EFNAHAGSÁSTANDIÐ, SÁLFRÆÐIN OG FÍKNIN

Öll sveiflumst við upp og niður í geðbrigðum. Ímyndaðu þér geðbrigði á skalanum núll til hundrað. Núll er mesta mögulega þunglyndi og hundrað mesta mögulega gleði.

Stundum erum við glöð, á leiðinni upp og stundum erum við leið, á leiðinni niður. Flest sveiflumst við einhverstaðar á milli fjörutíu-sextíu, eða þar um bil.

Ímyndaðu þér að á skalanum núll til hundrað sé fimmtíu hafsflöturinn. Allt sem er fyrir neðan fimmtíu er undir hafsfletinum og allt sem er yfir fimmtíu er yfir hafsfletinum. Einstaklingur sem flýtur eins og korkur á hafsfletinum og sveiflast aldrei upp yfir hafsflötinn og aldrei niður undir yfirborðið, er skaplaus og flatur persónuleiki. Sem betur fer eru slíkir einstaklingar sjaldgæfir, ef þeir eru þá til?

Langt niðri í myrkri hafsdjúpsins er botninn, “núll-strikið”. Jafn hátt, fyrir ofan hafsflötinn í átt til Sólarinnar þar sem súrefnið þrýtur og sólargeislarnir verða hættulegir, er “hundrað-strikið”.

Ímyndaðu þér að þú sért festur með streng við körfu sem tengd er við loftbelg sem er fylltur með heitu lofti. Loftbelgurinn leitast við að draga körfuna og þig upp frá hafsfletinum, upp í háloftið.

Ímyndaðu þér að loftbelgurinn sé þakinn sólarrafhlöðum. Sólarrafhlöður virkja orku frá sólinni sem drífa hitablásara sem blæs heitu lofti inní loftbelginn.

Þegar sólin skín knýja sólarrafhlöðurnar hitablásarann og loftbelgurinn (og þú) lyftist upp frá hafsfletinum þegar heita loftið fyllir hann. Afgangs orka hleðst á rafgeyma.

En í öðrum spotta sem er bundinn við þig hangir þung sakka sem leitast við að draga þig aftur niður á við.

Þegar myrkrið leggst yfir eða ský byrgja sólarsýn gengur hitablásarinn fyrir orkunni sem geymd er í rafhlöðunni. En verði myrkrið langvinnt eða byrgi ský sólina of lengi eyðist orkan úr rafhlöðunum. Hitablásarinn stöðvast,  loftið í belgnum kólnar og sakkan dregur þig niður að hafsfletinum. Verði myrkrið viðvarandi dregst þú enn neðar, undir yfirborð vatnsins. Karfan og belgurinn fljóta þó á vatnsfletinum. Þú andar og færð súrefni gegnum slöngur sem tengdar eru við loftbelginn á yfirborðinu. Þetta ástand er því ekki hættulegt nema þú sökkvir það djúpt að þungi vatnsins verði það mikill að þú eigir erfitt með að draga andann.

Þegar sólin brýst fram úr skýjunum að nýju fara sólarrafhlöðurnar að vinna og blásarinn blæs aftur heitu vatni í belginn sem lyftist upp frá vatnsfletinum. Þú skýst aftur upp á yfirborðið og svífur að lokum aftur yfir vatnsfletinum.


ÞUNGLYNDI

Verði myrkrið langvarandi, eða ef sólarrafhlöðurnar bila er hætt við að sjálf karfan dragist niður undir yfirborð vatnsins. Þegar þú sekkur of djúpt verður þrýstingurinn á lungun til þess að þú átt erfitt með andadrátt og farirðu of langt niður getur ástandið orðið hættulegt.

Þunglyndi byrjar að gera vart við sig þegar þú dregst of langt niður og ert þar of lengi. Þá þarf einhver að rétta þér hjálparhönd og draga þig upp úr djúpinu. Séu rafhlöðurnar bilaðar þarf að sjálfsögðu að gera við þær líka. Fagfólk á sviði  sálfræðilegrar meðferðar er sérhæft í þesskonar björgunaraðgerðum og fagfólk á sviði geðlækninga er sérhæft í því að lagfæra “rafhlöðurnar og hitablásarann”. Oftast þarf hvorutveggja að koma til.


MANÍA

Það er ekki síður hættulegt að svífa of langt upp frá hafsfletinum, uppí hæðir ofar skýjum þar sem súrefnið er þunnt og geislar sólarinnar skaðlegir. Ef við höldum okkur við líkinguna um loftbelginn og sökkuna, getur slíkt gerst ef t.d. spottinn sem tengir þig við sökkuna slitnar eða er alltof langur. Þá þarf eitthvað að koma til sem dregur þig niður í hæðir þar sem skýin geta byrgt sólina, súrefnið er ekki eins þunnt og geislar sólarinnar ekki eins hættulegir. Á fræðimáli er slíkt ástand kallað “manía”.


JÁKVÆÐ OG NEIKVÆÐ STYRKING

Það sem við köllum sólargeisla í líkingunni um loftbelginn, er á máli sálfræðinnar kallað “jákvæð styrking” þ.e. svar sem við fáum við því sem gerum, gerir það að verkum að við viljum gera það aftur til að fá sama svar. Þetta hljómar kannski flókið en er í raun nauða einfalt. Tækum dæmi:  Þú brosir og færð bros til baka frá þeim sem þú brostir til. Brosið sem þú færð til baka sem svar við þínu brosi, gerir þig glaðan. Það eykur því líkurnar á því að þú brosir í framtíðinni vegna þess að þér finnst svo gott að fá bros til baka.

Sértu hinsvegar þannig gerður að þér þyki slæmt að einhver brosi til þín, er líklegt að þú hættir að brosa til að forðast það að fá bros til baka. Þá tölum við um “neikvæða styrkingu”.

Það heitir sem sagt “jákvæð styrking” ef svarið við þínu atferli virkar jákvætt á þig og leiðir til þess að þú gerir sama hlut aftur til að fá sama svar. “Neikvæð styrking” heitir það hinsvegar ef svarið við þínu atferli virkar neikvætt á þig og dregur þar með úr líkunum á að þú endurtakir atferlið. Sami hlutur getur því verið jákvæður styrkir fyrir mig en neikvæður styrkir fyrir þig.

Jákvæð styrking er lykilatriði í sálfræðilegri meðferð við þunglyndi. Það er m.a. hlutverk sálfræðingsins að hjálpa þér til að átta þig á því hvað það er sem er jákvæð styrking fyrir þig.

En stundum getur jákvæð styrking leitt okkur í ógöngur. Það gerist t.d. þegar við notum ýmiskonar efni (t.d. ópíum, alkóhól, kókaín, nikótín eða heróín) sem valda tímabundinni vellíðan.


EFNAHAGSÁSTANDIÐ

Ef til vill má heimfæra þetta uppá efnahagsástandið í dag? Efnahagsmálin hafa um nokkra hríð stjórnast af jákvæðum styrkingum sem líkja má við heróín. Eins og gert er í meðferð heróínsjúklinga skiptir máli til að ná langvarandi bata eftir meðferð, að hjálpa viðkomandi að hitta nýjar heilbrigðar leiðir til jákvæðrar styrkingar. En eins og venja er með fólk sem lendir í svona stöðu virðist allt svart og vonlaust í byrjun. Koma þarf eitrinu úr kroppnum og takast á við erfiðleikatímabil fráhvarfseinkenna. Síðan reynir á að hjálpa viðkomandi að hitta nýjar heilbrigðar jákvæðar styrkingar. Þar er af nógu að taka á Íslandi í dag. Fullt af frábærum tækifærum á sviði menntamála, þorskeldi, hátækni, ferðamennsku og iðnaðar. Nú gildir að taka á fráhvarfinu og hefja nýtt og heilbrigðara líf.

Lifi fjalldrapinn! 


mbl.is FME stýrir Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Flottar samlíkingar.

Steingerður Steinarsdóttir, 7.10.2008 kl. 08:58

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Takk fyrir það Steingerður.

Fréttaflutningurinn af Íslandsmálum hér er afskaplega sorglegur þessa stundina.

Ég flagga nú samt ennþá Íslanska fánanum bæði heima á svölunum og í barminum og ber höfuðið hátt.

Nema hvað!

Ásgeir Rúnar Helgason, 7.10.2008 kl. 09:09

3 identicon

langdregislega orðað...

Normal = Sin(x)

Manía = 10Sin(10x)

Þunglyndi = -Rót(x)

Efnahagsástandið = 10Tan(y) + 10Sin(Pi^2ix) * 3e^xi

jonki (IP-tala skráð) 7.10.2008 kl. 10:58

4 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ha, ha...

Takk fyrir þessa súmmeringu af langlokunni jonki.

Ásgeir Rúnar Helgason, 7.10.2008 kl. 12:20

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Snjöll grein, félagi. Tripp jakkafatafóstranna er búið og kaldi kalkúnninn tekinn við. Það var svona imposed tripp eins og þú lýsir. Þeir örvuðu dópamínin og endofínin með utanaðkomandi meðulum og nú heldur eilinn þeirra að það þurfi ekki að framleiða þau lengur og myrkrið skellur á.

Ég líki bipolarnum mínum oftast við Íkarus forðum. Það merkilega er að ég virðist alltaf nær sólinni, þegar aðrir eru að vaða um kjallarann. Það er dásamlegt þar uppi, ekkert dóp jafnast á við það, en fallið er hratt og lendingin stundum ansi hörð. Þetta er þó að flestu leyti eðlilegra en það sem átt hefur sér stað hér.

Ég vona að fólk átti sig á að það bætir ekki spönn við líf sitt með áhyggjum. Nú væri kannski rétti tíminn til að blaða í Eckhart Tolle.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.10.2008 kl. 14:31

6 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Upp með Eckhart Tolle úr náttborðsskúffunni!

Sú bók er mun meira virði en þeir pappírar sem ég á/átti í Landsbankanum

Ásgeir Rúnar Helgason, 7.10.2008 kl. 14:45

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Satt, rétt og góðar samlíkingar!

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 9.10.2008 kl. 21:56

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband