2.2.2008 | 13:56
Æskustöðvar við flugvöllinn
Ég átti heima í Litla-Skerjó, nánar tiltekið á Hörpugötu 13 þegar ég var lítill. Húsið liggur eins nálægt flugbrautinni og hægt er að komast. Ég man eftir drununum þegar vélarnar hófu sig til flugs og lentu. Einfalt glerið í glugganum hristist. Við krakkarnir skemmtum okkur við að hlaupa yfir flugbrautina og komast undan flugvallargæslunni á gula LandRover jeppanum. Á þeim tíma stóð ennþá gamall skriðdreki frá stríðsárunum á túni norðvestan við flugstöðvabygginguna sem gaman var að leika sér í. Steinsnar frá var gamla Tívolí. Reykjavíkurflugvöllur er því vænn drumbur í arineld minninganna.
En það er kannski þar sem hann á heima? Í minningunni. Það er ef til vill löngu tímabært að leggja af þennan flugvöll og byggja þar blómlega byggð á einu besta og veðursælasta byggingarlandi borgarinnar?
Ef Gísli Marteinn reiknar rétt ætti það ekki að taka mörg ár að spara uppí flutning á innanlandsfluginu til Keflavíkur með Terminal í Reykjavík og beinar lestasamgöngur á tvöföldu lestarspori út í vél, þegar veður leyfir flugtak. Annars hef ég svo sem engar ákveðnar hugmyndir um hvar nýr innanlandsflugvöllur væri best settur.
Ólafur treystir Gísla Marteini | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.2.2008 kl. 10:34 | Facebook
Athugasemdir
Ef það er raunhæft að byggja einteinung, (monorail) sem fer á 4-500 km hraða á milli Kef og Rvk þá er kannski smuga að flytja völlinn suðureftir. Annars ekki, svo einfalt er það
Gunnar Th. Gunnarsson, 2.2.2008 kl. 14:27
Félagi Skerfirðingur. Ég verð að vera ósammála þér og raunar Gísla Marteini. Byggðin og starfsemin er líka í nútíðinni, ekki bara í minningunni. Ef landþurrð eða íbúðaskortur hrekur fólk til þeirra örþrifaráða að fjarlægja völlinn, þá þarf það að spyrja sig hvað eigi að gera við allar nýbyggingarnar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu sem byggðar hafa verið á rándýrum lóðum og standa óseldar.
Síðan er málið ekki bara svart/hvítt, heldur í litum og í þrívídd, þar sem ýmsar lausnir eru mögulegar, en að völlurinn standi að einhverju leyti. Í fyrsta lagi ber að fjarlægja brautina sem aldrei er notuð, (austur-vestur?). Það bætir heilmiklu við byggðina sunnan flugvallar. Það má lengja norður- suður brautina yfir Suðurgötuna og út í sjó. Það yrði raunar út í hött ef allri þessari nýlegu milljarðafjárfestingu í endurbætur um árið yrði kastað á glæ. Allt í einu virðast Reykvíkingar halda að við höfum endalaust fé á milli handanna. Til þrautavara mætti leggja niður Vatnsmýrarbrautina (að tjörninni), sem þrengir að vellinum vegna vinda, en leggur hann kannski ekki af. Kannski mætti lengja hinn endann aðeins út í Kópavoginn. Innanlandsflug þarf ekki mjög langar brautir. Að auki er ný samgöngumiðstöð að verða til.
Niðurstaða: Það er bruðl og óþarfi að leggja flugvöllinn af. Íbúarnir vilja hafa hann og ef þörf er á lóðum, þá er hún leyst eins og ofan er lýst. Snúum okkur að þarfari málum.
Ívar Pálsson, 2.2.2008 kl. 14:45
OK, drengir! Veit og heyri að sitt sýnist hverjum og ekkert annað en gott um það að segja..
Ívar: Ég er nú að hugsa svona 20 ár fram í tímann. Vonandi á ástandið í íbúðarsölumálum eftir að fara hratt upp á við aftur. Eru þetta ekki ca. 10 ára sveiflur? Og jú, jú, mikil ósköp. Þetta er mál í mörgum víddum. Þrautavörin er kannski ekkert vitlaus hugmynd hjá þér? En hvar bjóst þú í Skerjafirði og á hvaða árum? Ég er nú að verða svo helvíti gamall að ég bjó þarna á þeim árum þegar bardagarnir við Holtarana voru í algleymingi uppúr 1960.
Gunnar: Ég er svo sem ekkert frelsaður í þeirri lausn að völlurinn verði að vera í Keflavík. Bara að EF hann verður fluttur þangað til að samnýta þá aðstöðu sem fyrir er þá finnst mér að það sé forsenda að mögulegt sé að tékka inn á Terminal í Reykjavík og setjast beint uppí hraðlest þegar veður leyfir flugtak. Ef þetta er ekki mögulegt, finnst mér EKKI koma til greina að flytja völlinn til Keflavíkur. Það væri að æra óstöðugan að þurfa að keyra fram og til baka til að komast í loftið á slæmum flugdögum.
Sjálfur bý ég í Svíþjóð og fer oft heim til að vinna. Þarf m.a. stundum að fara norður og þætti afar þægilegt að losna við að fara alltaf inn í Reykjavík til að komast norður. En sem sagt þetta er margslungið mál og gaman að heyra ykkar álit og annarra!
Ásgeir Rúnar Helgason, 2.2.2008 kl. 16:06
Ásgeir, eftir 20 ár er stríðið kannski yfirstaðið og við með okkar gildum á elliheimili eða komnir undir græna torfu. Sveiflur í fasteignaverði og staðarvali munu eiga sér stað og ekki er ráðlegt að bæta við offramboðið í lausafjárkreppunni framundan. Flugið gengur ágætlega, færsla flugvallarins yrði í óþökk meirihluta íbúanna í nágrenninu og þörfin er lítil sem engin. Hér er í raun verið að deila um keisarans skegg. Kannski næðirðu hefndum á Bretana vegna 10/5/1940 þegar þeir skáru Hörpugötuna í tvennt með flugvellinum? Nei, ég veit að það var fyrir þína tíð.
Ég hef búið í sama húsinu í Skildinganesi í Skerjafirði nær alla tíð: 1959-1985 og 1992 til vorra daga. Við virðumst líka hafa verið friðsamari hér en þú lýsir, þó ekki á skellinöðrunum síðar, þar sem þetta var algert frísvæði.
Ívar Pálsson, 3.2.2008 kl. 11:57
Ég skil Ívar!
Þú varst hinumegin við völlinn. Á mínum árum var það nánast eins og hinumegin á hnettinum. Það var helst að við kæmum þangað þegar við hlupum yfir flugbrautina til að ganga í augun á stelpunum. Já, þið voruð friðsamur ættbálkur þarna sunnanvið. Ég man ekki eftir að neinn frá Stóra-Skerjó hafið verið með í bardögum við Holtarana í Möngó (gamla eyðihúsið á hólnum sem skildi að Holtin og Litla-Skerjó)?
Ég bíð eftir útreikningum hagfræðinga, hugmyndum að skipulagi og tillögum að hugsanlegri annarri staðsetningu flugvallarins (og samgöngum þangað) áður en ég geri endanlega upp hug minn í flugvallarmálinu. Japla á þínum punktum og annarra þangað til.
Lifðu heill!
Ásgeir Rúnar Helgason, 3.2.2008 kl. 12:17