Heimska Platós - hugleiðing um sannleiksgildi listarinnar

hellir Platóns1. HLUTI: Í þessum pistli velti ég upp þeirri spurningu hvort listin geti gefið okkur einhverja innsýn í mannlega veru sem heimspekin megnar ekki og hvort heimspekin megni að gefa okkur innsýn í þá þætti veruleikans sem raunvísindin megna ekki. Síðan mun ég tengja þessar vangaveltur við þá umdeildu fullyrðingu Platós að listamenn afvegaleiði ungmenni og afskræmi sannleikann.

2. HLUTI: Eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um sannleikann er að hann er hvort tveggja í senn einn og óumbreytanlegur (í innsta eðli sínu) en um leið margþættur og afstæður. Þannig er t.a.m. tunglið alltaf tiltekinn hnöttur með sína sérstöku eiginleika (massa, efnissamsetningu o.s.f.) sem eru til jafnvel þó mannleg skynjun megni aldrei að uppgötva hið sanna eðli þeirra sökum takmarkanna skynfæranna. Hinsvegar er tunglið einnig fallegur eða ógnvekjandi hlutur á himninum allt eftir aðstæðum og merkingarbærum veruleika hvers og eins.

Sannleiksleit mannsins er því a.m.k. tvíþætt þó sannleikurinn sé í sjálfum sér einn. Til eru algild sannindi og persónuleg sannindi. Vísindin, heimspekin og listin eru þau “tæki” sem maðurinn hefur yfir að ráða til að höndla sannleikann.

Dulhyggjufólk myndi vafalítið vilja bæta við dulrænni iðkun og hugleiðslu og trúmaðurinn telur sig fá sérstaka sýn inní kjarna sannleikans við trúariðkun og trúarlegar upplifanir. Í þessum pistli mun ég þó láta dulhyggju og trú liggja milli hluta. Kem kannski að þeim seinna.

3. HLUTI: Sú trú er útbreidd að allir hlutir í veröldinni séu af sama meiði og því hljóti sama aðferðafræði að gilda fyrir alla þekkingaröflun um allar hliðar mannlegrar tilveru. Útbreiddasta skoðunin af þessum toga á vesturlöndum er "Vissuhyggjan"(Positivisminn) sem er grundvölluð í efnishyggju. Vissuhyggjan afneitar öllum skýringum á eðli hlutanna sem falla ekki að líkani raunvísindanna. Safnaðarmeðlimir vissuhyggjunnar trúa því að nota beri sömu aðferðir til að afla þekkingar á eðli hugarheimsins og notaðar eru í eðlis- og efnafræði. Öllum kennisetningum sem ekki er hægt að hrekja er hafnað sem ótækum, en slík krafa á framsetningu skýringa tryggir áreiðanleika og réttmæti þekkingarinnar. Þetta sjónarmið hefur verið nefnt "aðferðafræðileg einhyggja".

Hinsvegar draga margir í efa að hægt sé að gera grein fyrir hugarheimi fólks nema að takmörkuðu leiti með þessum aðferðum.

Til eru þeir sem halda því fram að aðferðafræðileg einhyggja sé hemill á þekkingaröflun á eðli hugarheimsins. 

 

4. HLUTI: Þeir sem aðhyllast aðferðafræðilega einhyggju telja að orsakaskýringar í anda "frumstæðrar" eðlisfræði séu einu raunverulegu skýringarnar og útiloka þar með aðrar skýringar.

Þeir sem hafnaaðferðafræðilegri einhyggju ættu hinsvegar að geta sæst á það að skýringar sem vísa til tveggja heima eða tveggja hliða á sama heimi séu ekki nauðsynlega andstæður. Því gætu fleiri en einn skýringarmáti staðið hlið við hlið sem tvær mögulega jafna réttháar skýringar á sama fyrirbæri. Hinsvegar er ljóst að hvorugur skýringarmátinn skýrir fyrirbærið að fullu.

 Þeir sem afneita aðferðafræðilegri einhyggju eiga það sameiginlegt að hafna því að tilraunavísindi ein sér séu þess megnug að skýra mannlegan veruleika til hlítar.

Hér kemur heimspekin til sögunnar. Heimspekin megnar m.a. að varpa ljósi á ýmsa fleti mannlegrar veru með rökgreiningu þar sem tilraunavísindum verður ekki við komið. Vangaveltur um tilgang, rétt og rangt og ýmsa aðra fleti mannlegs veruleika verða aðgengileg. Fyrirbæri sem raunvísindin geta ekki höndlað með sinni aðferðafræði.

 En hvað með listinaog þá fullyrðingu Platós að listamenn afvegaleiði ungmenni og afskræmi veruleikann? Getur verið að sjálfur Plató hafi fallið í sömu gildru og fylgjendur vissuhyggjunnar sem úthrópuðu heimspekina sem kukl og tímasóun rúmlega tvö þúsund árum síðar?

 

5. HLUTI: Getur verið að á svipaðan hátt og vísindahroki 20. aldarinnar taldi sig þess umkominn að skýra alla þætti mannlegs veruleika og hafnaði einfaldlega þeim þáttum tilverunnar sem ekki voru höndlanlegir með aðferðum hennar, þá hafi heimspekihroki fornaldar hafnað því sem ekki féll að hefðbundnum aðferðum heimspekinnar?

En hvaða fletir mannlegrar veru eru þá þess eðlis að hvorki raunvísindin né heimspekin geta skýrt þá á viðunandi hátt? Augljósasta dæmið eru líklega tilfinningar.

Flestir væru að líkindum engu nær um eðli og inntak ástar og haturs, sorgar eða gleði, tilvistakreppu eða örvæntingu, þó hægt væri að lýsa í smáatriðum öllum þeim efnaferlum sem eiga sér stað í líkamanum þegar við upplifum þessar tilfinningar. Aðeins eigin upplifun gerir okkur kleift að skilja eðli tilfinninganna. Tónlist, ljóðlist, myndlist og frásagnarlist eru þau "tæki" sem best eru til þess fallin að dýpka þann skilning og komast næst því að skýra þessar upplifanir á merkingarbæran hátt fyrir þeim sem aldrei hafa upplifað þær.

Það er þó ekki þar með sagt að heimspekin og raunvísindin hafi ekkert fram að færa þegar skýra á eðli tilfinninga. Heimspekin hentar ágætlega til að velta upp spurningum og samskipti fólks þar sem tilfinningarnar spila veigamikinn þátt. Það er að sjálfsögðu líka nauðsynlegt að skilja hvaða efnaferli eru í gangi og hvernig hafa má áhrif á þau. Þannig þurfum við á öllum þessum þrem verkfærum að halda; heimspekinni, raunvísindunum og listum til að skilja til hlítar eðli tilfinninga.

Fordómafull afstaða Platós til sannleiksgildis listarinnar í fornöld og áþekk afstaða vissuhyggjufólks til sannleiksgildis heimspekilegrar rökhugsunar á okkar tímum, byggir því e.t.v. fyrst og fremst á skorti á heildarsýn. Í Íslensku hefur orðið heimskameð tímanum hlotið merkinguna vitgrannur eða vitlaus en merkir líklega í upphafi; að sjá heiminn útfrá sínum bæjardyrum og neita að trúa því að fjallið lýti öðruvísi út séð frá bæjardyrum bóndans í næsta dal.

En það væri nú að kalla yfir sig ofsóknir í anda hreintrúarofstækis að halda því fram að Plató hafi verið heimskur. En það er ekki algerlega útilokað að hann hafi e.t.v. verið svolítil þröngsýnn?

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Plató var barn síns tíma, eins og við öll erum, hvert á sínum tíma. Frá okkar sjónarhóli, hefur hann verið ögn þröngsýnn, kallinn.  Mér finnst gífurlega gaman að svona pælingum og skrifaði einu sinni 32 síðna ritgerð um þær í mastersnámi mínu. Þínar pælingar eru miklu skýrari og afmarkaðri!! Sá óendanlegi hroki að telja að raunvísindin ein og sér geti útskýrt allar víddir mannlegrar tilveru, er kannski besta dæmið um þröngsýni nútímans.

Takk fyrir þetta, Ásgeir.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 3.7.2007 kl. 21:35

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Takk fyrir að nenna að lesa þetta Guðný.

Það er afar merkilegt að sjá hvernig blogg-samfélagið reagerar ólíkt á ólíkar færslur. Það virðast vera afar fáir bloggarar sem hafa áhuga á umræðum um sannleikann (miðað við fjölda athugasemda).  EN asnist maður til að skrifa heimskulega færslu um hund, eða asnalega færslu um hval, þá verður allt vitlaust og athugasemdunum rignir inn.

Ég held bara hreinlega að ég sé að eyða tímanum í vitleysu með að reyna að skrifa eitthvað að viti á bloggið?

Ég er kannski bara eitthvað að ekki fatta hvað er í gangi, eða þannig:

Ásgeir Rúnar Helgason, 4.7.2007 kl. 20:24

3 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Já, Ásgeir!

Við höfum oftast náð saman í heimspekinni þó við höfum sjaldan náð saman í pólitíkinni:

Það er all athugavert?:

Vilhelmina af Ugglas, 4.7.2007 kl. 21:32

4 Smámynd: Brattur

... ég held að málið sé tími, þ.e. flestir bloggarar eiga mikið af bloggvinum og fara rúnt á þá á hverjum degi og henda inn stuttum athugasemdum... blogga svo eitthvað aðeins meiri texta á síðuna sína... þetta er kannski eins og að lesa blöð, flestir nenna ekki að lesa langann texta, heldur aðeins fyrirsagnir og úrdrátt úr greinum... ég t.d. er miklu meira fyrir smásögur og ljóð af því að tíminn sem ég hef er naumur, vinn langann vinnudag og er of þreyttur og latur þegar kvöldar til að komast yfir mikinn texta... það er reyndar ekki langt síðan ég var með Plató á náttborðinu hjá mér... mér finnst gott að dreifa huganum og lesa annað en fréttir líðandi stundar og dægurþras... er núna að lesa bók um Haförninn, gefin út 1967 mjög skemmtileg og fróðleg bók...

Veit sjálfur ekkert hvert ég er að fara með mínu bloggi, skrifa ljóð "léttar" sögur af sjálfum mér sem fáir nenna að lesa

Tilfinningar eru tjáðar í listinni... en skil ekki eins vel hvernig við notum heimspekina og raunvísindin til að skilja eðli tilfinninganna...

enda bara leikmaður... þú mannst...

Brattur, 4.7.2007 kl. 22:58

5 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Kæri Ásgeir! Mér finnst gaman að líta á bloggsíðuna þína og les allt sem þú skrifar, þó ég kommenteri ekki alltaf. )Í gegnum þig rakst ég á þennan bráðfyndna mann, Brattan, sem sjálfur skrifar líka sérdeilis góða síðu.) Mér finnst þessi bloggheimur ansi skondinn, og ekki er nú allt jafngáfulegt og skemmtilegt, eins og er bara í lífinu sjálfu. (Hvenær varð ég svona ári klisjukennd...?) Ég segi sama og þú, að þegar mér finnst ég skrifa eitthvað með votti af viti, fæ ég engin komment og fáar heimsóknir, en álpist ég til að skrifa eitthvað...já, eitthvað bullkent, slímugt og klisjukennt, þá fjölgar heimsóknum og kommentum. Við erum sennilega eitthvað seinfær og hugsum á öðrum nótum en gerist og gengur, Ásgeir! Er það ekki bara ágætt?

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 4.7.2007 kl. 23:39

6 identicon

Þetta var skemmtileg færsla. Ég man fíluna kannski ekki uppá tíu en ef ég væri í prófi myndi ég reyna að svara þessu svona:

Pósitívískar aðferðir byggja á aðleiðslu. Fyribrigði eru skilgreindir og hegðun þeirra skoðuð. Síðan er sett fram regla um það hvernig fyrirbrigðið hegðar sér.

Það á ekkert að vera því til fyrirstöðu að hægt sé að "skilja" tilfinningar með pósitfískum hætti á sama hátt og hegðun t.d atóms. Pósiifískur skilningur í sinni hreinustu mynd er einfaldlega samansafn af reglum, ef A þá B. Ekki ólíkur stærðfræðilegum eða rökfræðilegum skilningi.

Skilningur í gegn um innlifun byggir á því að maður samsami sig fyrirbrigðinu, t.d manni sem horfir á tunglið. Þegar við beitum innlifun til að skilja fyrirbrigði gefum við okkur ákveðnar forsendur og hugsum svo "ef þetta væri ég".

Rökhyggja Platóns byggir á afleiðslu. Gengið er útfrá því að allt lúti rökrænum lögmálum.

Pósitívisti vinnur frá hinu sértæka til hins almenna. Pósitifískir vísindamenn vinna oftast með mjög afmörkuð viðfangsefni og aðferðir þeirra sniðnar að þeim. Vísindaþekkingu má lýsa sem brotakenndri og kenningar (þ.e reglur um hegðun) ekki alltaf samstæðar. Pósitifískur skilningur getur því verið til samhliða öðrum aðferðum til skilnings.

Rökhyggjan hinsvegar vinnur í hina áttina, frá hinu almenna til hins sértæka. Hún getur því ekki verið til samhliða öðrum aðferðum.

Platón var því ekki þröngsýnn heldur samkvæmur sjálfum sér. Það er hinsvegar ekkert í aðferðafræði pósitívista sem bannar aðrar aðferðir samhliða og því eru pósitifistar sem hafna innlifun algjörlega þröngsýnir. Þeir þurfa að meta áreiðanleika aðferðarinnar í hverju tilviki fyrir sig.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 5.7.2007 kl. 05:21

7 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Brattur:Jú, ég skil vandamálið. Sjálfur geng ég í gegnum löng tímabil þar sem ég vinn alltof mikið og hef engan tíma til að lesa annað en vísindagreinar og ritgerðir nemenda. Þetta með að eiga marga bloggvini og þurfa að fara hringinn og reyna svo að hafa tíma til að senda inn komment, er sennilega stór þáttur að eðli bloggheimsins sem vinnur gegn því að fólk fari á dýptina í sínum skrifum. Þetta er kannski rangt fórum fyrir þessa tegund af bloggi?

Guðný:Gaman að þú hafir einhverja ánægju af að lesa það sem ég skrifa og jú, víst er það bara fínt að við erum ekki öll eins, svo fremi að allir virði sérkenni hvors annars. Lýti á þau sem skemmtilega fjölbreytni í tilverunni í stað þess að leitast við að þröngva öllum og öllu í sama formið þ.e. sitt eigið form:

HH:Takk fyrir þína færslu og að nenna að gefa þér tíma til að svara þessu svona ýtarlega og heimspekilega. Ég er ekki alveg sammála þér t.d. um að hægt sé að skýra merkingarbæran veruleika tilfinninga með tilraunavísindalegum aðferðum eða reduksjónisma EN aðal atriðið er að ræða málin á vitsmunalegan hátt og þar færð þú 10.

Ásgeir Rúnar Helgason, 5.7.2007 kl. 07:24

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband