Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.6.2022 | 21:15
Ættleiðingar og tengslanet barna
Það er stórt og óafturkræft áfall fyrir barn þegar foreldri þess fellur frá. Barnið þarfnast sorgarvinnslu, reglubundins stuðnings og öryggis frá sínum nánustu, stórfjölskyldunni og velferðarþjónustunni allt til fullorðinsára.
Þegar annað foreldri barns deyr kemur gjarna upp sú staða að eftirlifandi foreldri fer í nýtt samband. Stundum vill nýi makinn ættleiða barnið.
Sé það gert er mikilvægt að halda traustum tengslum við blóðfjölskyldu barnsins, nema í undantekningartilfellum.
Grundvallarreglan á að vera ræktun tengsla. Ættleiðing á ekki að þýða að barnið tapi tengslum, heldur fái líka nýtt tengslanet.
8.6.2022 | 11:29
Þegar foreldri deyr
Miðlægt ráðgjafar og stuðningsteymi hefur verið stofnað innan vébanda Krabbameinsfélagsins þar sem starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafi. Ráðgjöfin fer aðallega fram í gegnum síma og net. Þó er gert ráð fyrir að unnt verði að bregðast við óskum um að fá aðila frá teyminu til að heimsækja vettvang faglegs stuðningsnets barns, sé þess óskað.
Með faglegu stuðningsneti barna er átt við kennara, skólahjúkrunarfræðinga, æskulýðsfulltrúa, presta, félagsráðgjafa, sálfræðinga og aðra fagaðila sem mæta börnunum og aðstandendum þeirra í samfélagslegu samhengi.
Sjá nánar á:
https://www.krabb.is/foreldramissir/log-og-reglur/login-i-hnotskurn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook
7.6.2022 | 20:02
Draumveruleiki á dánarbeði
Þau sem hafa setið á dánarbeði náins vinar eða aðstandenda, kunna að hafa upplifað að sá deyjandi flakki fram og tilbaka í tíma og rúmi. Vakni upp og segist hafa verið í sveitinni. Talar um sveitina sína þar sem hún lék sér við hundinn, eins og hún væri nýkomin þaðan. Þó bærinn sé löngu kominn í eyði. Það er ekki óalgengt að aðstandendum finnist þetta óþægilegt og túlki þetta sem rugl. Að það sé aðeins farið að slá útí fyrir mömmu, eða jafnvel að hún sé orðin snar rugluð. En þetta á sér eðlilegar skýringar. Fólk á lokametrum lífsins sefur mikið og mókir. Draumarnir verða samtvinnaðir raunveruleikanum. Draumar eru jafn verulegir og raunveruleikinn þegar okkur dreymir. Þegar þessir tveir veruleikar renna saman verður til nýr veruleiki, draumveruleikinn.
Það hefur ekkert uppá sig að vera sífellt að reyna að leiðrétta fólk við slíkar aðstæður. Betra að slá á léttari strengi og spyrja frétta úr sveitinni. Það getur þó gerst að draumarnir verði óþægilegir, jafnvel slæmir. Þá er gott að strjúka viðkomandi hlýlega og segja, þetta var bara draumur, þú ert hér á spítalanum og ég er hér hjá þér. Oft áttar sá deyjandi sig og draumurinn hverfur.
Flest okkar muna ekki drauma, við munum að við dreymdum, en það er oft býsna erfitt að muna hvað það var. Þeir sem liggja fyrir dauðanum sofa og móka stóran hluta sólarhringsins. Þegar þú situr við dánarbeð verður þú hluti af draumveruleika þess sem er að deyja. Það getur verið erfitt, en einnig gefandi. Þetta er fullkomlega eðlilegt ástand.
7.6.2022 | 11:23
Skilnaður foreldra og heilsuhegðun barna
Að skilnaður foreldra hafi neikvæð áhrif á lifnaðarhætti barna og unglinga virðist aðeins eiga sér stað ef mikil átök eru milli aðila og þegar skilnaður hefur neikvæðar félagslegra afleiðingar í för með sér. Takist foreldrum að skilja í sátt og tryggja börnunum félagslegt öryggi eftir skilnað, hefur skilnaðurinn sem slíkur ekki merkjanleg neikvæð áhrif á heilsuhegðun barna og unglinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook
4.6.2022 | 20:40
Afneitun
Í umræðu um svokallað læknadóp hefur borið á fordómum gagnvart fíkn og orð eins og fíkill notað á niðurlægjandi hátt. Hafa ber í huga að fíkn á oftast rætur sínar að rekja til þess að fólki líður illa og hefur ekki í önnur hús að venda en lyf (lögleg eða ólögleg) til að gera lífið bærilegt. Þá hjálpa lyf og faglegur samtalsstuðningur.
Að tala sig frá breytingu
Kenningin um að allir sem eru í neyslu séu í afneitun stenst ekki nánari skoðun. Margir vilja þó ekki viðurkenna fíknina útávið fyrr en allt er komið í þrot, vegna þess að fólk óttast fíkla stimpilinn.
Ef þú vilt fá einhvern til að tala af einlægni um neyslu og fíkn, er stimpill og fordæming eitthvað sem ber að forðast. Ef þú byrjar á að segja að hann/hún eigi við vandamál að stríða, tekurðu afstöðu með hér er vandamál sem þarf að breyta hlið málsins. Þú kallar á þetta er sko ekkert vandamál andstöðu frá þeim sem þú talar við.
Því meira sem þú rökstyður þína hlið málsins þeim mun meira ver hinn aðilinn hina hliðina. Fólk sem sett er í þessa stöðu getur bókstaflega tala sig frá því að breytast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.6.2022 kl. 19:57 | Slóð | Facebook
2.6.2022 | 18:24
Fæddur hræddur
Sumir virðast fæddir með þeim ósköpum að eiga auðveldara en aðrir með að verða hræddir. Þessu má líkja við ofurvirka reykskynjara sem pípa í tíma og ótíma svo varla er hægt að rista brauðsneið án þess að ærast af hávaða.
Þeir sem fæðast með ofurvirkt viðvörunarkerfi þjást oft af stöðugum kvíða, eru óöruggir, eirðarlausir, svartsýnir og þola illa álag og spennu. Þeir eiga oft erfitt með svefn og hafa tilhneigingu til að finnast flest óyfirstíganlega erfitt. Lyf sem auka virkni vissra taugaboðefna í heilanum gera oft mikið gagn fyrir þessa einstaklinga. Nærri lætur að um sjö af hundraði hafi einkenni einhvertíma ævinnar sem gefa vísbendingu um að viðkomandi geti hafa erft ofur virkt viðvörunarkerfi. Á Íslandi eru því líklega yfir tuttugu þúsund einstaklingar með þetta vandamál.
1.6.2022 | 17:49
Karlagildran og yfirhershöfðinginn
Margt hefur verið reynt til að fá karlmenn til að opna sig meira tilfinningalega. Að þora að sýna veikleika og leita sér aðstoðar í veikindum eins og krabbameinum, en átta af tíu körlum með krabbamein leita eingöngu eftir stuðningi frá maka.
Kvennagildrur
Gjarna er talað um kvennagildrur þegar bent er á kerfisbundnar hindranir sem aftra því að konur nái jöfnuði á við karla. Dæmi um þetta er þegar hjón ákveða að konan þurfi að taka út meirihluta fæðingaorlofs vegna þess að karlinn hafi hærri laun. Þetta verður spádómur sem uppfyllir sig sjálfkrafa. Afleiðingin verður að konur eru lengur frá launavinnu en karlar. Flestir gera sér grein fyrir þessu.
Karlagildrur
Færri gera sér grein fyrir því að það eru líka til karlagildrur þar sem karlmennskuímyndin heftir karla til að leita sér aðstoðar í veikindum. Þetta á ekki síst við um karla í stjórnunarstörfum. Dæmi um þetta var þegar Sverker Göranson yfirhershöfðingi Svía keyrði sig í þrot fyrir nokkrum árum og fór í veikindaleyfi í kjölfarið. Það leið ekki á löngu áður en háðsglósur fóru að heyrast í fjölmiðlum meðal annars frá þekktum háttsettum konum. Innihaldið var eitthvað á þá leið að það væri augljóst að aumingja maðurinn hefði ekkert stress þol. Undir þetta tók einn helsti háðsádeiluþáttur sænska ríkisútvarpsins (Public service). Undirtónninn var sá að það væri ekki sæmandi karlmanni, hvað þá hershöfðingja, að vera að þessu væli.
31.5.2022 | 22:01
Hlutverk heilsugæslu og skóla þegar foreldri deyr
Alþingi samþykkti í júní 2019 nýjar lagagreinar þar sem réttindi barna í kjölfar fráfalls foreldris eru betur skilgreind en áður var. Þar segir meðal annars:
Dánarvottorðið
Þegar einstaklingur andast skal læknir sem gefur út dánarvottorð kanna hvort hinn látni hafi átt barn undir lögaldri. Reynist svo vera skal viðkomandi læknir eins fljótt og unnt er tilkynna andlát foreldrisins til heilsugæslunnar þar sem barnið á lögheimili.
Heilsugæslan
Heilsugæslan skal, í samráði við félagsmálanefnd í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili og foreldri eða forsjáraðila, hafa frumkvæði að samvinnu við skóla barnsins. Þó verkferlar séu nú mun skýrari en áður skortir enn nokkuð uppá að sérfræðiþekking og reynsla sé til staðar á hverjum stað. Það er því mikilvægt að byggja upp miðlæga handleiðslu fyrir fagfólk í heilsugæslu og skólum, sem er aðgengileg allstaðar á landinu.
Skólinn
Samkvæmt Aðalnámsskrá skulu leik- og grunnskólar hafa sérstaka áfallaáætlun sem hugsuð er sem vinnuáætlun um hver gerir hvað, í hvaða röð og hvernig, til að geta á sem faglegastan hátt brugðist við skyndilegum áföllum nemenda líkt og þegar foreldri deyr. Samkvæmt nýu lögunum er það þó heilsugæslan sem ber ábirgð á að veita barninu þann stuðning sem því ber samkvæmt lögum. Áfallateymi skóla á því rétt á því að leita til fagaðila á heilsugæslu.
Stuðningur við fagfólk
Í könnunum sem Krabbameinsfélagið lét gera meðal fagfólks í leikskólum og grunnskólum, kom fram skýr þörf fyrir gott aðgengi að faglegum utanaðkomandi stuðningi við fagfólkið sem vinnur með börnum við þessar aðstæður. Nánari upplýsingar má nálgast á vef verkefnisins: https://www.krabb.is/born/
30.5.2022 | 20:42
Læknadóp og mannfyrirlitning
Getur verið að það sé samband á milli mikillar lyfjanotkunar á Íslandi og þess að Íslendingar koma hæstir út úr prófum sem meta sálræna og líkamlega líðan fólks. Erum við kannski að nota lyfin rétt? Í stað þess að ofnota þau.
Umræða um svokallað "læknadóp" ber alltof oft keim af fordómum, mannfyrirlitningu og hatri. Auðvita þurfa margir lyf til að vinna á vanlíðan, svefnleysi og verkjum. Meðtalin lyf gegn þunglyndi, ópíat lyf gegn krónískum verjum og vanlíðan, lyf gegn kvíða, streitu, bipolar, svefntruflunum og ofvirkni.
Mörg þessara lyfja eru ávanabindandi. Það er að segja að þú þarft að nota þau yfir lengri tíma. En allt tal um svokallað "læknadóp" er poppúlístísk hatursumræða, full af mannfyrirlitningu.
30.5.2022 | 16:18
Þversögn sælunnar
Hamingjuleitin tekur á sig margar myndir. Sumir leita að henni í fjölskyldu- og vinatengslum, aðrir í áhættusömum ævintýrum, trúarbrögðum, ástinni og veraldlegum gæðum. Það hefur lengi verið ljóst að erting ákveðinna heilastöðva með rafskautum eða efnum framkalla upplifun af sælu. Upplifun sem er svo mögnuð að margir neytendur missa áhugann á að leita hamingjunnar á öðrum stöðum. Þeir telja sig hafa höndlað hina fullkomnu sælu. Uppgötvun vellíðunarstöðva í heilanum hefur ýtt undir vonir um möguleika á þróun efna sem örva þessar stöðvar án neikvæðra aukaverkana.
Hugmyndin um sælupillu án aukaverkanna er skiljanleg, en þversögn. Því er nefnilega þannig farið að stöðugt sæluástand verður fljótlega viðmiðunarástand, hið hversdagslega ástand. Sæluáhrifin vara bara tímabundið.
Þegar einhver upplifir hæðstu mögulega sælu verður það viðmiðunarástandið. Vegna þess að ekki er til nein meiri sæla er þetta ástand óþolandi í lengdina. Þetta er þversögn sælunnar. Ef hversdagurinn er byggður á hinni fullkomnu sælu er ekki lengur mögulegt að upplifa þá jákvæðu breytingu sem er forsenda sæluupplifunar. Það er ekkert eftir. Eina leiðin til að upplifa aftur sælu, er að fara í fráhvarf og hrapa niður sælustigann. Það er afskaplega óþægilegt. Nái viðkomandi að staldra við nógu lengi á neðstu þrepum sælustigans til að skapa nýtt hversdagsástand, á viðkomandi ef til vill ennþá möguleika á eðlilegu lífi?
Ríkidæmi
Þetta er ekki ósvipað því sem gerist þegar fólk reynir að verða ríkt. Sá sem á ekki neitt verður ríkur um hríð þegar hann eignast eina geit. En fljótlega er hann bara maður sem á eina geit og þráir að eignast tvær. Eignist hann tvær og þrjár og fjórar, verður hann glaður. Á einhverjum tímapunkti hættir hann að vera fátækur, en hann verður aldrei ríkur. Ríkidæmi er nefnilega svipað alsælu að því leitinu til að það felst í breytingu frá einu þrepi yfir á annað. Það er því hægt að verða ríkur, en ekki að vera ríkur. Meðan þú getur eignast meira, ertu aldrei ríkur.
Hamingja
Þó sæla og ríkidæmi geti verið hluti af því að höndla hamingjuna tímabundið, þá er hamingjan allt annað og meira. Ólíkt sælu og ríkidæmi, þá getur hamingja verið viðvarandi. Hamingjusamur einstaklingur upplifir innri ró og sátt við hlutskipti sitt. Að leita að hamingju í ríkidæmi, völdum og sælu getur í versta falli hindrað okkur í að höndla hamingjuna. Innhverf íhugun, núvitund, bæn og þakklæti eru leiðir margra til hamingju. Traust djúp vinátta virðist einnig stuðla að hamingju. Þó við getum orðið en ekki verið rík og alsæl, þá er mögulegt að verða og vera hamingjusamur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.6.2022 kl. 20:19 | Slóð | Facebook