í vörn og þola ekki að láta ráðskast með sig. 

Skilningur Ásgeirs er einmitt sá sem margir þarfnast, kannski ekki allir en mjög margir. Fólk eins og ég sem höngum á þessu gráa svæði. Erum hvorki stór né lítil, fárveik né fullkomlega heilbrigð. Þannig fólk þarfnast þess sem Ásgeir er að tala um en hvorki  skyldu AA fundi né skyldu bænastundir til að bæta líf sitt.

 

Ég vil ekki vera of persónulegur en ég hætti nánast alveg að drekka fyrir 20 árum vegna þess að ég hagaði mér illa þegar drakk of mikið og missti minnið.

Miðað við drykkju mína áður en ég hætti að drekka skoraði ég 21 sig Samkvæmt:

AUDIT Score Interpretation.” 20 and up Hazardous Usage: Help Required 16 - 19 Hazardous Usage: Help Strongly Urged 8 - 15 Exceeding 'Safe-Use' Guidelines 0 - 7 NormalUsage

You scored a total of 21.

 

Ég var á mörkunum eins og sagt er og leið mjög illa. Ég gat talað við heimillsæknin minn um það sem lá mér á hjarta. Ég brotnaði saman á stofunni en fór smátt og smátt að líða betur. En sem betur fer fór ég ekki í óljósa konfrontatífa meðferð sem byggði á óljósum hugmyndum en þó var hún álitin ein sú besta í heimi!

 

Það er ekki hægt að bæði halda og sleppa. Það gengur ekki upp að segja meðferð SÁÁ sniðin að þörfum hvers og eins þegar ljóst er að það er bæði er skylda að fara á AA fundi en á sama tíma er sagt að ALLIR sem fari í meðferð séu ALKÓHÓLISTAR eins og þeir eru margskilgreindir á heimasíðu SÁÁ. Ásgeir var einmitt að vara við stimplunum. ÖLL þjóðin VEIT að ALLIR sem fara í meðferð eru skilgreindir sem alkóhólistar af SÁÁ.

En að öðru leiti veit ég lítið en ég kann að lesa og vel má vera að ég lesi um of á milli línanna.

Benedikt Halldórsson, 25.11.2007 kl. 02:53

29 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Afsakið langlokuna en þetta er mér hjartans mál en tek skýrt fram að ég er alls ekki að gera lítið úr fólki. Og því til sönnunar kemur .

Benedikt Halldórsson, 25.11.2007 kl. 03:03

30 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Þakka ykkur öllum fyrir frábæra umræðu sem á eftir að nýtast mér verulega í að þróa þessar hugmyndir mínar áfram.

Ásgeir Rúnar Helgason, 25.11.2007 kl. 09:40

31 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Amen!

Vilhelmina af Ugglas, 26.11.2007 kl. 18:49

32 Smámynd: Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson

Benedikt Halldórsson, hvort sem dæmi þitt um Audit skimunina er persónuleg reynsla eða skáldað dæmi, þá get ég sagt strax að 21 stig er ekki að vera á mörkunum í hóflegri áfengisneyslu. 8 til 15 stig eru yfir hófsemdarmörkum, 16 til 19 eru ofdrykkja og einnig 20 og ofar, þar er mælt með að sækja sér strax hjálp. Svo ef viðkomandi hætti við svo búið að drekka, þá tel ég það frábæra niðurstöðu af viðtali við heimilislækni. Gangi þér vel í edrúmennskunni.  Að öðru leiti vil ég segja það að SÁÁ hefur aldrei haldið því fram að allir sem koma á sjúkrahúsið Vog séu alkóhólistar, flestir fá þá greiningu þar, en ýmsar aðrar greiningar koma til álita varðandi önnur vímuefni, þó oft sé einnig um alkóhólisma greiningu að ræða þar (ekki alltaf). Svo kemur það fyrir að á Vog sækir fólk sem líkamlega er orðið háð lyfjum og þurfa afvötnun, en eru ekki fíklar. En af hverju skyldi fólk hræðast greiningu, annaðhvort er kvennmaðurinn ófrískur, eða ekki!

Sveinbjörn Kristinn Þorkelsson, 27.11.2007 kl. 23:48

33 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Sveinbjörn: Að vera alkóhólisti eða ekki er langt frá því að vera einfalt mál. Að allir sem drekka áfengi í því magni að þeir þurfi aðstoð til að rjúfa vítahringinn séu sjálfkrafa alkóhólistar er ekki að góð hugmyndafræði. Slíkir sjálfkrafa stimplar fæla stóran hóp frá því að leita sér aðstoðar oft með alvarlegum afleiðingum.

 Margir sem hringja í Alkóhólsímann hér í Svíþjóð vilja vera nafnlausir í byrjun vegna þess að þeir hræðast þennan stimpil og þetta fólk hafði engan að tala við um sín mál áður en Alkóhólsíminn opnaði. Vegna þess að við notum Motivational Interviewing viðmót í símameðferðinni breytist afstaða flestra á meðan á samtalinu stendur og það er óvenjulegt að fólkið vilji halda áfram að vera nafnlaust þegar líður á samtalið. Ástæðan er einfaldlega sú að fólk áttar sig fljótlega á því að við göngum ekki útfrá því að allir sem drekka daglega og þurfa aðstoð til að breyta því (eða hætta) séu sjúklingar/alkóhólistar.

Það merkilega er að hægt er að aðstoða stóran hluta þessa fólks með meðferð og stuðningi gegnum síma. Sumir ná tökum á neyslunni og halda áfram að drekka meðan aðrir þurfa að hætta alveg. Í sumum tilvikum gengur samtalið útá að hjálpa fólki að átta sig á að það þarf að leggjast inn til að rjúfa vítahringinn. En sú uppgötvun verður að koma frá þér sjálfum.

Sú hugmyndafræði að allir sem þurfa aðstoð til að draga úr drykkju áfengis eða hætta alveg séu alkóhólistar er sem sagt ekki forsenda þess að ná árangri í meðferð.

Hinsvegar getur vel verið að hluti fólks sé fætt með þeim ósköpum að geta ekki stjórnað áfengisneyslu þ.e. að það sé genatískt háð áfengi? Einnig getur vel verið að viss hópur þrói slíka fíkn eftir langvarandi neyslu að það verði að hætta og gefast upp gagnvart hugmyndinni að geta stjórnað sinni drykkju.

Það er vissulega reynsla margra að það hjálpi að nota 12-spora kerfið og þetta fólk hefði líklega aldrei náð að halda sér edrú án þess. Þessi hópur er nokkuð stór og e.t.v. má nota það sem skilgreiningu á alkóhólisma = að geturðu ekki hætt án þess að kalla þig alkóhólista og gefast upp fyrir hugmyndinni að þú náir nokkurn tíma stjórn á drykkjunni, þá ertu alkóhólisti?

En þó þessi hópur sé vissulega til og sé nokkuð stór, réttlætir það ekki að sníða alla meðferð að þörfum þessa hóps. Það getur beinlínis verið skaðlegt fyrir hina ef það verður til þess að fólk veigri sér við að leita aðstoðar áður en allt er komið í óefni.

Ásgeir Rúnar Helgason, 28.11.2007 kl. 08:51

34 Smámynd: Benna

Mjög skemmtileg og fræðandi umræða, Ásgeir ég er þér að svo sammála að mörgu leiti hef einmitt mikið verið að ræða þetta við manninn minn en við erum bæðir langt gengnir fíklar og höfum oft oft farið í meðferð.

Við köllum okkur einmitt alvöru alkóhólista, alkóhólistar sem geta ekki hætt að drekka/nota nema viðurkenna að við erum vanmáttug gagnvart áfengi og getum ekki stjórnað okkar lífi.

Málið er að ég hef þurft að fara oft inn á Vog, eftir mína fyrstu meðferð náði ég að vera edrú í eitt og hálft ár ég var þá komin út í dagneyslu og var í kringum tvítugt, ég vissi strax þegar ég var 17 ára að ég ætti í miklum vanda með áfengi, ég fann að ég gat ekki stjórnað drykkjunni sama hvað ég reyndi en var ekki tilbúin að viðurkenna það fyrr en allt var komið í óefni.
Málið var samt að á þessum tíma '94 var mikið talað um í meðferð að maður ætti alls ekki að vinna 12 reynsluspor AA, alla vega ekki fyrstu 2 árin edrú og ég fór eðlilega eftir þeim leiðbeiningum því ég þráði ekkert heitar en vera edrú.
Mér leið vel fyrsta árið edrú en þá byrjaði sjúkdómurinn að láta aftur á sér kræla og ég fór að fá hugmyndir um að ég gæti nú alveg fengið mér einn, þetta hefði bara verið unglingavandamál og eftir hálft ár þá fór ég aftur að drekka og það tók mig ekki nema mánuð og komast aftur á nákvæmlega sama stað og ég hafði hætt og meira að segja verri.
Þarna upphefst mikil barátta hjá mér við sjúkdóminn, ég fór inn og út úr meðferðum og skyldi bara ekki af hverju ég gat ekki hætt, ég stundaði fundi, lifði reglulegu lífi og reyndi eftir fremsta megni að fylgja því sem mér var sagt og líka þvi að vinna ekki sporinn fyrr en ég hafði náð lágmarksjafnvægi eins og ráðgjafi minn sagði alltaf.
Þar sem ég var alvöru alkóhólisti náði ég aldrei þessu lágmarksjafnvægi, sama hvað ég reyndi, ég náði mest 1-6 mánuðum edrú, ég var sokkin mjög djúpt og það var ekki fyrr en árið 2001 sem mikil sporavakning varð í AA og fólk fór að tala um að maður yrði að vinna sporin strax til að verða edrú og ég ákvað eftir mikla barráttu við mig sjálfa og ráðgjafa minn að gefa skít í það sem hann sagði og ákvað að prufa þá leið sporin....
Þarna var ég mjög djúpt sokkin, nær dauða en lífi í nokkur ár og ég gafst upp fyrir mér sjálfri og vann sporin 2002 og náði ég þeim mesta árángri sem ég hef náð, var edrú í 4 ár en því miður kláraði ég ekki sporavinnuna skyldi fullt af 9 sporum eftir sem leiddi mig aftur út í neyslu nú í dag hef ég alveg gefist upp og er fús til að gera alllt mitt líf upp og er að uppskera eftir því.

Málið er að Vogur stimplar því miður alla sem alvöru alkóhólista, fólk sem kannski er bara ofdrykkjufólk það fólk getur hætt neyslu ef það fær nógu góða ástæðu til ( eins og missa fjölsk, lífi þeirra er ógnað eða atvinnumissir), það þarf jafnvel á læknishjálp að halda til að stoppa en þegar það hefur náð að stöðva neyslu og byggja sig upp byrjar það að lifa góðu lífi.
Vogur innrætur öllum að fara á AA fundi og stunda þá og þar er þetta ofdrykkjufólk á meðal en þar sem það er ekki alvöru alkar þá glímir það ekki við sömu vanlíðan, þráhyggju og tómarúm og alkinn og getur þvi stundað bara AA og liðið vel þá án þess að vinna sporin.

Þetta fólk er svo í AA haldandi það að það sé alvöru alkar og taka svo á móti þeim sem eru alvöru alkóhólistar og segja þeim að þeir þurfi ekkert á sporunum að halda þar sem það sjálft þurfti þess ekki og  því líði bara vel og gangi vel, alvöru alkinn reynir það síðan stunda bara fundi, lifa reglulegu lífi en getur það ekki því sjúkdómurinn grasserar á fullu í honum og þetta upplifði ég í þessi átta ár sem ég barðist við sjúkdóminn án lausnarinnar og ég tel þetta vera hættulegt því margir alvöru alkar hafa látið lífið vegna þess að þeir töldu það vera nóg fyrir sig að stunda bara fundi eins og ofdrykkjufólkið gerði.

Þar sem þessum ofdrykkjumönnum tókst auðvitað að vera edrú og náðu mestu edrútímunum yfirleitt litu allir upp til þeirra og héldu að þarna væru alvöru alkar á ferð sem náð hefðu árángri og reyndu því að feta í þeirra spor en tókst yfirleitt ekki ef þeir voru alvöru alkar.

Vona að þú skiljir hvað ég er að fara, tala kannski samhengislaust og vona að ég móðgi engann en þetta er mín reynsla...

Benna, 30.11.2007 kl. 22:40

35 Smámynd: Benna

Það sem ég vildi segja er að mér finnst að Vogur verði að endurskoða sína aðferð að þeim sem inn til þeirra koma, að þeir reikni ekki bara alltaf með því að allir sem til þeirra leita séu orðnir full blown alkar...

Benna, 30.11.2007 kl. 22:42

36 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Já, ég er alveg sammála þér Benna. Ég á nokkra góða vini og ættingja sem hefðu líklega aldrei getað náð tökum á vandanum ef ekki hefði verið fyrir SÁÁ, 12 spora kerfið og AA. Það er svo sannarlega þörf fyrir þetta líka. Þetta nýja sjónarhorn sem þú kemur með í umræðuna, að ofdrykkjufólk sem ekki eru "alvöru alkar" geti beinlínis skemmt fyrir hinum, er athyglisvert. Sjálfur hafði ég ekki hugsað útí það. Ég hef meira verið upptekinn af að ofneitendur sem ekki eru alkar eða ekki vilja stimpla sig sem alka geti hreinlega skaðast af því að öll faglega rekin meðferð á Íslandi gangi útfrá því að allt ofdrykkjufólk séu alkar. Þitt sjónarmið, sem er byggt á persónulegri reynslu þinni, á vissulega rétt á sér og þróar þessa umræðu áfram. Takk fyrir það.

Kveðja úr löndum Ynglinga!

Ásgeir Rúnar Helgason, 1.12.2007 kl. 09:24

37 Smámynd: Jóhannes Krog

Hörður skrifar 24.11.2007 kl. 11:11:

"Mér þætti vænt um Ásgeir, að fá upplýsingar um heimildar þínar um meðferðartækni hjá SÁÁ. Konfrontasjón var í einhverri tísku fyrir 20 árum eða meira og byggði á óljósum meðferðarhugmyndum og er ekki beitt hjá SÁÁ. Í meira en tíu ár hefur Motivational Interviewing hefur verið notað hjá SÁÁ og starfsfólk fær þjálfun í þeirri tækni." 

Er þetta nú alveg sannleikanum samkvæmt Hörður ?  Mér er sagt, af þeim sem vinna hjá SÁÁ, að því fari fjarri að Motivational Interviewing sé kennd og hvað þá að starfsfólk sé þjálfað á því sviði (allavegana ekki ráðgjafanemar).  Sá einstaklingur sem ég talaði við var mjög spenntur fyrir því að fá að vita á hvaða tímum "kennsla" þessi færi fram og hver væri "kennarinn".  Er eitthvað til í því að FÁR (félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa) selji ólöglega afrit af DVD diskum með efni í eigu þeirra aðila sem skrifuðu "MI" ?

Einnig hef ég það frá einstaklingi sem nýkominn er af Vogi að þar hafi verið lagt mjög hart að honum (henni) að viðurkenna "sök" sína þ.e. stynja því upp að hann (hún) væri alkaholisti, ekki bara í einkaviðtali heldur líka í grúppu.  Þessi aðili var einnig mjög ósáttur við nauðungarþátttöku í vissu prógrammi ss AA-fundum, Al-anon kynningum og kvikmyndasýningum.  Er Vogur ekki afeitrunarspítali ?  Er slík nauðungarþátttaka ekki brot á persónufrelsi eða jafnvel stjórnarskránni ?

Jóhannes Krog, 2.12.2007 kl. 20:38

38 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Jóhannes: Þetta eru alvarlegar athugasemdir um ófagleg vinnubrögð og stuld á hendur SÁÁ. Ég hef svo sem heyrt svona sögur áður frá starfsfólki og fyrrum sjúklingum en ef það er satt að FÁR sé að "selja" ólöglegar kópíur þá er ástandið verra en ég hélt. Það er eitt að dreifa stolnu efni en al "selja" það .... ég meina, er þetta satt Hörður?

Vilhelmina af Ugglas, 2.12.2007 kl. 21:39

39 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ég er sammála Vilhelmínu um að athugasemdir Jóhannesar um SÁÁ eru verulega alvarlegar. Ég hef fengið 19 e-mail frá fólki sem hefur svipaða sögu að segja en vill ekki koma fram á blogginu vegna "ótta" við einhverskonar hermdaraðgerðir frá SÁÁ. Ég er algerlega dolfallinn yfir þessu!

En þessi e-mail tala sínu máli og þau koma bæði frá fyrrverandi "sjúklingum" og starfsfólki. Ég hef lofað að birta ekki nöfnin og stend við það.

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja?

Sorglegt ef satt!

Ásgeir Rúnar Helgason, 2.12.2007 kl. 22:37

40 Smámynd: Benna

Ég verð nú að verja SÁÁ aðeins það er nú einu sinni þannig að þegar fólk leggur af stað og lætur leggja sig inn á Vog að það veit fyrirfram að það er að fara þangað til að fá hjálp við ofdrykkjuvandamáli og að þetta er alkahólspítali ef viðkomandi er hins vegar ekki alkóhólisti ætti hann ekkert að vera þarna inni að mínu mati, ef honum finnst illa að sér veigið þegar hann er beðinn um að játa að hann sé alkóhólisti hefur hann ekkert að gera þarna og ætti að leita sér hjálpar annar staðar.

Þarna fer fram ákveðin greining um hvort þú sért alkóhólisti eða ekki og ef viðkomandi er greindur sem slíkur ætti hann að tala við ráðgjafann og fá að vita ástæðu þess að hann þarf að opinbera það í grúppu ef hann er ósáttur við þessa greiningu er hann sjálfsagt ekki tilbúin að gera eitthvað í málinu eða þá að hann er ekki alki og þarf þá að leita annað eftir aðstoð.
Þetta er rekið sem sjúkrahúsið Vogur og fer þar fram ákveðin fræðsla um sjúkdóminn alkóhólisma enda alkaspítali og er þar einnig prógramm fyrir sjúklinga til að taka þátt í, það er jú kvikmyndasýningar en það er bara til þess að veita sjúklingum afþreyingju meðan dvöl stendur, þessi kvikmyndasýning er einu sinni í viku og já það þurfa allir að taka þátt nema þeir sem eru of veikir!
Ástæða þess að allir þurfa að taka þátt er sú að það getur myndast mikil spenna í húsinu ef allir fengju bara að valsa um og dunda sér eftir sinni eigin hentisemi við það getur skapast mikil ringulreið því eins og allir vita sem eitthvað vit hafa á þessu málefni þá eru sjúklingar í mjög svo misjöfnu ástandi andlega!

Sjúkrahúsið Vogur og SÁÁ telur að AA fundir séu leiðin til bata og að sjálfsögðu hvetja þeir þá fólk til að stunda þá og hafa sem skyldu meðan fólk dvelur hjá þeim, ef fólk er ekki tilbúið að fara þá leið þá ætti það að sjálfsögðu að leita annað eftir hjálp eins samtalsmeðferð hjá sálfræðing eða meðferð á Teigi já eða skella sér á Hlaðgerðarkot í kristilega meðferð.
Fólk verður að skilja að þetta er meðferð sem þeir eru með og að sjálfsögðu eru þetta enginn brot á neinum lögum eða stjórnaskrá eins og Vilhelmina var að skjóta fram á sinni síðu.

Alveg eins og fólk sem fer á Reykjalund til að hætta reykja þarf að stunda grúppur og ákveðna fundi þurfa sjúklingar sem leita til Vogs að stunda þeirra prógramm, hvernig haldið þið að ástandið væri inn á Vogi ef allir fengu bara að dunda sér og haga tímanum eftir sínu höfði, fólk eins og þarna er í gríðarlega miklu ójafnvægi og þessi litli tími sem gefst nú þegar til að gera það sem maður vill hafa oft endað í miklum látum, öskrum og ég veit ekki hverju því fólk þarna inni hefur ekki alltaf stjórn á sér.

Eins og ég sagði fyrr þá finnst mér að inn á Vogi mætti greina betur á milli þeirra sem eru í raun og veru alkóhólistar og þeirra sem eru ofneytendur því þeir sem eru ofneytendur þurfa sennilega á annarri hjálp að halda en AA samtakanna sem SÁÁ hvetur fólk til að leitar hjálpar hjá.

Benna, 2.12.2007 kl. 22:44

41 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Gott hjá þér Benna!

SÁÁ og AA hefur hjálpað mjög mörgum og ég þekki persónulega fólk sem ég er viss um að aldrei hefði náð tökum á vandamálinu án AA og SÁÁ, en enginn er hafinn yfir gagnrýni.

Ásgeir Rúnar Helgason, 3.12.2007 kl. 09:34

42 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Jóhannes: Ég er í nánu samstarfi við annan tveggja höfunda Motivational Interviewing (Stephen Rollnick). Ef það er rétt sem þér hefur verið sagt að fólk sé að selja kópíur af stolnu efni sem þeir eiga höfundarétt að þá mun ég sjá til þess að það komist til skila. Ég er að bíða eftir kommenti frá viðkomandi aðilum þar sem þeir annaðhvort afneita þessu, staðfesta eða útskýra.

Ég býð líka eftir svari frá SÁA við þinni spurningu um hver það sé sem kenni Motivational Interviewing hjá SÁÁ og hvort viðkomandi sé með MINTI nám þ.e. viðurkennt kennaranám í aðferðinni.

Mér vitanlega þá er það bara Sveinbjörn Kristjánsson hjá Lýðheilsustöð (fyrrverandi starfsmaður SÁÁ) sem hefur tekið það nám, af þeim sem starfa heima. En auðvita geta það verið fleiri án þess að ég viti hverjir það eru.

Ásgeir Rúnar Helgason, 4.12.2007 kl. 20:25

43 Smámynd: Hörður Svavarsson

Hér eru settar fram alvarlegar ásakanir.

Annarsvegar er Félag áfengisráðgjafa sakað um sölu á stolnu efni. Sala á fræðsluefni er stunduð af FÁR og má sjá lista yfir það á vef félagsins. Þar eru engir diskar til sölu, en bókin M.I. er til sölu. Þetta eru eintök í eigu félagsins sem versluð eru af heildsala í USA. Viðskiptavinir FÁR fá reikning með keyptum eintökum og geta því væntanlega staðfest ólöglega sölu á stolnu efni. Ég hef ekki getað fengið eintök af þessu DVD efni til eigin nota, en veit að félagið keypti eintak sem reyndar var svo stolið úr fórum félagsins.

Hinsvegar er því haldið fram að starfsfólk SÁÁ fái ekki þjálfun í að nota M.I. Það er ekki rétt.  Þórarinn Tyrfingsson þjálfar sitt fólk. Þeir sem veljast til þeirrar þjálfunar hafa í flestum tilfellum lokið ráðgjafanámi eða unnið lengi hjá SÁÁ. Veit ekki um kennsluréttindi Þ.T. í MI en hann kennir ekki til neinna réttinda ef út í það er farið, ég hef ekki notað orðið kennsla í þessu samhengi.

Það sem blasir við Ásgeiri R. Helgasyni að gera er að kæra meint athæfi til landlæknis. Fagmanni eins og Ásgeiri er ekki samboðið að liggja á einhverjum tölvupóstum sem vitna um rangindi og óheiðarleika meðferðaraðila, ábirgð hans er mikil og nú þarf hann að taka næstu skref. Í stað þess að vera bara "dolfallinn".

Það getur vel verið að einhver starfsmaður hafi farið út fyrir þá ramma sem settir eru af stjórnendum meðferðarinnar eins og sá sem kallar sig Jóhannes Krog fullyrðir. Það getur verið, ég veit það ekki, en það á ekki að vera þannig.

Hörður Svavarsson, 5.12.2007 kl. 12:47

44 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ég legg ekki í vana minn Hörður að rjúka til Landlæknis með eitthvað sem ég fæ sent inná bloggsíðu eða er trúað fyrir í e-pósti.

Eins og þú vonandi sérð ef þú lest mín svör við þeim ásökunum sem aðrir en ég beina að SÁÁ, þá vil ég gefa aðilum möguleika á að svara ásökununum á sama vettvangi. Sjálfur hef ég ekki sagt eitt styggðarorð um SÁÁ í mínum greinum eða svörum.

Það er svo annað mál að ég get haft skoðanir á kenningarlegum grundvelli meðferðar. Enda væri ég slæmur vísindamaður ef ég gerði ekki slíkt. Það var á þeim nótum sem umræðan byrjaði og það var ekki ég sem stýrði henni inná gagnrýni á SÁÁ sem stofnun. Það hafa aðrir gert og þú svarað vel fyrir þína stofnun.

Þú ert núna t.d. búinn að svara ásökunum um ritstuld á viðunandi hátt (finnst mér). Til þess að ég telji ástæðu til að fara áfram með málið verður einhver þeirra sem hafa sett ásakanirnar fram að framvísa einhverskonar kvittun um að þeir hafi keypt stolið efni. Auðvita lofa ég að nafn kaupandans verði tekið burt.

Það sem ég er "dolfallinn" yfir Hörður, eru ekki ásakanirnar sem slíkar, heldur hvað fólkið virðist vera hrætt við einhverskonar refsiaðgerðir af hálfu SÁÁ ef það kemur fram opinberlega með sínar ásakanir/gagnrýni.

Setningin frá þér sem endar á = "..... ábirgð hans er mikil og nú þarf hann að stíga næstu skref", er sérkennileg?

Áttu við að ég beri einhverja ábirgð á því sem fólk skrifar í athugasemdum á bloggsíðuna mína? Eða að ég eigi að brjóta trúnað og senda persónuleg e-mail til þriðja aðila? Mér kemur ekki til hugar að gera slíkt.

Ég vona að ég sé eitthvað að misskilja þig!?

Ég hef enga ástæðu til að rengja fólk sem sendir mér persónuleg e-mail, en ég trú heldur ekki öllu sem mér er sagt og vil gefa fólki (eins og þér) möguleika á að svara gagnrýni. Annað væri óheiðarlegt.

Takk fyrir upplýsingarnar um að það sé Þórarinn Tyrfingsson sem sér um þjálfun starfsfólks í mótivational interviewing. Ég efast ekki um að hann sé búinn að mennta sig vel í aðferðinni og það getur vel verið að hann sé með MINTI kennara þjálfun þó ég viti ekki af því. Hann virðist vera allt í öllu þarna hjá ykkur: Yfirlæknir, formaður stjórnar og "menntamálaráðherra":

Mikill hæfileikamaður, Þórarinn!

Ásgeir Rúnar Helgason, 5.12.2007 kl. 14:47

45 Smámynd: Hörður Svavarsson

Ég veit ekki hvað Ásgeiri finnst sérkennilegt við að ég telji ábirgð hans mikla.

Á Íslandi eru ekki sömu skyldur lagðar á hendur fagfólks og almennum borgurum. Þegar einhver sem tekur þátt í umræðu á bloggsíðu og hefur eitthvað eftir "konu sem eitt sinn var í meðferð" verður það ekki lagt að jöfnu við orð Sálfræðings sem starfar sem dósent við háskóla og segir: "...athugasemdir Jóhannesar um SÁÁ eru verulega alvarlegar. Ég hef fengið 19 e-mail frá fólki sem hefur svipaða sögu að segja..."

Þú gefur í skyn að þú hafir undir höndum 19 tölvupósta með alvarlegum athugasemdum um starfsemi SÁÁ. Mér finnst ekkert sérkennilegt við það að telja að fagleg ábyrgð þín sé mikil og það sé skylda þín sem sálfræðings að koma þessu á framfæri við yfirvöld.

Ef þessir póstar eru hinsvegar bara "eitthvað sem sem þú fékkst í tölvupóst" þá treysti ég auðvita faglegu mati þínu en finnst jafnframt að þú eigir ekki að vera vitna til þeirra ef þeir eru þess eðlis að engin ástæða er til að gera neitt með þá.

Það er alveg sjálfsagt að gagnrýna á vandaðan hátt eins og t.d. Benedikt Halldórsson hefur gert í þessari umræðu. En það er engin ástæða til að taka þátt í rógi.

Hörður Svavarsson, 5.12.2007 kl. 15:32

46 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Nú er það einu sinni staðreynd að ég hafði/hef fengið 19 e-mail frá fólki (fleiri en eitt frá sumum) með skoðanir á því sem ég skrifaði í upphaflegu greininni.  

 Þessum skeytum má skipta í tvennt:

1) Mail frá fólki sem er með málefnalegan ágreining við meðferðarstefnu SÁÁ og segja svipað og Benedikt segir í sínum vönduðu greinum.

2) Hinsvegar skeyti í svipuðum stíl og Jóhannes sendi inná bloggsíðuna (sem eru í minnihluta).

Það kom mér óþægilega á óvart að fólk skyldi velja að senda þetta beint til mín í stað þess að birt þetta á bloggsíðunni. Sérstaklega faglegu gagnrýnina.

Ástæðan sem flestir gáfu upp þegar ég manaði þau til að birta þetta sem athugasemd, var í stíl við eftirfarandi = "meðferðarsamfélagið á Íslandi er lítið og völd einstakra aðila mikil".

Það var þetta sem ég varð dolfallinn yfir. Að fólk skuli vera svona hrætt við að gagnrýna starfsemi SÁÁ opinberlega, undir nafni, af ótta við afleiðingarnar.

Nú geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að þessi ótti eigi ekki við nein rök að styðjast, en það er umhugsunarefni fyrir ykkur hjá SÁÁ að fólk skuli hugsa á þennan hátt.

Að þessu sögðu þá verð ég að viðurkenna að sú setning sem þú vitnar í og ég vissulega skrifaði, er illa hugsuð og asnaleg. Það er slæmt þegar maður gerir sig sekan um svona klúður.

Það eru svona vanhugsaðar setningar sem verða oft til þess að beina vitrænni samræðu útí móa.

Það eru svona setningar sem koma viðmælandanum í varnarstöðu og þjóna því svipuðu neikvæðu hlutverki í vitsmunalegri umræðu og ásakanir og alkóhólistastimpillinn gera í samræðum um fíkn.

Mér hefur því tekist að gera mig sekan um nákvæmlega það sama og ég var að gagnrýna í greininni sem kom allri þessari umræðu af stað.

Oj, oj, ekki gott!

Skamm, skamm!

Ásgeir Rúnar Helgason, 5.12.2007 kl. 17:35

47 Smámynd: Hörður Svavarsson

Takk fyrir þetta Ásgeir.

Mér sýnist þú vera að ræða um það sem nokkuð hefur verið til umræðu í Íslensku samfélagi í haust og er kallað þöggun.

Agnes Bragadóttir blaðamaður ræddi um þetta fyrirbæri og rakti dæmi  í ágætu viðtali við Sigmund Erni í þættinum hans, Mannamál, sem þú ættir að geta séð á visir.is

Í stuttu máli virðist vera að vegna smæðar samfélagsins og samþjöppunar valds þá veigri einstaklingar sér við því að koma fram undir nafni og ræða það sem aflaga fer, spillingu og óheiðarleg vinnubrögð.

Þetta er slæmt, því umræða veður þá gjarnan í sögusagnastíl eða hreinn rógur. Þessvegna er mikilvægt að fréttamenn og fagfólk á borð við þig stundi vönduð vinnubrögð. þessir aðilar geta verið nokursskonar milliliður í umræðu sem er félagsleg nauðsyn.

Það er leitt ef fólk finnur fyrir þessu gagnvart SÁÁ, því þó það hafi verið gagnrýnt að sami maður sé stjórnarformaður og yfirlæknir þá er í raun hlálegt að tala um að hann hafi einhver völd.

Umboð stjórnenda SÁÁ er árlega lagt undir dóm félagsmanna og það er eingöngu vegna eindregins trausts sem þeir hafa haldið því svo lengi.

Það væri óskandi að tekin væri upp málefnalegri umræða og gagnrýni um meðferð á Íslandi, því enginn er hafinn yfir gagnrýni og alltaf er eitthvað sem betur má fara. 

Hörður Svavarsson, 5.12.2007 kl. 19:40

48 Smámynd: Jóhannes Krog

Hörður skrifar:  "Annarsvegar er Félag áfengisráðgjafa sakað um sölu á stolnu efni. Sala á fræðsluefni er stunduð af FÁR og má sjá lista yfir það á vef félagsins. Þar eru engir diskar til sölu, en bókin M.I. er til sölu. Þetta eru eintök í eigu félagsins sem versluð eru af heildsala í USA. Viðskiptavinir FÁR fá reikning með keyptum eintökum og geta því væntanlega staðfest ólöglega sölu á stolnu efni. Ég hef ekki getað fengið eintök af þessu DVD efni til eigin nota, en veit að félagið keypti eintak sem reyndar var svo stolið úr fórum félagsins." (leturbr. mín) 

Já Hörður ég efast ekki um að þú hefur kynnt þér þetta mál til hlítar og getur því staðið fast á þínu.  Ég hef sjálfur ekki undir höndum meintar sannanir um þetta efni, en kunningi minn setti inná vefinn mynd af umræddri sjóræningjaútgáfu FÁR og ætlar að skanna inn kvittunina um leið og hún finnst.  Gjörðu svo vel http://vardmadurinn.blogspot.com/  Ég efast ekki um að þú finnir góða og gilda réttlætingu fyrir þessu, eða eru ekki annars vakandi og sofandi í því hlutverki að réttlæta og verja gerðir þinna yfirmanna hjá SÁÁ og FÁR ?    Ég lofa því að benda á slóðina fyrir afriti af reikningnum um leið og hann finnst (því hann er til, það er víst). 

Jóhannes Krog, 8.12.2007 kl. 19:31

49 Smámynd: Hörður Svavarsson

Sá sem kallar sig Jóhannes Krog spyr hvort ég sé ekki vakandi og sofandi í því hlutverki að réttlæta og verja gerðir minna yfirmanna hjá SÁÁ og FÁR?

Því er til að svara að svo er ekki.

Það er margt sem ástæða er til að ræða í starfsemi SÁÁ og ég hef ekki setið hjá í þeirri umræðu.  Ég hef lagt mig fram um að stunda málefnalega umræðu og rökstyðja skoðanir mínar og hef haldið þeim fram þar sem vettvangur er fyrir þær. Ég er trúnaðarmaður starfsmanna hjá SÁÁ og hef þurft að koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart samtökunum og hef ekki verið sakaður um að standa ekki við bakið á félögum mínum.

Á síðasta aðalfundi SÁÁ bauð ég mig fram í stjórnarkjöri gegn vilja formanns og hlaut ekki kosningu. Svona vel hef ég vakað í því að verja gerðir annarra.

Um starfsemi FÁR sem er félag áfengisráðgjafa, má segja svipaða sögu. Á seinasta félagsfundi kallaði ég eftir því að skipun stjórnar yrði endurskoðuð. Sjálfstæði félagsins gagnvart vinnuveitendum þarf að vera trúverðugt.

Ég hef hinsvegar tekið upp hanskann fyrir SÁÁ þegar ómaklega hefur verið vegið að samtökunum og þeim sem þar starfa. Þegar einhverjir sem kjósa að starfa í skugga nafnleyndar eða upploginna nafna hafa steðjað fram af heift og útata alla starfsemi SÁÁ og og allra sem þar starfa finnst mér  sjálfsagt að taka til varna.

SÁÁ skiptir svo miklu máli á Íslandi fyrir á sem þurfa áfengis- og annarri vímuefnameðferð að halda. Það er engin ástæða til að þeir fái vantraust á samtökunum vegna rógs og bulls. Það er greinilegt að einhverjir einstaklingar eru heiftúðugir út í SÁÁ og þeim virðist standa á sama þó það kosti lúalegar aðferðir til að koma höggi á samtökin eða einhverja yfirmenn sem þar starfa.

Það er langt seilst baráttunni við að skaða SÁÁ með því að sýna fram á að Félag áfengisráðgjafa hafi kóperað og selt efni sem ekki er í þess eigu, vegna þess að SÁÁ og FÁR er eins og Landspítalinn og BSRB. Engu að síður skal ég svara þessu þó ég geti ekki réttlætt þennan gjörning, sem ég hef kynnt mér betur síðan ég kommentaði seinast um hann.

Það er rétt að hann Pétur sem áður starfaði eitt sinn við að gæta hagsmuna höfunda og flytjenda hjá Skífunni en vinnur nú við áfengisráðgjöf  hjá Landspítalanum fékk að kaupa eintak af umræddum DVD diski eftir að hafa sóst eftir því. Það er ekki hægt að réttlæta þessi ólöglegu viðskipti og mér finnst miður að félag sem ég er í hafi tekið þátt í þessu, en mér er lofað að þetta gerist ekki aftur. Ábyrgðin er hjá þeim einstaklingum sem stóðu að þessum viðskiptum fyrir hönd Fár og kaupandans. Vafalaust er það mikill fengur fyrir þann sem kallar sig Jóhannes Krog að skanna kvittunina hans Péturs þegar hún finnst.

Mér finnst frekar lúalegt að ýja ð því að ég sé tilbúinn til að verja hvað sem er þó það sé ósanngjarnt og óheiðarlegt. Með því er verið að saka mig um undirlægjuhátt sem ég á ekki skilið. 

Hörður Svavarsson, 8.12.2007 kl. 21:19

50 Smámynd: Jóhannes Krog

Jæja !

Þetta er nú einhver skemmtilegasta u-beyja sem ég hef orðið vitni að síðan Ragnar Reykás var uppá sitt besta.  Afneitun frá því 05.12.2007 er varðar meintan stuld á höfundarrétti er allt í einu snúið við á innan við 2 klukkustundum, þegar þrengja fer að lygaþvælunni.  Undarlegt að það taki innan við 108 mínútur að fá upplýsingar og skrifa texta varðandi mál sem þvertekið var fyrir og því haldið til streitu í rúma þrjá sólarhringa.  Athyglisvert að lesa jafnframt ásökunartón í garð einhvers einstaklings sem sagður er hafa keypt umrætt efni.  

Er það tilfellið Hörður að þú teljir kaupanda, sem er ef til vill talið trú um að hann sé að kaupa löglega fengna vöru,  sé samsekur þeim sem fremja meint lögbrot ?  Ert þú viss um að bókhald FÁR stæðist opinbera rannsókn hvað þessi viðskipti varðar ? Getur verið að aðrar varnir þínar fyrir hönd FÁR og SÁÁ séu af sama toga ? 

Hvað varðar meintar ásakanir á SÁÁ, sem virðist valda þér sáru hugarangri, þá er því að svara að undirritaður telur samtökin hafa unnið mikið og merkilegt starf í gegnum tíðina, - en að þau eða þeir sem þar starfa, séu hafnir yfir gagnrýni er af og frá.  Þó að þú sér alinn þannig upp innan fyrirtækisins að allar skoðanir annarra en "eigendanna" séu ekki bara óæskilegar heldur beinlínis óviðunandi, þá verður þú að læra að umbera öðrum utan þess heims sem þú hefur kosið þér, að hafa sínar skoðanir.

Jóhannes Krog, 8.12.2007 kl. 22:56

51 Smámynd: Hörður Svavarsson

Ég hef ekki bannað nokkrum manni að hafa skoðanir. Og það er mín skoðun að sá sem kallar sig Jóhannes Krog ætti að lesa aftur það sem ég hef skrifað hér. Ég hef hælt mönnum fyrir málefnalega gagnrýni, kvartað yfir rógi og greint frá því sem ég hef aðhafst til að hreyfa við því sem ég tel að betur megi fara.

Ef sá sem kallar sig Jóhannes Krog hefur ekkert annað til málanna að leggja má hann mín vegna hjakka í sama farinu. Ef það er hans skoðun að það sé honum sæmandi, má hann vera á þeirri skoðun mín vegna en mér finnst lítið til slíkra skoðana koma.

Hörður Svavarsson, 9.12.2007 kl. 00:39

52 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Kæru bloggvinir og aðrir sem hér hafa tekið til máls!

Ég fékk sent afrit af þessari umræddu kvittun og hafði samband við fólk sem tengist þeim aðilum (FÁR) sem stóðu að þessari óleyfilegu sölu MI á efni. Mér var lofað að tekið yrði á þessu máli og það er nóg fyrir mig. Jóhannes og aðrir sem vökru athygli mína á þessu og þeir sem sendu mér viðkomandi kvittun sem sönnun fyrir sínu máli eiga þakkir skyldar. Hörður er að sjálfsögðu í þeirri aðstöðu að þurfa að verja sitt fólk en hann hefur líka brugðist hart við þegar sannanirnar lágu á borðinu og fordæmt þau vinnubrögð sem um er rætt.

Sjálfur lenti ég í þeirri aðstöðu að hýsa umræðuna á minni bloggsíðu án þess að hafa nokkuð til þess unnið annað en að skrifa grein um meðferðarnálgun sem hafnar alkóhólistastimplum sem nauðsynlegum hluta af meðferð og bata fólks sem ofnotar áfengi.

En svona er nú þetta bloggsamfélag. Maður má eiga von á hverju sem er ef maður heldur opnum möguleikanum að hver sem er geti skrifað athugasemdir.

EN nú er mál að þessum umræðum linni á minni síðu.

Ég er á leið heim til Íslands og fer því í bloggfrí fram í miðjan janúar.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Ásgeir Rúnar Helgason, 9.12.2007 kl. 15:30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband