Alkóhólsími opnaður

alklinjenNýlaga opnaði sænska heilbrigðisþjónustan “Áfengissíma” (Alkohollinjen), meðferð fyrir fólk sem hefur áhyggjur af því að áfengisneyslan sé að fara úr böndunum. Einnig er boðið uppá stuðning við aðstandendur. Þjónustan er ókeypis fyrir viðskiptavininn. Undirritaður er ábyrgur fyrir þróun meðferðarinnar og vísindalegu mati á árangri þjónustuunnar.

 

Meðferðin er byggð á hugrænni atferlismeðferð og hvetjandi samtalstækni (motivational interviewing) og þeir sem svara í símann er fólk með mikla reynslu og menntun á þessu sviði.

 Engir stimplar eins og “alkóhólisti” eru notaðir í samskiptum við skjólstæðinga.  

Allir sem hringja eru skráðir í tölvuvædda meðferðarskrá (sumir vilja kalla það sjúkraskrá) sem er hönnuð með það í huga að skapa samfellu í meðferð þ.e. að ólíkir meðferðaraðilar þurfa ekki að endurtaka sömu spurningarnar, heldur sjá strax á skjánum hvað átti sér stað í síðasta samtali og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið.

 

telÞetta er sem sagt EKKI stuðningssími (eins og AA bíður uppá heima – sem er í sjálfu sér gott mál) heldur MEÐFERÐ í gegnum síma!

 

Gaman væri að opna afleggjara heima á Íslandi!


mbl.is Tólf ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær hliðar málsins

groceryAllar rannsóknir benda til þess að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu og að aukin neysla leiðir til aukningar á fjölda ofneytenda. Það verður því að sjá til þess að byggja upp fleiri meðferðarúrræði og/eða auka afkastagetu þeirra sem fyrir eru, ef víninu verður sleppt inn í matvöruverslanir. Ein leið er að eyrnamerkja með lögum fasta prósentu af söluhagnaði sem færi í að þróa meðferðarúrræði og forvarnir.

Önnur hlið málsins sem stundum gleymist er að fólk sem á í erfiðleikum með að hemja áfengisneyslu og er að reyna að minka neysluna (eða hætta alveg), þarf oft að sniðganga áfengi til að byrja með. Það mun ekki auðvelda þessum stóra hóp að taka fyrstu skrefin ef áfengi verður selt í matvöruverslunum.

vinAuðvita er það þó þannig að til að ná varanlegum bata verður sá sem hættir að geta umgengist áfengi og því má e.t.v. færa að því rök að það sé æskilegt að áfengi sé sýnilegt svo menn venjist því sem fyrst að umgangast það án þess að drekka.

En til þess að komast á leiðarenda verður maður að taka fyrstu skrefin í rétta átt og það eru þessi fyrstu skref sem verða erfiðari ef þú getur ekki farið út í búð til að kaupa mjólk án þess að rekast á áfengi.

skrefOfneytendur alkóhóls sem þurfa aðstoð til að breyta neysluvenjum sínum og þeir ofneytendur sem verða að hætta að nota áfengi til að lifa af, eru samanlagt líklega um 20% fullorðinna áfengisneytenda á aldursbilinu 30-70 ára (sænskar tölur). Þessi stóri hópur teygir anga sína inn í svo til allar fjölskyldur á Íslandi.

Mín niðurstaða er því að það sé ekki til góðs að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum.

 


mbl.is Þjóðin klofin í afstöðu til sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvetjandi samtal – að kunna eða fúska?

 Víða þar sem meðferðarnálgunin “hvetjandi samtal” hefur rutt sér til rúms er ekkert markvisst og faglegt gæðamat á því hvort meðferðaraðilar/stofnanir kunni aðferðina. Hér í Svíþjóð var/er ástandið verulega slæmt í þessum málum. Það varð til þess að Karolinska Institutet setti á laggirnar gæðamatsstofu sem hefur það hlutverk að meta hvort viðkomandi stofnun og/eða meðferðaraðili noti/kunni aðferðina. Ég mæli eindregið með því að slíku gæðamati verði komið á heima á Íslandi. Reynslan hefur sýnt að sé aðferðin notuð rétt eykur hún árangur meðferðar. En aðeins þeir sem kunna og nota aðferðina rétt ná slíkum árangri. Sé aðferðin notuð á rangan hátt getur hún haft þver öfug áhrif.

--------------------------------------------------

MI bokinBakgrunnur: Á undanförnum árum hefur ný nálgun verið að ryðja sér til rúms í vinnu með lífsstílsbreytingar. Aðferðin kallast á ensku “Motivational Interviewing” sem ef til vill má þýða sem “hvetjandi samtal”. Höfundar “hvetjandi samtalstækni” hafa unnið í áratugi með fíkla af ýmsum toga og hvetjandi samtalstækni er því vel grundvölluð í kínísku starfi. Víða er hvetjandi samtalstækni kennd undir hatti hugrænnar atferlismeðferðar (Cognitive Behavior Therapy) og telst til vísindalegrar sálfræði, þ.e. sálfræðimeðferðar sem hefur sannanleg áhrif í vísindalegu mati (rannsóknum).


mbl.is Reyndi að sparka í lögreglumenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtal um fíkn

afneitun 1Kenningin um að allir sem eru að missa stjórn á drykkju séu í “afneitun” stenst ekki nánari skoðun. Þvert á móti þá eru flestir sem drekka í óhófi meðvitaðir um að drykkjan sé að fara úr böndunum, en vilja ekki viðurkenna það útávið vegna þess að þeir eru hræddir við “alkóhólista” stimpilinn. Allir vita jú að alkar verða að hætta að drekka en ég vil ekki hætta, bara ná aftur tökum á drykkjunni. Viðkomandi er sem sagt meðvitaður um að það er vandamál til staðar en neitar á þessu stigi að láta stimpla sig sem ólæknandi sjúkling? Hann neitar því drykkjuvandamálinu út á við þó hann viðurkenni það fyrir sjálfum sér og fer þar með á mis við hjálp sem hann hefði e.t.v. geta fengið.   

--------------------------------------------------------------------------

no change 2- Að tala sig frá breytingu - Það er þessi meðvitund um vandan sem er svo vandmeðfarin. Hægt er að virkja hana til jákvæðra breytinga en oftar en ekki bera aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk sig rangt að. Ef þú vilt fá einhvern til að tala af einlægni um áfengisneyslu sína er hlutdrægni gildra sem ber að forðast. Hvernig virkar þessi gildra? Þú tekur eftir einhverju sem bendir til áfengisvandamáls (jafnvel alkóhólisma), hjá vini þínum og byrjar á að segja að hann (eða hún) eigi við vandamál að etja. Vinurinn dregur þetta í efa. Hér kemur dæmi: ÞÚ: Jæja, mér sýnist það vera alveg ljóst að þú átt við alvarlegt drykkjuvandamál að stríða. Þú sýnir mörg einkenni alkóhólisma.VINSI: Hvað meinar þú? ÞÚ: Ja, þú hefur fengið minnisleysi í kjölfar drykkju, þér líður illa þegar þú getur ekki fengið þér drykk í veislum. Þú ert að missa stjórn á drykkjunni.VINSI: En fullt af fólki sem ég þekki drekkur alveg eins og ég. Þetta er ekki svona alvarlegt.ÞÚ: Ekki alvarlegt! Það er einskær heppni að þú hefur ekki verið handtekinn eða drepið einhvern akandi drukkinn.VINSI: Ég sagði þér að ég á ekki í neinum vandræðum með að keyra. Það hefur aldrei neitt komið fyrir. ÞÚ: Og hvað með fjölskylduna þína? Henni finnst að þú drekkir of mikið og finnst að þú ættir að hætta.VINSI: Stína er nú úr algjörri bindindisfjölskyldu. Það er ekkert að hjá mér. Þau halda nú að allir sem drekka þrjá drykki séu alkahólistar.  --------  

Með því að taka afstöðu með „hér er vandamál sem þarf að breyta” hlið baráttunnar kallar þú á „þetta er ekkert vandamál” andstöðu frá vininum. Því meir sem þú rökstyður þína hlið málsins þeim mun meir ver vinurinn hina hliðina. Þetta er kunnuglegt handrit og að öllum líkindum hefur vinurinn þegar farið í gegnum það með öðrum. Fólk í þessari stöðu geta bókstaflega talað sig frá því að breytast. Það að hlusta á sjálfa sig mótmæla því kröftuglega að það eigi við vandamál að stríða og þurfi að breytast, styrkir það í þeirri trú að engra breytinga sé þörf. Fáum líkar að hafa rangt fyrir sér. Þú hefur sem sagt ýtt vini þínum lengra útí fenið þó ætlunin hafi verið að draga hann í land.    

-----------------------------------------------------------------

stimpill- Stimpilgildran -  Sumir trúa því að það sé mjög mikilvægt fyrir neytandann að viðurkenna og sætta sig við greiningu ráðgjafans („þú ert alkóhólisti,” „þú ert í afneitun,”  „þú ert fíkill,”  o.s.frv.).  Af því að svona stimplar hafa oft neikvæða merkingu í samfélagi kemur það ekki á óvart að fólk með sæmilegt sjálfsmat streitist á móti.  Jafnvel í alkóhólbransanum, þar sem mikil áhersla hefur sumstaðar verið lögð á svona merkimiða, er skortur á rannsóknum sem sanna að það geri nokkurt gagn fyrir fólk að sætta sig við stimpil eins og „alkóhólisti”. Það er oft undirliggjandi “valdabarátta” í svona stimpla deilum þar sem ráðgjafi leitast við að sýna vald sitt og sérfræðilegu þekkingu.   Hjá fjölskyldumeðlimum, getur stimpill leitt til fordómafullra samskipta. Fyrir suma, gæti jafnvel bara lítil tilvísun í  „vandamál þitt með .......” leitt til óþægilegra tilfinningar um það að vera kominn í gildru. Stimpill er hlutdrægni, sem kemur í veg fyrir jákvæða samræðu. Það er vel hægt að skoða vandamál í kjölinn án þess að  fólk fái á sig stimpla sem geta kallað fram óþarfa átök.  Ef stimpill kemur aldrei upp í samræðunum þá er óþarfi að tala um hann.   Ef sá sem á við áfengisvanda að etja, byrjar sjálfur að ræða um stimpla, skiptir máli hvernig þú bregst við. Ein leið er umorðun. Hér að neðan er dæmi um samtal þar sem vinurinn tekur sjálfur upp stimpilinn “alkóhólisti” en þú umorðar það sem hann segir:  VINSI:  Þú ert að gefa í skyn að ég sé alki?  ÞÚ: Nei, ég velti mér nú ekki mikið upp úr svona stimplum, en mér heyrist það vera áhyggjuefni fyrir þig.  VINSI: Mér líkar ekki að vera kallaður alki.  ÞÚ: Þér finnst ekki þín drykkja vera á því stigi.  VINSI: Einmitt!   ÞÚ: Þú hefur fulla stjórn á þinni drykkju.  VINSI: Nei, ég  veit vel að ég þarf kannski að taka á málinu...  ÞÚ: En þér líkar það ekki að vera stimplaður sem einhver sem „eigi við vandamál að stríða”, þér finnst það fordæmandi.  VINSI:  Já, mér finnst það.  ÞÚ: Það eru ekki margir sem vilja fá á sig stimpil.   VINSI: Mér líður eins og það sé verið að sitja mig í kassa.  ÞÚ: Einmitt, má ég segja þér hvernig ég lít á þetta mál?   VINSI: OK!  ÞÚ: Fyrir mér þá skiptir það ekki máli hvað við köllum þetta. Mér er sama hvort við köllum það „fíkn” eða „vandamál” eða „dúbbelí-dú”. Við þurfum ekki að kalla það neitt. Það sem raunverulega skiptir máli eru þau skaðlegu áhrif sem alkóhól notkun getur haft og hvað, ef eitthvað, þú vilt gera í því. Það er það sem mér finnst skipta máli.  ---------------

Auðvita má fólk stimpla sig ef það vill. Til dæmis segja “ég er AA-maður” og “ég er alkóhólisti” og reynslan hefur sýnt að slíkir stimplar hjálpa mörgum séu þeir notaðir í réttu samhengi á réttu augnabliki. Það sem er mikilvægt er að stimpillinn komi frá því sjálfu en honum sé ekki troðið uppá fólk.

  ---------------------------------------------------------------------

 ásökun- Forðist ásakanir - Jafnvel þótt þú forðist stimplun og hlutdrægni gagnvart tvístígandi vini, getur það leitt til mótstöðu ef þú og vinur þinn vilja leggja áheyrslu á ólík atriði.   Byrjaðu á að ræða áhyggjur þess sem í hlut á, frekar en það sem ÞÚ heldur að sé mikilvægt að ræða. Fyrr en síðar skarast þessi áhyggjuefni við áfengisneysluna. Til dæmis, ef vinur þinn hefur áhyggjur af börnum sínum, er óhjákvæmilegt að áhrif neyslu hans á börnin komi fyrr eða síðar inn í umræðuna á eðlilegan hátt. Í langflestum tilvikum er fólk meðvitað um hvaða áhrif neyslan hefur á umhverfi þess enda koma slíkar áhyggjur mjög fljótlega fram í opnum og fordómalausum viðræðum við ofneytendur alkóhóls og þá er hægt að nýta þær sem jákvætt afl til breytinga. Hinsvegar er afar eðlilegt að fólk fari í vörn ef það er “lamið í hausinn” með ásökunum eins og: “Þú gerir þér væntanlega grein fyrir því að þessi drykkja þín er á góðri leið með að eyðileggja börnin þín”. Í þeim tilvikum fer fólk í vörn og fer að telja sjálfu sér og andmælandanum trú um að þetta sé nú alger vitleysa. Í stað þess að vera afl til jákvæðra breytinga verður þetta hemill á breytingar og í versta falli afl sem ýtir viðkomandi í öfuga átt.  

-------------------------------------------------------------

  mótstada

 

- Mótstaða - Mótstöðuviðbrögð eru eðlileg þegar ráðgjöf á sér stað og ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þeim. Innan læknisfræðinnar er mótstaða hugtak sem tengist heilbrigðu ónæmiskerfi. Mótstaða og breytingatal eru einsog umferðarmerki sem segja þér að halda áfram, sýna varúð, hægja á þér eða stöðva það sem þú ert að gera. Hvert framhaldið er,  veltur að miklu leyti á þér. Það eru þín viðbrögð við mótstöðu þess sem þú talar við sem allt veltur á. Ef mótstaða minnkar eftir því sem líður á samtalið, er mjög líklegt að það tengist einhverju sem þú ert að gera. Af þessu má draga þá ályktun að mótstaða sé ekki vandamál þess sem þú talar við (t.d. alkahólneytandans) heldur spurning um samtalshæfileika þína. Sumir, oftast fólk með langa “þjálfun” í að glíma við gagnrýnendur, sýna þó mikla mótstöðu sama hvaða aðferðum er beitt. Þetta fólk er yfirleitt reitt og í varnarstöðu. En rannsóknir sýna að umfang mótstöðu ræðst að miklu leyti af stíl viðmælandans. Enn og aftur,  hvernig þú bregst við mótstöðu skiptir máli.  Góð meginregla er að bregðast við mótstöðu án mótstöðu. Einföld viðurkenning  á ágreiningi, eða skilningur getur auðveldað framhaldið frekar en varnarstaða og jafnframt varnað því að fallið sé í þá gildru að taka afstöðu. Hér kemur dæmi: VINSI:  Hvað ert þú að ráðleggja mér?  Þú hefur örugglega aldrei reykt eina jónu! ÞÚ: Nei, það er erfitt að ímynda sér hvernig ég geti mögulega skilið þetta. 

------------- Einnig er hægt að endurkasta því sem vinur þinn segir með því að gera meira úr því. Ef þetta tekst þá hvetur það vininn til að bakka og finna ástæður sem hvetja til breytinga. Þetta þarf að gera með skilningi, öll kaldhæðni eða yfirdrifnar ýkjur geta kallað á fjandsamleg viðbrögð eða aukna mótstöðu. Dæmi: VINSI: Konan mín ýkir sífellt, ég hef aldrei verið svona slæmur. ÞÚ: Þér finnst hún ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur ? VINSI: Það getur svo sem vel verið að ég þurfi að taka mig eitthvað á, en hún blæs þetta upp. ÞÚ: Þú hefur verið að velta fyrir þér að minka drykkjuna. VINSI: Já, ég kannski drekk of mikið en það er ekki eins og ég sé háður því. ÞÚ: Þú sérð að drykkjan veldur þér og fjölskyldu þinni vandræðum en það er jafnframt mikilvægt fyrir þig að fólk hugsi ekki um þig sem einhvern alka. 

-----------------------------------------------------------------

     open questions

- Að nálgast vandann - Einfaldasta og beinasta nálgunin til að opna umræður um fíkn er hreinlega að spyrja. Opnar spurningar er hægt að nota til að kanna skilning og áhyggjur þess sem við höfum áhyggjur af. Ekki samt spyrja hvort vinur þinn hafi slíkar áhyggjur t.d: ”Heldur þú að þú eigir við vandamál að stríða?” Gerðu í stað þess ráð fyrir að hann/hún séu tvístígandi og hafi slíkar áhyggjur. Hér að neðan eru nokkur dæmi um opnar spurningar sem eru vel til þess fallnar að framkalla jákvætt breytingatal:  Spurningar um ókosti óbreytts ástands: Er eitthvað sem veldur þér áhyggjum um stöðu þína í dag? Er eitthvað sem fær þig til að halda að þú þurfir að gera einhverjar breytingar á lífi þínu? Er eitthvað varðandi þinn lífsstíl, sem aðrir gætu haft áhyggjur af? Að hvaða leyti veldur þetta þér áhyggjum? Hvað heldur þú að muni gerast ef þú breytir engu? Spurningar um kosti breytinga: Hvernig mundir þú vilja að hlutirnir breyttust? Hverjir væru kostir þess að gera þessa breytingu? Hversu fullviss ert þú um að geta gert þessar breytingar? Hvað (ef eitthvað) væri gott við það að breyta venjum þínum? Ef þú gætir breytt þessu strax með göldrum, hvernig yrði lífið betra hjá þér? Spurningar um áform um breytingar: Hvaða skoðun hefur þú á þinni eigin alkahólneyslu á þessu stigi? Hvað heldur þú að þú munir gera? Hversu mikilvægt er það fyrir þig? Hversu mikið viltu gera þetta? Hvað mundir þú vera tilbúin að reyna? Hvað ætlast þú fyrir? Þegar vinur þinn hefur sjálfur komist að þeirri niðurstöðu að einhverju verði að breyta verður þú að varast þá tilhneigingu að halda áfram og finna fleiri rök fyrir því að hann þurfi að breytast. Staldraðu heldur við og veltu upp spurningum sem tengjast því sem hann sjálfur er að pæla í.  Spurðu um nánari útskýringu: Hvernig? Hve mikið? Hvenær?      VINSI: Ætli ég verði ekki að draga eitthvað úr drykkjunni a.m.k. í miðri viku. ÞÚ: Á hvaða hátt er það áhyggjuefni? VINSI: Ég er þunnur í vinnunni og er farinn að vakna upp um miðja nótt og á erfitt með að sofna aftur ef ég tek ekki svefnlyf. Svo fer þetta illa í Stínu. ÞÚ: Segðu mér hvernig venjuleg vika lýtur út hjá þér. VINSI: Ég sötra þetta 4-6 bjóra á kvöldin um það bil annan hvern dag og tek stundum 2-3 tvöfalda af sterku líka, þó alls ekki alltaf. Það er svo meira um helgar, en ég er mjög sjaldan fullur. ÞÚ: Svo þér finnst þetta dálítið mikið svona samanlagt. VINSI: Já, eiginlega þyrfti ég að takmarka drykkjuna við frídaga, en þetta hjálpar mér að slaka á þegar ég kem heim á kvöldin eftir stressaðan dag. ÞÚ: Þú hefur áhyggjur af því að þetta sé að verða aðeins of mikið. VINSI: Já, ég finn að ég verða að draga úr þessu. ÞÚ: Getur þú lýst því nánar fyrir mér hvernig þetta hefur áhrif á líf þitt í dag og hvað þú hefur áhyggjur af að geti gerst í framtíðinni.    

Að spyrja um verstu og bestu afleiðingarnar (öfgarnar): Þegar ekki virðist mikill áhugi/löngun fyrir lífstílsbreytingu er hægt að leiða viðtalið áfram með spurningum um “verstu hugsanlegu afleiðingarnar” með því að biðja viðkomandi að lýsa því hverjar verstu afleiðingarnar gætu orðið ef engar breytingar verða: “Hvað er það versta sem getur gerst ef þú breytir ekki venjum þínum til lengri tíma litið?”  “Hvað veist þú um afleiðingar langvarandi áfengisneyslu áfengisdrykkju ?” Hin hliðin er að biðja viðkomandi að ímynda sér mesta og besta ávinninginn af því að breyta um lífsstíl: “Hver getur þú ímyndað þér að yrði mesti ávinningur þinn með því að breyta um lífsstíl?”  “Ef þér tækist fullkomlega að breyta um lífsstíl, hvernig væri líf þitt þá?”  

 

---------------------------------------------------------------------------

 Lífsgildi- Lífsgildi -  Ein aðferð til að koma af stað jákvæðu tali um lífsstílsbreytingar hjá vini þínum er að ræða um lífsgildi. Hvað sé mikilvægast í lífi hans. Forgangsröðun vinar þíns getur verið gjörólík þinni eigin, en allir eiga sér einhver markmið, væntingar og lífsgildi. Greining á því hver þau eru gefa tækifæri til skírskotunar og samanburðar þeirra við “óbreytt ástand”.  Hvaða markmið og lífsgildi eru þessum einstaklingi kærust?   Til eru einfaldar og skemmtilegar aðferðir til að greina lífsgildi t.d. lífsgildakortin (sem líta út eins og spil). Á hverju “spili” er eitt lífsgildi t.d. “fjölskyldan” eða “trú á Guð” eða “ríkidæmi” o.s.f. Þú byrjar á því að flokka spilin í tvo bunka, þau sem eru mikilvæg fyrir þig og svo þau sem ekki eru mikilvæg fyrir þig. Síðan tekurðu bunkann með mikilvægu lífsgildunum og velur út þau 15 mikilvægustu. Að því búnu þarftu að velja út 5. Af þessum 5 velurðu burt 2 og heldur eftir þeim 3 sem eru allra mikilvægust. Flestum finnst þetta spennandi og skemmtilegur “samkvæmisleikur” en einnig er hægt er að nota þetta sem “tæki” í samtali um lífsstíl.  Tilgangurinn er að finna ósamræmi milli hegðunar/lífsstíls og mikilvægra lífsgilda og viðhorfa.  Þegar þýðingarmestu gildi viðkomandi hafa verið greind, er hægt að spyrja hvernig þessi forgangsröðun samræmist  lífsstíl viðkomandi (t.d. áfengisdrykkju).   Dæmi:VINSI: “Af 30 lífsgildum sem eru mér kær hef ég valið út 3 atriði sem þrátt fyrir allt eru mér kærust, en það eru: Fjölskyldan, hamingja barnanna minna og góð heilsa.”  ÞÚ: Hvernig hefur lífsstíll þinn áhrif á fjölskyldu þína eða hamingju barnanna þinna eða þína eigin heilsu?  

---------------  Megintilgangur þessa er s.s að greina og varpa ljósi á mótsögnina sem felst í núverandi lífsstíl/hegðun og þeim lífsgildum sem eru viðkomandi mikilvægust.    

 

------------------------------------------------------------------------------

 

MI bokin- Hvetjandi samtal -  Sú samtalstækni sem lýst hefur verið í þessari grein er að mestu byggð á nýrri aðferð í vinnu með lífsstílsbreytingar sem hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og kallast á ensku “Motivational Interviewing” sem ef til vill má þýða sem “hvetjandi samtal”.   Höfundar “hvetjandi samtalstækni” hafa unnið í áratugi með fíkla af ýmsum toga og hvetjandi samtalstækni er því vel grundvölluð í kínísku starfi. Í Svíþjóð og víða annarstaðar er hvetjandi samtalstækni kennd undir hatti hugrænnar atferlismeðferðar (Cognitive Behavior Therapy) og telst til vísindalegrar sálfræði, þ.e. sálfræðimeðferðar sem hefur sannanleg áhrif í vísindalegu mati (rannsóknum). Þeir sem vinna í anda hvetjandi samtalstækni ganga ekki útfrá því sem staðreynd að alkóhólneytandinn þurfi að “finna sinn botn” áður en bati geti hafist: Alkóhól -> afneitun -> botn -> bati.  Heldur er unnið útfrá þeirri hugmynd að samspil alkóhólneytandans við fólk í umhverfi hans “þvingi” viðkomandi inn í “mótþróa/mótstöðu” sem getur staðið í veginum fyrir því að ná valdi á neyslunni áður en allt er komið í óefni, einfaldlega vegna þess að mótstaðan gerir það að verkum að viðkomandi leitar sér ekki hjálpar í tíma. Kenningin: Alkóhól -> afneitun -> botn -> bati, er því samkvæmt hvetjandi samtalstækni meira lærð hegðun en meðfædd. Hvetjandi samtalstækni tekur enga afstöðu til þess hvort “alkóhólismi” sé sjúkdómur (meðfæddur eða áunninn) eða ekki. Hvetjandi samtalstækni er einfaldlega aðferð til að skapa grundvöll til jákvæðra samræðna um neikvæðan lífsstíl með það að markmiði að bjóða fólki hjálp til að ná tökum á lífinu áður en allt er komið í óefni - áður en botninum er náð.  Hvetjandi samtalstækni er því í grunninn afstaða, byggð á fordómalausu viðmóti og virðingu fyrir sjálfræði þess sem á við vandamál að glíma. En hvetjandi samtalstækni er líka aðferð (meðferðarform) til að aðstoða við lífsstílsbreytingar. Í “verkfærakassa” hvetjandi samtalstækni eru flest “verkfærin” sótt í smiðju hugrænnar atferlismeðferðar en hvetjandi samtalstækni hefur líka þróað sín eigin verkfæri. En það er of flókið mál til að gera grein fyrir því í blaðagrein.
mbl.is Áfengisneysla framhaldskólanema áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðisstarfsmenn í tóbaksvörnum

RIR Í rannsókn á tóbaksvarnastarfi heilsugæslulækna á Norðurlöndum fyrir fáum árum kom m.a. í ljós að þó heilbrigðisstarfsmenn séu allir að vilja gerðir og líti á það sem hluta af starfi sínu að aðstoða sjúklinga við að hætta að reykja, er tóbaksvarnastarf afar lítill þáttur af starfi flestra þeirra. Ein megin ástæða þess að heilsugæslulæknar (og læknar almennt) veigra sér við að bjóða sjúklingum uppá stuðning við að hætta að reykja er að slíkur stuðningur er mjög tímafrekur og að þeir efast um að árangurinn sé erfiðisins virði. Tilkoma faglegra Reyksíma á vegum heilbrigðisþjónustunnar (m.a. á Íslandi) hefur gerbreytt þessari mynd til hins betra.

  

reyklaus bekkur

Þorvarður Örnólfsson: Í kjölfar umfangsmikils fræðslustarfs Krabbameinsfélagsins í skólum landsins undir stjórn Þorvarðar Örnólfssonar drógust reykingar verulega saman á tiltölulega stuttum tíma. Árið 1990 reyktu um 20%16 ára unglingum daglega og hafði þá lækkað úr tæplega 50% á ca. 15 árum, sem verður að teljast frábær árangur.

fearÁ þeim tíma heimsóttu sérþjálfaðir forvarnafulltrúar Krabbameinsfélagsins og hópar læknanema yfir 70% allra nemenda á landinu á aldrinum 11-16 ára á hverju ári, með fjölbreytt fræðsluefni. Fræðslan var sambland af umræðum um félagslega þætti reykinga og heilsufarslegar afleiðingar, þar sem blandað var saman gamni og alvöru. Á stundum var fræðslan gagnrýnd fyrir að vera „hræðsluáróður“ en þegar dregið var úr þeim þætti kom gagnrýnin úr hinni áttinni, frá þeim sem þótti ekki nóg af „hryllingsmyndum“ af ljótum lungum.

CAALULSD 

Síðari tíma rannsóknir hafa sýnt að hæfileg blanda af hvoru tveggja er það sem gefur bestan árangur til lengdar.


mbl.is Farið yfir áætlanir um byggingu nýs sjúkrahúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klíniskar tóbaksvarnir

smokeÍ nýlegri samantekt tímaritsins The Economist kemur fram að tóbak drap u.þ.b. 80 miljónir á öldinni sem leið en 37 miljónir féllu í öllum stríðum aldarinnar samanlagt. Þetta er sláandi samanburður, ekki síst þegar tillit er tekið til þess að reykingar urðu ekki verulega útbreiddar fyrr en um miðja öldina. Ef ekkert verður að gert er áætlað að u.þ.b. 450 miljónir falli í tóbaksvalinn á næstu 50 árum. Þó forvarnir séu mikilvægur þáttur tóbaksvarna er ekki síður mikilvægt að aðstoða nikótínfíkla sem vilja hætta.
mbl.is Kveikti sér í sígarettu við flugtak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lesbókin hafnar grein um samtal um fíkn?

alkBloggvinur minn Benedikt Halldórsson manar í athugasemd á mínu bloggi til að “.....sálfræðingar ættu að reyna að eiga samtal við þjóðina ef svo má að orði komast, vera virkir í allri umræðu.....” Mikið er ég sammála Benedikt. Það var m.a. þess vegna sem ég skrifaði pistla hér á blogginu um “samtal um fíkn” og skrifaði síðan grein uppúr pistlunum sem ég sendi til Lesbókar Morgunblaðsins. Lesbókin var hinsvegar fljót að hafna greininni (tók ca. 10 mín. að fá neikvætt svar). Ég hef skrifað ótal greinar gegnum árin fyrir dagblöð og tímarit, m.a. nokkrar fyrir Lesbókina t.a.m. langar greinar um drauma og aðra um kynlíf. Miðað við fyrri greinar sem ég hef birt í Lesbókinni þá er þessi líklega betri og allavega samfélagslega mikilvægari. Greinin er líka aðgengilega upp sett og skrifuð á mannamáli, án óþarfra fræðilegra skrautyrða. Það kom því mjög flatt uppá mig að greininni skyldi hafnað? Ef það er ekki hlutverk fjölmiðla að stuðla að vitrænni umræðu um jafn mikilvægt mál og fíkn, þá veit ég ekki hvaða tilgangi þeir þjóna?
mbl.is Sterkt verkjalyf veldur dauðsföllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lifi frændgarður vor og fósturgen

snow monkey 2Tvær greinar mannapa lifa af harða náttúru með því að skríða ofaní heitt vatn.

 

Það eru Íslendingar og japanskir fjallaapar.

 

Lifi frændgarður vor og fósturgen!InLove

 


Jónas Helgason bóndi frá Gvendarstöðum í Kinn

 Jonas bondi                                 

 Ef funktionalisminn átti sér einhverntíma spámann á Íslandi féll hann í valinn með Jónasi Helgasyni bónda frá Gvendarstöðum í Kinn. Ég sé hann fyrir mér í stofunni á Gvendarstöðum á leiðinni á fund hjá áfengisvarnanefnd. Kominn í köflótta flannelskyrtu, stakan jakka og brúnar rifflaðar flauelsbuxur kirfilega festar um miðjuna með bláu baggabandi. Í augum Jónasar Helgasonar var engin munur á leðurbelti og snæri. Hvoru tveggja jafn gott til að halda buxunum uppi.

 

 

Asgeir Helgason & Jónas HelgasonSíðasta sumarið sem hann lifði sátum við saman fyrir utan gamla fjósið á Gvendarstöðum. Höfðum hlaðið okkur grill úr steinum og brenndum lamb. Jónasi þótti mikið við haft. Að vísu gaman að sitja og spjalla um dulspeki og Jónas vin hans (og náfrænda) frá Hriflu, en óttalega kjánalegt að pukra þetta yfir hlóðum úti á hlaði með þessa fínu eldavél í eldhúsinu. Ég reyndi að sannfæra hann um að þetta bragðaðist mun betur svona. Hvort hann myndi ekki eftir lambinu sem ég hafði grillað ofaní hann hér um árið? Gleymt er þá gleypt er. Svaraði Jónas og brosti út undir eyru. Á efri árum gerðist Jónas stórtækur í skógrækt og fetaði þar í fótspor Helga Jónassonar grasafræðings, föður hans, sem var brautriðjandi í skógræktarmálum á Íslandi.

 

 

Bild 047Skógræktin var Jónasi hjartfólgin og það var afskaplega gaman að ganga með honum um skóginn þar sem hvert tré átti sína sögu. Hann var afar stoltur yfir nokkrum stæðilegum björkum með ljósum berki og sagði mér sögu þeirra frá því þau voru fyrst gróðursett. Jónas kom aldrei til útlanda og fékk aldrei að upplifa reisulega laufskóga Skandinavíu þar sem allar bjarkir eru með ljósum berki.

 

 

 

Jónas Helgason og Ásgeir HelgasonJónas elskaði að lesa um dulspeki og var dyggur áskrifandi Ganglera, tímarits Guðspekifélagsins. Hann vildi samt aldrei kenna sig við neina stefnu eða trúarbrögð. En fyrir mér var Jónas náttúrubarn, heimspekingur, dulspekingur, Daoisti og Tom Bombadill. Sæll gamli vinur. Ég heimsæki þig í skógræktina á Gvendarstöðum næst þegar ég kem heim til Íslands.


Af hröfnum

Hugi 2007Huginn ok Muninn fliúga hverian dag -

iörmungrund yfir -

óomk ek of Huginn, at hann aptr ne komit,  -

þó siámk meirr um Muninn.

 

-------------------

 

Muni 2007The whole world wide, every day,

fly Hugin and Munin;

I worry lest Hugin should fall in flight,

yet more I fear for Munin.

 -----------------------------------------------

 

 

 

hrafnSprækir um víðan völl með dug

vel sér hrafnar una.

Ég kvíði að Huga fipist flug,

                               en fárast þó helst yfir Muna.

 

Frown

 

 


Lýðheilsulandið Shangri-La

Ásgeir á leið til Shangri-LaÍ dag keppast íslenskir háskólar við að bjóða uppá nám í “Lýðheilsufræði”. Þegar Íslendingar taka til hendinni eru það engin vettlingatök. Skútan allaf undir fullum seglum og stefnan tekin þangað sem vindurinn blæs og nú er góður byr til fyrirheitna lýðheilsulandsins. Landsins Shangri-Laeða Shambhala (Tjam-Bha-Lah) þar sem búddistar eru ungir um alla eilífð.

.....

 Lýðheilsa 

 

Þó ekki sé til nein altæk skilgreining á hugtakinu “lýðheilsa” eru flestir sammála um að hugtakið vísi til þeirra vísinda, fræða, stjórnsýsluaðgerða og samskipta sem stefnir að því að fyrirbyggja sjúkdóma, lengja líf og auka lífsgæði. Áhættuþættir vanheilsu og vanlíðunar eru rannsakaðir og skilgreindir. Leitað er leiða til að fá fólk til að sniðganga það sem stuðlar að vanheilsu og vanlíðan meðan settar eru reglur, byggð upp kerfi og áróður er rekinn til að upphefja þá þætti sem stuðla að heilsuhreysti, langlífi og vellíðan. Lýðheilsufræði sem ekki taka tillit til allra þessara þátta eru hálf fræði.

.....

Lífslengd eða lífsgæði 

 

Asg og hesturÞó flestir geti verið sammála um að þetta séu háleit og æskileg markmið rekast markmiðin stundum hvort á annað. Það er til að mynda ekki sjálfgefið að það sem lengir lífið auki lífsgæðin. Þannig eru aukaverkanir meðferða sumra sjúkdóma svo alvarlegar að fólk velur frekar að lifa með sjúkdóminn og deyja eitthvað fyrr en að lifa slæmu lífi. Dæmi um hið gagnstæða eru efni sem veita magnaða vellíðan í stuttan tíma en tæra lífslengd, heilsu og síðan lífsgæði neytandans í lengdina. Auðvitað leita flestir eftir einhverri millileið þar sem lífslengd og lífsgæði eru í jafnvægi, en reynslan sýnir að oft er slík millileið ekki til í raunveruleikanum. Þú neyðist til að velja. Lýðheilsufræði sem ekki taka jafnt tillit til lífsgæða og lífslengdar eru hrokafull fræði.

.....

Forsjárhyggja 

 

pekpinnarAnnað vandamál í lýðheilsulandinu góða er sá árekstur sem oft verður milli óska og þarfa einstaklingsins á ákveðnum tíma og sjálfskipaðs foreldrahlutverks ríkisvaldsins. Nýlegt dæmi um þetta er ákvörðun stjórnvalda um að öll verkjalyf með kódíni (sem getur verið ávanabindandi) skuli vera lyfseðilsskyld til að draga úr neyslu slíkra lyfja með það að markmiði að draga úr fíkn. Spurningin er hvort fíkn sé hættuleg í sjálfri sér eða hvort það séu þeir sjúkdómar sem langvarandi fíkn (neysla) veldur sem séu vandamálið? Margir þurfa á þessum lyfjum að halda til að líða vel (eða minna illa). Skiptir þá máli þó einhverjir verði háðir þessum lyfjum ef jákvæðu áhrifin vega upp hugsanleg neikvæð áhrif langvarandi kódínneyslu? Ekki veit ég. Sannleikurinn er sá að enginn veit hvaða áhrif þessi ákvörðun hefur haft á lífsgæði þessa fólks. Né hvaða önnur úrræði (ef nokkur) fólkið fór að nota þegar aðgangur var takmarkaður að lyfjunum. Margar nýjar spurningar vakna: Er mögulegt að einhverjir hafi leitað inná markað ólöglegra fíkniefna? Juku einhverjir sykurneyslu, áfengisdrykkju eða tóbaksneyslu til að bæta upp kódínmissinn?

Ef það eru sjúkdómarnir en ekki fíknin sem slík sem eru vandamálið, er þá kódínfíkn hættulegri en tóbaksfíkn, sykurfíkn eða áfengisfíkn? Ef fólk sem er háð kódíni leitar fróunar í tóbaki, sætindum eða áfengi, þegar kódínlindin þornar, er þá farið úr öskunni í eldinn? Ég tek enga afstöðu í þessu dæmi en bendi á að allt eru þetta spurningar sem lýðheilsufræðin verða að fást við ef þau eiga að standa undir nafni. Lýðheilsufræði eru því líka fræðin um “býti” (trade-off) þ.e. að vega og meta eitt á móti öðru. Lýðheilsufræði sem ekki spyrja slíkra spurninga eru slæm fræði.

....

 Lýðræði í lýðheilsulandinu 

 

forsjáhyggjaOft er forsjárhyggja í nafni lýðheilsu vel grunduð í lýðræðislegum gildum t.d. bann við sölu áfengis til unglinga þar sem samfélag fullorðinna tekur ákvörðun fyrir hönd unglings og ákveður hvað sé honum fyrir bestu.  Samfélag án einhverrar forsjárhyggju er tæplega mögulegt. Stjórnvaldsákvarðanir í anda forsjárhyggju eru hvorki neikvæðar né jákvæðar í sjálfu sér. Hinsvegar má færa að því sterk rök að forsjárhyggja sem bara er grunduð í vísindum, en ekki í siðfræði og lýðræði, beri í sér fræ illgresis. Það er því af og frá að veita vísindamönnum og lýðheilsufræðingum einræðisvald í að kveða á um boð og bönn í nafni lýðheilsu. Slíkar ákvarðanir eru ekki síður siðfræðilegar og pólitískar. Vísindablind lýðheilsufræði úr tengslum við siðfræði og lýðræði eru hættuleg fræði.

.....

 Klínísk lýðheilsufræði 

 

fallbyssaKlínísk lýðheilsufræði er það starf sem unnið er á akrinum við að aðstoða fólk til lífsstílsbreytinga, t.d. að hætta að reykja, draga úr ofneyslu áfengis, hreyfa sig reglulega, minnka streitu og borða hollan mat. “Hvetjandi samtal” (motivational interviewing) er samtalstækni sem er í örum vexti víða um heim á sviði klínískrar lýðheilsufræði. Hvetjandi samtal er andstaða forsjárhyggju. Stuðningsaðilinn (t.d. læknir, sálfræðingur eða hjúkrunarfræðingur) er ekki sá sem veit hvað þér er fyrir bestu. Það ert þú sem tekur ákvörðun um hvort og hvenær þú vilt breyta um stefnu í lífinu. Stuðningsaðilinn veitir þér þann stuðning sem þú vilt hafa þegar þú ert tilbúin (-n) til að taka við stuðningnum. Líf þitt og heilsa eru í þínum höndum og stuðningsaðilinn virðir þær ákvarðanir sem þú tekur á fordómalausan hátt en er til staðar þegar á reynir.

Fjöldi rannsókna sýna að hefðbundnar aðferðir lýðheilsufræðanna í formi upplýsingaherferða, hópkennslu og áróðurs af ýmsum toga nái aðeins til viss hóps samfélagsins. Því sé nauðsynlegt að þróa aðferðir sem beinast að einstaklingnum í klínísku samtali. Þrátt fyrir það gleymist þessi mikilvægi klíníski þáttur lýðheilsufræðanna oft í lýðheilsunámi. Markvisst nám í samtalstækni þar sem tvinnað er saman t.d. hvetjandi samtalstækni og aðferðum úr smiðju hugrænnar atferlismeðferðar og íþróttasálfræði er einn af máttarstólpunum í hagnýtu lýðheilsunámi. Lýðheilsufræði án úrræða eru slöpp fræði.

....

 Lygin er dóttir sannleikans 

 

lyginMaður kemur til læknis og segir: “Ég þarf á svefnlyfjum að halda vegna þess að ég sef svo illa þegar ég hef drukkið áfengi. Ég drekk 3-4 sinnum í viku og ef ég fæ ekki svefn er ég algerlega ónýtur daginn eftir. Þetta gengur ekki lengur. Ég verð að sofa”. Hann segir lækninum sannleikann. Fyrsta viðbragð margra lækna í slíkum aðstæðum er að messa yfir manninum um skaðleg áhrif áfengis á svefn. “Ég skrifa ekki út svefnlyf núna til að þú getir haldið áfram að drekka. Hættu að drekka og þú munt sofa”. Maðurinn fer út sneyptur og er fljótur að skipta um lækni. Næsti læknir fær allt aðra sögu. Hann nefnir ekki áfengi á nafn eftir þetta. Hann hefur lært að sannleikurinn er slæmur félagi. Einu áhrifin sem læknirinn hafði á sjúklinginn voru að gera hann að lúmskum lygara. Hvað hefði gerst ef hann hefði sagt: “Ég skil að þú þurfir að sofa. Ég skrifa út handa þér 2 vikna skammt af svefnlyfjum og bóka handa þér tíma hjá mér eftir tvær vikur. Segðu mér aðeins frá áfengisneyslu þinni”. Ef læknirinn hefði valið þessa leið hefði þarna mögulega skapast umræðugrundvöllur um áfengisneyslu og áhrif hennar á svefn og taugakerfi sem hefði með tímanum geta þróast útí umræður um breyttan lífsstíl. ­

Það er mikil þörf fyrir hagnýtt lýðheilsunám á Íslandi eins og annarsstaðar en ekki nóg að draga seglin að húni og sigla þangað sem vindurinn blæs. Stýrið þarf að vera í lagi og stefnan á hreinu í leitin að Shangri-La.


Kveðið á þríhjóli

 thorGobbeddí, gobbeddí riddari þar

með hvítt fax

og kannski með gullhófa líka.

Þarna kemur stríðsmaður

Þór

með Mjölni sér í hönd

og mylur sundur

gull rönd.

 

-----------------------

Hugi Hrafn Ásgeirsson 3 ára (1992)

 

Við vorum þá nýlega flutt til Stokkhólms og aumingja barnið var útsett fyrir hinar verstu hremmingar í viðleitni föðurins til að kenna syninum "almennilega" íslensku. Sideways

 


Íslensk Saga

Asgeir i LofotenKæru bloggvinir og annað áhugafólk um Íslenska Sögu:Smile

 

Sagan er nú komin út á læsilegu formi á netinumeð PDF tengingu við hvern kafla til útprentunnar.

Það er hægt að velja að prenta út söguna í heild eða hvern kafla fyrir sig.

 

Allir sem hafa sent mér e-póst með hvatningu um framhald = það kemur en ég get ekki lofað hvenær. 

 

Ekki víst að ég hafi mikinn tíma til að sinna bloggi á næstunni EN ef þið viljið ná á mig er bara að senda e-póst = asgeir.helgason@sll.se

 

Með kveðju frá löndum Ynglinga!

 

Ásgeir R. Helgason

 

 

 

 


Lifi fjalldrapinn!

FjalldrapiPálmi Gunnarsson bloggvinur minn birti á sinni síðu bréfkorn frá “Jóakim frænda” þar sem Jóakim fer ófögrum orðum um náttúrverndarstefnu Pálma. Auðvita er Jóakim uppdiktaður holdgerfingur þeirra afla sem sjá enga leið aðra í efnahagsþróun Íslands en að breyta landinu í verstöð fyrir alþjóðlega auðhringi í orkufrekri framleiðslu:

  

-------------------------------------------

  Í náttúru Íslands Skrattinn skálmar.

Skjálfandi lýðurinn buktar og mjálmar.

Þar eru auðvaldsins sungnir sálmar.

Svigna þar járnblendnir-álklæddir pálmar. 

---------------------------------------

  

Það er athyglisvert að margir þeirra sem gagnrýna skrif Pálma og annars náttúruverndarfólks gera það oft útfrá ásökunum um að náttúruverndarfólk vilji svipta landsbyggðina atvinnumöguleikum. Ég fæ nú ekki betur séð en að því sé þveröfugt farið a.m.k. hefur það náttúruverndarfólk sem ég þekki afar vel mótaðar hugmyndir um uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Sjálfur hef ég aldrei alveg vitað í hvorn fótinn ég á að stíga í þessum virkjunarmálum en ég óttast það af heilu hjarta að leggja framtíð íslensks atvinnulífs í hendur erlendra auðhringja. Á svipaðan hátt og mér fannst það óráð að atvinnulíf á Suðurnesjum væri háð veru erlends hers sem fyrr eða síðar myndi pakka saman (eins og raun hefur orðið). Að ekki sé talað um skemmdir á landinu, en þeim lýsir Ómar mun betur en ég get nokkurn tíma gert:

  

---------------------------------------------

 

Íslandshreyfing Ómars dó,

 

Ásgeir grét en Skrattinn hló.

 

Eins og lóan suður um sjó.

 

Sveif hún burt í nýjan mó.

   

 

Lifi fjalldrapinn!


mbl.is Reykur frá járnblendiverksmiðjunni Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aurlandsættin á miðöldum - á Íslandi og hér heima

Ég vil benda ykkur á fallega færslu sem bloggvinur minn Jón Steinar gerði um Noregsferð, nánar tiltekið í Sognfjörð.

Ég gekk fyrir nokkrum árum 3 daga göngu yfir fjöll og dali í Noregi með gönguhópnum Derri. Gangan endaði í botni Sognfjarðar, á stað sem heitir Aurland. Það var einhver sú magnaðasta náttúruupplifun sem ég man eftir. Ekki skemmdi það fyrir að Aurlendingar lýta á Íslendinga sem glataða soninn svo það var farið með okkur eins og höfðingja þarna. Fólk kepptist um að segja okkur hvar þessi og hinn íslenski landnámsmaðurinn hefði átt heima og það var með ólíkindum hvað sagan var nærverandi í vitund Aurlendinga. Gamall maður, Anders Ohnstad, leysti mig út með bókargjöf = bók eftir hann sjálfan sem heitir á AurlandsNorsku = "Aurlandsætti i mellomalderen - på Island og her heime" (= Aurlandsættin á miðöldum - á Íslandi og hér heima)


KLUKKAÐUR

klukkaJááá, nú eru nokkur búin að “klukka” mig og þá skilst mér að maður eigi að reikna upp nokkur atriði um sjálfan sig sem ekki koma fram í blogginu eða í höfundalýsingu s.b.r lesblindur dósent í sálfræði með rætur í.... etc..Hér koma þá átta atriði:

1) Ég var í MH, tók síðan BA í sálfræði við HÍ og Hagnýta fjölmiðlun við sama skóla áður en ég fór í framhaldsnám til Svíþjóðar.

2) Ég vann hjá Krabbameinsfélaginu í 7 ár þar sem ég m.a. þróaði og stýrði námskeiðum í Reykbindindi og skipulagði ráðstefnur um aðhlynningu deyjandi krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra.

3) Ég var mikill áhugamaður um leiklist á árum áður og lék asna í Kardimommubænum í Þjóðleikhúsinu þegar ég var 16 ára (ég lék framhlutann og Árni Guðmundsson vinur minn lék hinn hlutann). Lék líka m.a. Betlarakónginn tengdapabba Makka Hnífs (sem nafni minn Bragason lék) í Túskildingsóperunni í MH, leikstjóri var Stefán Baldursson, síðar Þjóðleikhússtjóra. Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona lék eiginkonu mína í þeirri sýningu.Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður og bloggvinkona mín, lék hóru.

4) Ég var varaformaður Stúdentaráðs í HÍ og hafði frumkvæði að stofnun (endurvakningu) Stúdentaleikhússins 1982 sem setti upp leikritið Bent sem sína fyrstu sýningu.

5) Ég var rosalega feiminn sem krakki og unglingur. Fékk bullandi hjartslátt ef ég þurfti að tala fyrir framan fólk. Læknaði sjálfan mig af þessu í MH með því að þvinga mig til að tala sem mest á opinberum vettvangi, taka þátt í leiklist, vera virkur í félagslífinu og vera almennt óþolandi áberandi. Vona að skólafélagarnir fyrirgefi þetta, en ég hafði bara ekkert val.

6)Ég starfaði sem gæslumaður á Kleppsspítalanum um 10 ára skeið með skóla. Var ein aðal sprautan í ólöglegu verkfalli starfsfólks á Kleppi og Kópavogshæli (1981 að mig minnir). Verkfallið varaði í ca. viku og var verkfallsvaktin heima hjá mér á Njálsgötu 60 í íbúð sem við Friðrik Indriðason (Frikki) blaðamaður (bróðir Arnaldar) leigðum saman.

7) Stofnaði á menntaskólaárunum ungmennafélagið Þjóðbjörg ásamt Ólafi Ólafssyni formanni Yfirskattanefndar. Þjóðbjörg gaf út tímaritið Þremill og hirðljósmyndari Þremils var Páll Stefánsson eðalljósmyndari.

8)Ég var í Klúbb 71 hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur á unglingsárunum ásamt m.a. æskuvini mínum Árna Guðmundssyni bloggara og æskulýðsfrömuði. Þar frömdum við miklar leiklistakúnstir undir stjórn Ketils Larsen og lékum m.a. jólasveina í nokkur ár á Austurvelli þegar kveikt var á jólatrénu.

Wizard

Þegar alheimurinn opnaðist fyrir mér!

Bloggvinur minn Jón Steinar benti mér á að lesa bókina “The Power of Now” eftir Ekhart Tolle. Í formálanum segir Tolle frá þeirri trúarlegu reynslu sem gerbreytti lífi hans og beindi honum inná nýa braut. Ég hef sjálfur upplifað það sem Ekhart skrifar um og vil gjarna deila því með ykkur um leið og ég mæli eindregið með bókinni:  

 

Reynsla mín :

 

Alhunivereeimurinn _

Alheimurinn opnaðist fyrir mér og afstaða mín til lífsins gerbreyttist, á einu andartaki. Ég var í tilvistarkreppu og fannst sá efnisheimur sem ég lifði í og trúði á, afskaplega merkingarsnauður. Ég lá í rúminu þetta kvöld og las trúarlega og heimspekilega texta í leit minni að samhengi í lífinu.  Það var þá sem ÞAРgerðist!

 

Það heltist skyndilega yfir mig og gagntók mig. Mér fannst ég vera í miðjum alheiminum og ég fann fyrir mikilli samkennd. Ég skildi á einhvern undarlegan hátt hver ég var í hinu stóra samhengi hlutanna. Þessu innsæi fylgdi djúp ró, sterk vellíðunar- og öryggistilfinning. Ég sat um stund með lokuð augun og naut tilfinningarinnar. Í hugskoti mínu “sá” ég hvítt lýsandi krossmark.  Ég veit ekki hve lengi þetta varaði og ég man ekkert hvað ég hugsaði.

 

Þetta gerðist árið 1983 og ég var 26 ára. Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt hvorki fyrr né síðar. En eitt er víst að þessi upplifun umturnaði lífi mínu og það sem meira er tilfinningin hvarf ekki, heldur fylgdi mér í áratugi.  

 

Til að byrja með voru vissar neikvæðar aukaverkanir. Til dæmis hafði sýn mín á líf og dauða gerbreyst og um tíma hafði ég tilhneigingu til að gera lítið úr ótta annarra, varð sjálfhverfur í eigin fullvissu og vellíðan. Þessi sjálfhvera (egocetric) varaði þó ekki lengi, því samkenndin sem hafði gagntekið mig í augnabliki upplifunarinnar tók völdin. Samkenndin með vanlíðan fólks sem hræðist dauðann og lífið.  

 

Vegna þeirrar innri vissu og ró sem ég nú upplifði dags daglega, hætti ég að streitast við að setja mér markmið og synda á móti straumnum. Ég steig útí vatnið og lét berast með straumnum þangað sem straumurinn vildi bera mig. Ég tók því sem að höndum bar og gerði það besta úr þeim aðstæðum sem ég var í hverju sinni. Straumurinn bar mig til Svíþjóðar þar sem ég ætlaði að vera í 1-2 ár og starfa við skúringar meðan fyrrverandi kona mín og barnsmóðir var að klára sitt framhaldsnám. Til gamans sendi ég þó upplýsingar um mig til prófessors á Karolinska sem ég sá í sjónvarpinu, með spurningum um hvort hann hefði eitthvað fyrir mig að gera. Hann sendi pappírana áfram til annars prófessors sem var að vinna við krabbameinsrannsóknir. Sá fékk áhuga á mér og bauð mér vinnu við rannsóknir á lífsgæðum sjúklinga með krabbamein í blöðruhálskirtli (prostata). Ég lét slag standa. Straumurinn bar mig síðan áfram í doktorsnám og að loknu doktorsprófi áfram í lektor, dósent og fasta vinnu. Í rauninni hef ég afskaplega lítið þurft að hafa fyrir þessu en ég veit að ég hefði aldrei komist þangað sem ég er hefði það ekki verið fyrir upplifun sem ég fékk fyrir næstum því aldrafjórðungi, þó mér finnist eins og það hafi gerst í gær.


Kona – hvunndagshetja af mölinni!

sveitakonaHvunndagshetjur íslenskra bókmennta eru oft landsbyggðafólk sem brugðið hefur búi og flutt búferlum á mölina. Í þessum sögum mætir landsbyggðin hrokafullu borgarlífi en vinnur sigur að lokum. Minna hefur hinsvegar verið skrifað um hvunndagshetjurnar úr borginni, oftast konur, sem giftust bændum og fluttu í sveitina. Konur sem reyndu að aðlagast menningarheimi sem var þeim minnst líka framandlegur og borgin var sveitafólki. Konur sem neituðu að segja skilið við sitt borgaralega uppeldi og umhverfi þó örlögin flyttu þær úr borginni. Konur sem ruddu brautina fyrir nýja lífshætti og lífssýn til sveita á Íslandi. Auðvita urðu þær að aðlaga sig að sveitinni ekki síður en sveitafólkið þurfti að aðlaga sig að borginni og þær færðu margar fórnir. En þær sterkustu og einbeittustu neituðu að gerast sveitamenn og héldu áfram að vera borgarbörn í sveit. Þessar hvunndagshetjur af mölinni breyttu ásýnd sveita á Íslandi.
mbl.is Of lítill stuðningur og ónógar upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartir sviðahausar

svidÉg var á þingi um aðhlynningu dauðvona sjúklinga fyrir allmörgum árum og á því þingi útskýrðu fulltrúar hvíta minnihlutans í þáverandi Suður-Afríku aðgreiningu hvítra og svartra á sjúkrastöðvum fyrir dauðvona með tilvísun í siði. Og viti menn, sem dæmi tóku þau upp þann ósið svartra að éta soðna brennda kindahausa. Þetta væri auðvita ekki bjóðandi hvítum mönnum.

Íslendingarnir sigu hægt niður í stólana og þögðu!


mbl.is Ingibjörg Sólrún átti fundi með ráðherrum á þriðja tug Afríkuríkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimska Platós - hugleiðing um sannleiksgildi listarinnar

hellir Platóns1. HLUTI: Í þessum pistli velti ég upp þeirri spurningu hvort listin geti gefið okkur einhverja innsýn í mannlega veru sem heimspekin megnar ekki og hvort heimspekin megni að gefa okkur innsýn í þá þætti veruleikans sem raunvísindin megna ekki. Síðan mun ég tengja þessar vangaveltur við þá umdeildu fullyrðingu Platós að listamenn afvegaleiði ungmenni og afskræmi sannleikann.

2. HLUTI: Eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um sannleikann er að hann er hvort tveggja í senn einn og óumbreytanlegur (í innsta eðli sínu) en um leið margþættur og afstæður. Þannig er t.a.m. tunglið alltaf tiltekinn hnöttur með sína sérstöku eiginleika (massa, efnissamsetningu o.s.f.) sem eru til jafnvel þó mannleg skynjun megni aldrei að uppgötva hið sanna eðli þeirra sökum takmarkanna skynfæranna. Hinsvegar er tunglið einnig fallegur eða ógnvekjandi hlutur á himninum allt eftir aðstæðum og merkingarbærum veruleika hvers og eins.

Sannleiksleit mannsins er því a.m.k. tvíþætt þó sannleikurinn sé í sjálfum sér einn. Til eru algild sannindi og persónuleg sannindi. Vísindin, heimspekin og listin eru þau “tæki” sem maðurinn hefur yfir að ráða til að höndla sannleikann.

Dulhyggjufólk myndi vafalítið vilja bæta við dulrænni iðkun og hugleiðslu og trúmaðurinn telur sig fá sérstaka sýn inní kjarna sannleikans við trúariðkun og trúarlegar upplifanir. Í þessum pistli mun ég þó láta dulhyggju og trú liggja milli hluta. Kem kannski að þeim seinna.

3. HLUTI: Sú trú er útbreidd að allir hlutir í veröldinni séu af sama meiði og því hljóti sama aðferðafræði að gilda fyrir alla þekkingaröflun um allar hliðar mannlegrar tilveru. Útbreiddasta skoðunin af þessum toga á vesturlöndum er "Vissuhyggjan"(Positivisminn) sem er grundvölluð í efnishyggju. Vissuhyggjan afneitar öllum skýringum á eðli hlutanna sem falla ekki að líkani raunvísindanna. Safnaðarmeðlimir vissuhyggjunnar trúa því að nota beri sömu aðferðir til að afla þekkingar á eðli hugarheimsins og notaðar eru í eðlis- og efnafræði. Öllum kennisetningum sem ekki er hægt að hrekja er hafnað sem ótækum, en slík krafa á framsetningu skýringa tryggir áreiðanleika og réttmæti þekkingarinnar. Þetta sjónarmið hefur verið nefnt "aðferðafræðileg einhyggja".

Hinsvegar draga margir í efa að hægt sé að gera grein fyrir hugarheimi fólks nema að takmörkuðu leiti með þessum aðferðum.

Til eru þeir sem halda því fram að aðferðafræðileg einhyggja sé hemill á þekkingaröflun á eðli hugarheimsins. 

 

4. HLUTI: Þeir sem aðhyllast aðferðafræðilega einhyggju telja að orsakaskýringar í anda "frumstæðrar" eðlisfræði séu einu raunverulegu skýringarnar og útiloka þar með aðrar skýringar.

Þeir sem hafnaaðferðafræðilegri einhyggju ættu hinsvegar að geta sæst á það að skýringar sem vísa til tveggja heima eða tveggja hliða á sama heimi séu ekki nauðsynlega andstæður. Því gætu fleiri en einn skýringarmáti staðið hlið við hlið sem tvær mögulega jafna réttháar skýringar á sama fyrirbæri. Hinsvegar er ljóst að hvorugur skýringarmátinn skýrir fyrirbærið að fullu.

 Þeir sem afneita aðferðafræðilegri einhyggju eiga það sameiginlegt að hafna því að tilraunavísindi ein sér séu þess megnug að skýra mannlegan veruleika til hlítar.

Hér kemur heimspekin til sögunnar. Heimspekin megnar m.a. að varpa ljósi á ýmsa fleti mannlegrar veru með rökgreiningu þar sem tilraunavísindum verður ekki við komið. Vangaveltur um tilgang, rétt og rangt og ýmsa aðra fleti mannlegs veruleika verða aðgengileg. Fyrirbæri sem raunvísindin geta ekki höndlað með sinni aðferðafræði.

 En hvað með listinaog þá fullyrðingu Platós að listamenn afvegaleiði ungmenni og afskræmi veruleikann? Getur verið að sjálfur Plató hafi fallið í sömu gildru og fylgjendur vissuhyggjunnar sem úthrópuðu heimspekina sem kukl og tímasóun rúmlega tvö þúsund árum síðar?

 

5. HLUTI: Getur verið að á svipaðan hátt og vísindahroki 20. aldarinnar taldi sig þess umkominn að skýra alla þætti mannlegs veruleika og hafnaði einfaldlega þeim þáttum tilverunnar sem ekki voru höndlanlegir með aðferðum hennar, þá hafi heimspekihroki fornaldar hafnað því sem ekki féll að hefðbundnum aðferðum heimspekinnar?

En hvaða fletir mannlegrar veru eru þá þess eðlis að hvorki raunvísindin né heimspekin geta skýrt þá á viðunandi hátt? Augljósasta dæmið eru líklega tilfinningar.

Flestir væru að líkindum engu nær um eðli og inntak ástar og haturs, sorgar eða gleði, tilvistakreppu eða örvæntingu, þó hægt væri að lýsa í smáatriðum öllum þeim efnaferlum sem eiga sér stað í líkamanum þegar við upplifum þessar tilfinningar. Aðeins eigin upplifun gerir okkur kleift að skilja eðli tilfinninganna. Tónlist, ljóðlist, myndlist og frásagnarlist eru þau "tæki" sem best eru til þess fallin að dýpka þann skilning og komast næst því að skýra þessar upplifanir á merkingarbæran hátt fyrir þeim sem aldrei hafa upplifað þær.

Það er þó ekki þar með sagt að heimspekin og raunvísindin hafi ekkert fram að færa þegar skýra á eðli tilfinninga. Heimspekin hentar ágætlega til að velta upp spurningum og samskipti fólks þar sem tilfinningarnar spila veigamikinn þátt. Það er að sjálfsögðu líka nauðsynlegt að skilja hvaða efnaferli eru í gangi og hvernig hafa má áhrif á þau. Þannig þurfum við á öllum þessum þrem verkfærum að halda; heimspekinni, raunvísindunum og listum til að skilja til hlítar eðli tilfinninga.

Fordómafull afstaða Platós til sannleiksgildis listarinnar í fornöld og áþekk afstaða vissuhyggjufólks til sannleiksgildis heimspekilegrar rökhugsunar á okkar tímum, byggir því e.t.v. fyrst og fremst á skorti á heildarsýn. Í Íslensku hefur orðið heimskameð tímanum hlotið merkinguna vitgrannur eða vitlaus en merkir líklega í upphafi; að sjá heiminn útfrá sínum bæjardyrum og neita að trúa því að fjallið lýti öðruvísi út séð frá bæjardyrum bóndans í næsta dal.

En það væri nú að kalla yfir sig ofsóknir í anda hreintrúarofstækis að halda því fram að Plató hafi verið heimskur. En það er ekki algerlega útilokað að hann hafi e.t.v. verið svolítil þröngsýnn?

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband