Leiðbeiningar fyrir þá sem vilja hætta án lyfja

ReyksiminnVið sem vinnum að rannsóknum á reykleysismeðferð eigum oft í stökustu vandræðum með að greina á milli þeirra einkenna sem margir upplifa eftir að þeir hætta áratuga nikótín neyslu og hinsvegar aukaverkanna lyfja sem eiga að hjálpa fólki til að hætta.

Staðreyndin er nefnilega sú að mörg þeirra einkenna sem lýst er sem aukaverkunum af Champix eru dæmigerð einkenni sem sumt fólk lýsir þegar það hættir skyndilega mikilli nikótínneyslu án hjálpar lyfja.

Sjálfur hætti ég að reykja eftir ca. 15 ára daglegar reykingar án allra lyfja. Áður en lyfin komu á markaðinn, náðum við ekki síðri árangri á reykleysisnámskeiðum Krabbameinsfélagsins og eftir að lyfin komu til sögunnar. Hinsvegar þurftum við að leggja í það mun meiri vinnu. Eftir að lyfin komu gátum við dregið niður fjölda funda á námskeiðunum um ca. helming með sama góða árangri.

Þó lyfin séu gott hjálpartæki fyrir marga er sjálfsagt að gera fyrst alvarlega tilraun til að hætta að reykja ÁN lyfja.

Byrjaðu á því að breyta vanamunstrinu á þann hátt að reykja ekki á þeim stöðum þar sem þú munt vistast mest eftir að þú hættir alveg að reykja.

Veldu þér "erfið reyksvæði" á undirbúningstímanum þ.e. reyktu bara á svæðum sem þú þarft að hafa fyrir að komast á og eru utan þinna alfaraleiða.

Ekki reykja þegar þú talar í síma á undirbúningstímanum.

Ekki drekka kaffi og te meðan þú reykir á undirbúningstímanum.

Þegar þú hættir alveg skaltu drekka mikinn vökva fyrstu vikuna. Gott er að hreinsa út nikótínið með vökvakúr í 1-2 sólarhringa. Drekktu hreinan ávaxtasafa og grænmetissafa og mikið vatn.

Kaffi og te er líka OK. En vertu samt búin(-n) að rjúfa tengslin milli kaffis/tes og reykinga á undirbúningstímanum = ekki reykja þegar þú drekkur kaffi eða te á undirbúningstímanum.

Hreyfðu þig mikið eftir bestu getu.

Keyptu þér lakkrísrót til að hafa eitthvað bragðmikið að naga án þess að það gefi extra kaloríur.

Mentól nefstifti og munnúði virkar fyrir suma.

Burstaðu tennurnar nokkru sinnum á dag.

Stundaðu sund fyrstu vikurnar ef þú getur.

Haltu skrá yfir allt jákvætt sem gerist í lífinu eftir að þú hættir t.d. peningar sem sparast, frelsistilfinninguna, nýjar lyktarupplifanir o.s.f. Þetta er auðvita persónubundið fyrir hvern og einn.

Hringdu í Reyksímann 8006030 ef þú hefur frekari spurningar. Segðu þeim að þú hafir ákveðið að reyna að hætta án lyfja.

Starfsfólk Reyksímanns bíður uppá að hringja í þig á fyrirfram ákveðnum tímum til að styðja þig í fyrstu skrefin og svo getur þú að sjálfsögðu hringt eins oft og þú vilt.

Allt þér að kostnaðarlausu.

Takist þetta ekki án lyfja, hringdu þá aftur í Reyksímann og fáðu leiðbeiningar um lyfin.

Þetta mun takast!

 


mbl.is Nikótínlyfið Champix: Sofna við stýrið og keyra út af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birna M

Ég gerði þetta en þurfti ekki neinar leiðbeiningar til. Þetta tók mig langan tíma, en ég ákvað að reykja aldrei nálægt börnunum mínum, þá gat ég ekki reykt heima fyrr en á kvöldin. Og svo hætti ég að reykja þegar ég fór í heimsóknir og félagsstarfið mitt. Þá var bara vinnan eftir. Þá var kannski auðveldara að taka loks af skarið og útrýma þessu algerlega. ég fór líka að hugsa þegar ég ætlaði að fá mér rettuna: langar mig virkilega svona mikið í hana. Og rauning var að mig langaði þá ekkert svakalega í hana og fékk kannski minna útúr þessu en ég hafði haldið. Restin var bara vaninn, og það getur líka verið erfitt að brjóta vana, en þá var ég bara orðin svo ákveðin að ég lét mig hafa það. Og ég horfði á sígarettupakkann og sagði við hann að mig langaði ekkert í hann, mestmegnis til að storka vananum eða fíkninni, og til að finna að ég gæti sigrað þennan óvin. Þetta tók kannski nokkur skipti á kvöldi og mig langaði í rettuna en , eins og ég segi, þarna var ég bara búin að bíta það í mig að hætta.

Birna M, 24.5.2008 kl. 10:54

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Flott hjá þér Birna!

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.5.2008 kl. 14:01

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband