Trítiltoppatríóið og Ólafur Ragnar Grímsson

Alltaf þegar ég sé Ólaf Ragnar Grímsson kemur upp í hugann gömul minning um textann “Litli grís” sem Trítiltoppatríóið sáluga flutti á sviði Laugardalshallarinnar fyrir troðfullum sal á kosningafundi Alþýðubandalagsins fyrir allmörgum árum. Löngu áður en nokkrum hafði til hugar komið að Ólafur Ragnar Grímsson yrði forseti Íslands.

Við Árni Guðmundsson æskulýðsfrömuður og Kartan Ólafsson tónskáld og prófessor í tónsmíðum vorum þá unglingar og stofnuðum saman umtalað tríó. Ég samdi textana og Árni og Kjartan lögin. Okkur þótti það að sjálfsögðu mikill heiður að fá að spila fyrir troðfulla Laugardalshöll. Eitt af lögunum sem við fluttum hét “Litli grís” og fjallaði um lítinn grís sem hafði metnað og vildi verða Alþingismaður en varð niðurlægður og hæddur af lýðnum.

Nú er þetta ekki í frásögu færandi nema fyrir þá sök að ÓRG sat í salnum á fremsta bekk. Enginn okkar Trítiltoppa hafði hugmynd um að ÓRG væri stundum uppnefndur “Óli grís”. Við stóðum þarna stoltir, bláeygðir og algerlega saklausir unglingar og fluttum lagið af mikilli innlifun. Í salnum sat líka skáldið Þórarinn Eldjárn og engdist af innbyrgðum hlátri. Þórarinn er nefnilega giftur systur Kjartans og hafði heyrt okkur æfa lagið í Brekkugerðinu heima hjá tengdaforeldrum sínum og vissi mæta vel hvar og við hvaða tækifæri við ætluðum að frumflytja meistaraverkið.

Það má Ólafur eiga að hann erfði þetta ekkert við okkur. Allavega kom hann sérstaklega til mín eftir fundinn og þakkaði fyrir tónlistarflutninginn og það var hann einn um. En það er ekki laust við að við roðnuðum aðeins þegar Þórarinn upplýsti málið.

Þannig er nú það og þetta er alveg dagsatt.


mbl.is Þjóðin tók valdið í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband