6.10.2008 | 07:53
Kaupthing er EKKI Kaupþing nema stundum
Fyrir nokkrum árum ætlaði ég að auðvelda mér lífið með að flytja öll mín bankaviðskipti til Kaupþings til að (að ég hélt) geta átt einn reikning sem ég gæti lagt inná í Svíþjóð og tekið útaf á Íslandi og visa versa. Svona eins og maður gerir þegar lagt er inn á bankabók í útibúi Landsbankans í Hafnarfirði og tekið út á Húsavík. En þá var mér sagt að þetta væri ekki hægt. Þetta væru nefnilega tvær óskyldar stofnanir þó eigendur væru þeir sömu.
Þó heyrðist mér á ummælum fólks í Silfri Egils í gær að Kaupþing á Íslandi væri ábyrgt fyrir skakkaföllum Kaupthings í útlöndum ef ekki yrðu sett sérstök lög sem aðskyldu þessar stofnanir formlega?
Þegar ég, fyrir nokkrum árum, var að spyrjast fyrir um möguleika á að hafa einn sænsk-íslenskan reikning og fékk neikvætt svar vaknaði spurningin: Er það íslenska ríkið eða það sænska sem er ábyrgt fyrir sparifé fólks í Kaupthing bank í Svíþjóð, eða er þetta fé ábyrgðalaust?
Nú, mörgum árum síðar, virðist loksins komið svar:
Hér rétt áðan kom nefnilega frétt í sænska ríkisútvarpinu þess efnis að sænska ríkisstjórnin tryggir allt sparifé í bönkum sem hafa starfsleyfi í Svíþjóð. Þar með hef ég loksins fengið svar við minni þrálátu spurningu um hvort sparifé vina minna í sænska Kauthing bank sé tryggt.
Vona bara að það sama gildi fyrir sparifé almennings í Kaupthing bank annarra landa?
Þarf virkilega kreppu til að hægt sé að fá svar við svona einfaldri spurningu?
Ef svo er þá segir það eitthvað til um glundroðann og regluleysið sem ríkir á fjármálamörkuðum og við erum nú að súpa seyðið af.
![]() |
Árétting frá ríkisstjórninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook
5.10.2008 | 10:24
Verða þeir kallaðir landráðamenn?
Í færslu frá 18. maí (sjá HÉR) hvatti ég íslendinga sem áttu sparifé erlendis til að flytja það heim til að auka gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Sjálfur flutti ég þá heim allt mitt sparifé í erlendri minnt. Auðvita tapaði ég á því, en taldi það skildu mína sem íslendings.
Í dag er saumað að lífeyrissjóðunum að gera slíkt hið sama og er það vel. Það er vonandi svo að fólk láti þjóðarheill stjórna aðgerðum sínum í svona málum. Það svíður hinsvegar sárt að ekki skuli vera gerðar sambærilegar kröfur á fjármálafyrirtæki í einkaeign.
Það fólk sem kom efnahagskerfinu í þessar ógöngur með gengdarlausri græðgi, hömlulausri útrás og útþenslu, kaupum og sölu á fyrirtækjum til að fela loft í kerfinu og ábyrgðalausri lánastefnu. Þetta fólk hefur ekki bara stefnt efnahagskerfinu í þrot heldur skammtað sjálfu sér fáránleg laun og bónusa. Peninga sem við eigum nú að krefja til baka.
Það er röng hugsun að halda því fram að einhverjir einstaklingar eigi fjármagnið í efnahagskerfinu. Fjármagnið í kerfinu er eins og súrefnið í líkamanum. Allar frumurnar þurfa á því að halda og eiga það sameiginlega, þó lungun hafi það hlutverk að anda því inn og rauðu blóðkornin beri það um líkamann.
Það þarf að setja ný lög og reglur um efnahagskerfið, koma böndum á kapítalistana. Ein hugmynd er t.d. að verðtryggja lágmarkslaun í hámarkslaunum þ.e. að engin megi skammta sér hærri laun en sem nemur ákveðnu margfeldi lágmarkslauna? Auka þarf aðhald fjármálafyrirtækja og ekki síst að setja reglur um gegnsæi svo fólk geti betur áttað sig á flæði fjármagnsins milli landa og hvort einhverstaðar sé óeðlilega mikið loft í kerfinu.
Auðvita eru engin lög í dag sem geta þvingað íslenska viðskiptajöfra til að flytja heim erlent fé. En geri þeir það ekki er stutt í að fólk fari að tala um vissa þeirra sem landráðamenn.
Í færslunni frá 18. maí velti ég því fyrir mér hvort sterk fjármálaöfl á Íslandi séu að reyna að hræða þjóðina inní Evrópusambandið. Það er ekki laust við að mér finnist að tónninn í umræðunni sé að verða þannig í dag.
Hvort sem Ísland tapar eða vinnur á því í lengdina að vera með í Evrópusambandinu er alveg ljóst að forgangsverkefnið er að koma böndum á fjármagnskapítalismann og styðja um leið við heilbrigðan innlendan fyrirtækjakapítalisma. Ísland er vaðandi í góðum möguleikum og tækifærum fyrir uppbyggingu innlendra fyrirtækja á borð við þorskeldi, ferðaþjónustu, menntamála, iðnað, hátækni o.s.f.
En til þess að hægt sé að byggja upp innlenda framleiðslu og þjónustu á heilbrigðan hátt verður að búa um sárið og stöðva þessa gengdarlausu blóðtöku úr þjóðarlíkamanum.
![]() |
Fundað um lífeyrissjóði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2008 | 12:52
Náttfarabragur
Við Skjálfandaflóa er skaplegt að búa
skarta þar Kinnarfjöll herlegri flík
þér segi ég vinur og því máttu trúa
það er blómstrandi mannlíf á Húsavík.
Viðlag:
Náttfara langaði að vera hér lengur
líklega var þetta öðlings drengur.
Garðar í árdaga gekk hér á land
og gerði sér fyrsta húsið á Fróni
enga þó tryggð við ættlandið band
enda var þetta sænskur dóni.
Viðlag:
En - Náttfara langaði að vera hér lengur
líklega var þetta öðlings drengur.
-----------------------------------------------------------
(lag óskast)
![]() |
Sænsk stjórnvöld styrkja Garðarshólmaverkefnið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.7.2008 | 20:16
Hamingja og þversögn hamingjunnar - enn um fíkn
Í elstu goðsögn mannkyns bjó maðurinn við fullkomna sælu í Paradís og þangað vill hann aftur.
Hamingjuleitin tekur á sig margar myndir. Sumir leita að henni í vinnu, sumir í ævintýrum og margir í trúarbrögðum, ástinni og veraldlegum gæðum.
Svo eru þeir sem finna hamingjuna í efnum sem örva vellíðunarstöðvarnar í heilanum. Sum þessara efna framkalla sterka vellíðunartilfinningu í stuttan tíma. Það hefur lengi verið ljóst að erting ákveðinna heilastöðva með rafskautum eða efnum framkalla upplifun af sælu, sem er svo mögnuð að margir neytendur missa áhugann á að leita hamingjunnar á öðrum stöðum. Þeir telja sig hafa höndlað hina fullkomnu sælu. Sælan er slík að margir eru tilbúnir til að taka mikla áhættu til að verða sér útum ólögleg efni sem framkalla sæluna.
En goðsögnin um Paradís geymir mikilvægan lærdóm. Adam og Eva þreyttust á Paradís, þau þráðu eitthvað meira. Þau völdu að segja sig úr lögum við Guð og axla ábirgð á eigin lífi.
Uppgötvun sælustöðva í heilanum hefur ýtt undir vonir um möguleika á þróun efna sem örva þessar stöðvar án þess að skaða neytandann.
Hugmyndin um sælupillu án aukaverkanna er skiljanleg, en þversögn. Því er nefnilega þannig varið að stöðugt sæluástand í lengri tíma verður fljótlega viðmiðunarástand, þ.e. hið hversdagslega ástand. Það sem hefur gerst er að þröskuldurinn hefur hækkað.
Þetta er ekki ósvipað því sem gerist þegar fólk reynir að verða ríkt. Sá sem á ekki neitt verður ríkur um hríð þegar hann eignast eina geit. En fljótlega er hann bara maður sem á eina geit og þráir að eignast tvær. Eignist hann tvær og þrjár og fjórar, verður hann glaður. Á einhverjum tímapunkti hættir hann að vera fátækur, en hann verður aldrei ríkur. Ríkidæmi er nefnilega svipað hamingjunni að því leitinu til að það felst í breytingu frá einu þrepi yfir á annað. Það er því hægt að verða ríkur, en ekki að vera ríkur. Meðan þú getur eignast meira, ertu aldrei ríkur. En einhverstaðar eru samt takmörk fyrir því að hve miklu leiti þú getur nýtt þér þá auðlegð sem þú ræður yfir.
Þannig er því líka farið með sæluna. Einhverstaðar liggja mörkin. Þegar þú hefur náð að upplifa hæstu mögulega sælu er það viðmiðunarástandið. Vegna þess að ekki er til nein meiri sæla er þetta ástand óþolandi í lengdina. Ef hversdagurinn er byggður á hinni fullkomnu sælu er ekki lengur mögulegt að upplifa þá jákvæðu breytingu sem er forsenda sæluupplifunar. Það er ekkert eftir. Eina leiðin til að upplifa aftur sælu, er að klífa niður nokkur þrep. Það er einmitt það sem gerist þegar heróínfíkillinn fer í fráhvarf. Þá hrapar hann niður sælustigann og það er afskaplega óþægilegt. Efnin lyfta honum svo aftur upp á efsta þrep sælustigans um skamma hríð og svo hrapar hann aftur og þannig koll af kolli. Þessi endalausu hröp fara illa með sál og líkama heróínistans en hann á ekkert val. Eftir sprautuna finnst engin leið upp, bara niður. Allar breytingar eru til hins verra. Það eru bara tvær leiðir út, dauðinn eða að klífa aftur niður sælu stigann. Nái hann að staldra við nógu lengi á neðri þrepum sælustigans til að skapa nýtt hversdagsástand á neðri þrepum, á hann ennþá möguleika á eðlilegu lífi.
Allir sem þurfa á vímuefnum að halda til að höndla hversdaginn eru í svipuðum sporum, en þeir sem hafa lent í því óláni að nota efni sem lyfta neytandanum á efsta þrep sælustigans eru verst staddir.
Það er þversögn hamingjunnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.8.2008 kl. 18:39 | Slóð | Facebook
27.5.2008 | 07:49
Miklir náttúruhagsmunir í húfi
Það væri stórslys ef náttúruperlan Höfði í Mývatnssveit lenti í einkaeign. Hér eru miklir náttúruhagsmunir í húfi. Ekki bara fyrir Mývetninga heldur alla Íslendinga. Sjálfur er ég alinn upp með stóra upplitaða mynd frá Höfða sem eitt helsta stofustássið hennar mömmu gömlu.
Það er erfitt að setja sig inní svona mál úr fjarlægð. Er engin pólitísk eining á svæðinu um að sveitafélögin komi sameiginlega að málinu og tryggi að náttúruperlan haldist í almannaeigu?
Getur einhver upplýst mig um bankareikning Höfðafélagsins?
![]() |
Félag um kaup á hluta Höfða við Mývatn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.5.2008 kl. 18:20 | Slóð | Facebook
24.5.2008 | 09:29
Leiðbeiningar fyrir þá sem vilja hætta án lyfja
Við sem vinnum að rannsóknum á reykleysismeðferð eigum oft í stökustu vandræðum með að greina á milli þeirra einkenna sem margir upplifa eftir að þeir hætta áratuga nikótín neyslu og hinsvegar aukaverkanna lyfja sem eiga að hjálpa fólki til að hætta.
Staðreyndin er nefnilega sú að mörg þeirra einkenna sem lýst er sem aukaverkunum af Champix eru dæmigerð einkenni sem sumt fólk lýsir þegar það hættir skyndilega mikilli nikótínneyslu án hjálpar lyfja.
Sjálfur hætti ég að reykja eftir ca. 15 ára daglegar reykingar án allra lyfja. Áður en lyfin komu á markaðinn, náðum við ekki síðri árangri á reykleysisnámskeiðum Krabbameinsfélagsins og eftir að lyfin komu til sögunnar. Hinsvegar þurftum við að leggja í það mun meiri vinnu. Eftir að lyfin komu gátum við dregið niður fjölda funda á námskeiðunum um ca. helming með sama góða árangri.
Þó lyfin séu gott hjálpartæki fyrir marga er sjálfsagt að gera fyrst alvarlega tilraun til að hætta að reykja ÁN lyfja.
Byrjaðu á því að breyta vanamunstrinu á þann hátt að reykja ekki á þeim stöðum þar sem þú munt vistast mest eftir að þú hættir alveg að reykja.
Veldu þér "erfið reyksvæði" á undirbúningstímanum þ.e. reyktu bara á svæðum sem þú þarft að hafa fyrir að komast á og eru utan þinna alfaraleiða.
Ekki reykja þegar þú talar í síma á undirbúningstímanum.
Ekki drekka kaffi og te meðan þú reykir á undirbúningstímanum.
Þegar þú hættir alveg skaltu drekka mikinn vökva fyrstu vikuna. Gott er að hreinsa út nikótínið með vökvakúr í 1-2 sólarhringa. Drekktu hreinan ávaxtasafa og grænmetissafa og mikið vatn.
Kaffi og te er líka OK. En vertu samt búin(-n) að rjúfa tengslin milli kaffis/tes og reykinga á undirbúningstímanum = ekki reykja þegar þú drekkur kaffi eða te á undirbúningstímanum.
Hreyfðu þig mikið eftir bestu getu.
Keyptu þér lakkrísrót til að hafa eitthvað bragðmikið að naga án þess að það gefi extra kaloríur.
Mentól nefstifti og munnúði virkar fyrir suma.
Burstaðu tennurnar nokkru sinnum á dag.
Stundaðu sund fyrstu vikurnar ef þú getur.
Haltu skrá yfir allt jákvætt sem gerist í lífinu eftir að þú hættir t.d. peningar sem sparast, frelsistilfinninguna, nýjar lyktarupplifanir o.s.f. Þetta er auðvita persónubundið fyrir hvern og einn.
Hringdu í Reyksímann 8006030 ef þú hefur frekari spurningar. Segðu þeim að þú hafir ákveðið að reyna að hætta án lyfja.
Starfsfólk Reyksímanns bíður uppá að hringja í þig á fyrirfram ákveðnum tímum til að styðja þig í fyrstu skrefin og svo getur þú að sjálfsögðu hringt eins oft og þú vilt.
Allt þér að kostnaðarlausu.
Takist þetta ekki án lyfja, hringdu þá aftur í Reyksímann og fáðu leiðbeiningar um lyfin.
Þetta mun takast!
![]() |
Nikótínlyfið Champix: Sofna við stýrið og keyra út af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook
23.5.2008 | 07:43
Er fíkla stimpillinn hindrun fyrir suma?
Auka þarf framboð á annarskonar meðferðarnálgun en þeirri sem SÁÁ bíður uppá, sem byggir m.a. á því að fólk verður að "viðurkenna alkóhólisma" til að hægt sé að fara að vinna í málinu. Stuðningur til að breyta lífsstíl ÁÐUR en allt er komið í ræsið er mikilvæg viðbót við það sem SÁÁ bíður uppá.
Í Svíþjóð hef ég umsjón með þróun sænska Áfengissímans (Alkohollinjen). Þar er fólki boðið að skrá sig í meðferð/stuðning gegnum síma. Hægt er að velja nafnleynd en flestir vilja koma fram undir nafni, enda gildir fullur trúnaður eins og á öðrum "stofnunum" heilbrigðiskerfisins.
Margir þeirra sem hringja eru komnir alllangt í sinni neyslu en hafa samt aldrei tekið skrefið og farið í hefðbundna meðferð. Flestir þessara einstaklinga eru hræddir við alkahólista/fíkla stimpillinn. Stimpillinn stendur því í veginum fyrir að þetta fólk leyti sér aðstoðar þó það finni hjá sér þörf. Áfengissíminn flýtir því fyrir og er jafnvel forsenda fyrir bataþróun í þessum stóra hópi ofneytenda.
Aðrir eru langt frá því að vera komnir svo langt í neyslunni að geta kallast alkóhólistar, en hafa áhyggjur af því að neyslan sé að fara úr böndunum. Forvarnastarfið sem Áfengissíminn vinnur með þessum hópi kemur vonandi í veg fyrir að margir þeirra þrói alkóhólisma. Árangursmatið mun gefa okkur svör við því er fram líða stundir.
Sænski Áfengissíminn vinnur eftir meðferðarstefnu sem byggir á Hvetjandi Samtalstækni (Motivational Interviewing). Rannsóknir á árangurmati þar sem 12 spora kerfið er borið saman við Hugræna atferlismeðferð og Hvetjandi Samtal sýna að þessar 3 aðferðir gefa nákvæmlega sama meðferðarárangur. Þó er líklegt að mismunandi aðferðir henti mismunandi einstaklingum.
Það er því æskilegt að auka fjölbreytni í meðferðarúrræðum.
Sjá nánar um hugmyndafræði HVETJANDI SAMTAL HÉR
P.S: Vinsamlega athugið að bloggsíðan er "biluð" og það er með herkjum að ég geti loggað inn. Þetta hefur verið vandamál í nokkrar vikur og mbl hefur enn ekki getað fundið lausn á vandanum. Ég get t.d. bara loggað inn með því að blogga frétt og þá ekki loggað inn aftur til að svara athugasemdum.
![]() |
Fíklar fyrr veikir og veikari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:22 | Slóð | Facebook
18.5.2008 | 10:36
Peningar Íslendinga í útlöndum & endurkoma Norðurlanda
Greiðvikni stóru norrænu seðlabankanna við litla bróður í vestri er lýsandi dæmi um norræna samvinnu eins og hún gerist best.
En hvernig væri að Íslendingar sjálfir, ekki síst íslenskir auðmenn leggðu sín lóð á vogaskálarnar í stað þess að reka upp hræðsluóp og krefjast inngöngu í Evrópubandalagið. Eða er það kannski til þess sem leikurinn er gerður, að reyna að hræða almenning á Íslandi inn í Evrópubandalagið?
![]() |
Bankastjórar eru ánægðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.5.2008 | 09:25
Einsemd íslenskra karla í sænska sjónvarpinu
Rannsóknir okkar Braga Skúlasonar sjúkrahúsprests og doktorsnema hafa verið allnokkuð í fjölmiðlum hér undanfarið. Þar sem Bragi er ekki enn orðinn fullfær á sænska tungu hefur það komið í minn hlut að sitja fyrir svörum. Læt fljóta með HÉR hlekk inná sænska sjónvarpsfrétt um einsemd íslenskra karla og grein í EXPRESSEN um einsemd sænskra karla.
Nánari upplýsingar um rannsókn Braga Skúlasonar eru á heimasíðu Nordic Mens Health ráðstefnunnar HÉR á ensku
11.5.2008 | 10:17
Ég skal finna þig í fjöru
Svikult vopn í hetjulegum höndum
heima var er Þorgrímur kom þægur.
Þyrmdi engum, þar var styrkur nægur.
Atgeir átti þekktur fræða þulur
þegar hann kvað sorgar lagið sára.
Sviku hann þau systkin Kári og Bára.
Ryðgaði á botni Breiðafjarðar,
bitur atgeir, fremsta vopn á Fróni.
Fjendum Gunnars fyrrum olli tjóni.
Ekki hefur gefið vopnið góða,
gæfu þeim er hampa því í höndum.
Hafið skilar herfangi að ströndum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.5.2008 kl. 16:44 | Slóð | Facebook
17.4.2008 | 08:43
Emotional Isolation in Men and Women
Bloggvinir!
Nokkur ykkar hafa sent mér e-póst og beðið mig um upplýsingar varðandi þær rannsóknir sem ég hef gert á tilfinningalegri einsemd karla og kvenna eftir 50 ára aldur og hvernig það tengist umönnun fólks með krabbamein. Ég hef því miður ekki tíma til að svara öllum persónulega og legg þetta því út á bloggsíðuna. Afsakið að þetta er á ensku.
Kveðja: ásgeir
Meðfylgjandi PowerPoint presentation inniheldur umbeðnar upplýsingar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:51 | Slóð | Facebook
3.2.2008 | 10:00
Er mitt litla sparifé í hættu?
Þetta er gömul lumma hér í Skandinavíu. Það er langt síðan ég sá þessa greiningu á ástandinu á Íslandi og efasemdir um heilsufar íslenska fjármálaundursins í fjölmiðlum hér. Kenningar eins og að sífelld kaup á nýjum fyrirtækjum og flutningur á fjármagni milli landa sé gert til að fela loft í kerfinu, eru nokkuð algengar. Auðvita reynir maður af einstærri ættjarðarást að malda í móinn en stundum læðist að manni sá grunur að það geti verið eitthvað til í þessu, a.m.k. í sumum tilvikum?
Hvort sem þetta er satt eða ekki, þá er hætta á að svona grunur grafi undan trausti á íslenskum fjárfestum. Það hlýtur því að vera hagur allra að íslenskir auðhringir leggi spilin á borðið og auki innsýn. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir alla íslendinga.
Íslendingar í útlöndum eru yfirleitt fullir af ættjarðarást og tilbúnir til að verja allt sem frá Íslandi kemur með kjafti og klóm. Þetta getur verið mikill PR auður fyrir íslensk fyrirtæki. En þá verður fólk að hafa einhver sannfærandi rök í handraðanum. Það er því forsenda að íslenskir auðhringir og yfirvöld fræði fólk á padagógiskan hátt um "sannleikan".
Hvaðan kemur aurinn? Hvar er loftið í kerfinu? Hvaða áhættu greiningu hafa fyrirtækin sjálf gert? Hversu stór hluti af lífeyris- og sparifé íslendinga er með í spilinu? Hvaða bankar hafa lánað hvaða fyrirtækjum og hve mikið? o.s.f.... Ef til vill eru þessar upplýsingar til einhverstaðar án þess að ég og aðrir sem eyða tímanum í annað en að hugsa um peninga, vitum um það? Ef svo er þá væri ráð að einhver duglegur pedagók tæki það saman í "hefti" og birti á netinu.
Að lokum, af hverju í ósköpunum eru ekki einkaþotur látnar lenda í Keflavík!
Lifi fjalldrapinn!
![]() |
Er allt á niðurleið á Íslandi? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook
2.2.2008 | 16:25
Vegið úr launsátri
Eitt það hvimleiðasta á mbl bloggi eru nafnlausar athugasemdir með skætingi, upphrópunum og persónuníði. Það hjálpar lítið þó krafa sé gerð á að fólk skrái sig inn til að skrifa athugasemd því margir virðast skapa blogg undir dulnefnum nánast eingöngu í þeim tilgangi að geta vegið að fólki úr launsátri. Þetta verður að leysa á einhvern hátt.
Auðvita verður sá möguleiki að vera fyrir hendi að skrifa blogg undir dulnefni. Það er hinsvegar ekki sjálfgefið að það eigi að leyfa athugasemdir undir dulnefni. Ein lausn er að hægt sé að skilyrða að aðeins þeir sem eru skráðir inn með fullu nafni og kennitölu geti skrifað athugasemdir.
Annars er mbl hreint frábær þjónusta, ekki síst við okkur sem búum í útlandinu!
Takk fyrir það!
![]() |
Mbl.is á afmæli í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:38 | Slóð | Facebook
2.2.2008 | 13:56
Æskustöðvar við flugvöllinn
Ég átti heima í Litla-Skerjó, nánar tiltekið á Hörpugötu 13 þegar ég var lítill. Húsið liggur eins nálægt flugbrautinni og hægt er að komast. Ég man eftir drununum þegar vélarnar hófu sig til flugs og lentu. Einfalt glerið í glugganum hristist. Við krakkarnir skemmtum okkur við að hlaupa yfir flugbrautina og komast undan flugvallargæslunni á gula LandRover jeppanum. Á þeim tíma stóð ennþá gamall skriðdreki frá stríðsárunum á túni norðvestan við flugstöðvabygginguna sem gaman var að leika sér í. Steinsnar frá var gamla Tívolí. Reykjavíkurflugvöllur er því vænn drumbur í arineld minninganna.
En það er kannski þar sem hann á heima? Í minningunni. Það er ef til vill löngu tímabært að leggja af þennan flugvöll og byggja þar blómlega byggð á einu besta og veðursælasta byggingarlandi borgarinnar?
Ef Gísli Marteinn reiknar rétt ætti það ekki að taka mörg ár að spara uppí flutning á innanlandsfluginu til Keflavíkur með Terminal í Reykjavík og beinar lestasamgöngur á tvöföldu lestarspori út í vél, þegar veður leyfir flugtak. Annars hef ég svo sem engar ákveðnar hugmyndir um hvar nýr innanlandsflugvöllur væri best settur.
![]() |
Ólafur treystir Gísla Marteini |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.2.2008 kl. 10:34 | Slóð | Facebook
2.2.2008 | 08:55
Endurkoma Norðurlanda (leiðari í Dagens Nyheter í dag)
Leiðari sænska stórblaðsins Dagens Nyheter í dag ber fyrirsögnina Nordens återkomst (endurkoma Norðurlanda).
Á þeim tíma þegar Svíþjóð gekk inn í EU var ég virkur í ýmsum norrænum nefndum og rannsóknarhópum. Þá ræddum við mikið nauðsyn þess að efla norrænt samstarf óháð því hvort öll löndin veldu að ganga inn í bandalagið. Flest sáum við það í hendi okkar að þörfin á slíku samstarfi væri aldrei meiri en nú þegar þjóðir tengdust saman í stórar pólitískar og efnahagslegar einingar. Norðurlönd hlytu að geta byggt á langri hefð og nýtt sér samtakamátt sinn til að tryggja hagsmuni okkar litlu þjóða í heimi stórra bandalaga.
Stjórnmálamenn virtust hins vegar vera á öðru máli og töluðu gjarna um minnkandi þörf á norrænu samstarfi. Okkur til mikillar furðu kepptust ráðamenn í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi við að sýna Evrópubandalaginu hollustu hvert í sínu horni og Ísland og Noregur urðu hornreka.
Nú er annað hljóð að koma í strokkinn. Hveitibrauðsdagar litlu Norðurlandaþjóðanna og Evrópubandalagsins eru liðnir og hversdagslífið tekið við. Þá vaka stjórnmálamenn úr dvalanum, líta sér nær og vilja efla fjölskylduböndin.
Nú er lag að blása alvöru lífi í Norrænt samstarf. Íslendingar þjóna þar mikilvægu hlutverki. Vegna þeirrar sérstöðu að vera utan Evrópubandalagsins getum við náð mun betri fríverslunarsamningum en lönd innan bandalagsins við aðrar viðskiptablokkir, eins og samningarnir við Kína og Kanada sanna. Það gerir Ísland aðlaðandi fyrir fyrirtæki með lögheimili innan bandalagsins. Ísland hefur einstaka möguleika á að nýta sér þá sérstöðu að eiga lögheimili á Norðurlöndum og hafa náið samstarf við Evrópubandalagið, NAFTA, Kína og hvern sem er. Nú er þörf á duglegum og skynsömum stjórnmálamönnum úr öllum flokkum heima á Íslandi til að róa þessu máli í höfn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook
29.1.2008 | 10:54
Karl Ágúst Úlfsson
Mér þykir ómaklega vegið að faglegum heiðri og persónu Karls Ágústs Úlfssonar víða á blogginu um þessar mundir. Karl hefur útskýrt sitt mál. Karl Ágúst hefur skemmt Íslendingum í fjölda ára með hjálp samstarfsmanna úr Spaugstofunni. Ég efast um að nokkur íslendingur haf áorkað að framleiða jafn mikið af skemmtilegu og vel unnu efni á heilli æfi og Karl hefur gert þessi ár sem aðal handritahöfundur Spaugstofunnar. Einhvertíma var sagt um Ómar Ragnarsson að hann væri margfaldur miljónamæringur ef hann hefði ekki verið svo óheppinn að fæðast inn í okkar litla málsamfélag. Það sama gildir um Karl Ágúst Úlfsson.
Þættir á borð við Spaugstofuna eru í flestum löndum með marga handritahöfunda. Það er fullkomlega óskiljanlegt hvernig Karli hefur tekist að halda út öll þessi ár. Auðvita hlýtur það að gerast með jöfnu millibili, sem nú hefur gerst. Það er ekki hægt að halda úti svona þætti í ára raðir án þess að fara oft yfir mörk sumra og stundum yfir mörk margra.
Ég hef lengi beðið eftir skáldsögu eða leikriti frá Karli Ágústi. Vonandi fær Karl viðurkenningu sem fyrst í formi veglegra listamannalauna til 3-5 ára svo hann geti helgað sig skrifum "í alvöru". Hann getur þá tekið sér verðskuldaða hvíld frá Spaugstofunni, þó ég og margir með mér myndu sakna hans sárlega.
Ég hlakka þegar til næstu spaugstofu - og til að fyrirbyggja allan misskilning þá hefur mín fjölskylda fengið sinn skerf af háði úr salarkynnum Spaugstofunnar.
Lifi fjalldrapinn!
![]() |
Spaugstofan sér ekki eftir neinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook
24.1.2008 | 16:38
Kynlífspistlar - pistill 2: Getuleysi
Orðið getuleysi (impotence) er vandræða orð sem erfitt er að skilgreina. Í fræðunum hefur hugtakið eretile disfunction þ.e. stinningarvandamál því rutt sér til rúms á seinni árum. Vandamálið er bara að þetta eru tvö ólík hugtök þegar betur er að gáð. Stinningarvandamál vísar til glíðandi skal meðan getuleysi vísar til ákveðins ástands þegar stinning er of slök til að hægt sé að stunda hefðbundnar samfarir án hjálpartækja eða lyfja. Ég vel því að nota bæði hugtökin.
-------------------------------------------------------------------------------------------
Í mínum skrifum nota ég orðið stinningarvandamál sem safnheiti yfir allt sem hefur neikvæð áhrif á limstífni. Orðið getuleysi nota ég eingöngu yfir visst líkamlegt ástand sem gerir viðkomandi líffræðilega ókleift að ná limstífni sem dugar til samfara. Getuleysi er því stinningarvandamál sem er af líkamlegum toga og það alvarlegt að ekki er lengur hægt að stunda samfarir án hjálpartækja eða lyfja. Það er því hægt er að upplifa stinningarvandamál á því stigi að viðkomandi getur ekki stundað samfarir án þess að um sé að ræða getuleysi í mínum skilningi. Vandamál sem eiga rætur sínar í t.d. kynlífsfælni, trú, almennum kvíðaröskunum, neysluvenjum o.fl. Slík vandamál eru best meðhöndluð með sálfræðilegum aðferðum, en stinningarlyf geta líka hjálpað.
--------------------------------------------------------------------------------------------
Öruggasta leiðin til að skilgreina/sjúkdómsgreina getuleysi er að nota litla tölvu (sjá mynd) sem fest er við lærið meðan maðurinn sefur. Tvær lykkjur eru tengdar við tippið og tölvan skráir allar breytingar á limstífni í draumsvefni. Lesið er úr útskrift tölvunnar eftir 3 nætur og þróaðar hafa verið kríteríur til að greina limstífni sem talin er nægjanleg til samfara. Ef limurinn virkar í draumsvefni en ekki í vöku, er nokkuð víst að stinningarvandamálið á sér sálrænar, félagslegar eða trúarlegar rætur. Margir hafa reynt að þróa spurningar til að greina líffræðilegt getuleysi, meðal annars undirritaður. Slíkar spurningar eru því miður ekki nægjanlega næmar til að greina líffræðilegt getuleysi frá sálfræðilegum stinningarvandamálum. Þó geta þær greint nokkuð örugglega þá sem ekki eru getulausir og hafa þannig allmikið gildi í rannsóknum.
-----------------------------------------------------------------------------------------
Skurðaðgerð við staðbundnu krabbameini í blöðruhálskirtli leiðir í flestum tilvikum til getuleysis. Lyfin geta hjálpað ef skurðlæknirinn hefur skilið eftir heila taugaþræði niður í tippið.
![]() |
Margar milljónir ríkissmokka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook
23.1.2008 | 06:43
Kynlífspistlar - pistill 1: Þurrt sáðlát
Rannsóknir á kynlífshegðun karla á áttræðisaldri sýna að 80% hafa líflegar kynlífshugsanir, 60% hafa samfarir a.m.k. einu sinni á 12 mánaða tímabili og enn fleiri fá ennþá fullnægingu á einn eða annan hátt. Annar hver karl á þessum aldri hefur það slaka stinningu við stand að hann þarf að nota einhverskonar hjálpartæki (eins og lyf eða pumpu) til að hafa samfarir (sjá komandi pistil um "getuleysi"). Einnig kvarta margir undan minnkuðu sáðláti sem virðist haldast í hendur við minni fullnægingarnautn. Þurr fullnæging(enginn sæðisvökvi kemur við fullnægingu) er einmitt ein af aukaverkunum skurðaðgerðar gegn staðbundnu krabbameini í blöðruhálsi. Aukaverkun sem hefur horfið í skuggann af umræðunni um stinningu og stinningarlyf. Flestir karlmenn sem hafa þurra fullnægingu upplifa mun minni fullnægingar sælu og rannsóknir sýna að þetta fyrirbæri skerðir lífsgæði þeirra næstum jafn mikið og "getuleysi",
Þó mikilvægi kynlífsins fyrir lífsgæði minki með aldrinum hjá meirihluta karla telja 30% karla á aldrinum 70-80 ára að kynlíf sé mikilvægt eða mjög mikilvægt fyrir lífsgæðin. Það sýnir sig meðal annars í því að 20% karla yfir fimmtugt velja að sleppa meðferð við krabbameini í blöðruhálskyrtli, sem gerir menn getulausa, þegar allar staðreyndir málsins eru lagðar á borðið.
Í næsta pistli verður fjallað um "getuleysi".
![]() |
Heath Ledger látinn |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.4.2008 kl. 17:32 | Slóð | Facebook
22.12.2007 | 23:56
Jólabókin ókeypis á netinu
Kæri vinur.
Hægt er að prenta bókina út í heild sem PDF skjal uppá 110 A4 síður. Einnig er hægt að prenta út hvern kafla fyrir sig (alla kaflana nem kafla 4 en kafli 4 er auðvita með í skjalinu sem inniheldur alla bókina).
Verði ykkur að góðu!
Gleðileg Jól!
9.12.2007 | 15:56
Á heimleið í bloggfrí
Kæru vinir!
Miklar umræður hafa geisað á bloggsíðunni minni um áfengismeðferðog hafa skeytin stundum verið hvöss og ásakanir á báða bóga. Sumar órökstuddar og aðrar vel rökstuddar með kvittunum og ljósmyndum.
En svona er nú þetta bloggsamfélag. Maður má eiga von á hverju sem er ef maður heldur opnum möguleikanum að hver sem er geti skrifað athugasemdir.
Þó ég sé auðvita ekki ábirgur fyrir því sem aðrir skrifa í athugasemdum inná minni bloggsíðu finnst mér samt eins og að ég verði að halda að einhverju leiti utanum umræðuna. Því hef ég ákveðið að loka bloggsíðunni fyrir athugasemdum meðan ég bregð mér í bloggleyfi heim til Íslands þar sem ég ætla að vera fram yfir áramót.
Gleðileg Jól