KVÍÐI pistill 4

clip_image002AÐ GRÍPAST AF OFSAHRÆÐSLU: Óttaviðbrögð óháð raunverulegu hættuástandi geta verið svo öflug að menn grípist af ofsahræðslu. Þegar það gerist æða stresshormónin út í blóðið að því er virðist að tilefnislausu. Oftast er þó eitthvað sem kemur þessum viðbrögðum af stað, eittvað sem heilinn hefur lært að túlka sem mjög hættulegt þó það sé í sjálfu sér meinlaust. Það þurfa ekki endilega að vera raunverulegar aðstæður eða hlutir, hugsanir og draumar geta ræst stresshormónin og hleypt af stað öflugu hræðsluviðbragði. Eitrun af ýmsu tagi getur líka ræst streituhormónin og valdið viðbrögðum sem heilinn túlkar sem ótta. Dæmi um slíkt er ofneysla nikótíns og kaffis, ekki síst á unglingsárunum.

 

Dæmigerð ofsahræðsla lýsir sér m.a. með óþægilegum hröðum hjartslætti, handtitringi, andnauð, svita og öðrum einkennum sem eru dæmigerð fyrir hræðsluviðbrögð og lýst hefur verið hér að framan. Heilinn túlkar þessi einkenni sem merki um að eitthvað hræðilegt sé að gerast. Tengi heilinn óttaviðbragðið við sérstakar aðstæður eru miklar líkur á því að þú reynir að forðast þær aðstæður í framtíðinni. Flestir sem grípast af ofsahræðslu upplifa sterka löngun til að forða sér úr þeim aðstæðum sem þeir eru í þegar kastið skellur yfir m.a. vegna þess að okkur finnst pínlegt að aðrir verði vitni að ósköpunum. Óttinn við að fá næsta kast í kringumstæðum þar sem aðrir verða vitni að því sem gerist gerir það að verkum að menn koma sér upp margskonar klækjum til að geta forðað sér sem fyrst úr aðstæðum þar sem fleiri eru saman komnir. Margir veigra sér t.d. við að setjast í miðið á bekknum í bíó eða leikhúsi heldur velja sér sæti við ganginn sem næst útgöngudyrunum. Þjáist þú af skyndilegum óttaviðbrögðum er mikilvægt að þú fáir hjálp við að ganga í gegnum þær aðstæður sem þú forðast og lærir að efast um ógnarhugsanir þínar. Hverjar eru líkurnar á því að ég fái óttakast einmitt núna? Hve oft hefur það gerst við þessar tilteknu aðstæður? Hvað er það versta sem getur gerst? Er það virkilega svo hræðilegt þó aðrir sjái að mér líður illa? Er það virkilega svo að allir ókunnugir vilji mér illt, séu óvinir? Ef óttinn er mikill og lamandi kann að vera ráð að ganga í gegnum þær aðstæður í huganum sem maður er smeykur við í djúpri slökun, áður en maður útsetur sig fyrir þær í raunveruleikanum. Þú verður að setja þig í aðstæðurnar stig af stigi þar til heilinn hefur skilið að þetta er ekki hættulegt. Það hjálpar líka að öðlast innsægi í hvernig heilinn lærir að túlka veruleikann á rangan hátt og framkalla óttaviðbrögð í líkamanum þegar engin hætta er yfir vofandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Frábærir pistlar hjá þér!

Ólafur Þórðarson, 10.4.2007 kl. 19:20

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband