Verða þeir kallaðir landráðamenn?

Í færslu frá 18. maí (sjá HÉR) hvatti ég íslendinga sem áttu sparifé erlendis til að flytja það heim til að auka gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Sjálfur flutti ég þá heim allt mitt sparifé í erlendri minnt. Auðvita tapaði ég á því, en taldi það skildu mína sem íslendings.

 

Í dag er saumað að lífeyrissjóðunum að gera slíkt hið sama og er það vel. Það er vonandi svo að fólk láti þjóðarheill stjórna aðgerðum sínum í svona málum. Það svíður hinsvegar sárt að ekki skuli vera gerðar sambærilegar kröfur á fjármálafyrirtæki í “einkaeign”.

 

Það fólk sem kom efnahagskerfinu í þessar ógöngur með gengdarlausri græðgi, hömlulausri útrás og útþenslu, kaupum og sölu á fyrirtækjum til að fela loft í kerfinu og ábyrgðalausri lánastefnu. Þetta fólk hefur ekki bara stefnt efnahagskerfinu í þrot heldur skammtað sjálfu sér fáránleg laun og bónusa. Peninga sem við eigum nú að krefja til baka.

 

Það er röng hugsun að halda því fram að einhverjir einstaklingar “eigi” fjármagnið í efnahagskerfinu. Fjármagnið í kerfinu er eins og súrefnið í líkamanum. Allar frumurnar þurfa á því að halda og eiga það sameiginlega, þó lungun hafi það hlutverk að anda því inn og rauðu blóðkornin beri það um líkamann.

 

Það þarf að setja ný lög og reglur um efnahagskerfið, koma böndum á kapítalistana. Ein hugmynd er t.d. að verðtryggja lágmarkslaun í hámarkslaunum þ.e. að engin megi skammta sér hærri laun en sem nemur ákveðnu margfeldi lágmarkslauna? Auka þarf aðhald fjármálafyrirtækja og ekki síst að setja reglur um gegnsæi svo fólk geti betur áttað sig á flæði fjármagnsins milli landa og hvort einhverstaðar sé óeðlilega mikið loft í kerfinu.

 

Auðvita eru engin lög í dag sem geta þvingað íslenska viðskiptajöfra til að flytja heim erlent fé. En geri þeir það ekki er stutt í að fólk fari að tala um vissa þeirra sem landráðamenn.

 

Í færslunni frá 18. maí velti ég því fyrir mér hvort sterk fjármálaöfl á Íslandi séu að reyna að hræða þjóðina inní Evrópusambandið. Það er ekki laust við að mér finnist að tónninn í umræðunni sé að verða þannig í dag.

 

Hvort sem Ísland tapar eða vinnur á því í lengdina að vera með í Evrópusambandinu er alveg ljóst að forgangsverkefnið er að koma böndum á fjármagnskapítalismann og styðja um leið við heilbrigðan innlendan fyrirtækjakapítalisma. Ísland er vaðandi í góðum möguleikum og tækifærum fyrir uppbyggingu innlendra fyrirtækja á borð við þorskeldi, ferðaþjónustu, menntamála, iðnað, hátækni o.s.f.

 

En til þess að hægt sé að byggja upp innlenda framleiðslu og þjónustu á heilbrigðan hátt verður að búa um sárið og stöðva þessa gengdarlausu blóðtöku úr þjóðarlíkamanum.


mbl.is Fundað um lífeyrissjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,Góð grein ,,bara nokkuð sammála henni,,.

Res (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 10:34

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Vinsamlega athugið að bloggsíðan er "biluð" og það er með herkjum að ég geti loggað inn. Þetta hefur verið vandamál lengi og mbl hefur ekki getað fundið lausn á vandanum. Ég get t.d. bara loggað inn með því að blogga frétt og þá ekki loggað inn aftur til að svara athugasemdum nema með því að logga inn aftur til að blogga aðra frétt. Þetta gerir það að verkum að lítið verður um dínamíska umræðu af minni hálfu.

Það sérkennilega er að þetta er vandamál sem virðist bundið við tölvurnar heima þ.e. ég get loggað inn án minstu erfiðleika ef ég er staddur einhverstaða annarstaðar?

Ásgeir Rúnar Helgason, 5.10.2008 kl. 13:27

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband