KVÍÐI pistill 5

sprungidAÐ FÆÐAST “HRÆDDUR”?: Líklegt er að sumir einstaklingar séu fæddir með þeim ósköpum að eiga auðveldara en aðrir með að verða hræddir þ.e. hafa fengið ofur virkt viðvörunarkerfi í vöggugjöf. Það var líklega mikið lán í árdaga en bagalegt í nútímasamfélagi. Þessu má líkja við ofurvirka reykskinjara sem pípa í tíma og ótíma svo varla er hægt að rista brauðsneið án þess að ærast af hávaða. Þeir sem erft hafa ofurvirkt viðvörunarkerfi þjást gjarna af stöðugum kvíða, eru óöruggir, eirðarlausir, svartsýnir og þola illa álag og spennu. Þeir eiga oft erfitt með svefn og hafa tilhneigingu til að finnast flest óyfirstíganlega erfitt. Lyf sem auka virkni vissra taugaboðefna (t.d. serotonin) í heilanum gera oft mikið gagn fyrir þessa einstaklinga. Nærri lætur að um sjö af hundraði hafi einkenni einhvertíma ævinnar sem gefa vísbendingu um að viðkomandi geti hafa erft ofur virkt viðvörunarkerfi. Á Íslandi eru því líklega yfir tuttugu þúsund einstaklingar með þetta vandamál. Ef þú tilheyrir þessum hóp ertu í sérstökum áhættuhóp hvað varðar að þróa ótta og kvíða gagnvart aðstæðum sem í raun eru meinlausar. Þó lyf geti komið að góðum notum er engum blöðum um það að fletta að sálfræðileg meðferð í þeim anda sem lýst hefur verið í þessum pistlum getur reynist þér afar gagnleg m.a. dregið verulega úr þörf fyrir lyf og aukið lífsgæði þín. Í meðferðinni færð þú þann stuðning sem þú þarft til að horfast í augu við “óargadýrin” stig af stigi og lærir aðferðir til að halda viðvörunarkerfinu í skefjum. Mikilvægt er að vinna skipulega og reyna ekki að kynnast of mörgum “óargadýrum” í einu. Þess vegna er mikil áhersla lögð á að greina vandamálið í byrjun. Hvað er það sem þú hræðist/kvíðir mest á skalanum einn til tíu? Reynt er að gera sem nákvæmastan lista yfir allar aðstæður sem valda hugarangri og þeim raðað upp þannig að fyrst koma aðstæður sem eru mest ógnvekjandi og seinast aðstæður sem eru minnst ógnvekjandi. Því næst er valið að vinna með eitt ákveðið vandamál í senn og næsta vandamál ekki tekið fyrir fyrr en það fyrra er afgreitt. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Takk kærlega! Hvar er hægt að fá hjálp? Sonur vinkonu minnar þjáist stöðugt af kvíða en hann hefur ekki enn fundið sálfræðing sem hefur unnið eins og þú lýsir í þessum pistlum. Þetta hafa mest verið gagnlítil stuðningssamtöl að hans sögn.

Vilhelmina af Ugglas, 10.4.2007 kl. 20:46

2 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Þakka þér kærlega fyrir fleiri góða pistla. Þeir koma sér vel. Einmitt þetta með tóbak og kaffi er oft stór þáttur í daglegum neysluvenjum sonar míns og verður líklega með því erfiðara að losa sig við, en ég var sjálf á sínum tíma fyrir margt löngu á námskeiði hjá Krabbameinsfélaginu sem þú stýrðir og margt situr enn í mínu minni frá þessum námskeiði. En loks eftir margar ítrekaðar tilraunir að hætta að reykja tókst mér það loksins fyrir 11 árum! Hafðu þökk fyrir.

Sigurlaug B. Gröndal, 11.4.2007 kl. 09:52

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Verulega góðar pælingar hjá þér. Á okkar tímum er málið, að því er virðist, að feika sjálfstraustið. Þetta gefur pistlum þínum aukið gildi og þeir ættu einfaldega að birtast í Lesbókinni. My humble opinion.

Set þig efst á bloggvinalistann, ef ég finn út úr hvernig það er gert.

xx

Ólafur Þórðarson, 11.4.2007 kl. 11:17

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband