Endurkoma Norðurlanda (leiðari í Dagens Nyheter í dag)

Leiðari sænska stórblaðsins Dagens Nyheter í dag ber fyrirsögnina “Nordens återkomst” (endurkoma Norðurlanda).

 

Á þeim tíma þegar Svíþjóð gekk inn í EU var ég virkur í ýmsum norrænum nefndum og rannsóknarhópum. Þá ræddum við mikið nauðsyn þess að efla norrænt samstarf óháð því hvort öll löndin veldu að ganga inn í bandalagið. Flest sáum við það í hendi okkar að þörfin á slíku samstarfi væri aldrei meiri en nú þegar þjóðir tengdust saman í stórar pólitískar og efnahagslegar einingar. Norðurlönd hlytu að geta byggt á langri hefð og nýtt sér samtakamátt sinn til að tryggja hagsmuni okkar litlu þjóða í heimi stórra bandalaga.

 

Stjórnmálamenn virtust hins vegar vera á öðru máli og töluðu gjarna um minnkandi þörf á norrænu samstarfi. Okkur til mikillar furðu kepptust ráðamenn í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi við að sýna Evrópubandalaginu hollustu hvert í sínu horni og Ísland og Noregur urðu hornreka.

 

Nú er annað hljóð að koma í strokkinn. Hveitibrauðsdagar litlu Norðurlandaþjóðanna og Evrópubandalagsins eru liðnir og hversdagslífið tekið við. Þá vaka stjórnmálamenn úr dvalanum, líta sér nær og vilja efla fjölskylduböndin.

 

Nú er lag að blása alvöru lífi í Norrænt samstarf. Íslendingar þjóna þar mikilvægu hlutverki. Vegna þeirrar sérstöðu að vera utan Evrópubandalagsins getum við náð mun betri fríverslunarsamningum en lönd innan bandalagsins við aðrar viðskiptablokkir, eins og samningarnir við Kína og Kanada sanna. Það gerir Ísland aðlaðandi fyrir fyrirtæki með lögheimili innan bandalagsins. Ísland hefur einstaka möguleika á að nýta sér þá sérstöðu að eiga “lögheimili” á Norðurlöndum og hafa náið samstarf við Evrópubandalagið, NAFTA, Kína og hvern sem er. Nú er þörf á duglegum og skynsömum stjórnmálamönnum úr öllum flokkum heima á Íslandi til að róa þessu máli í höfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Godar frettir!

Kvedja fra Kairo, a leid til Sudan.

Vilhelmina af Ugglas, 2.2.2008 kl. 12:04

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband