Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fullnægingin og sæðisvökvinn

Hjá körlum sem hafa farið í aðgerð þar sem blöðruhálskirtillinn er fjarlægður er enginn sæðisvökvi lengur til staðar, því framleiðsla sæðisvökva er eina hlutverk blöðruhálskirtilsins. Fullnægingin verður því þurr, en það dregur verulega úr nautninni. Þurr fullnæging hefur svipuð neikvæð áhrif á lífsgæði karla og þverrandi limstífni.

Kynlífsathafnir

Þegar valið er af handahófi segjast átta af tíu körlum á aldrinum 60-69 ára fá kynferðislega fullnægingu einu sinni í mánuði (meðaltal) og hafa af því nokkra ánægju.

Kynlífsathafnir dragast saman þegar aldurinn færist yfir. Á aldursbilinu 70-80 ára hafa aðeins þrír af tíu samfarir einu sinni í mánuði. Fleiri stunda sjálfsfróun.   

Stífnin

Meirihluti þeirra sem láta fjarlægja blöðruhálskirtilinn verða fyrir því að limurinn stífnar ekki sem skyldi, ef þá nokkuð. Þegar ristruflanir eru það miklar að ekki er lengur hægt að hafa samfarir án hjálpartækja, hefur það mikil áhrif á lífsgæði þeirra sem í því lenda. 

RigiScan

Hér til hægri er mynd af tölvu sem metur tíðni og styrkleika limstífni í svefni. Stuðst er við þesskonar mælingar til að meta hvort skert limstífni sé af líffræðilegum toga.

Margvísleg bjargráð eru þó til staðar eins og lyf og pumpur, en einnig er hægt að framkvæma aðgerðir þar sem íhlutir (protesur) eru settir inní tippið. Best er að ráðfæra sig við þvagfæraskurðlækni varðandi þessi mál. 

Kynlíf skiptir máli fyrir suma eldri karla, en alls ekki alla. 


Heilsuhegðun barna

 

Áhrif jafningja á heilsuhegðun barna og unglinga er afgerandi og sterkasti einstaki áhrifaþátturinn á hegðun þeirra. Upplifi unglingurinn að hann vaxi í áliti í vina- og kunningjahópnum við það að byrja að reykja eða drekka, eikur það verulega áhættuna á neikvæðri heilsuhegðun. Það er því mikilvægt fyrir allt lýðheilsustarf með börnum og unglingum að vinna með hópinn sem heild. Jafnt aðgengi að tómstunda- og íþrótta starfi er þar mikilvægur þáttur.

 


Siðfræði samtala í lífslokameðferð

Áhugavekjandi samtal (Motivational Interviewing) er samtalsaðferð sem upphaflega var þróuð til að hjálpa fólki með fíknivanda til að átta sig á og virkja eigin vilja til breytinga. Seinni tíma rannsóknir hafa sýnt að aðferðin hentar vel á mörgum öðrum sviðum, m.a. til að auðvelda sjúklingum í líknarmeðferð að ræða um dauðann við heilbrigðisstarfsfólk, sem er oft forsenda þess að geta undirbúið aðstandendur undir dauða sjúklings. Virðing fyrir mörkum fólks er grundvallaratriði í slíku samtali.

Siðfræðin

Undanfarin ár hefur athyglin beinst að siðfræðilegum álitaefnum varðandi samtöl í vinnu með sjúklinga í líknar- og lífslokameðferð, þar sem markmiðið er að fá leyfi sjúklings til að upplýsa aðstandendur um yfirvofandi dauða viðkomandi. Forsenda fyrir því að eiga opið samtal um yfirvofandi dauða sjúklings er að taka tillit til eftirfarandi aðstæðna: Hafi aðstandendur of skamman tíma til að aðlagast og meðtaka þá staðreynd að að ástvinur þeirra sé að deyja, hefur það oft í för með sér langtímavanlíðan eins og þunglyndi og kvíða. Treg tjáskipti milli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklings varðandi yfirvofandi dauða sjúklings tengjast skömmum aðlögunartíma aðstandenda, vegna þess að heilbrigðisstarfsfólk þarf leyfi sjúklings til að upplýsa aðstandendur, nema sjúklingur sé ófær um að tjá sig.

 

Íhlutun

Raunprófaðar og siðfræðilega réttlætanlegar aðferðir til að opna umræðu milli heilbrigðisstarfsfólks og sjúklings varðandi yfirvofandi dauða, eru aftur á móti líklegar til að auka líkur á því að sjúklingur opni augun fyrir þeim veruleika sem hann stendur frammi fyrir, opni fyrir þessa umræðu við ástvini sína og veiti heilbrigðisstarfsfólki leyfi til að undirbúa ástvini sína tímanlega. Íhlutun sem miðar að því að auðvelda samtal um dauðann í líknarmeðferð, byggð á aðferðum áhugavekjandi samtals, hefur gefið góða raun, sérstaklega fyrir karlmenn, en gagnast bæði körlum og konum. Aftur á móti er alltaf hætta á að meðferðaraðili gangi yfir mörk sjúklings og leiði sjúkling inn í umræðu sem hann vill í raun ekki taka þátt í, því þarf að fara varlega.

Niðurstöður

Niðurstöður siðfræðirýninnar voru þó að það sé þrátt fyrir allt réttlætanlegt að nota markvissa samtalstækni, þar sem markmiðið er að opna fyrir umræður um yfirvofandi dauða, í stað ómarkvissrar. Þó er það að því gefnu að aldrei sé farið lengra en sjúklingurinn sjálfur vill. Þó meginþorri rannsókna á sviðinu séu tengdar krabbameinsmeðferð, er engin ástæða til að ætla annað en niðurstöðurnar eigi líka við um aðra sjúkdóma.  Færni í að ræða um viðkvæm tilfinningaleg mál eins og dauðann, krefst mikillar þjálfunar og því ekki á færi nema þeirra sem hafa þjálfun, handleiðslu og viðamikla klíníska reynslu. Það er því mikilvægt að fræðsla og handleiðsla fyrir fagfólk sé aðgengileg hvar sem er á landinu. Þar getur Krabbameinsfélagið aðstoðað.

 ---------------------------------------------------------

HEIMILDASKRÁ 

 

Black, I. og Helgason, A. R. (2018). Using motivational interviewing to facilitate death talk in end-of-life care: An ethical analysis. BMC Palliat Care, 17(1), 51.

Forsberg, L., Kallmen, H., Hermansson, U., Berman, A.H. og Helgason, A.R. (2007). Coding counsellor behaviour in motivational interviewing sessions: Inter-rater reliability for the Swedish Motivational Interviewing Treatment Integrity Code (MITI). Cogn Behav Ther, 36(3), 162–169.

Forsberg, L., Forsberg. L. G., Lindqvist, H. og Helgason, A. R. (2010). Clinician acquisition and retention of motivational interviewing skills: A two-and-a-half-year exploratory study. Subst Abuse Treat Prev Policy, 13(5), bls. 8.

Hauksdottir, A., Steineck, G., Furst, C. J. og Valdimarsdottir, U. (2010). Long-term harm of low preparedness for a wife’s death from cancer – a population-based study of widowers 4–5 years after the loss. Am J Epidemio, 172(4), 389–396.

Hauksdottir, A., Valdimarsdottir, U., Furst, C. J., Onelov, E. og Steineck, G. (2010). Health care-related predictors of husbands’ preparedness for the death of a wife to cancer – a population-based follow-up. Ann Oncol, 21(2), 354–361.

Miller, W. R. og Rollnick, S. (2013). Motivational interviewing: Helping people change (3. útgáfa). New York: Guilford Press.

Pollak, K. I., Childers, J. W. og Arnold, R. M. (2011). Applying motivational interviewing techniques to palliative care communication. J Palliat Med, 14(5), 587–592.

Skulason, B., Hauksdottir, A., Ahcic, K. og Helgason, A. R. (2014). Death talk: Gender differences in talking about one’s own impending death. BMC Palliat Care, 13(1), 8.

Valdimarsdottir, U., Helgason, A. R., Furst, C.-J., Adolfsson, J. og Steineck, G. (2004). Awareness of husband’s impending death from cancer and long-term anxiety in widowhood: A nationwide follow-up. Palliat Med, 18(5), 432–443.

 

Fyrst birt í Morgunblaðinu


Ættleiðingar og tengslanet barna

Það er stórt og óafturkræft áfall fyrir barn þegar foreldri þess fellur frá. Barnið þarfnast sorgarvinnslu, reglubundins stuðnings og öryggis frá sínum nánustu, stórfjölskyldunni og velferðarþjónustunni allt til fullorðinsára.

Þegar annað foreldri barns deyr kemur gjarna upp sú staða að eftirlifandi foreldri fer í nýtt samband. Stundum vill nýi makinn ættleiða barnið.

Sé það gert er mikilvægt að halda traustum tengslum við blóðfjölskyldu barnsins, nema í undantekningartilfellum.

Grundvallarreglan á að vera ræktun tengsla. Ættleiðing á ekki að þýða að barnið tapi tengslum, heldur fái líka nýtt tengslanet.

 

 


Þegar foreldri deyr

 

Miðlægt ráðgjafar og stuðningsteymi hefur verið stofnað innan vébanda Krabbameinsfélagsins þar sem starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafi. Ráðgjöfin fer aðallega fram í gegnum síma og net. Þó er gert ráð fyrir að unnt verði að bregðast við óskum um að fá aðila frá teyminu til að heimsækja vettvang faglegs stuðningsnets barns, sé þess óskað.

Með faglegu stuðningsneti barna er átt við kennara, skólahjúkrunarfræðinga, æskulýðsfulltrúa, presta, félagsráðgjafa, sálfræðinga og aðra fagaðila sem mæta börnunum og aðstandendum þeirra í samfélagslegu samhengi. 

 

Sjá nánar á:

https://www.krabb.is/born/ 

https://www.krabb.is/foreldramissir/log-og-reglur/login-i-hnotskurn

 


Draumveruleiki á dánarbeði

Þau sem hafa setið á dánarbeði náins vinar eða aðstandenda, kunna að hafa upplifað að sá deyjandi flakki fram og tilbaka í tíma og rúmi. Vakni upp og segist hafa verið í sveitinni. Talar um sveitina sína þar sem hún lék sér við hundinn, eins og hún væri nýkomin þaðan. Þó bærinn sé löngu kominn í eyði.  Það er ekki óalgengt að aðstandendum finnist þetta óþægilegt og túlki þetta sem rugl. Að það sé “aðeins farið að slá útí fyrir” mömmu, eða jafnvel að hún sé orðin “snar rugluð”. En þetta á sér eðlilegar skýringar. Fólk á lokametrum lífsins sefur mikið og mókir. Draumarnir verða samtvinnaðir raunveruleikanum. Draumar eru jafn verulegir og raunveruleikinn þegar okkur dreymir. Þegar þessir tveir veruleikar renna saman verður til nýr veruleiki, draumveruleikinn.  

Það hefur ekkert uppá sig að vera sífellt að reyna að leiðrétta fólk við slíkar aðstæður. Betra að slá á léttari strengi og spyrja frétta úr sveitinni. Það getur þó gerst að draumarnir verði óþægilegir, jafnvel slæmir. Þá er gott að strjúka viðkomandi hlýlega og segja, ”þetta var bara draumur, þú ert hér á spítalanum og ég er hér hjá þér”. Oft áttar sá deyjandi sig og draumurinn hverfur. 

Flest okkar muna ekki drauma, við munum að við dreymdum, en það er oft býsna erfitt að muna hvað það var. Þeir sem liggja fyrir dauðanum sofa og móka stóran hluta sólarhringsins. Þegar þú situr við dánarbeð verður þú hluti af draumveruleika þess sem er að deyja. Það getur verið erfitt, en einnig gefandi. Þetta er fullkomlega eðlilegt ástand.


Skilnaður foreldra og heilsuhegðun barna

Að skilnaður foreldra hafi neikvæð áhrif á lifnaðarhætti barna og unglinga virðist aðeins eiga sér stað ef mikil átök eru milli aðila og þegar skilnaður hefur neikvæðar félagslegra afleiðingar í för með sér. Takist foreldrum að skilja í sátt og tryggja börnunum félagslegt öryggi eftir skilnað, hefur skilnaðurinn sem slíkur ekki merkjanleg neikvæð áhrif á heilsuhegðun barna og unglinga.   


Afneitun

 Í umræðu um svokallað “læknadóp” hefur borið á fordómum gagnvart fíkn og orð eins og “fíkill” notað á niðurlægjandi hátt. Hafa ber í huga að fíkn á oftast rætur sínar að rekja til þess að fólki líður illa og hefur ekki í önnur hús að venda en lyf (lögleg eða ólögleg) til að gera lífið bærilegt. Þá hjálpa lyf og faglegur samtalsstuðningur. 

Að tala sig frá breytingu

Kenningin um að allir sem eru í neyslu séu í “afneitun” stenst ekki nánari skoðun. Margir vilja þó ekki viðurkenna fíknina útávið fyrr en allt er komið í þrot, vegna þess að fólk óttast fíkla stimpilinn.

Ef þú vilt fá einhvern til að tala af einlægni um neyslu og fíkn, er stimpill og fordæming eitthvað sem ber að forðast. Ef þú byrjar á að segja að hann/hún eigi við vandamál að stríða, tekurðu afstöðu með „hér er vandamál sem þarf að breyta” hlið málsins. Þú kallar á „þetta er sko ekkert vandamál” andstöðu frá þeim sem þú talar við.

Því meira sem þú rökstyður þína hlið málsins þeim mun meira ver hinn aðilinn hina hliðina. Fólk sem sett er í þessa stöðu getur bókstaflega tala sig frá því að breytast.  

 


Fæddur hræddur

Sumir virðast fæddir með þeim ósköpum að eiga auðveldara en aðrir með að verða hræddir. Þessu má líkja við ofurvirka reykskynjara sem pípa í tíma og ótíma svo varla er hægt að rista brauðsneið án þess að ærast af hávaða.

 

Þeir sem fæðast með ofurvirkt viðvörunarkerfi þjást oft af stöðugum kvíða, eru óöruggir, eirðarlausir, svartsýnir og þola illa álag og spennu. Þeir eiga oft erfitt með svefn og hafa tilhneigingu til að finnast flest óyfirstíganlega erfitt. Lyf sem auka virkni vissra taugaboðefna í heilanum gera oft mikið gagn fyrir þessa einstaklinga. Nærri lætur að um sjö af hundraði hafi einkenni einhvertíma ævinnar sem gefa vísbendingu um að viðkomandi geti hafa erft ofur virkt viðvörunarkerfi. Á Íslandi eru því líklega yfir tuttugu þúsund einstaklingar með þetta vandamál.


Karlagildran og yfirhershöfðinginn

Margt hefur verið reynt til að fá karlmenn til að opna sig meira tilfinningalega. Að þora að sýna veikleika og leita sér aðstoðar í veikindum eins og krabbameinum, en átta af tíu körlum með krabbamein leita eingöngu eftir stuðningi frá maka.

 

Kvennagildrur

Gjarna er talað um kvennagildrur þegar bent er á kerfisbundnar hindranir sem aftra því að konur nái jöfnuði á við karla. Dæmi um þetta er þegar hjón ákveða að konan þurfi að taka út meirihluta fæðingaorlofs vegna þess að karlinn hafi hærri laun. Þetta verður spádómur sem uppfyllir sig sjálfkrafa. Afleiðingin verður að konur eru lengur frá launavinnu en karlar. Flestir gera sér grein fyrir þessu. 

 

Karlagildrur 

 Sverker Göranson

Færri gera sér grein fyrir því að það eru líka til karlagildrur þar sem karlmennskuímyndin heftir karla til að leita sér aðstoðar í veikindum. Þetta á ekki síst við um karla í stjórnunarstörfum. Dæmi um þetta var þegar Sverker Göranson yfirhershöfðingi Svía keyrði sig í þrot fyrir nokkrum árum og fór í veikindaleyfi í kjölfarið. Það leið ekki á löngu áður en háðsglósur fóru að heyrast í fjölmiðlum meðal annars frá þekktum háttsettum konum. Innihaldið var eitthvað á þá leið að það væri augljóst að aumingja maðurinn hefði ekkert stress þol. Undir þetta tók einn helsti háðsádeiluþáttur sænska ríkisútvarpsins (Public service). Undirtónninn var sá að það væri ekki sæmandi karlmanni, hvað þá hershöfðingja, að vera að þessu væli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband